föstudagur, febrúar 26, 2010

Freaky Friday 26. febrúar

Mættir í dag: Sveinbjörn allsherjar, BB moviestar, Guðni leiðarhöfundur, Dagur tannlæknaskelfir og Sigrún uppnefnari. Fórum rólega Suðurgötu, þar sem sprettir voru á dagskrá í gær. Á miðri leið heyrðist neyðarópið "hjálp" frá Sveinbirni og skipti þá engum togum en hópurinn var nærri hjólaður niður af morðóðum hjólreiðamanni á stíg. Neyðarópið átti að sjálfsögðu að hljóma "hjól" frá fyrrnefndum félagsmanni en kom hinsegin út. Er þeim tilmælum beint til félagsmanna að þeir reyni að vera skorinortari í sinni framgöngu hvað tjáningu varðar, til að forðast misskilning og eða stórslys. Þarna hefði rétta kallið hljómað "reiðhjól", eða jafnvel "passið ykkur á morðóða reiðhjóladólgnum" eða eitthvað á þeim nótum. Eins er afar hvimleitt þegar félagsmenn, sem skráðir eru iðkendur á hlaup.com, skila ekki a.m.k. 40-50km. á mánuði til samneyslu FI-skokks, og verða þ.a.l. þess valdandi að liðið hangir illa eða ekki inni á topp 10 lista vikunnar. Þetta er nú til skoðunar hjá skoðunarmönnum stjórnar. Lýkur þar reiðilestrinum.
Smá tvist var farið í dag um Lynghaga (hvar leiðarhöfundur sleit hluta barnsskó sinna)og þaðan um VR2 göngustíg m.m. og hefðbundin leið heim framhjá H.Í.
Nokkuð loðið færi var og skaflar en engin úrkoma í grennd, ekki einu sinni á stöku stað.
Alls tæpir 8K
Annars bara góða helgi og bæ,
Sigrún

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fyrir þá sem eru illa lesnir og vita ekki hvar Stökustaður er -> http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=3923

GI