Þrjú holl lögðu af stað í dag á mismunandi tímum. Í fyrsta holli var Ársæll, sem þjófstartaði. Í öðru holli voru 3R, 1/2 Síams (Sigrún) og Sigrún (newbie frá hótelinu). Þær þjófstörtuðu lítillega. Í þriðja holli, og á tíma, voru Dagur, Bretta-Geiri, Gamle Úle (telst orðið nafn með réttu), Oddgeir og Anna Dís. Öll hollin fóru einhverja útgáfu af flugvallarhring.
Sá er þetta ritar getur einungis lýst því sem fram fór í þriðja holli. Bar þar ýmislegt á góma. Skal hér stuttlega sagt frá tveimur umræðuefnunum. Fyrst skal nefna undrun manna á fjarveru Parísarfaranna. Finnst mönnum Parísarfararnir fara kæruleysislega af stað við upphaf æfingaáætlunarinnar. Þá skal og nefna skiptar skoðanir manna í þriðja holli á fyrirætlun þjóðkirkjunnar að safna fé til tækjakaupa á Landspítalanum. Einhver fann þessu allt til foráttu (talaði um skattpeninga sína o.s.frv.) á meðan öðrum fannst þetta bara fínt (að það skipti ekki máli hvaðan gott kemur jafnvel þó um skattpeninga Dags sé að ræða).
Engin ummæli:
Skrifa ummæli