mánudagur, desember 28, 2009

Hádegisæfing 28. desember



Mætt í dag í fyrsta snjóhlaup ársins: Sveinbjörn (sér), Óli (sér) en Dagur, Huld og Sigrún saman. Tókum hefðbundna Hofsvallagötu í loðnu færi í rólegheitum. Dagur hefur sett smá kynningu á hlaup.is undir hlaupahópa um skokkklúbb Flugleiða. Þetta er hugsað til þess að kynna starfsemi klúbbsins og bjóða þá sem hafa áhuga á að mæta velkomna. Gríðarlegur árangur náðist í dag á æfingu dagsins en þá mættu 3 af fastahlaupurum á æfingu (fyrir utan sérleiðarfólk) og telst okkur til að fleiri hafi mætt en vildu. Hvort þetta er jákvætt eða neikvætt er huglægt mat túlkenda. Heit umræða myndaðist innan hópsins um jólakveðjur, þ.e. hvenær er tilhlýðilegt að bjóða gleðileg jól, gleðilegt ár og þessháttar. Ekki telst við hæfi að bjóða gleðilegt ár t.d. fyrir áramót, nema ef sá sem kveðjunni kastar hyggist ekki sjá viðkomandi fyrr en að áramótum liðnum. Það sama á við um jólakveðjur. Ekki þykir við hæfi að bjóða gleðileg jól fyrir jól, þegar jólin eru ekki komin. Þetta er verðugt rannsóknarefni fyrir málfarsráðunaut skokkklúbbsins. Síðan er vafaatriði með dagana milli jóla og nýárs, hvað ber að segja þá? "Gleðilega hátíð", kannski. Eða ekki? Setning dagsins var þó klárlega frá hótelgestum sem biðu í snjómuggu fyrir utan hótel við upphaf æfingar:"Are you going running NOW?", og svo síðar í samtalinu: "You look like a an ultra-marathoner". Glöggir lesendur verða svo að reyna að finna út við hvern þessi skemmtilega athugasemd á. Sá hinn sami mun allavega lifa eitthvað á henni framyfir áramót.
Alls 8,6 km
Kveðja góð,
Sigrún

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegur pistill, þið eruð yndisleg :-)
Kv
RRR