Það var enginn svikinn af æfingu dagsins í dag. Á eigin vegum voru Laufey og Ingunn, fulltrúar Cargo-bros en mættir í útrýmingarbúðirnar voru: Dagur, Oddgeir, Kalli, Bjöggi, Bryndís og Sigrún. Skokkuðum inn í skóginn og hituðum aðeins upp. Skipun dagsins var að hlaupa bláa stíg (nú skreyttur bleikum slaufum) "på skiftevis", eins og baunastöppurnar segja. Skiptumst á að leiða stíginn (ca. 800m) og röðin var; Sigrún, Bryndís, Bjöggi, Oddgeir, Kalli og Dagur sem öll settu sitt persónulega mark á hringina. Í síðasta hring komu þær Cargo-systur og hlupu með okkur síðasta hringinn, sem síðan endaði á æfingasvæðinu inni í skógi, þar sem lok gereyðingarinnar fóru fram með 2x10 armbeygjum og 2x20 fótlyftum. Þeir sem eftir stóðu þá (allir) fóru fetið heim á hótel, ýmist með mold, hor eða köngla hangandi á sér. Semsé "operation normal".
Æfingin var einhver sú mest hressandi sem aðalritari hefur tekið þátt í og gefur fögur fyrirheit um gott framhald.
Alls um 6K (Garmurinn datt samt út lengst inni í regnskóginum)
Kveðja,
Sigrún
Engin ummæli:
Skrifa ummæli