mánudagur, nóvember 23, 2009

Æskuslóðirnar – 23. nóvember

Mætt voru í björtu og köldu veðri Ása, Björgvin, Dagur, Alvar, Jón Örn, Jói og Sveinbjörn. Eftir að lagt var af stað reyttust skrautfjaðrirnar smám saman af hópnum uns eftir stóðu hin þrjú fyrstnefndu ásamt gestaþjálfaranum HH sem sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Langþráð tækifæri til stjórnunar var nýtt til hins ýtrasta og æskuslóðir HH heimsóttar. Hlaupið var sem leið lá í Kópavog, yfir Borgarholt, fram hjá Kópavogskirkju og Kastalagerði hvar hin íturvaxna HH ólst að nokkru leyti upp í álfasteinunum en þar voru í uppvextinum lögð drög að íðilfögrum líkamsvexti hennar með steinaburði og öðrum æfingum. Þaðan var haldið stystu leið til baka og náði æfingin 8km. Alvar, nýr meðlimur klúbbsins, sýndi úr hverju hann er gerður og rifjaði upp gamla takta. Hljóp hann með okkur að Kringlumýrarbraut, sneri þar við og náði 5km. Jón Örn hætti við að fara í gufu en fór þess í stað að dælu. Jói og Sveinbjörn pössuðu hvor annan í séræfingum í kirkjugarði og skógi og gerðu þar hinar ýmsu æfingar, að sögn. Einnig sást til Baldurs á hlaupum. Heyrst hefur að fólk hafi verið að spara sig á æfingunni til þess að koma sterkt inn á morgun þegar sprettir verða á boðstólum. Það skal þó tekið fram að æfingin á morgun er við allra hæfi og allir geta tekið þátt, hver á sínum hraða.

Kveðja, HH

Engin ummæli: