föstudagur, júlí 31, 2009

Reykjavíkurmaraþon

Ágætu hlauparar!

Eftir ýtarlegar tilraunir til að halda óbreyttu því ferli sem verið hefur á aðkomu FI - SKOKK að þátttöku starfsmanna Icelandair Group í RM undanfarin ár neyðumst við til að lúta breyttu landslagi.
Ástæðan er að Icelandair Group er ekki lengur stuðningsaðili RM heldur systurfélagið Víta. Þrátt fyrir þeirra góða vilja og áhuga eru sparnaðarraddir háværari og við hlauparar gjöldum þess. 
Við erum engu að síður bjartsýn og stórhuga að eðlisfari og vonumst til að geta endurnýjað haldgóðan samning að ári.

Sjóðsstaða FI - SKOKK er hins vegar það góð að FI - SKOKK bíður félagsmönnum fría þátttöku í RM 2009.

Vinsamlega skráið ykkur á blogginu :   http://fiskokk.blogspot.com/
Bloggskráning auðveldar myndun sveita ef áhugi er fyrir hendi, því er nauðsynlegat að skrá vegalengd sem hlaupin er.

FI - SKOKK klúbbmeðlimir skrá sig á vef Reykjavíkurmaraþons : http://www.marathon.is/
líkt og aðrir þátttakendur í RM en fá síðan þátttökugjald endurgreitt inn á bankareikning sinn frá Sveinbirni gjaldkera FI - SKOKK.
Vinsamlega sendið Sveinbirni póst á :  segilson@icelandair.is
Nauðsynlegt er að taka fram reikningnúmer, kennitölu og upphæð þátttökugjalds (vegalengd).

Óska ykkur velgengni í RM
F.h. FI - SKOKK, Anna Dís

fimmtudagur, júlí 30, 2009

miðvikudagur, júlí 29, 2009

Hádegisæfing 29. júlí

Mættir: Glamúr, Guðni, Bjútí og Oddgeir.
Það voru tvær vegalengdir í boði í dag og fór það eftir því hvar upphafsstafur viðkomandi var í stafrófinu. Þeir sem áttu staf A-K máttu fara rólega Hofsvallagötu aðrir áttu að fara Kapla-langt. Undirritaður hljóp sem Glamúr í dag og slapp því við Kapla-langt ;o)

Heyrst hefur að Aðal stundi grimmar æfingar hjá sjúkraþjálfa eftir að hafa slasað sig við verslunarstörf í Boston!

Kv. Sigurgeir AKA Glamúr

þriðjudagur, júlí 28, 2009

Hádegisæfing 28. júlí 09

Björgvin, Briem og Guðni fóru Hofs/Meistaravelli með blaðburðarútúrdúr. Allir á röskri ferð. Endaði í 8,6 og 9,8.

GI

föstudagur, júlí 24, 2009

Úrslit hlaupa

Einn félagsmaður keppti nýverið í Óshlíðarhlaupinu í hálfu maraþoni:
15 Huld Konráðsdóttir (2. í flokki ) 01:35:45

Einn félagsmaður keppti í Ármannshlaupinu:
26 Oddgeir Arnarson (14. í flokki) 00:41:47

Glæsilegt hjá þeim báðum en ekki eru margir að keppa um þessar mundir fyrir FI SKOKK.
Kveðja,
Sigrún

Hádegisæfing 24. júlí

Mættir: Oddgeir Ármaður, Guðni, Huld, Sigurgeir, Bjöggi og Sigrún. Fórum rólegan Fox í brakandi hita en þegar við nálguðumst Kópavog skullu á okkur kuldaskil og hiti fór niður í frostmark. Flýttum okkur þá aftur í blíðuna og hlupum framhjá nokkrum híbýlum útrásarvíkinga og fagfjárfesta, sem þó voru hvergi sjáanlegir, enda ýmist að koma úr eða að fara í kókaínmeðferð. Komið hafa að máli við mig félagsmenn og spurst fyrir um orðin valhopp og sporhopp, þ.e. merkingu þeirra. Síðar verður vikið að þessum fyrirspurnum, enda tilhlýtandi upplýsingar ekki aðgengilegar að svo stöddu.
Alls tæpir 8-K
Góða helgi,
Sigrún

fimmtudagur, júlí 23, 2009

Hádegisæfing 23. júlí



GI og SBN í kirkjugarðsbrekku 6*. GI@59-57sek, SBN@1:09-1:01.
Þar sem mánuður ljónsins er nú runnin upp bið ég hlutaðeigendur að sýna fyllstu varkárni og nærgætni í allri umgengni ellegar eiga á hættu að verða bitnir.
Alls um 7 -K
Kveðja, Leo

miðvikudagur, júlí 22, 2009

Hádegisæfing 22. júlí

Mætt á "recovery" æfingu: Sigurgeir, Guðni, Bjöggi og Sigrún. Óli fór séstvallaleið vestari um ormagöng. Fórum rólega Hofsvallagötu en skiptumst í 2 fylkingar. Fremri voru um 80kg á kjaft en aftari voru yfir 100, hvort um sig. Þeir tveir fyrstu í léttari flokknum fóru síðan og kældu sig í sjóðheitum sjónum á meðan hin þungu áðu við stein.
Alls 8-9K
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júlí 21, 2009

Hádegisæfing 21. júlí

Mættir á Yassoíska æfingu með Huldarívafi: Kalli, Guðni, Sigurgeir, Bjöggi, Huld og Sigrún. Fórum 6*800m spretti með ca. 1mín. á milli og smá upphitun og niðurskokk. Mikill hiti og töluverður sviti og allir berir að ofan nema aðal sem er örlítið meira vönd að virðingu sinni en hitt hvíta ruslið.
Alls 8-K
Ath. Fjölnir og hinir aumingjar, á morgun rólegt þannig að ykkur er óhætt.
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júlí 20, 2009

Hádegisæfing 20. júlí

Mættir í brakandi sól: Fjölnir, Huld og Sigrún. Huld var ekkert þreytt enda leyfði hún Mörtu að vinna sig í hálfu um helgina (M var að gifta sig skiljú) en Fjölnir var líka óþreyttur en gamla var þung og þreytt enda ekkert búin að hlaupa í marga daga. Fórum rólega Hofsvallagötu en sammæltumst um að það yrði sprettæfing á morgun í boði Huldar. Það er þó á Huld-u hvernig æfingin útfærist. Þeir sem eru með pung mæti.
Alls 8,7
Kveðja,
Sigrún

Laugavegurinn 2009

Einn félagsmaður og tvö viðhengi hlupu Laugaveginn nú um helgina. Árangur mjög góður.

í 8. sæti á 5:13:58 Höskuldur Ólafsson (5. sæti í flokki)
í 25 sæti á 5:38:12 Baldur Úlfar Haraldsson (10. sæti í flokki)
í 174 sæti á 7:08:37 Úlfar Hinriksson (3. sæti í flokki)

Gaman væri að lesa ferðasögur frá ykkur.

GI

föstudagur, júlí 17, 2009

Hádegi 17. júlí

Bryndís og Guðni rólega 8,4 meðfram ströndinni.

GI

fimmtudagur, júlí 16, 2009

Hádegi 16. júlí 09

Menn sem elska konur (Geirdal, Guðni, Kalli, Oddgeir og Óli) hlupu Meistaravelli í flottu veðri kvennmannslausir en berir að mestu. Óli var á einhverri sérkennilegri sérleið sem hann verður að gera grein fyrir. Hinir hittu hann tvisvar. Þrír fyrstu enduðu í sjónum. 9,6k

GI

miðvikudagur, júlí 15, 2009

Hádegisæfing 15. júlí



Rólegt miðbæjarhlaup með Le Frog og Beauty. Kolbeinn á morgun.
Alls 8-K
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Hádegisæfing 14. júlí

