laugardagur, júlí 11, 2009

Ræktun lýðs og lands

Í sönnum ungmennafélagsanda var risið árla úr rekkju á laugardagsmorguninn og haldið til Akureyrar til að keppa í 10 km götuhlaupi en hlaupið var hluti af dagskrá landsmóts UMFÍ.

Við Sigurður Óli flugum norður með fyrstu vél og var strax komið blíðskaparveður nyrðra fyrir kl. 9. Hlaupið var ræst kl. 11 á íþróttasvæði Þórs á Hamarsvelli. Hlaupið var til suðurs langleiðina að flugvellinum, þar var snúið við að hlaupin svipuð leið til baka. Þetta er svipuð leið og ég hljóp i 10 km hlaupi á Akureyri fyrir allnokkrum árum, nema hvað þá byrjaði og endaði hlaupið á gamla íþróttavellinum. Nýi Þórsvöllurinn liggur reyndar talsvert hærra og kallaði þetta á hlaup upp brekku síðasta kílómetrann sem reyndist sumum erfið.

Þegar hlaupið fór fram var komin nokkur hafgola að norðan. Þetta kom sér mjög vel fyrri hlutann en dró úr mönnum á bakaleiðinni inn í bæinn. Okkur Sigga gekk ágætlega, hann hljóp á 47:34 og bætti sig verulega. Ég hljóp á 45:54 sem er heldur lakara en í Miðnæturhlaupinu um daginn en vel ásættanlegt miðað við aðstæður.

Það var ágætis stemning eftir hlaupið, fólk að koma í mark í heilu og hálfu maraþoni á svipuðum tíma og við (ræst var á mismunandi tíma í þessum hlaupum) auk þess sem verið var að keppa í frjálsum á landsmótinu. Við sáum m.a. Kára Stein hlaupa 5 km á braut á innan við 14:56 sem mig grunar að sé besti tími í 5 k sem hlaupinn hefur verið hér á landi.

Þetta var skemmtilegt hlaup í frábæru veðri og gaman að upplifa sannan ungmennafélagsanda í leiðinni.

Íslandi allt !

Jens

Engin ummæli: