Mætt í dag voru Úle, Dagur, Oddgeir og Síamssystur. Cargobræður komust ekki þar sem þeir eru enn að jafna sig eftir átök þriðjudagsæfingarinnar (að sögn kunnugra).
Rangsælis hringur um flugvöllinn. Á horni Hofsvallagötu og Hringbrautar skildu leiðir. Síams fóru Hofsvallagötu en drengirnir héldu áfram, annars vegar niður Kaplaskjólsveg og hins vegar niður Meistaravelli. Það runnu tvær grímur á Dag (setti upp kindarlegan svip) þarna á horninu þegar hann áttaði sig á því að hann ætti að fara tempó með drengjunum en ekki rólegt með stelpunum. "Ég hafði hugsað mér að fara með stelpunum" sagði hann þá.
Drengirnir náðu Síams rétt eftir Dælustöðina. Verður ekki látið upp hér hvað þær voru að gera þegar þeir komu að þeim!
Dagur hafði enn tíma til að vinna góðverk og það tókst. Fyrrum ráðherra var á hlaupum við Þyrluþjónustuna. Degi fannst hann fara fullt hægt yfir og linnti ekki látum fyrr en honum hafði tekist að fá hann til að auka hraðann og halda honum að Kafara. Að vísu var fyrrum ráðherra þá kominn í mikla andnauð, en Degi var alveg sama. Hann hafði náð sínu fram og var bara býsna ánægður með þetta allt saman.
Alls 8-9 km.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli