miðvikudagur, nóvember 18, 2009

Boðhlaup á Klambratúni

Mættir: Dagur, Bryndís, Sveinbjörn, Guðni, Jói, Jón Gunnar, Huld, Jón Örn, Baldur, Rúna Rut og undirritaður. Veður: Logn, léttskýjað og hiti við frostmark.
Hlaupið að Klambratúni og þegar þangað var komið var gerð stutt grein fyrir boðhlaupsverkefninu. Um var að ræða tvo hringi út frá miðju svæðisins, annarsvegar hægri hring, í átt að Miklubraut, út fyrir trjábeðið og með fram því samsíða Miklubraut og svo inn á aftur í sv-horni og til baka. Hinn hringurinn var rangsælis í austur og svo vinstri beygju hring, mun styttri og alltaf í sjónlínu frá miðju. Hringirnir voru svo prufukeyrðir á hægu brokki en svo kom að skiptingu í lið og þá fóru mál að vandast. Eftir nokkrar diskússjónir þá kom Dagur með nokkuð góða lausn (algóriþmi úr IT deildinni). Það var að hafa tvö 5 manna lið og til að sem flestir hefðu eitthvað fyrir stafni af því liðin voru svo fjölmenn, að taka báðar hlaupaleiðir í notkun strax í stað þess að afgreiða einn hring í einu. Þessi flækja gekk upp og það sem meira var, keppnin var nokkuð spennandi. Eins og í gamla daga var ekki valið í lið á jafnréttisgrundvelli heldur kosið og byrjað á þeim bestu (kallast einelti í dag). Án þess að fara nánar út í þetta þá reynist jafnt með liðum. Þau máttu ákveða sjálf skipan í keppnisröð og hringi og keflin (skóflur) gengu greiðlega milli keppenda á meðan á keppni stóð. Í restina varð gríðalegt einvígi á milli Sveinbjörns og Rúnu Rutar á lokasprettinum en Sveinbjörn (íslandsmethafi í spretti) rauf hljóðmúrinn á síðustu metrunum og innsiglaði sigur fyrir sitt lið. Nokkrar mínútur voru svo notaðar í lokin í sprikl. Myndaður var hringur og þurfti hver og einn að bjóða hinum upp á smá Jane Fonda áður en skokkað var heim á leið.

Heyrst hefur að Gestaþjálfari næstu viku verði Huld og gárungarnir farnir að tala um Huld HellWeek.

Með þökk fyrir góðan dag,
o-l-i-att-icelandair-punktur-is

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Snilld...þarf þó klárlega að æfa mig betur í sprettunum en tel mér trú um að þið hljótið bara að vera öll svona assskoti góð!
Takk fyrir skemmtilega og vel skipulagða æfingu. P.s. Jane Fonda klikkar ekki!
Kv
RRR