föstudagur, nóvember 29, 2013

Þeir mæta sem þora...

Mættir: Inga, Dagur og Sigurgeir

Það er föstudagur og þá vita allir hvað var í boði! Ef ekki þá er komin tími á að þú mætir á æfingar...

Kv. Sigurgeir

fimmtudagur, nóvember 28, 2013

Fimmtudagur 28. nóv - Þrjú á palli

Já, Þrjú á palli mættu í dag við góðar undirtektir.  Flugvallarhringur þar sem Dagur og Oddgeir vildu ólmir ná 10 km og það á góðu tempói.  Huld var líka í stuði og bauðst til að vera hérinn.  Óli stjórnarmaður kom síðan askvaðandi úr gagnstæðri átt á móti hópnum við Skerjafjörðinn.  Ekki sást meira til hans eftir það.

Planki tekinn í lokin, sem Huld rústaði.

þriðjudagur, nóvember 26, 2013

Þriðjudagur 26. nóv - "...ef ég nenni..."

Sá er þetta ritar er sá eini, að því er virðist, sem sá ástæðu til að mæta í hádeginu í dag.  Tempóhlaup í skóginum við kjöraðstæður, alls 8 km.

Sigrún síams kom svo í lokin og tók plankann með þeim er þetta ritar.

mánudagur, nóvember 25, 2013

Mánudagur 25. nóv - Tíminn er afstæður

Tímaskyn hlaupara var með lakara móti í dag.  Huld og Oddgeir voru þau einu sem tókst að fara á réttum tíma.  Aðrir fóru of snemma, sumir allt of snemma, þ.á.m. Sigurgeir og nýðliði af nafni Fjölnir (þetta nafn hljómar þó kunnulega), Ívar, formannsefnið Óli og Þórdís nýrri.

Flestir hlupu ca. 7-8 km að talið er.

föstudagur, nóvember 22, 2013

Föstudagur 22. nóv - Komdu sæll Jónas!

Mætt í dag: Sigrún og Huld (síamssystur), Sigurgeir, Oddgeir og Sæli (sem fór á undan og sást ekki meir).

Bæjarrúntur.  Við Klambratún birtist Dagur skyndilega úr ormagöngum og bættist í hópinn.  Tíðindalaust uns menn nálguðust Hljómskálagarðinn.  Þá kom "Jónas" yfir karlpeninginn, þ.e. löngun til að spretta hringinn við Hljómskálagarð sem endar við styttuna á Jónasi Hallgrímssyni.  Kvenfólkið horfði á aðfarirnar.  Létt skokk að höfuðstöðvum að "Jónasi" loknum.  Rúmlega 8 km.  Plankinn tekinn í lokinn.  Huld reyndist öflugust að þessu sinni.

Aðalfundur og árshátíð skokkklúbbsins - Uppgjör

Hér að neðan fer fram uppgjör á aðalfundi og árshátíð skokkklúbbsins, haldin laugardaginn 9. nóvember. Lögmenn skokkklúbbsins hafa lúslesið textann og telja litlar líkur á meiðyrðamálum í kjölfar birtingar. Er það ein aðalástæða þess að birting uppgjörsins hefur tafist.

Aðalfundurinn
Það er óhætt að segja að nokkurrar hrútalyktar hafi gætt í Þingsal 9 þegar aðalfundur Skokkklúbbs Icelandair fór fram sl. laugardag.  Aðalfundarstörf hófust um klukkan 1230. Alls mættu 7 manns, allt hrútar, á fundinn og taldist hann því löglegur.  Gerð var tillaga um að Ársæll yrði skipaður fundarstjóri og var það samþykkt einróma.  Að því loknu hófust hefðbundin aðalfundarstörf og brá ritari stjórnar sér um stundarsakir í líki fráfarandi formanns er hann flutti skýrslu formanns.  Að því loknu fór gjaldkeri stjórnar yfir ársreikninginn.  Fjárhagsstaða klúbbsins telst vel viðunandi um þessar mundir, enda mikillar ráðdeildar og útstjórnarsemi gætt í hvívetna.  Næsta mál á dagskrá var kjör stjórnar.  Tveir af þremur stjórnarmönnum buðu sig fram til áframhaldandi starfa.  Því var ljóst að kjósa þyrfti um einn nýjan stjórnarmann.  Að lokum fór svo að Óli var kjörinn í stjórn skokkklúbbsins.
Þá var komið að lagabreytingum.  Gjaldkeri stjórnar hugðist leggja fram róttækar lagabreytingar.  Eftir töluverða umræðu, m.a. um núverandi lög klúbbsins, sem að margra mati eru ófullnægjandi, féllst hann á að draga breytingatillögu sína til baka.  Það gerði hann í trausti þess að ný stjórn fari í gagngera endurskoðun á núverandi lögum klúbbsins með það að markmiði að gera þau hnitmiðaðri, en á sama tíma einfaldari, en nú er.  Þá gerði einn fundarmanna sig líklegan til þess að bera fram enn róttækari tillögu en gjaldkerinn.  Við nánari athugun kom í ljós að sú tillaga var ekki talin fullnægja lágmarkskröfu um framsetningu lagabreytinga og taldi fundarstjóri því eðlilegra að hún ætti heima undir liðnum önnur mál.  Féllst viðkomandi fundarmaður á þá röksemdafærslu.
Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt en þó var þungamiðjan í umræðunni tilgangur og markmið skokkklúbbsins og vissar áhyggjur af lítilli nýliðun.
Aðalfundi lauk um klukkan 1415.

Árshátíðin

Það var tuttugu manna hópur sem mætti á árshátíðina um kvöldið.  Fór hún fram í sal STAFF í Síðumúla.  Gerðu menn sér þar glatt kvöld, brögðuðu á góðum mat, drukku mjöð og hlýddu á félagsmenn segja frá afrekum á árinu sem er að líða.  Þá voru dansatriðin af dýrari gerðinni.  T.d. sáust ítrekuð skrens eftir dansgólfinu undir taktfastri tónlist Billy Idols og skrykkdans/snúningar á bakinu (með tilheyrandi svima og árekstrum á innréttingar staðarins þegar dansarinn stóð upp).  Þá má ekki gleyma þætti DJ Ívars sem grúfði sig yfir plötuspilarann á sama tíma og hann sinnti hlutverki barþjóns.  Eftirpartí fór svo fram í hverfi broddborgara Reykjavíkur.
 

miðvikudagur, nóvember 20, 2013

Miðvikudagur 20. nóv - Plankastrekkjarar

Alls mættu fjórir allsgáðir hlauparar í dag.

Ársæll var undanfari, athugaði færið.  Dagur, Huld og Oddgeir fylgdu í kjölsogi hans.  Flugvallarhringur annaðhvort um Hofsvallagötu eða Meistaravelli.

Að hlaupi loknu var komið að plankastrekkjaranum.  Er nokkuð ljóst að klúbburinn á upprennandi heimsmeistara í plankastrekki í honum Ársæli.  Þvílík frammistaða!

Talandi um plankastrekkjara......smellið hér

þriðjudagur, nóvember 19, 2013

Þriðjudagur 19. nóv - Hvar er WC-ið?

Fáir treystu sér út í dag.  Þó mættu Síamssystur og Oddgeir.

Ákveðið að fara flugvallarhring, réttsælis.  Eftir u.þ.b. 1 km varð Síamssystrum svo brátt í brók að þær þurftu að bregða sér á WC í HR.  Spurðist ekki meir til þeirra eftir það.  Oddgeir tók hins vegar fyrrnefndan flugvallarhring í nefið.  Sléttir 8 km.

mánudagur, nóvember 18, 2013

Mánudagur 18. nóv - Tær vetrar snilld

Mætt í dag á mismunandi tíma en öll á guðs vegum voru: Dagur, Sigurgeir, Huld, Oddgeir, Þórdís, Sæli og Ívar.  Frábært vetrarveður, tært loft, snjór og falleg birta.

Dagur, Sigurgeir, Huld og Oddgeir fóru flugvallahring í lengri kantinum og enduðu í 10 km.  Þórdís og Sæli hurfu inn í skóg og Ívar var seinn fyrir og fór því sér.

laugardagur, nóvember 16, 2013

Lög og markmið Icelandair Athletics Club

Lög og markmið Icelandair Athletics Club voru borin upp og samþykkt síðasta aðalfundi, haldinn 16. nóvember 2013. Engar breytingar voru gerðar að þessu sinni.  Sjá gildandi lög og markmið hér að neðan:





Tilgangur
Tilgangur klúbbsins er að vera vettvangur fyrir þá félaga í STAFF sem hafa ánægju af allri hreyfingu til heilsubótar.

Markmið
Markmið klúbbsins er að veita félagsmönnum sínum fjölbreytt tækifæri og félagsskap til að stunda hreyfingu. Klúbburinn skal þannig vera í fararbroddi innan samstæðunnar við skipulagningu og með hvatningu til þátttöku í hvers kyns atburðum sem stuðla að hreyfingu.

Lög félagsins

1. Klúbburinn heitir Icelandair Athletics Club, starfar undir merkjum STAFF og er opinn öllum félagsmönnum STAFF.

2. Í stjórn sitja 3 félagsmenn.  Stjórnin skiptir með sér verkum.  Aðalfundur kýs með sér skoðunarmann reikninga.

3. Ný stjórn leggur fram framkvæmdaáætlun fyrir komandi starfsár eigi síðar en fyrsta janúar.

4. Ný stjórn ræður framkvæmdastjóra almenningshlaupsins sem haldið skal í maí.

5. Félagsmenn greiða árgjald til að standa undir rekstrarkostnaði klúbbsins. Stjórnin ákveður árgjald hverju sinni.

6. Klúbburinn stendur fyrir skipulögðum æfingum af einhverju tagi.

7. Klúbburinn stendur fyrir almenningshlaupi fyrsta fimmtudag í maí. Stjórn klúbbsins er heimilt að færa þessa dagsetningu til.

8. Klúbburinn skipuleggur þátttöku í keppnum ár hvert í samræmi við áhuga félagsmanna.

9. Starfsári klúbbsins lýkur með lokahófi sem haldið er í október eða nóvember ár hvert. Lokahófið er jafnframt aðalfundur klúbbsins.
 
Til aðalfundar skal boða með að minnsta kosti 2ja vikna fyrirvara. Boðun aðalfundar skal fara fram á bloggsíðu klúbbsins og/eða með tölvupósti á skráða félagsmenn. Aðalfundur telst löglegur mæti, hvort sem meira er:

a)    Að minnsta kosti 5 atkvæðisbærra félagsmanna, eða
b)    að minnsta kosti 5% atkvæðisbærra félagsmanna 

Atkvæðisbærir félagsmenn á aðalfundi eru þeir sem skráðir eru í klúbbinn á hádegi, daginn fyrir aðalfund og hafa greitt árgjald þess árs. Við atkvæðagreiðslu á tillögum að breytingum á lögum og markmiðum klúbbsins skal aukinn meirihluti greiddra atkvæða ráða niðurstöðu. Aukinn meirihluti telst að minnsta kosti 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hjáseta telst ekki til greiddra atkvæða.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

a)    Skýrsla formanns um afrek liðins starfsárs
b)    Yfirferð gjaldkera á ársreikningi klúbbsins og hann borinn upp til samþykktar
c)    Tillögur um breytingar á lögum og markmiðum klúbbsins
d)    Kosning stjórnar
e)    Kosning skoðunarmanns
f)     Önnur mál

Tillögur að lagabreytingum skulu berast stjórn með sannanlegum hætti eigi síðar en á hádegi, daginn fyrir aðalfund.

10. Tilgangur félagsins, markmið og lög þess skulu borin upp á aðalfundi félagsins til samþykktar, með eða án breytinga.


föstudagur, nóvember 15, 2013

Vesalingarnir mæta ekki!

Naglarnir sem mættu á svæðið í dag voru Óli (King for a week), Inga og Sigurgeir.

Eins og svo oft á föstudögum þá var miðbærinn fyrir valinu. Við tókum þá djörfu ákvörðun að breyta leiðinni aðeins til að fá smá tilbreytingu í þetta og virkaði þessi nýja leið líka svona rosalega vel.

Á morgun er aðalfundur og árshátíð...PARTY

Aðalfundurinn
Aðalfundurinn verður haldinn á Hótel Natura (Hótel Loftleiðum).  Við ætlum fyrst að taka létta æfingu og verður lagt af stað klukkan 1108 frá hótelinu.  Munið að taka með ykkur handklæði.  Aðalfundurinn hefst svo að æfingu lokinni.  Léttar veitingar verða í boði.

Árshátíðin
Árshátíðin fer fram í Stélinu, sal STAFF í Síðumúla 11, og hefst hún klukkan 20 og mun standa fram eftir kvöldi.  Í boði verða veitingar í föstu og fljótandi formi.  Makar félagsmanna eru velkomnir.  Enginn aðgangseyrir er að árshátíðinni. Mæta svo og tjútta dálítið!!


Kv. Geiri CK

fimmtudagur, nóvember 14, 2013

Hver er þessi Sigrún???

Mættir: Óli, Huld og Geiri CK

Þegar það var orðið ljóst að Sigrún mætti ekki þá fórum við bara af stað. Fórum yfir í Kópavog í leit að skjóli en líklega var bara meira rok þar enda HK-hverfið sem við fórum í gegnum!

Allir spenntir fyrir Árshátíðinni og líklegt að Sigrún verði á staðnum.

Kv. Geiri CK

þriðjudagur, nóvember 12, 2013

Hverjir ætla að mæta á árshátíðina?

Skráið nafn ykkar í "ummælakerfið" hér að neðan og takið fram ef makinn kemur með.

Vinsamlegast skráið ykkur fyrir klukkan 12 á fimmtudag.

Koma svo!!


mánudagur, nóvember 11, 2013

ASCA í Madrid - Ferðasaga og myndir

Eins og við var að búast var það föngulegur hópur sem hélt af stað í ASCA ferð sl. föstudagsmorgun.  Flogið var til Madrídar í gegnum London og gekk það ferðalag að mestu áfallalaust fyrir sig.  Að vísu misstu nokkrir liðsmenn af vélinni sinni milli London og Madrídar vegna grunsamlegra hluta sem fundust við gegnumlýsingu á farangri þeirra við öryggisleit í London.  Til að fyrirbyggja allan misskilning þá fundust engin ólögleg fæðubótarefni í farangri okkar fólks, enda málið allt einn stór misskilningur!

Menn og konur urðu að rísa árla úr rekkju á laugardasmorgun þar sem hlaupið var ræst klukkan 10.  Voru fæstir Madrídarbúar komnir á stjá um það leyti.  Hlaupið var í San Blas garðinum í austurhluta borgarinnar.  Brautin í garðinum var 1,2 km að lengd og hlupu konur 4 hringi, alls 4,8 km, og karlar 7 hringi, alls 8,4 km.  Ræst var í karla- og kvennaflokki á sama tíma.  Okkar fólk reyndi sitt ítrasta en átti við ofurefli að etja að þessu sinni í formi klónaðra þríþrautargyðja frá Austrian (konur) og sólbrúnna hráskinkuhnakka frá Iberia (karlar).  Fór svo að kvenna- og karlalið Icelandair lentu bæði í 2. sæti í liðakeppninni.
Liðaúrslit:

Konur:
1)      Austrian
2)      Icelandair
3)      Sameinað úrvalslið SAS, Iberia og Austrian
Karlar:
1)      Iberia
2)      Icelandair
3)      SAS
4)      Lufthansa (DNQ)
Að málsverði og verðlaunaafhendingu lokinni hélt hópurinn á vit ævintýranna í miðborg Madrídar.  Heimför á sunnudegi gekk síðan vel ef frá er talin nokkur bið í flugvélinni eftir lendingu í KEF þar sem ekki var hægt að koma landgangi að vegna slæms veðurs.

Hér að neðan fylgja nokkrar myndir úr ferðinni.
 

Liðsmynd með hinum goðsagnakennda Paco

 
 
Verðlaunaafhending kvenna
 
 
 
Verðlaunaafhending karla
 
 

Bragðað á lystisemdum Madrídar

 
 
Báðir með dælulykilinn.  Þjónar eru óþarfir á svona stað!
 

Mánudagur 11. nóv - Í skóginum hljóp hlaupari einn.....

.....það var Oddur nýliði.

Síamskettirnir og Ingunn komu svo og hughreystu hann við höfuðstöðvarnar.  Rúmlega 7 km.


föstudagur, nóvember 08, 2013

Föstudagur 8.nóv

Mættir: Dagur, Fjölnir, Hilmar og Inga.
Hlaupið um Hofsvallagötu og Suðurgötu eftir smekk og "nennu" hvers og eins.

Baráttukveðjur til Madrid!

fþá

miðvikudagur, nóvember 06, 2013

Skógarhlaup 6.nóv

Margt um manninn í dag en dreifing hlaupara yfir meðallagi. Dagur, Ívar og Fjölnir ákváðu að halda í skóginn vegna næðings vindar og þar urðu á vegi okkar; Óli á heimleið, Þórdís sem var dreginn í hópinn en hvarf svo sjónum okkar, Ingunn á hlaupum og Jói á göngu. Á lokasprettinum við hótel hittum við svo Önnu Dís og Gróu. Samtals 8,3 km.

fþá

þriðjudagur, nóvember 05, 2013

Þriðjudagur 5. nóv - Nýr félagsmaður er eldri en tvívetra

Mætt í dag voru Síamskettirnir tveir, maraþonbræður, Oddur og nýr félagsmaður, Arnar Benjamín Ingólfsson.  Réttsælis hringur um flugvöllinn þar sem karlar lengdu aðeins í, fóru um Kaplaskjól í stað Hofsvallagötu.  Kvenþjóðin fór um Hofsvallagötu.  All mikið fart á karlpeningi á seinni stigum æfingar, þar sem Dagur færðist allur í aukana er hann áttaði sig á því að nýji félagsmaðurinn væri eldri en tvívetra í hlaupunum.

Karlar tæplega 10 km.  Konur aðeins minna.