fimmtudagur, september 05, 2013

Hádegisæfing fimmtudaginn 5. sept - Sigrún, af hverju ertu í svörtum ruslapoka?

Mætt(ir) í dag voru: Dagur, Valli, Bjöggi Bí, Bechmel, Oddur og músin, en hún hafði ákveðnu hlutverki að gegna.  Að auki mætti Sigrún til leiks en þegar búið var að hlaupa tæpan kílómeter áttaði hún sig á því að hún var í hversdagsfötunum, hafði gleymt að fara í hlaupagallann fyrir æfingu.  Við það kvaddi hún hópinn og sást ekki meir.  Degi var nokkuð brugðið er hann sá Sigrúnu leggja af stað í hversdagsfötunum og var honum sérstaklega starsýnt á svartan mittisregnjakka sem hún klæddist.  Spurði hann því fordómalaust, "Sigrún, af hverju ertu í svörtum ruslapoka?".

Í dag lá fyrir að taka æfingu með 25 mínútna innvöfðum tempókafla.  Hefðbundinn rangsælis flugvallarhringur, með möguleika á lengingu, varð fyrir valinu.  Bjöggi og Bechmel gáfu snemma til kynna að þeir hyggðust ekki þreyta þessa raun og kvöddu við Suðurgötu.  Restin, Dagur, Valli, Oddur og músin héldu áfram.  Við Björnsbakarí á Hringbraut var komið að því að hefja tempóhluta æfingarinnar.  Hlutverk músarinnar skal nú gert heyrikunnugt:  Músin skyldi fara um Hofsvallagötu á meðan Dagur, Valli og Oddur skyldu fara um Meistaravelli, Kaplaskjól langt og Perrann.  Músin var sem sagt agn sem hinir áttu að reyna að hlaupa uppi.  Er skemmst frá því að segja að þeim félögum mistókst ætlunarverk sitt herfilega enda umrædd mús mun sprækari en hún gaf til kynna þegar verið var að leggja henni lífsreglurnar við upphaf hlaups.  Það fauk nokkuð í Valla þegar hann áttaði sig á því að ekki myndi takast að hlaupa músina uppi og hafði á orði að hún hefði "skalað" æfinguna (þetta er língó sem Valli heyrði um daginn á x-fit æfingu).  Menn hittust að lokum sælir og glaðir við HLH þar sem teygt var og spjallað.

Spurning til þín lesandi: Hver var músin?

Engin ummæli: