mánudagur, október 22, 2007

Uppskeruhátíð og aðalfundur 9. nóvember!

Ágætu skokkfélagar!
Árleg uppskeruhátíð og aðalfundur Skokkklúbbs Icelandair verða haldin föstudaginn 9. nóvember 2007. Ath. breytta dagsetningu. Hátíðin verður haldin að heimili Jens Bjarnasonar, Huldubraut 4, Kópavogi og hefst stundvíslega kl.19:08. Matur og drykkur í boði klúbbsins. Félagsmenn eru hvattir til að mæta með maka og góða skapið. Vinsamlega tilkynnið þátttöku í athugasemdur hér að neðan fyrir 7. nóv.
Skemmtinefndin    

sunnudagur, október 14, 2007

Powerade Vetrarhlaupið - Október

Fín þátttaka skokkklúbbsmeðlima var í fyrsta hlaupinu, 10km í Elliðárdalnum, síðastliðið fimmtudagskvöld. Metþátttaka var í hlaupinu 217 þátttakendur.

44:39 Huld Konráðsdóttir
46:09 Sigrún Birna Norðfjörð
47:45 Jens Bjarnason
52:58 Anna Dís Sveinbjörnsdóttir
58:23 Helga Árnadóttir

mánudagur, október 08, 2007

Æfingar

Skipulegar æfingar eru í hádeginu á hverjum virkum degi. Lagt er upp frá Hótel Loftleiðum klukkan 12:08 stundvíslega. Við erum með góðan samning í sundlauginni þar sem við fáum inni fyrir 100kr. per skipti, handklæði innifalið (10 skipta kort=1000kr.).

Æfingarnar eru fjölbreyttar og geta allir tekið þátt óháð getu.

Í grunnatriðum er skipulagið þannig að á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum eru róleg hlaup, farið hægt yfir þó alltaf sé tekið aðeins á. Á þriðjudögum og fimmtudögum eru gæðaæfingar : sprettir, fartleikur, brekkusprettir eða jafnvel herþjálfun (BootCamp).

Hver æfing tekur milli 35-45 mínútur og er miðað við að eftir stuttar teygjuæfingar séu allir komnir inn fyrir klukkan 13:00. Vegalengdin er mismunandi 5-10km.

Undanfarið hefur mætingin verið mjög góð, 3-8 félagsmenn á hverjum degi.

Endilega látið sjá ykkur, allir velkomnir.

Stjórnarfundur 8. október 2007

Mættir : Dagur, Guðni, Anna Dís og Huld
  1. Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að aðalfundur/árshátíðin yrði haldin föstudaginn 16. nóvember. Dagskráin yrði með hefðbundnu sniði, veisla og aðalfundarstörf. Félagi Jens Bjarnason hefur ákveðið að opna hús sitt að þessu tilefni og kunnum við honum miklar þakkir fyrir það. Sveinbjörn endurskoðar reikninga félagsins í samvinnu við Önnu Dís, gjaldkera, fyrir fundinn.
    Einsýnt er að stærri hluti núverandi stjórnar mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn.
  2. Samskipti við félagsmenn hafa verið með minna móti undanfarið. Ákveðið var að bæta úr því með því að senda póst varðandi árshátíð og vísa á bloggsíðuna. Einnig verður séð til þess að bloggsíðan verði líflegri með því að fá fleiri aðila til að blogga.
  3. Rætt var um hvort taka ætti upp fimmtudags æfingar aftur. Ákveðið var þess í stað að Dagur geri hádegisæfingarnar sýnilegri á vef klúbbsins og kynni betur það skipulag sem viðhaft er á þeim.
  4. Þátttaka í Reykjavíkurmaraþoni var góð meðal starfsmanna samstæðunnar. Ákveðið var að Guðni sendi póst á hópinn og benda þeim á starfssemi Skokkklúbbsins í þeim tilgangi að fjölga félagsmönnum.
  5. Ákveðið var að Anna Dís skoðar í samvinnu við Icelandair Cargo/Sigurgeir og Afreksvörur möguleika á því að keyptir verði vetrarhlaupajakkar á félagsmenn. Markmiðið er að nýjir jakkar, ef af verður, verði komnir í hendur félagsmanna fyrir árshátíð.

Stjórn Skokkklúbbs Icelandair.