miðvikudagur, desember 05, 2007

Hádegisæfing - 5. desember.

Mættir í dag í ágætu veðri:
Guðni, Dagur, Höskuldur, Fjölnir, Sigurgeir, Ingunn, Sigrún og nýliðinn Björgvin Harri.
Fjórar vegalengdir voru í boði, en Ingunn tók 5 hringi í Öskjuhlíð og Björgvin Harri fór út að dælustöð og tilbaka. Héldum hin af stað frá HLL og vorum samferða áleiðis vestur í bæ. Guðni tók Suðurgötuna með Cargo-genginu þeim Fjölni og Sigurgeiri, upp á Hringbraut og þaðan beina leið heim að HLL. Dagur, Höskuldur og Sigrún héldu áfram og tóku tempóhlaup áfram vestur en eftir smá tíma var Degi farið að leiðast þófið og vildi auka hring sem hann tók Höskuld með sér í. Þeir fóru því áfram út á Kaplaskjólsveg, en Sigrún beygði upp Hofsvallagötu og hafði það meginmarkmið að láta ekki langfetana ná sér. Þeir höfðu annað í huga og sigu jafnt og þétt á bráðina. Þegar horni Flugvallarvegar við Valsheimili var náð skynjaði Sigrún að líkur væru á að hún yrði hlaupin uppi og hófst þá hinn æðisgengnasti lokasprettur. Síðustu metrana var svokölluð "all-out" tækni notuð af öllum hlutaðeigandi en allt kom fyrir ekki, langfetarnir lutu í gras. Lauk þessari skemmtilegu æfingu því á hinn farsælasta hátt og allir gengu glaðir til búningsherbergja.

Sigrún

Engin ummæli: