þriðjudagur, desember 29, 2009

Hádegisæfing 29. desember

Nokkrir mættu í dag: Rúna Rut, Dagur, Jói (sér), Óli (sér), Huld og Sigrún. Nokkuð kalt var í veðri og snjófjúk á stöku stað en ákveðið var að fara rangsælan Flugleiðahring, eftir nýja veginum, alls tæpa 7 km. Margir eru nokkuð keppnislatir á þessum árstíma, ekki allir þó, og þá er um að gera að skella sér í nýárssjósund og endurstilla keppnisfókusinn fyrir 2010. Nýárssjósundið fer fram í Nauthólsvík 1. janúar og stefnt er að metþátttöku.
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, desember 28, 2009

Hádegisæfing 28. desember



Mætt í dag í fyrsta snjóhlaup ársins: Sveinbjörn (sér), Óli (sér) en Dagur, Huld og Sigrún saman. Tókum hefðbundna Hofsvallagötu í loðnu færi í rólegheitum. Dagur hefur sett smá kynningu á hlaup.is undir hlaupahópa um skokkklúbb Flugleiða. Þetta er hugsað til þess að kynna starfsemi klúbbsins og bjóða þá sem hafa áhuga á að mæta velkomna. Gríðarlegur árangur náðist í dag á æfingu dagsins en þá mættu 3 af fastahlaupurum á æfingu (fyrir utan sérleiðarfólk) og telst okkur til að fleiri hafi mætt en vildu. Hvort þetta er jákvætt eða neikvætt er huglægt mat túlkenda. Heit umræða myndaðist innan hópsins um jólakveðjur, þ.e. hvenær er tilhlýðilegt að bjóða gleðileg jól, gleðilegt ár og þessháttar. Ekki telst við hæfi að bjóða gleðilegt ár t.d. fyrir áramót, nema ef sá sem kveðjunni kastar hyggist ekki sjá viðkomandi fyrr en að áramótum liðnum. Það sama á við um jólakveðjur. Ekki þykir við hæfi að bjóða gleðileg jól fyrir jól, þegar jólin eru ekki komin. Þetta er verðugt rannsóknarefni fyrir málfarsráðunaut skokkklúbbsins. Síðan er vafaatriði með dagana milli jóla og nýárs, hvað ber að segja þá? "Gleðilega hátíð", kannski. Eða ekki? Setning dagsins var þó klárlega frá hótelgestum sem biðu í snjómuggu fyrir utan hótel við upphaf æfingar:"Are you going running NOW?", og svo síðar í samtalinu: "You look like a an ultra-marathoner". Glöggir lesendur verða svo að reyna að finna út við hvern þessi skemmtilega athugasemd á. Sá hinn sami mun allavega lifa eitthvað á henni framyfir áramót.
Alls 8,6 km
Kveðja góð,
Sigrún

sunnudagur, desember 27, 2009

Gamlárshlaup Í.R.

Ágætu félagar, velunnarar og áhangendur.
Minnum á þetta skemmtilega hlaup þar sem gamla árið er kvatt með 10 km hlaupi. Hvetjum alla til að mæta!
Forskráning hafin á hlaup.is
Kveðja,
IAC

miðvikudagur, desember 23, 2009

Þorláksmessuæfing 23. desember



Í forstarti: Jón Örn. Á pinna: Dagur, Sigurgeir, Gnarr (í skötuskóm (skate)), Oddgeir, Huld og Sigrún. Fórum Hofsvallagötu í strekkingi en Dagur og O-ið fóru lengingu Kapla/blaðburðarstubb. Andi skötunnar sveif yfir vötnum en var meira innan frá hjá aðalritara, sem át heiftarlega yfir sig af ammoníaksleginni og floti í gærkveld. Þeir sem hyggja á skötuát í dag munið að enginn er maður með mönnum nema að borða a.m.k. 3 diska.
Lifið heil og gleðileg jól!
Alls frá 8,7-9,3 km.
Sigrún

Hádegisæfing 22.des

Fín mæting: Sigrún, Rúna, Huld, Sveinbjörn, Jói, Dagur, Kalli, Oddgeir, Fjölnir og Óli. Greinilegt að margir voru spenntir fyrir Cross-fit æfingu í boði Kalla nema Óli og undirritaður sem stálust á sérleiðir um ormagöng. Hinir létu vel af sér eftir æfingu og telja sig nú hafa mikið forskot á þá sem ekki tóku á því á hrikalegri styrktaræfingu.

Jólakveðja, Fjölnir

mánudagur, desember 21, 2009

Hádegisæfing - 21. desember

Á meðan formaður hörfaði vegna fámennis inní ylvolgt mötuneytið var það Jói sem tókst á við norðangarrann aleinn. Engar fréttir hafa borist af því hvert hann fór eða hvort hann kom nokkurntíma tilbaka.

Talandi um sjósund að vetri og finnskt icehole swimming, hér er hvernig Kanadamenn stunda þessa íþrótt.

Kveðja,
Dagur, formaður

föstudagur, desember 18, 2009

Frjáls föstudagur 17. desember

Frost og fallegt gluggaveður og fámennt en góðmennt. Mættir: Ársæll í forstarti, Jón Gunnar Geirdal, Sigurgeir, Jói og Sigrún. Fórum í bæjarrúnt, slepptum Sæbraut og tókum Laugaveginn í staðinn og þaðan gegnum miðbæinn, Alþingi, Hljómskálagarður, BSÍ, Valur og heim á hótel. Róleg og afslöppuð æfing sem Jói sá þó ástæðu til að rífa sig frá. Hann hljóp fremstur, því hann talar ekki og hleypur (að eigin sögn)þannig að við ákváðum að taka því ekki persónulega. Þess má geta að á þriðjudag verður æfing í boði Kalla cross-fit. Allir eru því hvattir til að mæta í næstu viku, a.m.k. 3 fyrstu dagana í vikunni. ;)

Athugið: Ef drukkinn er Jólakaldi (bjór) og Viagra brutt með verður til ástand sem kallast stinningskaldi, en það var einn úr hlaupahópnum sem skýrði okkur frá þessu í gær, enda hefur hann einstaklega góða reynslu af slíkri iðju.
Góða helgi,
Sigrún

fimmtudagur, desember 17, 2009

Jólaæfing 17. des. kl. 17:08

Á jólaæfingu IAC mæta þeir sem vilja ganga í augun á þjálfaranum, en að þessu sinni voru það þau: Anna María Kristmundsdóttir (long time, never since...eins og snillingur einn sagði), Huld (in her final countdown for schooldaze), Sveinbjörn á kantinum (fann engin ormagöng v/myrkurs), Óli (með bindi(s)skyldu), Jói (á samfelldri sigurgöngu), Rúna Rut (sem er að byrja að átta sig á hvað við erum miklir vitleysingar), Jens (sem gerir út fjölda lyklabarna í 200, Kóp.), Dagur (der Führer, á mjúkum nótum samt), Oddgeir (hanskatýnir, bara fattaði það ekki), Bryndís (höfuðljósasérfræðingur), Fjölnir (financial dir.) og loks Sigrún (allsherjarfáviti, sem er alveg að smella í vitleysisgírinn, enn og aftur). Þetta furðulega "combo" hljóp létt frá hóteli og vestureftir með strönd, Suðurgötu, Tjarnargötu (skemmtilegustu endasprettsgötu í heimi), hvar tekinn var einn "dead-ari", gegnum hátíðlegan "downtown-inn", upp Skóló með Rocky, Eiríksgata og um Valsheimili og heim. Róleg jólastemning sveif yfir vötnum, utan einnar líkamsárásar, sem hundur Jens sá um að framkvæma, þótt ótrúlegt megi virðast. Féll einn þekktur hlaupari þar við fót og vonum við að ekki hafi hlotist skaði af. Eftir hlaup sem var u.þ.b. 8,7km var skammtaður 8 mín. tími til steypibaðs og tekinn einn gufubjór í kjölfarið á hótelbar. Kynnt voru drög að framkvæmdaáætlun næsta árs og er það ljóst að þar ræður ríkjum mikil frjósemi í hugsun og allri útfærslu og mörg spennandi verkefni eru í farvatninu. Rjúfa þurti þó útsendingu aðeins of snemma vegna þess að formaður þurfti að hjóla á brott, í annað póstnúmer, og skella sér í bíó í framhaldi af því.
Skemmtileg æfing í frábærum félagsskap. Því miður var fríður flokkur ekki festur á filmu en ég votta það að hann var óvenjufríður þetta árið!
Góðar stundir,
Sigrún

miðvikudagur, desember 16, 2009

Hádegisæfing 16. desember

Fín mæting í dag: Jói, Jón Örn, Sveinbjörn, Dagur, Oddgeir, Fjölnir, Bjöggi, Rúna Rut og Sigrún. Svo við séum ekkert að flækja þetta "recovery" hlaup neitt frekar þá lýsir BB þessu svona: "
Fórum rólegan og skemmtilegan hring frá HLL í boði formanns. HLL-Fossvogur-Borgarspítali-Suðurver-Framheimilið-Kringlan-Öskjuhlíð-HLL.
Æðislegt veður, stillt og fallegt".
Alls 7,5km
Kveðja,
Sigrún
Ath: Sérstaka athygli vakti SE en hann birtist ítrekað aftur og aftur, þegar síst skyldi, en hvarf þess á milli niður í ormagöng.

þriðjudagur, desember 15, 2009

Jólaæfing IAC næsta fimmtudag 17. des.



Ágætu félagar.
Skokkklúbbur Icelandair heldur sína árlegu jólaæfingu á fimmtudag 17. desember. Allir félagar eru hvattir til að mæta og taka þátt í skemmtilegri æfingu sem endar í heita potti sundlaugar hótels Loftleiða að vanda, þar sem boðið verður upp á drykk. Velunnarar og áhangendur klúbbsins eru einnig velkomnir. Mæting er við inngang hótels og verður lagt af stað kl. 17:08. Athugið að æfingin er við allra hæfi.
Kveðja,
Stjórn IAC.

Hádegisæfing 15. desember

Ótrúlega góð mæting í dag í fallegu veðri (nokkrir á stuttbrók v. tilmæla): Óli Briem á ráspól, Dagur, Guðni, Hössi, Sigurgeir, Fjölnir, Bjöggi, Kalli (Spiderman), Bryndís, Huld og Sigrún. (vonandi gleymi ég ekki neinum...) Einn félagsmaður ( fv.heimsmeistari) kom og tók létt spjall og kynningu fyrir æfingu en það var heiðursmaðurinn Jón Baldursson. Hann glímir nú við álagsmeiðsli en hyggur á aukna æfingasókn fljótlega. Við hin hlýddum kalli þjálfara (eins gott fyrir okkur, jækz!) og hlupum léttilega inn í Fossvogsdal, hvar náttúrufegurð og veðursæld er óviðjafnanleg. Æfingin gekk út á það að hlaupa tempóhlaup til baka úr dalnum, þekkta leið upp að kirkjugarðsinngangi, milli 2,5km-3km leið, í pörum eftir getustigi. Skemmst er frá því að segja að aðal gekk fúslega inn í fyrsta holl, enda má hann muna sinn fífil fegurri þegar t.a.m. Geiri Smart var hans (aðalritarans) fylgisveinn, en það er önnur saga. Hlaupið var í svokölluðu "interval start (i)" og lengdist bæði vegalengd og tíminn sem hlauparar fengu til ráðstöfunar eftir flokkun. Allir áttu að hlaupa að sama endapunkti og að passa að reyna að ná einhverjum og að vera ekki náð af einhverjum. Skemmst er frá því að segja að nokkrir hlauparar riðluðust í flokki, þ.e. færðust niður (mig minnir GI og SMH) en einn færðist upp (samt var hlaupið ógilt vegna ólöglegs fótabúnaðar) en það var crossfittarinn Karl nokkur Thode, sem með einstöku og líkamlegu yfirburðaatgerfi smaug framúr fyrsta holli með BM og SBN innanborðs.
Flestir komu þó óskaddaðir í mark og rauk hitaský upp af mannskapnum, sökum áreynslu.
Alls mældust þessar vegalengdir milli 8,4K-7,7K.
Athugið: einn félagsmaður hefur verið að villa á sér heimildir með bæði dulbúningum og kennitöluflakki í vetrarraðhlaupinu og er sá hinn sami beðinn að láta af þeim ósköpum enda tefur það alla úrvinnslu hlaups. Þetta eru bein tilmæli frá formanni klúbbs.
Góðar stundir,
Sigrún

