miðvikudagur, október 12, 2011

09.10.'11 Chicago Marathon














Til þess að standast samanburðarrannsókn hef ég ákveðið að birta söguna og hér er hún, óritskoðuð:


Við stöllur Huld og Sigrún hlupum semsé maraþon í Chicago þann 9. október, á afmælisdegi Sigurgeirs Más. Hvorug okkar man hversvegna við ákváðum að gera þetta og hvorug okkar kannast við að hafa stungið upp á verkefninu. Samt gerðum við þetta sjálfviljugar, næstum.


Við æfðum í tæpa 4 mánuði.


Við stunduðum heitjóga og bekkpressur, framan af.


Við borðuðum hafragraut með Chia fræjum og bláberjum, flesta morgna.


Við drukkum rauðrófusafa og borðuðum banana.


Við notuðum Magnesíumduft, skv. ráðleggingum fagmanns.


Við létum eins og fífl og hlógum, mest að okkur og smávegis að öðrum.


Við blótuðum margoft, hroðalega.


Við hlupum 60-80 km á viku, stundum minna, stundum meira.


Við villtumst í löngu hlaupunum og keyptum skartgripi í leiðinni.


Við sniðgengum samhlaupara okkar, nema á ruslæfingum (djók).


Við heimsóttum 3R til BOS og fórum í samhlaup um Charles River.


Við kviðum verkefninu ekki mjög.


Við létum Oddgeir fljúga með okkur til BOS á leið okkar til CHI og sváfum báðar hjá honum við töluverða undrun annarra, ekki okkar.


Við nutum aðdáunar eldri manns í BOS sem sagði:"Hey you, awesome people, please take me home and feed me." Þetta var ekki flækingur.


Við gistum á fínu hóteli í CHI á Magnificent Mile og borðuðum brauð, pasta og karbólóduðum eins og andskotinn sjálfur, með tilheyrandi útlitsbreytingum.


Við mættum í keppnishólfin okkar kl. 07:18 en hólfin lokuðu kl. 07:20 (startað 07:30).


Við áttum von á hita en ekki 30°C á keppnisdag.


Við áttum von á fótakrömpum en ekki svona miklum.


Við rifum í okkur gel á leiðinni, eins og fíklar.


Við létum sprauta á okkur vatni.


Við kláruðum hlaupið með stæl, þó ekki American.


Við fundum hvora aðra eftir hlaup, við töluverðan fögnuð á vettvangi glæps.


Við lágum í grasinu eftir hlaup og hlógum að hinum sem skjögruðu og drukkum frían bjór.


Við veltum fyrir okkur hvort við myndum brenna í sólinni þrátt fyrir sólarvörn 30.


Við gengum aftur heim á hótel (eins og í N.Y.), 4 mílur.


Við hittum Marilyn Monroe sem leyfði okkur að hanga í pilsfaldi sínum.


Við fengum okkur Starbucks kaffi og gátum vart staðið upp eftir það.


Við fáruðumst yfir því að engin umfjöllun væri um hlaupið í sjónvarpinu en önnur okkar fattaði ekki að það væri slökkt á sjónvarpinu.


Við fréttum að 35 ára slökkviliðsmaður hefði látist í brautinni.


Við drukkum ískaldan Samuel Adams, Octoberfest, á hótelherberginu.


Við fórum í sturtu og fögnuðum svo á kampavínsbar þar sem við fengum vonda þjónustu en gott prosecco.


Við borðuðum á góðum sushistað og kneyfuðum Sapporo og blönduðum geði við infædda sem þekktu Bjork og voru wannabees.


Við fórum snemma heim að sofa.


Við komumst ekki með áætlaðri vél Jet Blue frá CHI til BOS og biðum þeirrar næstu með örlítinn kvíðboga í brjósti.


Við fengum far með næstu vél en útilokuðum að ná FI-631, BOS-KEF.


Við fengum forgang sem alþjóðlegir maraþonhlauparar þegar við hlupum frá borði og hlupum alla leið frá terminal C til E á nýju heimsmeti.


Við lentum 20:50 í BOS og vorum komnar inn í Icelandair vélina kl. 21:10, kófsveittar í dry-fit maraþonjökkunum okkar.


Við sáum og reyndum að terminalahlaup er e.t.v. vanmetin keppnisgrein.


Við flugum heim og komum glaðar í faðm ástvina sem vart héldu vatni af einskærri hrifningu.


Við birtum ykkur myndirnar og hvetjum ykkur til að reyna þetta líka með einhverjum sem ykkur þykir skemmtilegur og jafnvel vænt um. Best væri samt ef þeim hinum sama þætti vænt um ykkur líka.


F.h. Síamssystra (SBN)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Okkur þykir afar vænt um ykkur og óskum ykkur hjartanleg til hamingju með árangurinn. Áfram Síams. kv/joulf

Nafnlaus sagði...

Góðir punktar :-) Ég man allavega að við fórum að ræða sameiginlegt hlaup í Chicago á einum af okkar Charles River hlaupum þegar ég var að tjá að mig langaði svo að fara í Chicago og þið voruð strax heitar. Þið hins vegar fóruð alla leið en ég lét breytt fyrirkomulag BAA hafa áhrif á mína hlaupadagskrá! Þetta er glæsilegt hjá ykkur og þið gleymið nú alveg að taka fram að nú eruð þið báðar gjaldgengar í Boston og getið því í stað þess að dást að hlaupurum í Boston 2013, látið dást af ykkur! Þið eruð flottar og ekkert smá duglegar, enn og aftur til hamingju. Ég bíð spennt eftir tækifærinu að hlaupa með ykkur heilt maraþon eða etv Laugaveginn 2012??? þangað til verð ég að láta mér duga Charles River hlaup. Hlakka til að sjá ykkur, vonandi fyrr en síðar. Kv 3R

Nafnlaus sagði...

Minnir að Bryndís okkar eigi flottan tíma í þessu hlaupi en hef hvergi séð hann koma fram?