mánudagur, apríl 30, 2012

ASCA 2012 í Vín

Það var fríður hópur er hélt á vit ævintýranna í Vínarborg helgina 27. – 29. apríl. Lagt var af stað á föstudagsmorgni og var millilent í Frankfurt. Hópurinn komst svo í tvennu lagi þaðan til Vínar og voru allir komnir á hótelið um kvöldmatarleytið.


Hlaupið var á laugardegi og hófst hlaupið hjá konunum klukkan 0940 (heilum 10 austurrískum mínútum á eftir áætlun) og hjá körlunum 45 mínútum síðar. Hlaupinn var hringur í útjaðri þorpsins Fischamend. Hringurinn var alls 4.75 km að lengd og hlupu konurnar einn slíkan en karlarnir tvo, eða 9.50 km.

Hitabylgju hafði verið spáð í Austurríki þessa helgi og gekk það eftir. Þegar keppninn hófst var hitinn kominn vel yfir 25 gráður. Meðlimir skokkklúbbsins létu það hins vegar ekkert á sig fá og gerðu sér lítið fyrir og unnu allt sem hægt var að vinna. Konurnar lentu í fyrsta sæti í liðakeppninni eftir nokkuð tvísýna baráttu við hinar austurísku Mozart dömur. Karlarnir gerðu síðan nokkuð sem engan hafði órað fyrir og unnu sína liðakeppni.  Það merkilega við þennan hóp er e.t.v. það hversu jafn hann er, fyrir utan afreksfólkið sem er í sérflokki, og líka það að 6 nýliðar voru í liðinu.

Hlaupaleiðin var skemmtileg, malarstígar um repjuakra og einhverjir sáu stökkvandi dádýr. Hvort sem það var alvöru eða ekki, skiptir ekki máli. Ein skemmtileg setning heyrðist eftir hlaup er einn meðlimur kvennaliðsins spurði Arndísi: „Leistu eitthvað við á leiðinni?“ Arndís, sem svaraði svellköld, „Rak ég eitthvað við á leiðinni“?

Um kvöldið að lokinni skoðunarferð um víðan völl var verðlaunaafhending og dansiball og var skemmtuninni gerð góð skil af okkar fólki. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar við sáum úrslitin á prenti og áttuðum okkur á því að „strákarnir okkar“ hefðu einnig sigrað í liðakeppninni. Það var mál keppenda að sjaldan hefðu þeir tekið þátt í jafn skemmtilegu og viðbuðaríku móti og einhverjir töluðu jafnvel um hápunkt ferils. Það eru forréttindi og ekkert minna að hafa verið þátttakandi að þessum viðburði.

Takk fyrir okkur.

Fyrrverandi og núverandi ritari FI.




3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Maður er bara orðlaus! Enn og aftur hjartans hamingjuóskir.

BM

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þennan glæsilega árangur :o)

Nafnlaus sagði...

Glæsilegur árangur, til hamingju :o)
kv. Ása