Mættir í nokkru roki: Bjöggi, Fjölnir, Kalli, Sigurgeir, Oddgeir og aðal. Eftir nokkurt þref var ákveðið að fara í skóginn en þar villtist Glamúrinn þegar hann lét okkur fara "stóran" hring. Var þá komið að þeim tímapunkti að aðal tæki við stjórn hins villuráfandi hers og neyddi grátandi hjörðina inn í kirkjugarð til að taka 6*brekkuspretti þar. Aðal hélt sínu striki þrátt fyrir hótanir og líkamsmeiðingar á leiðinni og allir kláruðu með sóma. Sigurgeir hefur verið kærður fyrir tilraun til manndráps en hann réðst á aðal með garðslöngu í brekku kirkjugarðsins. Fjölmörg vitni urðu að árásinni og þau hafa þegið áfallahjálp.
Alls 7,5-K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júlí 13, 2009

Hádegisæfing 13. júlí

Mættir: Bjöggi (keppir fyrir neyðarlínuna 112), Sigurgeir (leikur í Lost), Geirdal (auglýsir nú Nivea self-tan for men, línuna), Kalli (keppir fyrir froskinn), Sigrún (tálbeitan) og Oddgeir (keppir í flokki sérútbúinna í endaspretti). Fórum saman áleiðis vestur í bæ og Bjöggi fór Suðurgötuna, Sigrún Hofs og restin Kapla og tókum tempóhlaup að kafara. Hiti var ólýsanlegur og hafði það nokkur áhrif á keppendur. Rætt hefur verið við aðal um að staðsetja sig á síðasta horni í næsta keppnishlaupi og spretta af stað þegar sést í Glamúr því hann getur ekki gefið í nema að aðal sé 2-300m fyrir framan hann, vegna vindkljúfandi áhrifanna. Þetta mál er í skoðun.
Alls lengri 9,2 en styttri 8,6 og 7,5-K
Kveðja,
Sigrún

laugardagur, júlí 11, 2009

Ræktun lýðs og lands

Í sönnum ungmennafélagsanda var risið árla úr rekkju á laugardagsmorguninn og haldið til Akureyrar til að keppa í 10 km götuhlaupi en hlaupið var hluti af dagskrá landsmóts UMFÍ.

Við Sigurður Óli flugum norður með fyrstu vél og var strax komið blíðskaparveður nyrðra fyrir kl. 9. Hlaupið var ræst kl. 11 á íþróttasvæði Þórs á Hamarsvelli. Hlaupið var til suðurs langleiðina að flugvellinum, þar var snúið við að hlaupin svipuð leið til baka. Þetta er svipuð leið og ég hljóp i 10 km hlaupi á Akureyri fyrir allnokkrum árum, nema hvað þá byrjaði og endaði hlaupið á gamla íþróttavellinum. Nýi Þórsvöllurinn liggur reyndar talsvert hærra og kallaði þetta á hlaup upp brekku síðasta kílómetrann sem reyndist sumum erfið.

Þegar hlaupið fór fram var komin nokkur hafgola að norðan. Þetta kom sér mjög vel fyrri hlutann en dró úr mönnum á bakaleiðinni inn í bæinn. Okkur Sigga gekk ágætlega, hann hljóp á 47:34 og bætti sig verulega. Ég hljóp á 45:54 sem er heldur lakara en í Miðnæturhlaupinu um daginn en vel ásættanlegt miðað við aðstæður.

Það var ágætis stemning eftir hlaupið, fólk að koma í mark í heilu og hálfu maraþoni á svipuðum tíma og við (ræst var á mismunandi tíma í þessum hlaupum) auk þess sem verið var að keppa í frjálsum á landsmótinu. Við sáum m.a. Kára Stein hlaupa 5 km á braut á innan við 14:56 sem mig grunar að sé besti tími í 5 k sem hlaupinn hefur verið hér á landi.

Þetta var skemmtilegt hlaup í frábæru veðri og gaman að upplifa sannan ungmennafélagsanda í leiðinni.

Íslandi allt !

Jens

föstudagur, júlí 10, 2009

Hádegisæfing 10. júlí

Fremur fámennt á æfingu í dag í miklu blíðviðri. Þeim fjórum sem þó mættu tókst engu að síður að farast á mis og var hlaupið í tveim tveggja manna hópum. Fjölnir og Huld fóru hefðbundna Hofsvallagötu en Bryndís og Harpa Suðurgötu. Farið var fremur rólega yfir og veðurblíðu notið.

Kv. Huld

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Hádegisæfing 9.júlí

Vorum þrjú heljarmenni sem sigruðumst á freistingunum og slepptum útigrillinu í hádeginu. Það voru Kalli "coolmaster", Sigurgeir "svaðalegi" og undirritaður. Í fjarveru allra helstu kanónanna var ákveðið að breyta út af vananum, taka sénsa í lífinu - þ.e. "living on the edge!" og hlaupa bæjarrúnt á fimmtudegi. Coolmasterinn og sá svaðalegi hlupu þetta létt en Steypireyðurinn blés eins og Moby Dick. Það er hinsvegar gott til þess að vita að það er hægt að vinna sig upp úr líkamlegu gjaldþroti á skömmum tíma ef viljinn er fyrir hendi. Það er hinsvegar erfiðara ef gjaldþrotið er efnahagslegt.
Góðar stundir.
Bjútíið.

mánudagur, júlí 06, 2009

Hádegisæfing 6. júlí

Mættir: Glamúr, JGGnarr, Bjútí og Fjölnir.
Það voru tvær rólegar leiðir í boði: Suðurgata og Hofsvallagata. Einn fór suður og aðrir hofs.
Umræðuefnið á leiðinni voru kaup og sölur í enska boltanum.

Kv. Sigurgeir

föstudagur, júlí 03, 2009

Hádegisæfing - 3. júlí

Lengi er von á einum.

Mættir : Dagur, Ása, Sveinbjörn (á eigin vegum)

Ég hugsaði strax að nú væri tækifæri til að fara rólegan bæjarrúnt í fríðu föruneyti - en nei. Haldiði ekki að stúlkuskjátan hafi grátbeðið um kolkrabbann, hafði aldrei prófað og langaði þvílíkt.

Tókum kolkrabbann og stóðu hún sig með eindæmum vel, tók fantavel á, stynjandi og kveinandi eftir hvern sprett.

1375m á 6:09
428m á 2:08
475m á 2:15
721m á 3:25

Geriði betur!

Kveðja,
Dagur

fimmtudagur, júlí 02, 2009

Hádegisæfing 2. júlí

Mættir: Bogi, Dagur, Kalli og Sigrún. Fórum ofurrólegan miðbæjarrúnt í ódeildarskiptri æfingu. Bogi hljóp sitt fyrsta yfir 6 km hlaup og er greinilega kominn til að vera. Fámennt verður á næstunni á æfingum en félagsmenn eru eindregið hvattir til að stunda æfingar, heima eða að heiman og skrá þær samviskusamlega.
Alls 7,7 -K
Kveðja.
Sigrún

miðvikudagur, júlí 01, 2009

Á Norðurlandi

Ég er búinn að skrá mig í tvö hlaup fyrir norðan í júlí: Landsmótshlaup UMFÍ 11. júní (10k) og Jökulsárhlaup, frá Dettifossi niður í Ásbyrgi (33k), þann 25. júlí. Ég veit að Siggi Óli ætlar að hlaupa 10k á Akureyri, ef einhverjir fleiri verða þarna á ferðinni, endilega látið mig vita.
Kveðja, Jens

Hádegisæfing 1. júlí

Engin ástæða til að hanga í meðalmennsku alla vikuna: Kalli, Dagur, Bryndís, Guðni og Sigrún. Bryndís fór Hofsvallagötu á tempói en hinir fóru Kaplaskjól með 5 sprettvaríöntum sem ég treysti á að sérlegur tilsjónarmaður tölulegra upplýsinga komi fram með. Gengu þeir út á að GI og DE áttu að reyna að ná froskinum og prinsessunni, og fóru til þess arna alltaf aðeins lengri leið.
Dagur og Guðni fóru 10-K en hin tvö 8,9-K.
Kveðja,
Sigrún