föstudagur, janúar 25, 2013

Akureyrarævintýr 20.01.2013


Ég má til með að deila með ykkur litlu ævintýri sem ég bjó mér til á Akureyri nýlega.  Þannig var að ég fór í hlaup einn morguninn frá hlíðum Vaðlaheiðar og upp í Glerárhvefi.  Það er í sjálfu sér ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að þegar ég lauk hlaupinu við Keiluhöllina á AEY rakst ég á skemmtilegan fýr úr heimi hlaupanna.  Sá hinn sami er margreyndur maraþonhlaupari og er frægur fyrir sína framúrstefnulegu hárgreiðslu, lokkinn framgreidda.  Ég vatt mér að honum og spurði (eftir smá umhugsun) "væri það mjög dónalegt af mér að biðja um mynd af okkur saman"?  "Dónalegt, ég veit ekki einu sinni hvað orðið þýðir", svaraði hann.  Þetta var upphafið af okkar skemmtilegu samræðum sem veittu mér ákveðna hvatningu og vissu fyrir því að það er allt hægt.  Jón hefur hlaupið fjöldamörg maraþon um sína löngu ævi og langt frá því að vera hættur.  Ég spurði hann hvort að hann ætlaði að hlaupa fleiri maraþon um ævina og svarið var "meðan ég stend á löppunum hleyp ég".  Ætlum við ekki að gera það líka?

SBN
Ath. Ef einhverjir velta fyrir sér myndgæðunum eða skorti á þeim skal það játað að myndin er tekin á sveittan og gamlan Nokia síma, ekki var annað í boði.  Einnig geta glöggir áhorfendur séð keppnisnúmer Jóns nælt í hann frá síðasta RM.  Snilld!

Engin ummæli: