föstudagur, febrúar 27, 2009

Hádegisæfing 27. febrúar

Mættir: Sveinbjörn, Dagur og Sigurgeir.
Sveinbjörn fór Suðurgötu, Dagur og undirritaður Hofsvallargötu. Átti að vera rólegt fös.hlaup sem endaði reyndar með að við fórum avg. 4:45 sem er kannski rólegt hjá sumum en ekki öllum ;o)

Total 8,72 km

Kv. Sigurgeir

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Hádegisæfing 25. febrúar - Sjósund - Hitastig 4°C

Ekki verður annað hægt að segja en að það hafi verið kjöraðstæður til sjósunds í dag. Þeir sem nutu veðurblíðu og sunds vóru: Dagur og Björgvin frá karlalandsliðinu og Huld, Anna Dís og Sigrún úr kvennalandsliðinu. Skokkuðum með okkar handklæði og aukabúnað (skór eru nauðsyn eða a.m.k. sjóbaðssokkar úr Europris) til Nauthólsvíkur þar sem fjöldi sjósundsiðkenda var við leik. Eftir baðið gengum við til heitrar kerlaugar og nutum góðrar samveru. Síðan var skokkað heim á hótel og allir gengu glaðir til sinna verka. Sveinbjörn var við séræfingar en var svo elskulegur að festa hópinn á mynd, fyrir og eftir. Ath. á eftir myndinni vantar Sigrúnu en hún sást ekki v. kulda því filman hjá Sveppa var ekki nema 200 ASA. Ástæða þykir að nefna við aðra félaga hópsins að ekki er til betri vellíðan en einmitt eftir sjósund, líkt og svifið sé á dúnmjúku ullarteppi inn í algleymið. Ekki er hægt að fara fram á meira í þessu samhengi. Allir eru því hvattir og skoraðir á hólm í næsta sjósund, í lok marsmánaðar.
Góðar stundir.
Aðalritari í alsælu


















þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Hádegisæfing 24. febrúar

Rólegur og fámennur þriðjudagur. Mætt voru Björgvin, Sveinbjörn, Sigurgeir og Huld. Ekki voru fleiri í augsýn en ef aðrir hafa mætt eru viðkomandi vinsamlegast beðnir að vekja athygli á því nú þegar. Ákveðið var að nýta fjarveru helstu kvalara hópsins og fara Suðurgötuhring á spjallhraða, líklega um 7,5 km. Minni á mánaðarlegt sjósund á morgun. Búningar eru leyfðir en sundföt e.t.v. heppilegasti búnaðurinn.

Kv. Huld

mánudagur, febrúar 23, 2009

Hádegisæfing 23. febrúar

Mættir í fínasta vorveðri voru: Höskuldur, Dagur, Guðni, Sigurgeir, Björgvin, Huld, Jói á sérleið, Sveinbjörn að hluta til líka og Sigrún. Einnig sást til Ingunnar er hún gekk til baðklefa til að búast til séræfinga. Ég veit ekki hvort áhrifa konudagsins gætti ennþá hjá hópnum en aðalritari hafði fastlega gert ráð fyrir kolkrabbanum í dag í stað kellingalegrar tempóæfingar, sem varð ofaná. Sveinbjörn fór Suðurgötu ásamt markmanninum að austan en Sigrún fór Kaplaskjól stutt á meðan Huld fór langt og strákarnir fóru ýmsa króka; Meistaravelli, blaðburð m.m. og enduðu allir hjá kafara. Huld var á maraþonpace, enda augljóst að enginn vandi er að halda svona tempói í 3 tíma og rúmar 12 mínútur. Strákarnir voru á morðóða blóðhundahraðanum en aðalritari á sínum hraða í samstarfi við Hjartaheill. Skokkað var létt heim á hótel og rætt að fyrirhugað sjósund á miðvikudag virðist eitthvað í uppnámi, Dagur er að fara í saumó, Kalli í ljós, Sigurgeir er með öskupokauppboð í Cargo, Guðni þorir ekki, Bjöggi má það ekki, Hössi heldur að hann verði slappur, Óli er að fara að taka ljósbleika beltið, þannig að allt útlit er fyrir því að einungis strandvarðarskvísurnar með gula taglið mæti og beri merki hópsins. Eftir æfingu fóru strákarnir beint á vikt, enda opinber bolludagur í dag.
Alls um 9,6 hjá lengri
Kveðja,
Sigrún

