mánudagur, ágúst 27, 2012

Mánudagur 27. ágúst - Bráðin elt

ÓB lykillinn og ritarinn lögðu af stað í hefðbundinn Flugvallarhring.  Íben sást hins vegar á leið til búningsherbergja er þeir félagar lögðu af stað (hann var sem sagt seinn fyrir).  Er kom að Hofsvallagötu lýsti ÓB lykillinn því yfir að hann æfði ekki orðið fyrir minna en 10k.  Því var ákveðið að lengja aðeins í svo æfingin uppfyllti alla staðla og lágmarkskröfur.

ÓB er tíðrætt um bókina "Born to run" og vitnar gjarnan í hana meðan á hlaupum stendur.  Nú vitnaði hann í þróun mannsins og af hverju homo sapiens, þessi óæðri dýrategund, varð ofan á í þróunarsögunni í stað neanderthalmannsins.  Ástæðan var í raun einföld.  Homo sapiens kunni að hlaupa!!  Hann hafði kannski ekki hraðann en hann hafði úthald og útsjónasemi til að eltast við bráðina svo dögum skipti, nokkuð sem neanderthalmanninn kann að hafa skort.  Og það er einmitt það sem þeir félagar gerðu er þeir beygðu inn á Ægisíðuna.  Þar sáu þeir nefnilega álitlega bráð, Íben, á hlaupum ca. 300m á undan þeim (hann hafði greinilega farði um Hofsvallagötu).  Þeir juku hraðann og náðu bráðinni við Dælustöð og varð henni, þ.e.a.s. bráðinni, all bylt við er þeir stukku á hana.  Eftir það var bráðinni fylgt að höfuðstöðvunum.

ÓB og Ritari ca. 10k og bráðin rúmlega 8k.

Engin ummæli: