föstudagur, september 19, 2008

Hádegisæfing 19. sept

Mættir: Dagur, Óli (í síðbrók og ullarhúfu), Kalli, Huld, Fjölnir, Sigurborg og Ágústa. Einnig sást til Jóa hér og þar.
Skelltum okkur í bæjarferð og þjálfarinn lagði þunga áherslu á að við héldum hópinn. Byrjað var á að hlaupa Hringbraut og niður að ráðherrabústað við Tjörnina. Þegar þangað var komið spretti þjálfarinn út um allar trissur að smala saman eftirleguhlaupurum og öðrum sem komnir voru með heimþrá. Eins og honum einum er lagið náði hann að stappa stálinu í mannskapinn og hópurinn hljóp nú allur saman hnarrreistur kringum Tjörnina. Þegar hér var komið við sögu blés hressilega á móti úr suðri og því leitaði hjörðin skjóls á heimleiðinni. Farið var eftir Fjólugötu/Sóleyjargötu og Smáragötu í skjóli hárra trjáa. Þarna fengum við líka sögulegt inngrip frá Óla en hann sleit barnsskónum (fyrstu hlaupaskónum) á þessum slóðum. Hjá kapellu séra Friðriks fór svo mönnum að hlaupa kapp í kinn, tempóið aukið og svo fór að meirihluti hópsins tók brekkuna, sem nú er kennd við Jón Gunnar "Hnakka", upp að Perlu, niður í skóginn og bláa stíginn heim á HLL. Höfðu menn á orði að Kalli væri endanlega kominn í úrvalsdeildina og hlaup út að rafmagnskassa og dæluhlaup heyrðu nú sögunni til.
Samtals 8,0 km
Góða helgi, Fjölnir

Engin ummæli: