sunnudagur, nóvember 11, 2007

Skýrsla stjórnar IAC starfsárið 2006-2007

Inngangur
Síðasta starfsár Skokkklúbbsins var með því viðburðaríkasta sem sést hefur. Á síðasta aðalfundi var kosin ný stjórn eins og vera ber og skiptin hún með sér verkum:

Dagur (formaður annað árið í röð), hlutverk formanns er að halda utan um starfsemina, samskipti við þjálfara, boða til stjórnarfunda, umsjón og þrif keppnisbúninga
Huld (ritari), ritari sér um samskipti við félagsmenn
Anna Dís (gjaldkeri), passar budduna og ávaxtar sjóði klúbbsins
Guðni (meðstjórnandi og framkvæmdastjóri Icelandair hlaupsins)

Skráðir félagsmenn eru nú um 78 samkvæmt núuppfærðri og endurskoðaðri félagaskrá. Í fyrra voru þeir 60 og hefur því fjölgað um 30% á árinu.

Helstu viðburðir
Úrtökumót fyrir ASCA
Aldrei áður hafa jafn margir tekið þátt í úrtökumóti fyrir ASCA, en sextán klúbbmeðlimir mættu í úrtökumót, tólf karlar og fjórar konur. Hart var barist um sæti í karlaliðinu.Hlaupið var á sama hring og keppt var síðan á keppninni sjálfri. 1,75km langur hringur í Öskjuhlíðinni, hlupu karlarnir fjóra hringi en konurnar tvo. Í kjölfar úrtökumótsins var liðið valið átta karlar og fjórar konur. Karlaliðið var samsett af starfsmönnum fimm fyrirtækja í samstæðunni.

ASCA - Víðavangshlaup 2007 í Reykjavík
Keppnin var haldin 10. mars á Íslandi. Sjö flugfélög skráðu lið til keppni, British Airways, Lufthansa, SAS, Iberia, Aer Lingus, Austrian Airlines og Icelandair. Heildarfjöldi keppenda var kringum 90.
Hlaupið var í Öskjuhlíðinni og þrátt fyrir mikla snjókomu kvöldið fyrir keppni gekk hlaup mjög vel. Frjálsíþróttadeild ÍR sá um framkvæmd hlaupsins. Að hlaupi loknu var boðið uppá súpu og brauð í mötuneyti hótelsins áður en farið var í Bláa Lónið með hópinn. Um kvöldið var síðan verðlaunaafhending og kvöldverður á Hótel Loftleiðum. Atburðurinn tókst í alla staði vel þökk sé góðum undirbúningi allra sem að komu og fengum við sendan fjöldan allan af þakkarbréfum eftir að þátttakendur komu til síns heima. Var það mál manna að aldrei hafi tekist eins vel til og verður þessi dagur seint toppaður. Ekki spillti fyrir að kvennalið Icelandair sigraði og karla liðið náði sínum besta árangri hingað til. Sjá myndina á YouTube.



Icelandair hlaupið
13. Icelandair hlaupið fór fram 3. maí við frábærar aðstæður í sóli og logni. Við fengum fína umfjöllun í “Ísland í dag” og var hlaupið ræst í beinni útsendingu. Þátttakendur voru 392 og bætti Kári Steinn brautarmetið sitt sem sett var í fyrra. Almenn ánægja var með trakteringar eftir hlaup, heit súpa, brauð, drykkir og bananar, verðlaunaafhendingin til fyrirmyndar og síðast en ekki síst afburða starfsfólk, valinn maður í hverri stöðu sem sá til þess að dæmið gekk fullkomlega upp - við erum best í heimi.

Ísland á iði – Hjólað í vinnuna
Skokkklúbburinn sjá um að skipuleggja þátttöku í átakinu og var þátttaka almennt góð um alla samstæðuna.

Þjálfari og æfingar
Skipulagðar æfingar voru með breyttu sniði á starfsárinu. Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson var fenginn til að blogga vikulegar æfingar síðastliðinn vetur og voru þær teknar á fimmtudögum í hádeginu. Annars var ákveðið að auglýsa upp hádegisæfingarnar 12:08 frá sundlauginni að Hótel Loftleiðum alla virka daga. Formaðurinn tók það upp hjá sér að stjórna æfingum í sumar og í haust og hefur ríkt járnagi að sögn margra. Þetta virðist hafa haft jákvæð áhrif enda hefur þátttakan hefur verið mjög góð og margir nýjir meðlimir bæst í hópinn. Í stuttu máli er skipulag æfinganna þannig að mánudaga, miðvikudaga og föstudaga eru rólegt hlaup, á þriðjudögum og fimmtudögum eru síðan gæðaæfingar með fjölbreyttu sniði. Föstudagarnir eru sérstakir en þá er tekinn “Freaky Friday” – þá er reynt að gera eitthvað öðruvísi og skemmtilegt.

Samskipti við félagsmenn
Formlegri útgáfu fréttabréfs var hætt. Þess í stað var ákveðið að setja upp frétta- og upplýsingasíðu klúbbsins á slóðinni http://fiskokk.blogspot.com/ og virðist það hafa gefist vel þrátt fyrir að skrif félagsmanna mættu vera meiri. Til áminningar eða þegar mikið stendur til eru sendur út rafpóstur á félagsmenn.
Það sem af er árinu hafa heimsóknir á síðuna verið 1.688, síður skoðaðar eru 2.306. Í tengslum við ASCA var haldið út upplýsingasíðu fyrir þátttakendur og mæltist það vel fyrir, heimsóknir á síðuna voru 618 og síður skoðaðar voru 1.416.

Gallar
Eitt af síðustu embættisverkum fráfarandi stjórnar var að ganga frá kaupum á vetrarhlaupajökkum. Þátttaka í þeim kaupum var mjög góð og verða þeir afhentir á næstu vikum.
Kaupin er niðurgreidd úr sjóðum klúbbsins.

Þátttaka í hlaupum
Þátttaka félagsmanna í hlaupum á sl. starfsári var ágæt. Gamlárshlaup ÍR, 5 félagsmenn. Powerade Vetrarhlaup, 13 þátttökur, þar af lenti Anna Dís í fyrsta sæti í sínum aldursflokki og Huld í öðru sæti. Sveinbjörn varð íslandsmeistari á meistaramóti öldunga innanhúss í 60m hlaupi á 9,30. Í Boston maraþonið fóru síðan fjórir. Annað týndist síðan til yfir sumarið, en hápunkturinn var Reykjavíkurmaraþonið. Þar líkt og í fyrra átti Skokkklúbburinn frumkvæði að því að Icelandair Group hét á starfsmenn að hlaupa til styrktar Vildarbörnum. Alls hlupu 82, 953 km og söfnuðust 2.859.000.

Engin ummæli: