Nú mega jólin koma sagði skáldið og eflaust nokkuð til í því þar sem hið árlega aðventuhlaup skokkklúbbsins átti sér stað í dag. Svipuð mæting og hin síðari ár, hæfilega fjölmennt og góðmennt.
Nú bar svo við að tveir vitringar birtust skyndilega í búningsherbergi karla rétt fyrir hlaup og höfðu með sér góðar gjafir, þ.e.a.s. ónotað Garmin hlaupaúr og gott skap. Lýstu þeir veginn og fylgdu hlaupurunum góðan hluta aðventuhlaupsins. Reyndar hefðu þeir mátt byrja lýsinguna strax við höfuðstöðvarnar því Sigurgeiri tókst að hlaupa niður tvo óupplýsta gangandi vegfarendur á fyrstu metrunum.
Að loknu hlaupi og sturtu var skottast upp í höfuðstöðvarnar þar sem biðu manna veitingar og barmafull dagskrá. Hlýddu menn m.a. á stjórnarmenn fara yfir starfsáætlun stjórnar auk áhugaverðrar framsetningar á lang stærsta draumi Dags (skammstafað LSD). Að lokum var síðan stutt myndasýning frá Edinborgarför nokkurra meðlima klúbbsins fyrr á árinu.
P.s. Vitringarnir voru þeir Jón Baldursson, a.k.a. JB RUN, og Bertel frá Icelandair Cargo og stóðu þeir sig vel og fóru tæplega 7 km.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli