fimmtudagur, mars 30, 2006

Fimmtudagsæfing 30. mars

Sæl, þar sem ég er enn fyrir austan fer æfing dagsins beint á síðuna.
Tökum tempóhlaup í dag sem samanstendur af 3x(1000 m hlaup, 500m skokk og 500m sprettur) 2mín í hvíld áður en farið er í næsta 1000. Best væri að nota km merkingarnar á göngustígnum meðfram sjónum.
Reynið eftir fremsta megni að hafa 500m sprettina aðeins hraðari en tempóið í 1000 metrunum. Ef það þýðir of mikla þreytu eftir 500 metrana, takiði frekar lengri hvíld (en 2 mín) en þó aldrei meira en 3 mín.
Gangi ykkur vel,

kv.
Stefán Már

föstudagur, mars 24, 2006

WARR 2006

Verður haldið í Amsterdam dagana 20.-23. septmeber. Það væri nú ekki úr vegi að prófa eitthvað nýtt. Hvað segið þið?

Sjá nánari upplýsingar á síðunni þeirra.

Kveðja,
Dagur

fimmtudagur, mars 23, 2006

Fimmtudagurinn í dag

Sæl

Smá misskilningur hjá mér og Stebba. Þegar ég hringdi í hann til að skamma hann fyrir að vera ekki búinn að setja inn æfingu fyrir daginn í dag þá kom í ljós að hann verður aðra viku til í útlegðinni fyrir Austan og verður þá búinn að vera 17 daga frá mönnum. Þannig að ég set upp æfinguna í dag. Ég er samt ekki viss um að ég komist þó svo að ég muni gera mitt besta til að gera það.

Þess vegna fáið þið æfinguna svona fyrir fram beint í æð og þar sem það er skítakuldi og vindur í dag þá förum við í skóginn í Öskjuhlíðinni og þar er hringur sem við höfum stundum tekið (vísbending1: Oft verið teknir 500 m sprettir á neðri hluta hans. Vísbending2: við komum aðeins út á malarveginn þegar við komum út af efri hluta hringsins og hlaupum örlítið niður eftir malarveginum og svo inn á stíginn aftur aðeins neðar). Þennan hring skal taka 4-5 sinnum eftir áhuga-, þjálfunar-, og þreytustigi hvers og eins. Hvíldin er að skokka í 2 mín eftir hringnum og byrja svo þar sem þið eruð komin (og þar sem þetta er hringur þá endiði náttúrulega þar sem þið byrjuðuð í hvert sinn).

Ef ég sé ykkur ekki, gangi ykkur vel

Bjössi

mánudagur, mars 20, 2006

Frjálsíþróttamót fyrirtækja og stofnana - Verður Icelandair með?

Þann 1. apríl nk. heldur ÍR frjálsíþróttamót í Laugardalshöllinni fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana.

Keppt verður í 5x60m boðhlaupi, 60m, 200m og 1500m hlaupi, langstökki og kúluvarpi.

Hver keppandi má keppa í einni einstaklingsgrein og boðhlaupi.

Í einstaklingsgreinum er bæði keppt í karla og kvennaflokki.

Í boðhlaupinu er blandað lið, 3 konur + 2 karlar eða 3 karlar + 2 konur, öðruvísi telja liðin ekki til stiga.

Látið mig vita ef þið viljið taka þátt og þá í hvaða greinum.

Kveðja,
Dagur (dagur@icelandair.is)

sunnudagur, mars 19, 2006

Æfingin síðasta fimmtudag

Já ég var búinn að lofa að birta æfinguna. Þetta voru brekkur í kirkjugarðinum. Svona tæplega 250 m brekka eða svo og gátu menn valið um 5 mismundi tegundir.

A) 6xbrekkan
B) 2x4xbrekkan
C) 8xbrekkan
D) 2x5xbrekkan
E) 10xbrekkan

Hvíldin var að skokka niður aftur nema í settahvíld þá er gengið niður. Að loknum brekkusprettum voru svo teknir stílsprettir á flötu undirlagi (eða aðeins niðurhallandi - má vera undan vindi) þar sem hugsað var um að hlaupa hratt með góðum stíl en ekki samt að negla á fullu.

A) 4x100 m
B og C) 3x100 m
D og E) 2x100 m

Bjössi

föstudagur, mars 17, 2006

Myndir frá Osló

Ég var að leita að myndum frá London og rakst þá á þessar myndir frá Osló.

Ein góð af Sigurbirni og önnur spaugileg af undirrituðum. Úlfar og Jens alltaf flottir.

Sigurvegarar í kvennaflokki.

Dagur

miðvikudagur, mars 15, 2006

Fimmtudagurinn 16. mars

Sæl

Æfing á morgun að venju. Þeir sem ætla mæta skrái sig í kommentunum hér að neðan. Ef enginn skráir sig, þá birti ég æfinguna um hádegi á morgun. Ef menn skrá sig, þá mæti ég galvaskur og birti æfinguna að henni lokinni.

Bjössi

miðvikudagur, mars 08, 2006

Styttist í keppni

Þá styttist verulega í keppnina hjá okkur á laugardag í London. Mæli með að flestir taki því nokkuð rólega næstu daga fram að keppni. Ekkert er þó heilagt í því, þeir sem vilja keppa í Powerade annað kvöld (fimmtudag) geri svo en helst ekki alveg á fullu.
Mæta svo með góða skapið og jákvæðni á föstudag.
Þau ykkar sem viljið fá nánari leiðbeiningar eða ræða málin endilega hringið í mig í síma 825-1607.

Kveðja,
Stefán Már

miðvikudagur, mars 01, 2006

Æfing á morgun

Sæl

Ég mæti á æfingu á morgun ef menn melda sig á hana í kommentunum hér að neðan. Við tökum eitthvað hraðara og léttara (þ.e.a.s. það verður vonandi léttleiki í æfingunni) enda þarf að fara að keyra upp fyrir ASCA. Ég set æfinguna inn á morgun þegar ég verð búinn að taka betur stöðuna á veðrinu og færðinni.

Bjössi