mánudagur, desember 14, 2009

Hádegisæfing 14. desember

Mættir í dag í afbragðsveðri: Johnny Eagle frá Financial Awareness, Sveinbjorn frá okkur, (þessir fóru báðir um ormagöng), Bjöggi IT, Dagur frá sama, Guðni CP, Oddgear f/o, Huld multitasker, SBN from the retired dept. Fórum hefðbundna Hofsvallagötu en GI og DE fóru í lengingu (v. fj. áskorana) og komu töluvert á undan sniglunum að kafara. Ljóst er að sumarið er komið eftir stuttan vetur og er mælst til að menn og málleysingjar (ef einhverjir eru) mæti í stuttbuxum á morgun.
Alls DE 10K, GI 9,3 ca. -aðrir með allt frá 9 niður í eitthvað pínulítið af k-áum.
Kveðja,
SBN

laugardagur, desember 12, 2009

Powerade Vetrarhlaup - Desember úrslit

Hér eru tímarnir á okkar fólki:

39:51 Höskuldur Ólafsson (þriðji í aldursflokki)
44:33 Sigurgeir Már Halldórsson
45:04 Hólmfríður Ása Guðmundsdóttir (sigurvegari í aldursflokki)
46:44 Huld Konráðsdóttir (sigurvegari í aldursflokki)
46:50 Sigurður Óli Gestsson (bæting um eina og hálfa mínútu frá síðasta hlaupi)
49:18 Jens Bjarnason
51:35 Rúna Rut Ragnarsdóttir (bæting um tvær mínútur frá síðasta hlaupi)
53:54 Björgvin Harri Bjarnason (fyrsta vetrarhlaupið)
54:34 Tómas Beck
59:02 Sigurjón M. Ólafsson

Kveðja, Dagur formaður

föstudagur, desember 11, 2009

Hádegishlaup 11. des 09

Mættir voru Guðni, Huld og Jón Örn. Sá síðastnefndi var látinn sæta refsingu fyrir að gleyma skónum í gær og fór Suðurgötuhringinn í blíðskaparveðri, SA 11m/s (upp í 22m/s í hviðum) og súld (Heimild: www.vedur.is). Hin tvö fóru í nærliggjandi kirkjugarð og hlupu 8,9k.

GI

fimmtudagur, desember 10, 2009

Hádegisæfing 10. desember

Mættir : Guðni, Sveinbjörn, Dagur, Óli (á sérleið enda ekki í neinu formi að eigin sögn), Gerður+óþekkt starfskona úr Fjárvakri voru á sérleið með ströndinni, einnig sást til Jón Arnars en hann gleymdi skónum sínum heima og varð frá að hverfa.

Lagt var upp með 10k hlaupin spretti meðfram ströndinni fram og tilbaka (Guðni og Dagur), Sveinbjörn ákvað að taka 8k og var vendipunkturinn merktur með kaffimáli.
Lokatíminn á Guðna var 44:23 sem leggur sig á 4:26 meðalhraða. Sveinbjörn var á 5mín tempói út en hægði eitthvað á sér á bakaleiðinni.

Kveðja,
Dagur, formaður

miðvikudagur, desember 09, 2009

Meðlimir á ferð og flugi

Eftirtektarsamir lesendur Fréttablaðsins í dag tóku eftir mynd af Skokkklúbbsmeðlim við óvenjulegar aðstæður. Hér er á ferðinni nagli sem leikur tveimur skjöldum, pempíast með strákunum í sokkabuxum í hádeginu og þeysist síðan um á vélfákum þess á milli.

Kveðja,
Dagur, formaður



Upphitunarmiðvikudagur

Mættir í pre-Powerade: Nú...bara Sigurgeir, allir hinir féllu á lyfjaprófi og keppa því ekki. Samt vóru þarna Oddgeir, Bjöggi, Dagur, Guðni, Sveinbjörn og undirrituð, sem þykir leitt að yfirtaka bloggið á ný, þó einungis af og til. Annars... fórum Suðurgötu en naglarnir fóru Hofs með lengingu og tempóköflum, þó ekki Geiri Smart en hann hyggst brjóta gróflega gegn eiginkonu sinni í vetrarraðhlaupi Powerade annað kvöld. Guðni ætlar þó að vera í markvörslu og sér til þess að enginn fari skaddaður frá borði og e.t.v. afhenda óvænta glaðninga. Heyrst hefur að hann muni klæðast jólasveinabúningi í stíl við hefðbundna jólatónlist úr bíl.
Allir eru hvattir til að mæta galvaskir í hlaupið sem hefst kl. 20:00 við Árbæjarlaug.
Alla 7,7-9,6 K
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, desember 08, 2009

Þokkalegur þriðjudagur 8. des - Hádegisæfing

Guten tag.
Mætt voru í dag Huld, Rúna, Dagur, Kalli, Bjöggi, Jón Örn og Alvar.
Nýliðarnir tveir síðastnefndu fór á eigin vegum 5 og 6 Km og eru klárlega að bæta sig með hverri æfingu. "Keep up the good work boys". Hin 5 (fræknu) fór Suðurgötuhring...réttsælis...rólega, eða svo var mér allavega sagt þ.e. að þetta hefði verið rólegt. Engu að síður mældust þetta 7,7 km á 42:30 ca. Allir glaðir og fínn spjallrúntur.
Bjútí

mánudagur, desember 07, 2009

Mjúkur mánudagur 7. desember

Í yndislega fallegu veðri en launhálku mættum við höfuðlaus her: Jón Örn (sér) með huldumey sér til fulltingis, Sigurgeir, Bjöggi og undirrituð. Ákváðum að fara rólegan Hofsvallagötuhring, þar sem enginn af terroristum hópsins var á svæðinu. Sólin skein og skrafað var létt um fyrir- liggjandi verkefni, en einn innan hópsins hyggst láta stórlega til sín taka í Powerade á fimmtudaginn á meðan aðrir láta sér allt slíkt í léttu rúmi liggja. Vegna jólanna þá þarf Bjöggi líklega að stela jólarjúpunni, aðeins eina hefur hann veitt og Sigrún ætlar ekki að elda kalkún, ætlar að bera fyrir sig kunnáttuleysi og láta öðrum eftir verkefnið en Sigurgeir....já við látum fimmtudeginum eftir að skera úr um hvað hann gerir. ;)
Alls ofurrrólegir 8,7 K
Góðar stundir,
Sigrún

