mánudagur, febrúar 25, 2008

Hádegisæfing 25. febrúar

Góð mæting var í dag í blíðskaparveðri en þó sérfræðingar hafi talið 11 manns, finn ég bara 10 nöfn (hjálp þegin-Sveinbjörn auðvitað, Jói hjálpaði mér). Óli var búinn með sína æfingu kl. 12, en hann fór flugvallarhring. Ingunn fór í skógarferð og Jói fór Suðurgötuhringinn. Við hin (Höskuldur, Dagur, Guðni, Oddgeir, Sigurgeir, Fjölnir og Sigrún) vorum mætt á upphafsæfingu þríleiksins en hann var að þessu sinni skírður "Guðjón bakvið tjöldin". Hituðum upp í góða stund og eftir að hafa tekið "status" á liðið ákvað "Guðjón" að hafa æfinguna þannig að þegar á Ægisíðu væri komið fengi hver að ráða hraðanum í 500 m. Skiptumst við svo á að leiða í ca. 3,5 km alls. Mikil ferð var á tilvonandi ASCA liðum, enda aðeins hársbreidd á milli allavega 4 keppenda um sæti þar. Fáir eru öruggir með sæti þó Guðjón sleppi eflaust inn léttilega. Tókum síðan létt hopp, hnélyftur, spörk og stutta spretti í lokin, til að brjóta upp æfinguna, sem heppnaðist prýðisvel. Þjálfarinn stýrir málum þannig að hann leggur æfinguna upp í hendurnar á lærisveinum sínum og "leyfir" þeim að ráða hraðanum en er sjálfur að anda ofan í hálsmálið á fyrsta manni, svo ekki er þorandi að slá af. Hann stjórnar því í raun hraðanum og er hinn eiginlegi "Guðjón bakvið tjöldin".

Kveðja,
Sigrún

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sveinbjörn Egilsson er huldumaðurinn. kvjoulf