miðvikudagur, október 31, 2012

Frankfurt maraþon 2012


Það er ekki endilega markmið í maraþonhlaupi að klára á ákveðnum tíma, markmiðið getur verið t.d. að hafa gaman (það má).  Þannig fór ég a.m.k. í þetta maraþon, sem er mitt þriðja. Félagsskapurinn var alveg gulltryggður (gömlu hjónin-Huld og Sigrún og svo Rúna frá Köben að ógleymdri Sibbu, ofurhlaupara.  Við Huld og Rúna vorum á rosalega fínu Hilton hóteli, sem Rúna hafði verið svo elskuleg að græja fyrir okkur og Sibba var á öðru hóteli skammt frá með slatta af ofurhlaupurum og nokkrum venjulegum. Hvað er það samt að vera venjulegur hlaupari?  Er það ekki heilmikið afrek í sjálfu sér að klára heilt maraþon? Það er ekki eins og maður hlaupi 6 flugvallarhringi eða til KEF að gamni sínu. Eða er það? 
Undirbúningurinn fyrir þetta hlaup tók um 9 vikur, eða helmingi styttri tíma en í fyrra. Prógrammið var flott og skemmtilegt en ekki endilega létt.  Oft er meira ekki endilega betra.  Nema þegar um er að ræða vissa hluti, eins og bjór.

Að minnsta kosti einu sinni var ég hætt við að fara og síamssystirin næstum því.  Svo tók maður bara punginn á þetta. 3G.
Mikið svakalega ætlaði ég ekki að stressa mig á þessu.

Það tókst nokkurn veginn.

Á  keppnisdag var kalt, 4°C og gola en við höfðum nægan tíma til að nærast vel.  Við Huld karbólóduðum í einn og hálfan dag í stað þriggja.  Okkur leið ekki vel af þeirri drykkju svo við hættum bara.  Ég tók „anti-cramp“ töflur í tvo daga fyrir hlaup og í hlaupinu. Ég vissi ekkert hvað var í þeim.  Það stóð hvergi.  Ég fékk enga krampa og var stálslegin sem aldrei fyrr í hlaupinu.  6 gel runnu niður með nokkrum hálfum glösum af vatni eða isotonisch drykk.  Líðanin í hlaupinu var afbragðsgóð.  Ég vissi að þetta yrði minn dagur. Ég var búin að hvíla óvenju vel í nokkra daga.  Ég elti „pacer“ allt hlaupið og það var gott og gaman.  Brautin er flöt og skemmtileg.  Mér leið of vel. Þuldi í sífellu möntruna mína „áfram Hera“, en Hera er fótboltavinkona mín úr Val sem berst við mjög erfið veikindi. Ég hljóp eiginlega mest fyrir hana. Vil að henni batni.  Hún er keppnis.  Þegar ég frétti af alvarleika veikindanna hjá henni var ég um það bil að hætta við maraþonið.  Þetta var í byrjun sept.  Eftir að ég heyrði um stöðu mála ákvað ég að láta slag standa.  Mitt verkefni væri lítils virði á erfiðleikaskalanum miðað við hennar.  Það væri of auðvelt að hætta.  Það má ekki hætta.  Það er ekki í boði.

Seinni hluta hlaups var ég staðráðin í að hanga réttum megin, beið samt eftir „vonda kafla landsliðsins“.  Hann kom ekki.   Þá hugsaði ég – þetta er of auðvelt, ég er ekki að fara að missa þessa blöðru ( 3:44 pacer) frá mér.

Ég fór fram úr fullt af fólki síðustu 7km.  Ég var fersk.  Endamarkið var inni í sportshalle.  Rauður dregill, gógó stelpur, tónlist og læti.  Ég sá ekkert og heyrði ekkert, ánægjan var of mikil.  PB og skítlétt. Mig langaði ekkert að gráta eða leggjast niður eins og oft áður.  Mig langaði bara að finna bjórtjaldið og hlægja.  Finna stelpurnar.  Ég vissi að Sibba myndi massa sitt hlaup og vissi líka að fyrirrennari minn (Forerunner) myndi standa sig prýðisvel og gera betur en í fyrra.  Enda hafði hún æft með Sibbu, að hluta til. Ég vonaði að Rúna myndi koma í mark skammt á hæla mér.  Ég vissi ekki hvað hafði gerst með hana fyrr en ég hitti þær þrjár hjá pokageymslunni.  Hlutirnir ganga ekki alltaf eins og maður heldur að þeir gangi.  Stundum ganga þeir verr og stundum betur.  Í  þetta sinn gengu þeir betur hjá mér.
Þakka þeim sem lásu.
SBN
Ég dansa það af mér!
Smellið á "finish cam close-up left" og fylgist með stúlku í skærgrænum langerma bol og bleikum yfir. 



Fjórar fyrir hlaup



Skrýtin heimreið!



Októberfest
 


 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Algjör snillingur. Þú hefir átt að "væla" aðeins meira um þú værir í verra formi! ;-) Meira er ekki endielga betra - heldur skipta gæðin líka máli!
Snilldin ein. Knús frá RRR

Nafnlaus sagði...

Glæsilegt hjá þér, elsku Sigrún, hjartans hamingjuóskir.
Þú ert nú með meiri nöglum, svei mér þá!
Knús
BM