Góð mæting var í aðventuhlaupið. Alls mættu 16 hlauparar og var það mál elstu meðlima klúbbsins að aldrei í sögunni hefði verið eins góð mæting. Veður var ágætt þó færðin væri frekar erfið sökum hálku. Hlauparar létu það hins vegar ekkert á sig fá og hlupu 9 km hring þar sem m.a. var tekinn "dead-ari" í Tjarnargötu og dansað í kringum norska jólatréð á Austurvelli, börnum sem þar voru stödd til nokkurrar skelfingar.
Að hlaupi loknu létu menn líða úr sér í heitum potti, sjó-gufu og sauna á Sóley Natura Spa. Að lokum safnaðist hópurinn saman á veitingastað hótelsins þar sem niðurstöður skoðanakönnunar um keppnisnafn klúbbsins voru kynntar (flestir vilja að Icelandair verði notað) auk þess sem formaður fór yfir aðgerðaáætlun stjórnar á komandi tímabili.
Gleðileg jól
Engin ummæli:
Skrifa ummæli