föstudagur, desember 04, 2009

Bolludagshlaup-samt ekki feitabollu

Ekki sáu margir ástæðu til að hlunkast í hádegishlaup í dag, þó mátti greina 4 félagsmenn á ferli, ýmist sér eða í hópi. Jón Örn og Ingunn voru á eigin vegum, sem þó lágu ekki saman og einnig var púslið um horfna síamstvíburann fullkomnað í dag er Huld leiddi aðal Suðurgötuhring í boði ÖBÍ. Veður var milt en kuldalegt og rákust stöllurnar á keppnishlaup sem innihélt nokkra af góðkunningjum hlaupahópsins, nefnilega Jón Gunnar (ekki Gnarr heldur hinn) sprettgauk og Höskuld hinn hugumprúða, en báðir voru á fljúgandi siglingu. Við bíðum frétta af þessu hlaupi og úrslitum þess.
Alls hjá síams 7,3 K en hinir á huldu.
Kveðja,
Sigrún

Drykkjusiðir meðlima

Neðangreind mynd barst formanninum síðla kvölds í gær fimmtudagskvöld frá ónefndum félagsmanni. Hver tilgangurinn var er óljóst, en þrátt fyrir allt er ljóst að menn eru að hugsa um heilsuna og velja drykki sem innihalda grænmenti enda hvetur ESB til aukinnar neyslu á grænmeti hollustunnar vegna.

Kveðja,
Dagur, formaður


miðvikudagur, desember 02, 2009

Tilkynning frá gestaþjálfara

Þar sem gestaþjálfari hefur ekki náð að sinna æfingum sem skyldi í vikunni og fyrirséð er að hann mæti ekki á síðustu tvær æfingar vikunnar er rétt að eftirfarandi komi fram.
Sérlegir aðstoðarþjálfarar Dagur og Guðni munu sjá til þess að æfingaáætlun verði framgengt og leggja línurnar. Á morgun, föstudag, er æsileg tempóæfing mögulega með Powerade Simulator.
Gestaþjálfari mun hér eftir tileinka sér aðferðir fjarþjálfunar en þær hafa gefist einkar vel og margir náð frábærum árangri með þeirri aðferð.

Kveðja, Fjölnir Fjarþjálfi

Hádegi 2. des 2009

Ólafur Lofts, Gerður og Rúna fóru frekar snemma út í óvissuna.

Dagur, Guðni, Huld og Höskuldur fóru eftir fyrirmælum gestaþjálfarans fjarverandi sem var:

"02.des, Moð á miðvikudegi
Vesturbær eða jafnvel Kópavogur/skógrækt, fer eftir veðri og stemmningu. Rólegt og hentar öllum."

Til að verða við sem mestu af skilaboðunum var hlaupið að Skógræktinni, þaðan inni í Kópavog, upp að Hamraborg og niður í Kópavoginn, þar yfir í vesturbæinn (Kópavogs auðvitað) og stystu leið heim. Byrjaði rólega en endaði hraðar enda voru menn að renna út á tíma.

Samtals 9,7k

GI
Aðstoðamaður Gestaþjálfara

þriðjudagur, desember 01, 2009

Hádegislýðveldishlaup 1. des í fimbulfrosti

Komiði sæl og blessuð. (Jón Ársæll)
Mikið skelfing var fátt á æfingunni í dag. Það voru hinsvegar hörkutólin og ofurmennin, Alvar, Dagur og Bjútí sem mættu á "pinnan" kl. 12:08. Alvar kvaðst ætla ca. 5 kvikind á sínum hraða og var góðfúslega gefið leyfi til þess af yfirþjálfara. Dagur og Bjútí fóru að tilmælum gestaþjálfara og hlupu beina leið til Jóns Sigurðssonar í tilefni dagsins, en þaðan var haldið til Jónasar og teknir 4 "Jónasar" á seinna hundraðinu (verst hvað hálkan skemmdi fyrir manni í beygjunum :-). Að svo búnu var hlaupið heim á HLL. Fínn rúntur sem endaði í rétt um 8 Km á 40 og eitthvað mínútum.
Það verður að viðurkennast að nokkrir líkamshlutar sem lítt eru brúkaðir við útihlaup voru ansi kaldir er heim var komið, enda frostið ekki nema um -7°C.
Yfir og út.
Bjútí.