miðvikudagur, maí 13, 2009

Mainz-Marathon í Þýskalandi





Sunnudaginn 10. maí tóku tveir meðlimir skokkklúbbsins þátt í Mainz-Marathoni í Þýskalandi; Bryndís Magnúsdóttir keppti í hálfmaraþoni og Jens Bjarnason í maraþoni. Með í för voru einnig Úlfar félagi okkar, eiginmaður Bryndísar, og Baldur Oddsson, fyrrum klúbbmeðlimur og þátttakandi í víðavanghlaupi ASCA fyrir okkar hönd. Úlfar hljóp heilt maraþon en Baldur hljóp ekki en var engu að síður ómissandi hluti af liðinu.
Hugmyndin að þátttöku í þessu hlaupi varð til einhvern sunnudagsmorguninn í vetur þegar við vorum að hlaupa í myrkri og kulda hér heima. Skráning í stórt hlaup erlendis hjálpaði okkur við að setja æfingamarkmið og halda okkur við æfingar í svartasta skammdeginu. Ástæður þess að Mainz varð fyrir valinu voru m.a heppileg tímasetning, gott orðspor hlaupsins og falleg staðsetning við bakka Rínar, auk þess sem hægt var að velja milli heils og hálfs maraþons.

Þegar kom að skráningu í janúar kom í ljós að löngu var uppselt í hlaupið. Eftir bréfaskriftir við skipuleggjendur var okkur boðið að taka þátt, okkur að kostnaðarlausu, og vorum við því í raun einhvers konar VIP þátttakendur. Þetta var mjög höfðinglegt af skipulegjendum sem eru borgaryfirvöld í Mainz.
Hópurinn hittist á Frankfurt flugvelli föstudaginn fyrir hlaup. Bryndís, Úlfar og Baldur komu fljúgandi frá Íslandi en Jens kom til Frankfurt á svipuðum tíma frá Yakutiu í Austur-Síberíu, nokkuð þreyttur en bar sig vel.
Við borðuðum á mjög góðum pastastað á föstudagskvöldinu. Kolvetnin runnu ljúft niður, ekki síst hjá Jens sem (að eigin sögn) hafði lítið borðað annað en hrossakjöt alla vikuna. Laugardeginum var eytt í bíltúr um Rínardalinn. Ef undan er skilin vínsmökkun í Rudesheim am Rhein var hegðun liðsins almennt góð.

Sunnudagurinn rann upp með fallegu veðri. Spáð hafði verið rigningu en reyndin varð önnur. Það var reyndar skýjað í startinu en fljótlega birti til og skein sólin á okkur mestan tímann. Hitinn fór upp í 20 gráður en við vorum sammála um að það hefði ekki truflað okkur svo mjög, okkur leið öllum vel í hlaupinu. Bryndís stóð sig best og var í raun hársbreidd að vinna sinn aldursflokk, lenti í þriðja sæti á 1:54:34, Jens kláraði heilt á 3:45:37 og Úlfar kom í mark á 3:55:47.

Baldur var á leið til Spánar og kvaddi okkur fljótlega að hlaupi loknu. Við hin skáluðum í kampavíni og héldum upp á daginn með veislumáltíð um kvöldið, fullkominn endir á frábærri hlaupaferð.

Jens Bjarnason

3 ummæli:

HK sagði...

Glæsilegt hjá ykkur! Til hamingju :-).
Kv. Huld

Nafnlaus sagði...

Til lukku hlauparar, ég veit að eign raun að gott er hafa Baldur með.kv joulf

Icelandair Athletics Club sagði...

Flott eruð þið. Öfunda ykkur! :)
SBN