mánudagur, febrúar 23, 2009

Hádegisæfing 23. febrúar

Mættir í fínasta vorveðri voru: Höskuldur, Dagur, Guðni, Sigurgeir, Björgvin, Huld, Jói á sérleið, Sveinbjörn að hluta til líka og Sigrún. Einnig sást til Ingunnar er hún gekk til baðklefa til að búast til séræfinga. Ég veit ekki hvort áhrifa konudagsins gætti ennþá hjá hópnum en aðalritari hafði fastlega gert ráð fyrir kolkrabbanum í dag í stað kellingalegrar tempóæfingar, sem varð ofaná. Sveinbjörn fór Suðurgötu ásamt markmanninum að austan en Sigrún fór Kaplaskjól stutt á meðan Huld fór langt og strákarnir fóru ýmsa króka; Meistaravelli, blaðburð m.m. og enduðu allir hjá kafara. Huld var á maraþonpace, enda augljóst að enginn vandi er að halda svona tempói í 3 tíma og rúmar 12 mínútur. Strákarnir voru á morðóða blóðhundahraðanum en aðalritari á sínum hraða í samstarfi við Hjartaheill. Skokkað var létt heim á hótel og rætt að fyrirhugað sjósund á miðvikudag virðist eitthvað í uppnámi, Dagur er að fara í saumó, Kalli í ljós, Sigurgeir er með öskupokauppboð í Cargo, Guðni þorir ekki, Bjöggi má það ekki, Hössi heldur að hann verði slappur, Óli er að fara að taka ljósbleika beltið, þannig að allt útlit er fyrir því að einungis strandvarðarskvísurnar með gula taglið mæti og beri merki hópsins. Eftir æfingu fóru strákarnir beint á vikt, enda opinber bolludagur í dag.
Alls um 9,6 hjá lengri
Kveðja,
Sigrún

Engin ummæli: