þriðjudagur, mars 26, 2013

Hádegisæfing 26. mars

Margt var í gangi í dag, jarðhræringar og ýmislegt fleira.  Mættir á pinnan: Ársæll sem vildi einveru, Ívar sem vildi fara stutt, Dagur, Guðni og Huld ásamt undirritaðri, sem vildu fara langt.  Allt fyrir mennina. Fórum Háskólaleiðina vestur í bæ og Seltjarnarnesið sunnanvert.  Sögð var sagan af Gunnlaugi ormstungu og niðjum hans, við einhvern fögnuð.  Erfitt er samt að setja sig í spor sagnapersónunnar enda ekki á allra færi að gera slíkt.  Mikil veðurblíða og vor í lofti gáfu von um góða hlaupatíð framundan.
Alls um 10k
Kveðja-SBN

mánudagur, mars 25, 2013

Þekktu félagsmanninn


Vegna fjölda áskorana er hér gerð tilraun til að endurvekja þennan skemmtilega getraunaþátt.  Hann gengur út á það að grafa upp gamla mynd af félags-manni/mönnum og leyfa öðrum að giska á af hverjum myndin er.  Allar myndir eru vel þegnar, sér í lagi gamlar  og torkennilegar.
Á þessari mynd, sem fulltrúa ritara áskotnaðist óvænt í dag, getur að líta tvo félagsmenn.  Þriðji aðilinn er ekki félagsmaður en þó nátengdur öðrum félagsmannanna.  Hér nægir að nefna eiginnöfn félagsmannanna.  Greinilegt er á myndinni að mikil gleði er ríkjandi.
Kveðja,
SBN

Tískuhorn BB


Þegar vetri er tekið að halla og vorið er smám saman að taka yfir er nauðsynlegt að endurvekja tískuhorn Bjögga Bjútís, eða Bjögga Broncos, ef menn vilja það heldur.  Sá sem verðugastur er til sýningarstarfanna var að sjálfsögðu eðalhlauparinn og nýliði hópsins, Þórólfur Þórsson, sem nýverið tók til starfa hjá grúppunni.  Mætti hann til æfinga í dag í fyrirmyndarklæðnaði til æfinga, fullkomlega stíliseraður með litapallettu sem hæfir vori.  Punkturinn yfir i-ið var svo límónugræna bakstykkið sem passaði áreynslulaust við hýrlegar skóreimarnar. Jafnvel hanskarnir stungu ekki í stúf við faglega samsett litavalið. Svona einstaklingar eru til fyrirmyndar fyrir ímynd hópsins og ber sérstaklega að hlúa að ímyndarsköpun og framtíðar fyrirsætustörfum, vilji menn festa sig í sessi sem stefnumarkandi á slíkum vettvangi.  Mörgum sögum fer af hlaupagetu pilts og óþarfi er að fjölyrða um það hér.  Verkin eru látin tala, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Búast má við að annríki verði á umboðsskrifstofu pilts næstu daga en umboðsaðili hans er Huld Konráðsdóttir, myndasmiður.  Textahöfundur biðst hinsvegar forláts á framhleypni sinni við ritstörfin en ekki var unnt að bíða með þessa frétt. :)
SBN

Hádegisæfing 25. mars 2013

Mættir: 
Anna Dís, Ársæll, Dagur, Guðni, Gylfi (gestur hálfa leið), Huld, Jón Örn, Sigrún, Sveinbjörn, Þórólfur

Í boði voru nokkrar leiðir rangsælis í kringum flugvöllinn.  Veðrið var þannig að bæði sáust sólgleraugu og stuttbuxur.  Þá voru á leiðinni teknar ljósmyndir fyrir tískuhornið.  Þeim verður örugglega gerð góð skil á næstu dögum.

GI

fimmtudagur, mars 21, 2013

Hádegisæfing 21. mars

Mættir: Sveinbjörn, Óli og Sigurgeir.

Sveinbjörn fór sér á meðan aðrir fóru Hofs.

Umræðan í dag var kolvetniskúrar/lágkolvetnamataræði (LCHF). Vorum við sammála því að slíkir megrunarkúrar eru ekki til hins betra og mælum við með þvi að fólk hreyfi sig og gæti hófs í mat og drykk.

Kveðja,
Sigurgeir

miðvikudagur, mars 20, 2013

Hádegisæfing 20. mars

Mættir: Dagur, Ívar og Sigurgeir.

Hópnum var skipt í tvennt, Icelandair og Cargo. Annar hópurinn fór Hofs með styttingu á meðan hinn hópurinn fór fulla Hofs + perra. Svo sameinuðust hópanir við Suðurgötu og fóru saman restina.

Kveðja,
Sigurgeir

þriðjudagur, mars 19, 2013

Hádegisæfing 19. mars 2013

"Hér er bara einn", sagði eini hlauparinn fyrir utan Síams, við mætingu.  "Hver er þessi eini?", var spurt til baka. 
Svona gerast kaupin á eyrinni í dag.  Allavega var sett á þriggjamannanefnd til þess að leiða málið til lykta og úr varð að Dagur og Huld tóku æfingu gærdagsins (míns) sem samanstóð af 10* 2 mín. sprettum (um og yfir 500m) með 1 mín. skokkhvíld á milli.  SBN lék hinsvegar hlutverk þess sem lætur sér fátt um finnast og hljóp bara í kantinum, á skjön við raunveruleikann, og var stundum náð og stundum ekki.  Á svona stundum getur skipt höfuðmáli að eiga jafn þéttriðið stuðningsnet og raun ber vitni og ber að þakka fyrir það, sérstaklega.  Takk! ;)
Alls um 9k hjá öllum
Bless.
SBN

Heyrt á hlaupum:
"Hey, áttu gel?" "Nei, ég borðaði það í hádegismat"!  "En í morgun, hvað borðaðirðu þá"?  "Annað gel, ekki það sama og í hádeginu".  "Hugsarðu bara um mat"?  "Já"............

mánudagur, mars 18, 2013

Hádegi 18. mars 2013

Mættir:  Anna Dís, Ársæll, Dagur, Guðni og Ívar

Allir fóru Hofsvallagötu í fallegu en köldu veðri.  Félagsmenn höfðu ýmist verið á uppskeruhátíð Powerade vetrarraðhlaupsins eða á árshátið Icelandair Group nema Anna Dís, hún var á báðum stöðum.

Þessir félagsmenn og viðhengi fóru heim með verðlaun frá uppskeruhátíðinni:

Anna Dís, 3. sæti í flokki
Ása, 1. sæti í flokki og 3. sæti kvenna
Huld, 1. sæti í flokki
Sigrún, 3. sæti í flokki
Viktor, 3. sæti í flokki

Flottur árangur.

GI

föstudagur, mars 15, 2013

Hádegisæfing 14. mars

Mættir Ólafur og Dagur.

Seltjarnarnes í frísku tempói, 4:50, rúmir 10k.

Áköf umræða um ofnotkun orðsins "forréttindi".

Kveðja,
Dagur

miðvikudagur, mars 13, 2013

Hádegisæfing 13. mars ´13

Mættir: Ívar og Dagur og síðan "special appearance" frá Síams.
Fórum Hofsvallagötuna í miklu blíðviðri og sól.  Ívar reyndi a.m.k. einu sinni að losna við hópinn en þegar það tókst ekki ákvað hann að fylgja fjöldanum.  Ýmsar umræður voru á reiki en e.t.v. hæst hljómaði það kall frá félagsmönnum að ekki væri til neitt stuðningsnet úti í samfélaginu fyrir fólk eins og okkur sem vildi, af augljósum ástæðum, hætta að hlaupa og gerast venjulegur borgari.  Bókstaflega engin úrræði væru fyrir slíkan hóp.  Kvöl félagsmanna er því augljós og ég bið lesendur að hafa skilning á þessu málefni, sem vissulega er mjög brýnt og mjög alvarlegt!

Einnig var gamalt grín til umræðu og ekki veitir af að dusta rykið af því:
Hér er eitt dæmi

Beiðni dagsins (Dagsins) var samt sú að ég deildi þessu og endilega kíkið á valda kafla ef leiði herjar á ykkur!
Áramótaskaup 1984  Þetta er í heild sinni alfyndnasta skaupið að mati undirritaðrar, en það er að sjálfsögðu smekksatriði.

Highlights:  11:00 
                    12:58*
                    20:47
                    22:22
                    25:59 Must see
Alls um 8,3k
Blesssssssss
SBN
Yfir og út

þriðjudagur, mars 12, 2013

Hádegi 12. mars 2013

Það eru bara 8 í hverju hádegi.  Komið vor í alla.  Í dag var meira samræmi en í gær.  Ársæll, Dagur, Guðni, Huld, Jóhann, Óli og Þórdís fóru öll Hofsvallagötuna.  Nokkrir fóru 5*800m spretti á 3:20-3:30, aðrir fóru jafnt.  Sveinbjörn sér.

GI

Hádegi 11. mars 2013

Allt að verða vitlaust.  Alls 8 mættir á 5 mismunandi æfingar->

Dagur og Óli, Keilugranda
Guðni og Ívar, Framnesveg
Anna Dís og Ársæll, Suðurgata
Jón Örn, styttra
Sveinbjörn, enn styttra

Gott veður og færi.

GI

föstudagur, mars 08, 2013

Hádegisæfing 8. mars

Mættir: Dagur, Guðni (nýliði) og Sigurgeir

Fórum hefðbundin bæjarrúnt með nýliðann.

Kveðja,
Sigurgeir