Það er e.t.v. við hæfi að skrifa nokkur lokaorð um ferðina til Frankfurt. Sem kunnugt er gekk hlaupið vel og brautin var ekta "cross-country" með laufhrúgum, hæðum og hólum og drullusvaði á viðeigandi stöðum. Einnig rigndi nokkuð, sérstaklega í fyrri hlutanum, þegar konurnar hlupu. Konur enduðu öruggt í 2. sæti og voru það Lufthansa vélmennin sem sigruðu og sungu á meðan "Wir sind die Roboten", með Kraftwerk. Okkar stúlkur þóttu hinsvegar bera af sökum fallegs limaburðar, frumlegra búninga og líflegrar framkomu. Þegar karlarnir spreyttu sig var að mestu hætt að rigna, en brautin var þeim mun gljúpari og þyngri. Einn af okkar frábæru liðsfélögum féll við fót á steinvölu og kom af þeim orsökum nokkuð skítugri en hinir í mark en kláraði engu að síður með miklum sóma. Karlaliðið endaði öruggt í 4. sæti þó þurft hafi að bíða til kvölds með að fá það staðfest. Það var hið fótfráa lið Iberia sem sigraði örugglega, enda flestir með spretthlaupsfætur úr Zöru á Spáni.
Eftir hlaup var hádegisverður að hætti heimamanna og sáu keppendur nú sína sæng útreidda með mat og drykk í huga. Það voru því ákveðin vonbrigði þegar í ljós kom að "chili con carne" súpan var nokkuð sérkennileg undir tönn og langþráður bjórinn, við nánari eftirgrennslan, reyndist vera "alkoholfrei" og "isotonisch" í þokkabót. Keppendur voru þó fegnir að hann var vottaður skv. Reinheitsgebot þeirra Þjóðverja. Það sem lýsti upp annars langdreginn hádegisverð var að sjálfsögðu þegar Huld Konráðsdóttir tók við verðlaunum fyrir 1. sæti kvenna "overall".
Milli hádegisverðar og kvölds liðu nokkrir klukkutímar sem voru nýttir til skoðunarferðar um borgina Frankfurt og skoðuðum m.a. meintan rómverskan vegg í fylgd eins Lufthansakeppanda, Thomas Pittack sem vildi ólmur slást í för með hinum skemmtilegu íslensku keppendum.
Eftir velheppnaðan bæjartúr, nokkra skyndibita og drykki, var haldið heim á Mercure hótel, þar sem heiðurshjónin Bryndís og Úlfar höfðu ásamt Huld undirbúið herbergispartý af miklum ágætum. Strax í kjölfarið héldum við á veitingastað hótels þar sem verðlaunakvöldverðurinn fór fram. Maturinn var góður en allt utanumhald afar langdregið og ekki til þess að hressa manskapinn og tók þá íslenska liðið til sinna ráða til að brjóta upp samkomuna. Þau Ólafur Briem og Sigrún Birna Norðfjörð fluttu írska slagarann "The Wild Rover" sem tileinkaður var Air Lingus, sem var fjarverandi sökum bágs efnahagsástands, og flutti Ólafur nokkur upphafsorð af því tilefni. Skemmst er frá því að segja að þetta atriði sló rækilega í gegn svo eftir var tekið og strax hefur verið lögð inn beiðni um að atriðið verði endurflutt í Dublin á komandi vori. Fleiri atriði eru þó til reiðu ef til þess kemur í fyllingu tímans.
Eftir þessa uppákomu leystis samkoman fljótlega upp og héldu hinir alhörðustu á nærliggjandi knæpu þar sem töluð var danska af miklum móð, af sumum a.m.k. Var það mál manna að þessi staður hefði verið "En hundeliderlig kneppekneipe" sem útleggst að sjálfsögðu sem hundleiðinleg kráarbúlla, ekki satt?
Samdóma álit allra íslensku keppendanna var að ferðin hafi verið frábær í alla staði og að nú sé liðinu ekkert að vanbúnaði við að hefja æfingar af fullum krafti fyrir næstu ferð í vor. Det glæder vi os alle sammen til, det kan man nok sige.
Virðingarfyllst,
Sigrún Birna Norðfjörð, ritari.
2 ummæli:
Kneppekneipe???
Ég vissi að það væri eitthvað dónalegt við þessa ferð.
Þýíng af netinu fyrir "Kneppe":
"det er dansk sex, dansk porno, det er dansk erotik"
Segi ekki meir....er í sjokki.
Bjútí
Takk fyrir góða ferðsögu og til hamingju öll með árangurinn stoltur af ykkur. kv/joulf
Skrifa ummæli