þriðjudagur, október 07, 2008

Tempo Tuesday 7. okt.

Ekkert lát er á þrengingum í samfélaginu en þeirra gætir að sjálfsögðu ekki á æfingum FI SKOKKs. Þar mættu galvösk: Höskuldur Ljósvetningagoði, Dagur hinn miskunnarlausi Samverji, Oddgeir Endorfíni, Guðni ryðkláfur og Sigrún, sem vegna fjölda áskorana hljóp bæði of langt og of hratt í dag. Einnig voru Anna Dís og Ágústa með vinkonu sinni mættar og fóru í skógarhlaup. Ingunnar varð einnig vart og Jóa, en þau voru á eigin vegum. Boðið var upp á 2 leiðir tempóhlaups; Kaplaskjól eða Granaskjól að kafara. Fór þó svo að hjónin fóru Kapla en bensínspekúlantarnir 3 fóru Grana-long. Veður var ágætt á útleið en á lengsta kafla tempós gætti mikilla sviptivinda og engin leið var að tjóðra sig við brautina, enda margir þátttakenda í fluguvigt. (not) Dugði þá skammt hið fornkveðna"vindurinn er vinur minn", sem reynt hefur verið að þröngva inn í haus félagsmanna síðustu vikurnar. Ekki tókst samt þríeykinu að ná Kaplaskjólinu áður en kafara var náð. Heldur var farið að þykkna í aðalritara þegar þangað kom og ákvað hún að staldra ekki við, heldur halda heim á hótel, einsömul. Er nær dró hótelinu álpaðist aðalritari til að horfa reið um öxl og sér hún þá hvar morðóðu hundarnir eru komnir á þeysisprett á eftir henni. Ekki hugnaðist henni þessi sjónmengun og reyndi eftir megni að bæta í, þrátt fyrir andlegt gjaldþrot og harðsperrur. Hófst því við lok ASCA-brekkunnar hinn æðisgengnasti lokasprettur þar sem óþarfi er að nefna, hver hratt og örugglega, kom geltandi upp að viljalausu verkfærinu sem háði sinn lífróður heim að póstkassa. Mátti í engu muna hvort kom að kassanum fyrst og verða fjöldamörg vitni að dæma þar um.
Grani 10,1K
Kapla 9,3K
Kveðja,
Sigrún (eða allavega restin af henni)

Engin ummæli: