Mættir á vælulausa daginn: Kalli, Bjöggi, Oddgeir, Dagur, Huld og Sigrún. Einnig sást til Jóa á hraðsiglingu umhverfis flugvöllinn. Orð dagsins þurfa að koma hér fram. Spurt var: "Ertu vangefinn?". Svar:"Nei, ég elska að láta vindinn leika um loðna leggina". Þetta þarfnast ekki frekari skýringa enda búið að setja lögbann á allan fréttaflutning af æfingum.
Hituðum upp í sláandi roki og fórum svo í 2 hollum á Hofs og Grana/Kapla í tempóhlaup að kafara. Ekki heyrðist hósti né stuna á leiðinni, enda rokið slíkt að vælukjóarnir heyrðu ekki einu sinni í sjálfum sér. Allir hrákar fóru einnig beint í andlit þeirra sem hræktu. Á Ægisíðu var þó fallegt gluggaveður og nutu félagsmenn þess að feykjast í átt að kafaranum. Einn félagsmaður var þó sýnu þrekaðri þegar þangað kom en skal það ósagt hver þar á í hlut.
Það er sérstök ábending til félagsmanna að þeir reyni að verða sér út um viðeigandi klæðnað fyrir veturinn, segl og þvengbuxur eiga engan veginn við þegar um er að ræða metnaðarfullt uppbyggingarstarf keppnisíþróttamanna sem eiga að bera merki IAC á lofti í hlaupakeppnum. Hvað þá knattstuttbuxur og hálferma treyjur. Vonast er eftir breytingu til batnaðar í þessum efnum.
Kveðja,
Sigrún
Engin ummæli:
Skrifa ummæli