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Einföld áætlun til árangurs í þjálfun

Höskuldur bendir á þessa góðu grein af hlaup.is sem vert er að gefa gaum.
Kveðja.
Aðalritari

föstudagur, febrúar 20, 2009

Freaky Friday 20. feb.

"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur" og þessvegna mætti aðalritari ásamt hlaupafélögum sínum á sína 9. æfingu í röð en hinir vóru: Dagur, Guðni, Hössi, Sigurgeir, Sveinbjörn og Jói , sem voru að mestu í sérprógrammi. Ætlunin var að Guðni sýndi okkur nýjar slóðir í vesturbæ og leysti hann verkefnið með sóma, en fæst okkar höfðu komið í þessar götur, allavega ekki allsgáð. Fórum vestureftir frá hóteli, framhjá Þjóðarbókhlöðu, Reynimel (vestan Hofsvallagötu), Álagranda, Lágholtsveg og fleira, síðan Seljaveg, miðbæ, ***ritskoðað og heim. Á leiðinni gerðist sá óvænti og um margt hroðalegi atburður að við urðum í tvígang fórnarlömb óviðurkvæmilegs athæfis ungs manns sem í barnaskap sínum beraði bakhluta sinn (afar illa skeindan) út um afturglugga fólksbíls og særði með því móti blygðunarkennd, a.m.k. einhverra úr hópnum. Óhroðinn var á því menningarstigi að ekki var annað hægt en að gefa athæfinu falleinkunn og krefjast skeiningar af lögreglu. Ráðaleysi félagsmanna var þó algert í slíku erindi og jafnvel í seinna skiptið, þega full tök voru á því að hripa niður bílnúmer, hljóp hópurinn fram á viðbjóðinn án aðgerða. Sumir innan hóps fóru jafnvel fram á jafnrétti í þessum efnum en svona heimskulegar aðferðir við að vekja á sér athygli eru auðvitað einungis bundnar við karlkynið, því kvenlíkaminn, eins og allir vita, er einungis útbúinn fagurlega skreyttum demöntum sem gleðja geð guma í hvívetna og henta því vitaskuld ekki í svona uppákomum.
Góða helgi,
Alls 8,885K I see you baby...
Kveðja,
Sigrún

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Hádegisæfing 19. febrúar



Mættir í dag: Jói og Óli fóru sér, Björgvin, Sveinbjörn, Gnarr, Sigurgeir, Guðni, Dagur, Huld og Sigrún. Meiningin var að taka rólega æfingu, vegna fjölda áskorana, og leit út fyrir að það myndi rætast ágætlega. Hinsvegar náði Dagur að hræða minnstu sálirnar (aðalritara og hr. Bernaise) þegar hann dró línu og sagði kunnuglega:"Jæja, hér er línan-þið þekkið þetta..." Sæll, gat manni brugðið aðeins meira? Þetta reyndist hinsvegar vera vinnustaðahrekkur og héldum við áfram göngu okkar til góðs í samvinnu við Hjartaheill í gegnum skóg inn í Fossvog og þaðan tilbaka í Öskjuhlíð og heim. Sjaldan hefur jafnrólega verið farið yfir og í dag en á morgun, fríkaða Frjádaginn verður eitthvað aðeins spýtt í lófana. Strákarnir fóru síðan á fund vigtunarráðgjafa eftir hlaupið en nokkrum var ráðlagt að leita á náðir hafnarvogar Reykjavíkuborgar.

Alls 7,10K

Kveðja,

Sigrún

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

No Whining Wednesday 18. feb.

Loforð um rólegan dag rann strax út í sandinn er brúðguminn mætti galvaskur á höfuðstöðvarnar. Þá var ljóst að ekki yrði neinum kápan úr því klæðinu. Fórnarlömb dgsins voru því: Jón Gnarr, Geiri Bernaise, Fjölnir, Erlendur, Björgvin, Guðni, Dagur, Höskuldur, Huld og Sigrún. Á eigin vegum voru Jói og Ingunn. Gengið var til góðs í upphitun inn í skóg og að lokum staðnæmst við upphaf blá stígs við rásmark. Fórum 3 svoleiðis hringi í interval starti þarsem maður átti að ná eins mörgum og frekast væri unnt, ellegar lúta í gras. Þetta gekk vel framan af en tvær blöðrur sprungu þó á síðasta hring, enda óvanar hringavitleysu. Gubbað var víðast hvar á leiðinni. Eftir þetta sá maður sæng og kodda í hillingum en allt kom fyrir ekki, þjálfarinn var hálfber sökum vanbúnaðar og vildi þessvegna hlaupa meira hratt. Fórum því sem leið lá upp ASCA brekku á Sigrúnar-hraða (virtist nú henta fleirum) og að steini þar sem "simulatorinn" var tekinn í botni. Þetta var gert til þess að Gnarrinn gæti með sýnidæmi kennt þjálfaranum á aðferðina "how to reach speed upphill and maintain it". Þetta reyndist brúðgumanum létt verk og er hann því ótvíræður brekkubani þótt erfitt sé að viðurkenna það. Eftir þetta var nú gott að á um stund og en jafnhendis var allt sett í botn á nýjan leik á síðasta kafla steypta stígsins, neðan Öskjuhlíðar, þarsem Fjölnir fór fyrir hópnum í hraðaaukningu.
Aðalritari vill því nota tækifærið og þakka fyrir 3 gæðaæfingar í röð í vikunni.
Lifið heil.
Alls 7,4K
Þetta lag passar best við æfingu dagsins. Draumurinn um rólegan dag er úti, það er ljóst.

þriðjudagur, febrúar 17, 2009

Hádegisæfing 17. febrúar


Mættir á pinnan kl. 12:08 í rigningarsudda og hvassviðri: Sveinbjörn, Höskuldur, Dagur, Guðni *****, Óli prik og Sigrún. Fórum skv. dagsskipan yfirliðsforingja rakleiðis inn í kirkjugarð til að taka æfinguna "dauðir rísa", eða "dead men walking" við gríðarlegan fögnuð viðstaddra. Ekki mundi einn undirliðsforingjanna hvort síðast hefðu verið teknir 5 eða 6 brekkusprettir (u.þ.b. 300m hver) en aðalritari upplýsti fúslega að þeir hefðu verið 6. Niðurskokk er ca. 400m milli spretta og var þetta gert í beit og stóðu herrarnir sig bara vel, svona séð aftanfrá. Skokkuðum svo heim á hótel í gegnum skóg þarsem allur snór er nánast horfinn og iðagræn grenitré gleðja augað. Talsvert drullusvað skemmir þó aðeins fyrir m.tilliti til stíls að neðan. Miðað við það veður sem var í upphafi æfingar var gott veður á æfingunni, hvernig sem á því stendur. Höskuldur með eitt stig kvartaði þó undan því að sprettbrautin væri aðeins of stutt en ég myndi frekar segja að hann væri aðeins of lappalangur, ætti að gera eitthvað í því. Guðni skýrði frá því að skv. mælingu í blóðbankanum í gær hefði hvíldarpúls hans mælst 47 og hefði starfsfólki bankans orðið um og ó og innt hann eftir því hvort hann væri annaðhvort blóðsuga eða hlaupari. Þarna er því greinilega um stökkafbrigði tegundarinnar Homo Extinctus að ræða, sem vart er lengur finnanleg í byggðu bóli manna, sérstaklega ekki á norðurslóðum.

Alls rúmir 7K

Kveðja,

Sigrún

mánudagur, febrúar 16, 2009

Hádegisæfing 16. febrúar

Mættir í dag í vorveðri: Jói speedwalker, Sveinbjörn og Björgvin sem fóru Suðurgötuna, Hössi, Dagur, Guðni, Geiri smart, Huld og Sigrún sem fóru Kaplaskjólið langt en þeir tveir fyrstnefndu tóku blaðburðarhring aukreitis. Gott veður og autt utan strekkings á köflum. Niðurstaða Powerade úrslita hefur leitt í ljós að allmargir FI meðlimir (líka áhangendur) eru í og við verðlaunasæti í sínum flokkum, nokkrir alveg öruggir en aðrir sjóðheitir. Greinilega vel staðið að uppbyggingar og þjálfunarmálum hjá þessu félagi og mættu fleiri taka sér slíkt til fyrirmyndar. Ef einhverjir hafa gleymt því hvert megininntak persónulegrar nálgunar í þjálfun er má heyra það hér. Þetta hefur skilað hópnum mælanlegum hámarksárangri svo ekki verður um villst.

Langt ca 9,8 en styttra 9,5K
Kveðja,
Sigrún

Fjölnir ath. þér er alveg óhætt að mæta í Powerade, það er líka flokkur fyrir Subway-fíkla.

laugardagur, febrúar 14, 2009

26.02.2009 - Inni-Þríþraut í Laugum

Inniþríþraut í Laugum verður haldin fimmtudaginn 26. febrúar
Kl. 20:45 - Konur
Kl. 21:15 - Karlar
Sund: 400 m í innilaug Laugardalslaugar.
Hjól: 10 km á spinninghjóli.
Hlaup: 2,5 km á hlaupabretti, enginn halli.
Skráning er á staðnum frá kl. 19:30 eða í tölvupósti: remisp50@hotmail.com
Þátttökugjald aðeins 1000 kr.Aðgangur í Laugum er innifalinn.
Mæting í veitingasal Lauga.
Upplýsingar í síma: 840-8652 (Rémi) / 894-6365 (Jens).

föstudagur, febrúar 13, 2009

Hádegisæfing föstudaginn 13.

Alþjóðlegi babe-dagurinn var í dag og þrjár pæjur og einn dólgur mættu: Þetta voru Huld, Anna Dís og Sigrún, allar í "post-Powerade" ásamt "der Trainer", sem sá til þess að allt færi siðsamlega fram. Farin var róleg Suðurgata í pollagöllum og klofstígvélum og ekki skemmdi tvöfalda spólvörnin á skónum fyrir. Ræddum við næsta sjósund, sem fer fram síðasta opnunardag mánaðarins, eða 25. feb. Þá er gott að vera búinn að fara í selshaminn a.m.k. 1 sinni og koma með aukaskópar til að nota þegar gengið er til sjávar. (ekki sveita) Sérstaka kátínu vakti að 4 af þeim sem pöntuðu múffur og höfðu enda greitt þær að fullu á reikninginn létu ekki sjá sig, en afhending fór fram í portinu hjá flugskýlunum. Strákar, kíkið á þennan tengil til að fá að vita næsta skref.
Alls 7,6K
Annars bara allt rólegt á vestur vígstöðvum og líka á Gaza.
Góða helgi,
Sigrún

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Hádegisæfing 12. febrúar

Mættir voru Dagur, Óli, Björgvin (The Pink Plaster)

Björgvin fór út að skítaröri og tilbaka (5,8k) á meðan Óla var boðið uppá 10k tímatökuhlaup á 44mín tempói (4:24 m/km). Farið var hratt af stað undan vindi, uppí vindinn hægði aðeins á en markmiðinu var náð, lokatími 44:06. Góður árangur hjá piltinum. Endaði í 10,68k.

Kveðja, Dagur

p.s.
Vetrarhlaupið fór fram í kvöld. Jón Gunnar gekk til góðs og þurfti að horfa í hnakkann á Hössa, Guðni kom léttfættur í mark, Huld stuttu síðar. Sigurgeir nokkuð á undan föðursystir hans Fjölnis, Sigrún á mögnuðum endasprett og Anna Dís tindilfætt í kjölfarið.

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Hádegisæfing - 11. febrúar

Mættir : Dagur, Sveinbjörn, Sigfús, Jói (á eigin vegum með bólgna hásin)

Farið var Suðurgötuna í köldu veðri. Gott hefði verið að hafa með sér múffu á hlaupunum til að halda hita í kroppnum. Beðið er eftir múffusendingu ritarans með eftirvæntingu.
Sjá hér mismunandi múffur og hvernig þær eru notaðar.

Kveðja,
Dagur

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Hvar er ritarinn?

Þín er sárt saknað.
Kveðja,
Aðdáendur

laugardagur, febrúar 07, 2009

Hádegisæfing 6. feb.

Mættum fríður flokkur í dag í frosti : Birna og Björg Stefanía úr flugdeild sem voru á sérleið, Ingunn á eigin vegum og restin: Kalli, Dagur, Guðni, Sigrún og Fjölnir sem fór á skjön við okkur en sameinaðist á bakaleið. Farin var Kapla short og strákar Kapla long með tvisti og blaðburði og var m.p. leiðar tempóhlaup, alveg óvænt. Allir strákarnir ætla að fá sér múffu v. fyrsta tækifæri, að sögn.
Allt um 9,4 og 9,7
Kveðja,
Sigrún

fimmtudagur, febrúar 05, 2009

Hádegisæfing 5. feb.

Mættir á meistaraflokkssæfingu í dag: S.geir, J. Gnarr, D'gur, HUK og SBN. Í nánast alkuli
(-273,15°C ) fórum við Kaplaskjólið short með Sörlaskjóli sem tvisti og á heimleið Ægisíðu og hefbundið heim á hótel. Fallegt veður en Kári beit í vit og hlaupið var á þægilegu strákatempói. Umræðuefni dagsins var á mjög háu plani enda ekki nema von, allt fyrir ofan mitti var gaddfreðið og því einungis neðanbeltisumræða í gangi. Miklar vangaveltur voru um hina svokölluðu "múffu", notagildi, efnissamsetningu og hreyfanleika. Ætla þeir Geiri Smart og Hnakkinn að taka test á tækinu um helgina, þ.e. saman, og munu gera grein fyrir þeirri reynslu sinni eftir helgi. Má reikna með því að meðferðin jafnist á við gott pungspark, hið minnsta.
Alls um 9,4k
Kveðja,
Sigrún
Ath. Fjölnir komst ekki en hann stóð mótmælavakt við höfuðstövar Subway með "helvítis fokking fokk" skiltið sitt og mótmælti 6% hækkun á bát mánaðarins.

miðvikudagur, febrúar 04, 2009

Hádegisæfing 4. feb.


Í -9°C mættum við Guðni, Kalli og ég, en því miður missti Bryndís af okkur en fór sér. Hinir fóru rólegt og rómantískt vetrarhlaup frá hóteli, skógrækt, LSH (áður Borgarspítali), Efstaleiti, Kringlumýrabraut og gegnum suðurhlíðar inn í Öskjuhlíð og þaðan heim á hótel. Skítkalt en ekki amalegt með jafn myndarlega stráka sér við hlið, þótt annar sé hálfberrassaður og hinn hettuklæddur sem raðmorðingi. Drepið var á helstu þáttum samfélagsins, s.s. hækkun matarverðs, gámagramsi sem leið til sparnaðar og síðast en ekki síst greiðslustöðvun Baugs, því heyrst hefur að krafa Davíðs Oddssonar fyrir því að víkja úr Seðlabanka sé sú að Baugur verði lýstur gjaldþrota fyrst. "Allt he kurls have not come to the grave" í þeim efnum, eins og maðurinn sagði á útl"ensku". Túlki það hver á sinn hátt.
Alls tæpir 7k
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Hádegisæfing 3. febrúar

