laugardagur, nóvember 16, 2013

Lög og markmið Icelandair Athletics Club

Lög og markmið Icelandair Athletics Club voru borin upp og samþykkt síðasta aðalfundi, haldinn 16. nóvember 2013. Engar breytingar voru gerðar að þessu sinni.  Sjá gildandi lög og markmið hér að neðan:





Tilgangur
Tilgangur klúbbsins er að vera vettvangur fyrir þá félaga í STAFF sem hafa ánægju af allri hreyfingu til heilsubótar.

Markmið
Markmið klúbbsins er að veita félagsmönnum sínum fjölbreytt tækifæri og félagsskap til að stunda hreyfingu. Klúbburinn skal þannig vera í fararbroddi innan samstæðunnar við skipulagningu og með hvatningu til þátttöku í hvers kyns atburðum sem stuðla að hreyfingu.

Lög félagsins

1. Klúbburinn heitir Icelandair Athletics Club, starfar undir merkjum STAFF og er opinn öllum félagsmönnum STAFF.

2. Í stjórn sitja 3 félagsmenn.  Stjórnin skiptir með sér verkum.  Aðalfundur kýs með sér skoðunarmann reikninga.

3. Ný stjórn leggur fram framkvæmdaáætlun fyrir komandi starfsár eigi síðar en fyrsta janúar.

4. Ný stjórn ræður framkvæmdastjóra almenningshlaupsins sem haldið skal í maí.

5. Félagsmenn greiða árgjald til að standa undir rekstrarkostnaði klúbbsins. Stjórnin ákveður árgjald hverju sinni.

6. Klúbburinn stendur fyrir skipulögðum æfingum af einhverju tagi.

7. Klúbburinn stendur fyrir almenningshlaupi fyrsta fimmtudag í maí. Stjórn klúbbsins er heimilt að færa þessa dagsetningu til.

8. Klúbburinn skipuleggur þátttöku í keppnum ár hvert í samræmi við áhuga félagsmanna.

9. Starfsári klúbbsins lýkur með lokahófi sem haldið er í október eða nóvember ár hvert. Lokahófið er jafnframt aðalfundur klúbbsins.
 
Til aðalfundar skal boða með að minnsta kosti 2ja vikna fyrirvara. Boðun aðalfundar skal fara fram á bloggsíðu klúbbsins og/eða með tölvupósti á skráða félagsmenn. Aðalfundur telst löglegur mæti, hvort sem meira er:

a)    Að minnsta kosti 5 atkvæðisbærra félagsmanna, eða
b)    að minnsta kosti 5% atkvæðisbærra félagsmanna 

Atkvæðisbærir félagsmenn á aðalfundi eru þeir sem skráðir eru í klúbbinn á hádegi, daginn fyrir aðalfund og hafa greitt árgjald þess árs. Við atkvæðagreiðslu á tillögum að breytingum á lögum og markmiðum klúbbsins skal aukinn meirihluti greiddra atkvæða ráða niðurstöðu. Aukinn meirihluti telst að minnsta kosti 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hjáseta telst ekki til greiddra atkvæða.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

a)    Skýrsla formanns um afrek liðins starfsárs
b)    Yfirferð gjaldkera á ársreikningi klúbbsins og hann borinn upp til samþykktar
c)    Tillögur um breytingar á lögum og markmiðum klúbbsins
d)    Kosning stjórnar
e)    Kosning skoðunarmanns
f)     Önnur mál

Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn með sannanlegum hætti eigi síðar en á hádegi, daginn fyrir aðalfund.

10. Tilgangur félagsins, markmið og lög þess skulu borin upp á aðalfundi félagsins til samþykktar, með eða án breytinga.


Engin ummæli: