þriðjudagur, desember 31, 2013

Við Áramót





Kæru FI skokkarar og landsmenn.
Nú, þegar við erum í þann mund að segja skilið við þetta ár, leitar hugurinn til baka og staldrar við þá atburði sem eru hvað minnisstæðastir á árinu sem er að líða.  Stutt var í samkennd hópsins og einhug þegar skorað var á hann eitt hádegið að finna svartan kött að nafni Nuk sem sloppið hafði úr einkaþotu á flugvellinum í sumar.   Eigandi kattarins, danska ævintýrakonan og milljónamæringurinn Susanne Alsing atti félaga í að ganga til liðs við hjálparsveitina í Öskjuhlíð, en þessi kona neitaði að yfirgefa landið í þotu sinni án kattarins.    Kötturinn fannst sem betur fer í flugskýli skammt frá þotunni.  Fleira vakti athygli á árinu.  Getgátur voru uppi um að JB Run væri aðeins tekjukeyrsla.    Á þessu kosningaári komst nýr formaður til valda og telja sumir að nú sé hafið langt og farsælt stöðugleikatímabil FI skokk með nýrri stjórn og að hinir róstursömu aðalfundir og átök um lög félagsins heyri sögunni til.  Altént heyrðust gamlir félagar tauta fyrir munni sér þessa vísu:

Forystan hjá FI skokk,
fann sér leið til valda.
Ætlar hún að stíga á stokk,
 og standa um aldir alda?


Einn er sá atburður sem er eftirtektarverður og hann er sá að formaður FI skokk flutti ekki stefnuræðu stjórnar á aðventuhlaupi samkvæmt fornri venju.   Nú er komið fram í árslok og svo fáir hafa skilað sér í hádegishlaupin á bílaplan Hótels Loftleiða  síðan aðventuhlaupið var haldið, að ekki hefur fundist vettfangur til að flytja ræðuna.  Vegna þess verður hér stikklað á stærstu atriðum stefnumála stjórnar:  Að reist verði upphitað biðskýli fyrir norpandi félaga vegna óþolandi biðtíma eftir Garmintækum gervitunglum.   Sama biðskýli verði nýtt í glennu- og teygjuathafnir skokkara eftir hlaup, en þetta ku hafa sært blygðunarkennd hótel gesta á síðasta ári og hafa menn þurft að hverfa með þessa háttsemi  suður fyrir hús.  Kanna hugmynd landsstjórnar um lækkun höfuðstóls félagsskulda og leggja niður vísitölutengingu.  Keyptur verði fundarhamar (Þórshamar) til að berja niður mótþróa  á aðalfundum. 

Gleðilegt ár !

mánudagur, desember 30, 2013

Síðasta æfing ársins!

Mættir: Ársæll, Anna Dís, Óli Formaður, Dagur og Sigurgeir

Ársæll og Anna Dís létu vindinn ekkert hræða sig og fóru Suðurgötu á meðan restin flúði Kára og fóru skógræktina.

Það var farið yfir markmið ársins og næsta árs. Sumir náðu sínum markmiðum á meðan það vantaði aðeins upp á hjá öðrum að ná sínum markmiðum. Allir voru með markmið 2014 klár sem innihalda m.a. maraþonhlaup, 10 km og 1/2 maraþon. Sumir ætla að ná tímamarkmiðum á meðan aðrir eru meira að reyna ná ákveðnum fjölda hlaupa o.s.frv.

Fyrir ykkur sem eruð í vandræðum með að setja ykkur markmið fyrir 2014, þá eru hérna nokkur atriðið sem er gott að hafa í huga þegar þið ákveðið ykkar markmið.

Við höfum öll í okkur hæfileika til að ná árangir, við þurfum einfaldlega að læra að virkja hann. Það er staðreynd að ef við lærum að nýta okkur þennan hæfileika, þá getum við notið velgengni bæði í starfi og einkalífi frekar skjótt. Hér er einfaldar leiðbeiningar sem hjálpa þér.
Hvernig á að setja sér markmið og ná fullkomnum árangari í starfi og einkalífi.

1. Vertu einlægur og heiðarlegur við sjálfan þig. Skoðaðu heiðarlega hvar þú ert staddur, hvert þú ert að stefna og hver þú vilt verða.

2. Hafðu skilning á markmiðum þínum. Þeir sem ná markmiðum sínum í starfi og einkalífi, hafa skilning á þeim markmiðum sem þeir vilja ná og hvað er nauðsynlegt að gera og framkæma til að ná þeim.

3. Þú verður að öðlast hugrekki til að takast á við það sem þú óttast. Ef þú vilt færast yfir á næsta áfanga til að ná markmiðum þínum, þá verður þú að vinna stöðugt í því að yfirvinna það sem þú óttast að gera. Láttu ekkert standa í veginum fyrir þér.

4. Deildu velgengni þinni. Þegar þú nærð markmiði, áttu ekki að njóta þess í sjálfelsku. Margt fólk getur notið hluta af velgengninni, -- kannski ekki alltaf í beinu sambandi, t.d. fjárhagsleg velgengni er ekki átt við að þú eigir að gefa peningana til annara, þú getur deilt með öðrum reynslu eða með einhverjum hætt látið aðra njóta.

5. Byggðu upp eldmóð. Þegar þú ert fullur af eldmóð og ákafur, þá ertu stöðugt að vinna í markmiðum þínum. Þegar hindranir verða í veginum, þá notar þú eldmóðinn og ákafann til þess að yfirvinna þær. Sigraðu þessar hindranir, farðu í kringum þær, undir þær, í gegnum þær eða gerðu það sem er nauðsynlegt til að koma þér áfram í að ná markmiði þínu.

6. Vertu í jafnvægi. Það er nauðsynlegt að vera í góðu jafnvægi til að njóta velgengni. Þegar þú tekur ákvörðun um að framkvæma eitthvað, fylgdu því eftir. Það skapar jafnvægi.

7. Upplifðu velíðanartilfinningu velgengninnar. Þegar þú nærð markmiði, þá getur þú sagt, „ég nýt velgengni og ég er ánægður.“ Það þarf ekki að þýða að þú ætlir að láta staðar numið og að nú sé nóg komið, heldur getur þú sagt, „ Ég gerði þetta og ég er ánægður með niðurstöðurnar. Nú get ég haldið áfram með önnur markmið og nýtt mér það sem ég lærði til að ná enn betri árangri.


Kv. Sigurgeir

föstudagur, desember 20, 2013

Föstudagur 20. des - Öfuguggi

Stjórnin "rúlaði" í dag, svo einfalt var það.  Hún mætti öll eins og hún lagði sig ásamt einum kvenkyns aðdáanda.

Bæjarrúntur með þrælöfugum "dead-ara" í Tjarnargötunni þar sem ekki tókst að taka hann í Aðventuhlaupinu í gær eins og oftast er gert.  Þrælöfugi "dead-arinn" var í stuttu máli þannig að í stað þess að enda við Ráðhúsið þá var byrjað þar og hlaupið á afturábak upp að hinu hefðbundna rásmarki.  Í ljós kom að Oddgeir var mesti öfugugginn.  Úle og Íbbi voru næstmestu öfuguggarnir og kvenkyns aðdáandinn var minnsti öfugugginn.

Rúmlega 8 km.

fimmtudagur, desember 19, 2013

Fimmtudagur 19. des - Aðventuhlaupið: Pottur, sauna, bjór og matarafgangar

Það var þrusugóð mæting í aðventuhlaupið, alls 14 manns, ef með eru taldir þeir sem tóku bara góðu molana úr Mackintosh-dósinni, þ.e. fóru bara í pottinn, saununa og bjórinn.  Þau tímamót urðu að Sveinbjörn mætti ekki, í fyrsta skipti sem það gerist, að sögn kunnugra, frá því að menn og konur hófu að hlaupa Aðventuhlaupið fyrir allmörgum árum.

Það var lítilsháttar þema í þetta skiptið, hlauparar þræddu lítt kunnur götur í Þingholtunum, sem allar enda í -stígur.  Í lokin var síðan 2. armur Kolkrabbans tekinn og hlaupinu lokið í myrkri og hálku í Öskjuhlíðarskógi, svona rétt til að fá einhverja spennu í þetta.

Pottinum, saununni og bjórnum voru síðan gerð góð skil ásamt matarafgöngum, sem svangur þátttakandi nældi sér í af næsta borði sem nýlega hafði verið yfirgefið.

Rúmlega 7 km.

Framkvæmdaáætlun stjórnar 2013-2014

- Aðventuhlaup.  Verður haldið fimmtudaginn 19. desember, kl. 1708.

- ASCA – Dagsetning komin, 22. mars 2014.  Verður haldið í London.  Stjórnin stefnir að því að halda úrtökumót.  Stífari viðmið en áður varðandi þátttöku.  Lágmark 7 karlar og 4 konur þurfa að mæta í úrtökumót svo farið verði.  Náist ekki í annaðhvort liðið útlokar það þó ekki hitt liðið frá því að fara.  Úrtökumót fari fram fyrri hluta febrúar.

- Icelandairhlaupið – Annan fimmtudag í maí, 8. maí 2014, að öllu óbreyttu.

- Styrkveiting til félagsmanna vegna almenningshlaupa – Áfram stefnt að styrkveitingu.  Verður ákveðið síðar með hvaða formi það verður.

- Aðalfundur – Næsti aðalfundur verði haldinn í október eða nóvember 2013.  Stefnt skal að því að fundurinn verði frekar haldinn í október.

Að auki verður það áhersluatriði stjórnar að auka nýliðun í hópnum og efla ástundun þeirra félagsmanna sem fyrir eru.

 


miðvikudagur, desember 18, 2013

Fundargerðir stjórnar tímabilið 2013-2014


Stjórnarfundur FI-Skokk (1. fundur tímabilsins 2013-2014)

 

 

18. desember 2013, kl. 1030 á skrifstofu Icelandair


Mættir: Ólafur, Ívar og Oddgeir.

1. fundur stjórnar tímabilið 2013-2014.  Fundargerð síðasta fundar samþykkt.  Eftirfarandi mál voru á dagskrá þessa fundar:


- Verkaskipting stjórnar

- Árgjald félagsmanna

- Framkvæmdaáætlun 2013-2014

- Aðventuhlaupið

- Uppfærsla félagatals

- Mætingahlekkur á bloggsíðuna

 
Verkaskipting stjórnar:

Ólafur formaður (forseti), Ívar gjaldkeri og Oddgeir ritari.

 
Árgjald félagsmanna:

Árgjald ákveðið óbreytt.

 
Framkvæmdaáætlun 2013-2014:

- Aðventuhlaup.  Verður haldið fimmtudaginn 19. desember, kl. 1708.

- ASCA – Dagsetning komin, 22. mars 2014.  Verður haldið í London.  Stjórnin stefnir að því að halda úrtökumót.  Stífari viðmið en áður varðandi þátttöku.  Lágmark 7 karlar og 4 konur þurfa að mæta í úrtökumót svo farið verði.  Náist ekki í annaðhvort liðið útlokar það þó ekki hitt liðið frá því að fara.  Úrtökumót fari fram fyrri hluta febrúar.

- Icelandairhlaupið – Annan fimmtudag í maí, 8. maí 2014, að öllu óbreyttu.

- Styrkveiting til félagsmanna vegna almenningshlaupa – Áfram stefnt að styrkveitingu.  Verður ákveðið síðar með hvaða formi það verður.

- Aðalfundur – Næsti aðalfundur verði haldinn í október eða nóvember 2013.  Stefnt skal að því að fundurinn verði frekar haldinn í október.

Að auki verður það áhersluatriði stjórnar að auka nýliðun í hópnum og efla ástundun þeirra félagsmanna sem fyrir eru.


Aðventuhlaupið:

Aðventuhlaupið fer fram fimmtudaginn 19. desember kl. 1708.  Stefnt að gufu, heitum potti og hressingu að hlaupi loknu.

 
Uppfærsla félagatals:

Gjaldkeri og ritari munu fara yfir félagatalið og uppfæra eins og þurfa þykir.

 
Mætingarhlekkur á bloggsíðuna

Stjórnin hyggst kanna það hvort æskilegt sé að koma upp einhverskonar tilkynningar/mætingarhlekk á bloggsíðuna.  Þannig munu þeir sem hyggjast mæta í hádeginu tilkynna mætingu sína á síðunni.

 
Næsti fundur áætlaður um miðjan janúar á nýju ári.

Fundi slitið kl. 1145.
 
 
-----------------------------------------------------------------------------------------------




þriðjudagur, desember 17, 2013

Þriðjudagur 17. des - Parahlaup

Alls mættu 6 í dag.  Flugvallarhringur um Hofsvallagötu. Færi þungt á köflum.

Hlaupið æxlaðist þannig að það var að mestu hlaupið í pörum.  Sigurgeir CK hljóp með Oddgeiri, Fjölnir CK hljóp með Ívari og síamssystur hlupu sama.  Aldrei var mikið meira en 100-200 metrar á milli para.

Tæplega 9 km.

Við minnum á aðventuhlaupið á fimmtudagin.  Hlaup, sauna, heitur pottur og drykkur!  Er hægt að biðja um meira í aðdraganda jóla?

mánudagur, desember 16, 2013

Mánudagur 16. Des

Mættir: Dagur og Sigurgeir

Fórum Hofs á þægilegu tempói. Rómantíkin var allsráðandi í dag enda ekki annað hægt í svona björtu og fallegu jólaveðri.

Við auglýsum eftir fleiri hlaupurum og lofum að taka vel á móti öllum sem mæta.

Kv. Sigurgeir

Fimmtudagur 12. Des

Mættir: Dagur og Sigurgeir

Tókum Hofs á þægilegu tempó.

Kv. Sigurgeir

miðvikudagur, desember 11, 2013

Miðvikudagur 11. des - Vetrarfæri

Dagur, CKs og Oddgeir mættu í hádeginu.

Vetrarfæri en fínt hlaupaveður.  Annar CK fann allar afsakanir sem hægt var að týna til svo hann gæti farið stutt, um Suðurgötu.  Dagur, Fjölnir og Oddgeir fylgdu honum og lengdu síðan í og við Öskjuhlíð.

Vegalengdir frá 7 km til 9.5 km.

Minnum á Powerade vetrarhlaupið á morgun, fimmtudag.

mánudagur, desember 09, 2013

Mánudagur 9. des - Spólvörn óskast

Já, það veitti ekki af spólvörn á fótabúnaðinn í dag er galvaskir drengir héldu til hlaupa í hálkunni.  Fyrst fór Sæli, alsæll með að hafa verið treyst fyrir því að slökkva ljósin og loka hurðunum á Listasafninu aðfaranótt laugardagsins, svo gaman var hjá honum á bollunni.  Því næst fóru þeir bakkabræður Dagur og Oddgeir, ásamt Jóa sem var í göngugír.  Lang síðast fóru síðan Ívar og Fjölnir, en þeir tóku upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni að taka fyrst "lunch á þetta" áður en þeir fóru að hlaupa.

Vegalengdir frá 6 km til 9 km.

Planki að hætti atvinnumanna var tekinn í lokin og sá enginn annar en JB Run um að allt færi eftir settum reglum.

fimmtudagur, desember 05, 2013

Fimmtudagur 5. des - Menn eru misjafnlega ferskir

Oddgeir virðist hafa verið sá eini sem mætti í dag.  Þarf ekki vikuhvíld á milli æfinga eins og CK dívurnar.

Veðurblíða en nokkuð kalt.  9 km og planki.

þriðjudagur, desember 03, 2013

Þriðjudagur 3. des - Þrír ííískaldir

Þremenningarnir Sigurgeir, Fjölnir og Oddgeir létu ekki smá éljagang og kulda stoppa sig í dag.  Hlaup í og við Öskjuhlíð, með planka í lokin. Rúmlega 7 km hjá strákunum.