Mættir í blíðviðri afmælisbarnsins Sveinbjarnar allsherjarendurskoðanda vóru: Hann sjálfur, Jói á sérleið, Dagur, Guðni, Síams, Huld, Óli og Sigrún. Fengum það verkefni að fara Suðurgötuna en einhver vantrú og efi sveif yfir vötnum. Þegar komið var áleiðis á vesturleið syðri var ljóst að um "fartlek" væri að ræða og var fórnarlömbunum stillt upp eftir hlaupastíl, asnalegastir fyrstir og svo koll af kolli. Skiptumst á að halda uppi "okkar" hraða á völdum köflum og hinir áttu að fylgja með, svona allt að því. Endað inni í skógi í landsfrægu "interval starti" þar sem meiningin var að bestir næðu lélegustu. Þrengsl á braut og ranglega reiknað interval hindraði hinsvegar að þetta yrði að veruleika og allflestir urðu að gera sér þrönga halarófu að góðu útúr skógi. Mikil hvít birta var inni í skóginum , v. snjós og blindaði aðalritara á köflum, en það breytti engu um framvindu hlaupsins svo þess er ekki getið nánar hér. Skemmst er frá því að segja að gefið hefur verið út að á morgun, vælulausa miðvikudaginn, verði farið dúnmjúkum höndum um félagsmenn og rómantík mun ráða ríkjum eða rækjum, eftir hvernig á það er litið. Síamstvíburarnir Fjölnir og Sigurgeir eru samt eindregið hvattir til að mæta og taka út sinn lögbundna hvíldardag, enda séu þeir komnir að fótum fram af ofþreytu og ofkeyrslu undanfarinna æfinga. Þeir vildu samt koma á framfæri að þetta er uppáhaldslagið þeirra um þessar mundir.
Alls 9 k
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, febrúar 02, 2009

Mánudagur 2. febrúar

Myndin er af síamstvíburasystrunum Fjölni og Sigurgeiri.
Mánudagar eru dagar fagurra fyrirheita eins og sást á æfingu dagsins. Mættir voru: Jói, Sveinbjörn og Ingunn á sérleiðum. Dagur, Guðni, Kalli, Sigurgeir, Fjölnir, Erlendur, Huld og Sigrún. Farið vestur í bæ og tekið tempóhlaup að kafara. Hofs fóru Huld, Fjölnir, Erlendur og Sigrún en lengri útgáfuna, sumir með blaðburðarhring og fl.: Dagur, Guðni, Kalli og Sigurgeir, sem er kominn í meistaraflokk. Sigurgeir vill endilega fá sem flesta FI meðlimi í liðið sitt á hlaupadagbókinni og hvetur alla til að skrá sig í liðið. Gaman er að sjá að þær Cargo-systur eru nú farnar að æfa fyrir opnum tjöldum, en það auðveldar allt aðgengi og eftirlit með þeim stöllum.

Alls 8,6 Hofs en 9,3 og uppúr á Kapla

Kveðja,

Sigrún

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Janúar

Var að taka saman hversu mikið ég hljóp í síðasta mánuði. Mér telst til að þetta séu 16 hlaupadagar og alls 186 km. Lengsta hlaup var 20k. Ekki mikið um spretti eða gæðaæfingar en markmiðum um vegalengd náð. Hvernig gekk ykkur hinum?
Kveðja, Jens