laugardagur, september 06, 2008

WARR 2008

Sl. miðvikudag héldum við fjögur áleiðis til Ottawa í Kanada til að hlaupa í World Airline Road Race götuhlaupinu en þetta mun vera í fyrsta skipti sem okkar fulltrúar mæta þar til leiks. Í hópnum voru: Bryndís Magnúsdóttir og Úlfar Hinriksson eiginmaður hennar, Jens Bjarnason og Jón Mímir Einvarðsson sem nú starfar hjá Primera Air (Jet-X) og keppti undir þeirra nafni. Ekki gekk ferðalagið áfallalaust. Einn úr hópnum þáði fullmikið af veitingum í fljótandi formi á leiðinni út og varð viðskila við hópinn í flugstöðinni í Toronto. Viðkomandi missti af framhaldsflugi til Ottawa en mun hafa skemmst sér prýðilega um kvöldið með hópi íslenskra leikara sem voru í vélinni til Toronto á leið á kvikmyndahátíð í borginni.

Á fimmtudaginn og föstudaginn var ýmislegt í gangi fyrir hlaupara, m.a. heimsókn til borgarstjóra Ottawa (reyndar var ekki öllum boðið) og merkilegt fyrirbæri sem kallast "T-shirt Swapping Party" þar sem við kunnum reyndar ekki leikreglurnar og urðum svolítið utan gátta, maður bætir það bara upp næst.

Í morgun var svo hlaupið sjálft. Boðið var upp á bæði 5k og 10k og hlupum við öll 10k. Brautin var marflöt fram-og-til-baka braut eftir bökkum Rideau árinnar. Veðurskilyrði voru líka mjög góð, hægur vindur, hlýtt (15C) og regnúði. Allir úr hópnum voru mjög sáttir við sína tíma og bættu Bryndís, Jens og Mímir öll sína tíma frá því í RM. Ekki er búið að birta tímana en okkur telst til að Jens hafi hlaupið á 46+, Bryndís á 47+, Úlfar á 48+ og Mímir á 54+. Nákvæmir tímar verða settir hér inn á síðuna þegar þeir verða birtir, ásamt myndum úr ferðinni. Í kvöld verður svo gala dinner og skv. venju við aðstæður sem þessar munum við ferðafélagarnir hittast og skála á undan. Heimferð verður seinni partinn á morgun og er hópurinn væntanlegur til Keflavíkur frá Toronto á mánudagsmorguninn (ef þið skilduð vilja vakna og taka á móti okkur). Vonandi náum við að halda betur hópinn á heimleiðinni.


Þetta er búin að vera frábær ferðin, borgin falleg og skemmtileg og við erum búin að hitta mikið af gömlum kunningjum úr ASCA. Þetta er margfalt fjölmennari atburður en ASCA Cross Country og er yfirbragðið líka allt annað. Skipuleg dagskrá nær yfir fimm daga og má því segja að WARR sé nærri því að vera vikuferð ef vel á að vera, en ekki helgarferð eins og við erum vön úr ASCA.

Bestu kveðjur frá Ottawa,

Bryndís, Jens, Mímir og Úlfar.

5 ummæli:

Icelandair Athletics Club sagði...

Má giska á hver varð viðskila? Þetta er ógeðslega fyndið og ég vildi hafa verið þarna...
Kv. Aðalritarinn

Nafnlaus sagði...

Fjórmenningaklíkan hér hélt fund um "mannshvarfið í Toronto". Niðurstaða fundarins var eftirfarandi: "What happens in Toronto stays in Toronto".
Bestu kveðjur, B, J, M og Ú.

PS - Gala dinnerinn í gærkvöldi var glæsilegur, minnti á ársátíð hjá stórfyrirtæki. Bryndís vann 1. verðlaun í sínum aldursflokki.

Icelandair Athletics Club sagði...

Way to go Bryndís! :)
Kv. SBN

Icelandair Athletics Club sagði...

Til hamingju Bryndís með glæsilega árangur og strákar til hamingju með bætinguna.
Takk fyrir greinargóð skrif um ferðina og eigið góða heimkomu.
Anna Dís

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt! Til hamingju öll og sérstaklega Bryndís! Nú eruð þið búin að ryðja brautina, förum fleiri næst :-).
Kveðja,
Huld