föstudagur, apríl 29, 2011

Tilboð á hlaupaskóm til starfsmanna Icelandair

Tilboð á Onitsuka Tiger Asics skóm Icelandair

Tilboð á Asics skóm Icelandair

Tilboð á GT2150 Icelandair

Til að nýta sér tilboðin hafið samband við

Scanco ehf
Gunnar Einarsson
Tel:7770007

ASCA í CPH um helgina

Ágætu félagar.
Þar sem við erum ekki meðal þátttakenda í ár í ASCA keppninni ásamt fleirum hefur Ralph Behrens, ASCA fulltrúi, óskað eftir hugmyndum um hvað mætti gera til að laða að fleiri keppendur því þessi viðburður hefur farið fallandi fæti undanfarin ár. Ef þið hafið hugmyndir um hvað mætti betur fara eða hver sé ástæðan fyrir því að svona fáir mæta skráið hugmyndir/skoðanir ykkar hér að neðan eða á Facebook (ASCA eða Ralph).
Bestu kveðjur,
aðalritari

fimmtudagur, apríl 28, 2011

Garmin vandræði

Sælt veri fólkið. Ég hef í nokkur ár verið stoltur eigandi af Garmin Forerunner 305. Nú er ég búinn að týna USB hleðslutækinu. Hvað er til ráða?
Kveðja, Jens

miðvikudagur, apríl 27, 2011

Hádegisæfing 27. apríl

Mættir: Ívar í forstarti, Dagur og Jón Örn (í kvartbuxum, sem er bannað fyrir 1. maí), Óli (sem fékk hlaupna skó), Sigurgeir, Sveinbjörn sprettur, Huld, Þórdís og Sigrún. Farin var róleg Hofsvallagata en B liðið fór Suðurgötu og einn úr C liði gekk á köflum. Veður var afburðagott og lofar góðu fyrir sumarið en spáð er 17°C á mánudag. Því er ekki úr vegi að ítreka búningareglurnar: Stuttbuxur/hálfsíðar og sumarlegur bolur eða jakki við frá 1. maí - 1. okt. (var það ekki annars?)
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, apríl 26, 2011

Vormaraþon F.M. 30. apríl

Á laugardaginn fer fram vormaraþon félags maraþonhlaupara, ekki klikka á forskráningu í það. Keppt er í heilu- og hálfu maraþoni.
Skráningarblað
Kveðja,
aðalritari

sunnudagur, apríl 24, 2011

Víðavangshlaup Í.R. 21. apríl

Sumardags fyrsta hlaupið bar upp á skírdag að þessu sinni og áttum við tvo fulltrúa í hlaupinu, svo vitað sé. Erfiðar aðstæður voru til hlaups, rok og rigning.
Tímarnir:

Sveinbjörn V. Egilsson 23:57 (137. af heild og 16. í flokki)
Dagur Björn Egonsson 32:06 (327. af heild og 69. í flokki)

Vitað er að Sveinbjörn ætlaði sér undir 25 mínúturnar og það tókst með glæsibrag og vel það. Minna er vitað um áform formanns og verður hann sjálfur að svara fyrir sig.

Glæsilegt! Til hamingju.
Mynd

þriðjudagur, apríl 19, 2011

Hádegisæfing 19. apríl

Mættir: Ívar, Dagur, Jón Örn og Sigurgeir.

Ívar og Jón Örn voru seinir og fóru á eigin vegum 7-8 km. Undirritaður og Dagur tóku Hofs á vaxandi tempó en gáfu sér samt tíma til að koma við í Öskjuhlíð og sjá hvort eitthvað var eftir af páskaeggjum þar sem Fréttablaðið faldi nokkur slík á laugardaginn.

Kv. Sigurgeir

Boston 18. apríl-Marathon Monday


Boston 2011 Winner-Mutai

Á ferð og flugi með Huldari og Sigurbirni

The course

Heartbrake Hill

Kveðjustund

Tímarnir


Árlega fara Huldar og Sigurbjörn í Víking til Boston til að taka út Boston maraþonið. Brautin er forprófuð áður en keppendur mæta til leiks, keppendur teknir út og veðjað á sigurvegara. Að þessu sinni er gestur Huldars og Sigurbjarnar stórhlauparinn 3R, sem einmitt er búsett í Boston og var sérstaklega valin til þess að vera gestur þáttarins í ár. Til þess að vera gjaldgengur þarf maður að vera hlaupari, eiga skærbláan Sugoi jakka og vita það að það eru hestöfl í Hámarki.
Við byrjuðum daginn snemma eða kl. 07:00 til þess að forprófa brautaraðstæður og ganga úr skugga um að verið væri að setja upp drykkjarstöðvar og salernisaðstöðu á viðeigandi stöðum. Hlupum þrjár saman að rótum Heartbrake Hill sem er u.þ.b. 10K punktur og snerum þá við til að halda sömu leið til baka. Veðrið var alveg með eindæmum gott, sól, passlegur hiti og skottvindur alla leiðina til baka, sem þýddi kjöraðstæður fyrir hlauparana. Eftir æfinguna var horft á elítuna starta í beinni útsendingu uppi á hóteli og veðjað á hverjir myndu sigra. Goucher og Hall, amerísku "favoritarnir" yrðu ofarlega en myndu ekki vinna, Tune myndi koma sterk inn og ekki týnast, eins og í fyrra og svo frv. Eftir þetta var haldið á sóðalegan og sveittan morgunverðarstað í nágrenninu og þaðan haldið rakleiðis út í braut til að sjá fyrstu keppendur koma í mark. Fyrir þá sem þekkja erum við staðsettar á horni Boylston street, við síðustu beygju hlauparanna þar sem slökkvistöðin stendur og u.þ.b. 500m eru að markinu. Það er því oft um svakalega endaspretti að ræða á þessum stað og að þessu sinni voru 3 konur saman í hnapp og tveir karlar og úrslitin réðust á allra síðustu metrunum. Nokkrir íslendingar tóku þátt að þessu sinni og náðum við að sjá 2 þeirra koma í þessa beygju. Þegar mesta spennan var liðin hjá kvöddum við Huldar 3R, sem hélt alsæl til síns heima, staðráðin í að hlaupa þessa braut áður en langt um líður. Síamstvíburarnir eru e.t.v. til viðræðu um slíkt líka. Síðan fóru Síams að sækja skó fyrir væntanlega maraþonhlaupara ÍAC, því ekki er hægt að komast skammlaust í gegnum heilt mþ skólaus, þótt nokkrir hafi reynt það hér í Boston.
Huldar og Sigurbjörn þakka fyrir sig og taka lagið...það eru hestöfl í Hámarki, það eru hestöfl í hámarki....iiiiiiiiiiiiii....ii.
Kveðja,
Sigurbjörn

Puðað í London




Mig langar að byrja á að þakka ykkur fyrir góðar kveðjur, en ég þóttist vita að ég yrði hvort eð er of seinn að reporta tímann minn sjálfur. Vel gert Dagur, enda skemmtilega fram sett hjá Tjallanum, flott að geta fengið alla millitímana svona svart á hvítu:)

Það var meira fiðringur í mér en spenningur þegar ég lagðist til hvílu á laugardagskvöldið, búinn að fara yfir það í huganum svona 5 sinnum hvaða ráðs ég gripi til ef ég skildi missa af lestinni heiman frá mér í Twickenham kl. 07:14 niður á Waterloo morguninn eftir, þaðan sem ég myndi svo tengjast öðrum lestum sem kæmu mér yfir á Blackheath stöðina í A-London, þaðan sem ræst yrði út í maraþonið kl. 09:45.

Ég var því pollrólegur þegar ég kom út á Twickenham lestarstöðina snemma að morgni maraþondagsins og sá (mér til mæðu reyndar) að lestirnar voru ekki að ganga (engineering work for god's sake!) og var því með back-upið á hreinu. Hljóp einfaldlega aftur heim og ræsti út frúna og börnin og fékk skutl niður í bæ. Mætti því heldur seinna á "hátíðarsvæðið" en ég hafði ætlað mér og kominn í algjöran hlandspreng - núna af spenningi!

Það voru þrjú svæði fyrir hlauparana (rautt, grænt og blátt) þar sem menn gerðu sig klára og komu sér fyrir á ráslínunni.... eða öllu heldur í rásröðina löngu. Ég var á bláa svæðinu og var þar í "hólfi 6" en það var ætlað þeim sem stefndu á 4 klst hlaup. Þetta var sannkallað hátíðarsvæði, maður drakk einhvern veginn í sig stemninguna en hún var gríðarleg hjá öllum þessum fjölda og einhvers staðar í fjarska heyrði maður viðtöl við einhverjar stjörnur sem voru að gera sig klárar að hlaupa með MÉR! Komið var að Richard Branson sjálfum að ræsa hlaupið...

...rúmum 8 mínútum síðar komst ég yfir ráslínuna loksins og við héldum áfram göngunni... Jæja, 1-2 KM síðar fannst mér ég loksins vera farinn að skokka eitthvað, en æi, þarna var fyrsti sjúkrabíllinn kominn að sækja einhvern óheppinn sem lá ansi rispaður út í kanti og hafði ekki náð á fyrstu drykkjarstöðina. Þetta varð því að fyrsta flöskuhálsinum og við komin aftur í göngu... Smátt og smátt opnaðist þetta aftur og nú blasti við manni ótrúleg sjón: að horfa upp eftir stræti sem teygði sig að því er virtist endalaust áfram og það eina sem sást voru græn tré beggja megin strætisins og svo allir regnbogans litir á hlaupum þar á milli.

Mér leið mjög vel. Hafði borðað og drukkið nokkuð skynsamlega síðustu dagana og var með gelin klár. Fékk mér fyrst að drekka í 10KM og byrjaði þá að gela mig og gerði það á hálftíma fresti eftir það. Það var að brjótast svolítið um í kollinum á mér þetta rólega start að mér fannst, hvernig færi með 4 tíma targetið úr þessu, versus það að fara að breyta um áætlun í miðju hlaupi og byrja bara að njóta þess. Þetta voru svolítið sérstakar pælingar sem héldu áfram í nokkra KM þangað til ég hugsaði að ég skyldi bara halda áfram að njóta þess (eins og hægt er að njóta þess að sjá hvað hægt er að ná út úr líkamanum við þessar aðstæður; logn, sól og 20 stiga hiti) en svo þegar ég var í ca. 30 KM fannst mér eins og ég ætti klárlega að halda áfram að miða við 4 klst. Á þessum kafla sá maður ótrúlegustu fígúrur; banana á hlaupum sem górilla var að elta, slökkviliðsmenn í sínu fulla gervi með kúta á bakinu og hlaupandi í stígvélum (pælið í því!), brúðhjón, verðandi brúðhjón í líki Kate og Prince William, mann klæddan í ristastóran Rubik kubb og var að leysa þrautir á hlaupunum os.frv., os.frv.


Svo fór draumurinn aftur að fjarlægjast. Það rann upp fyrir mér að mig langaði ekkert í meira gel, var að reyna að koma meiru ofan í mig þegar ég sprengdi gumsið fram í mig og yfir úrið sem varð allt klístrað og mér fannst fara í eitthvað rugl - í bili a.m.k. Svo fór Garmurinn að sýna mér aftur einhverjar tölur sem hlutu að vera réttur tími og ég byggði hlaup mitt á þessu þar til ég var kominn 800M að marklínunni og sá að ég var enn rétt innan við 4 tímana, svo var skilti sem sýndi 600M og svo 400M (djísus, var þetta ekkert að verða búið?). Svo loksins þegar ég komst yfir marklínuna og sagði Garminum að hætta að mæla mig þá sýndi hann mér 4 klst. 00 mín og 31 sek!!


Dagur hefur þó uppljóstrað official tímanum mínum og við hann stend ég. Ég fékk minn verðlaunapening að launum, staðfestingarskjal, epli, mars, vatn, bómullarbol, sportdrykk og koss að launum frá stuðningsfólki mínu sem mér þótti frábært að sjá á milli 11 og 12 mílna marksins. Það veitti manni frábæra hvatningu.


Og svo ég segi nú alveg satt og rétt frá, þá varð mér á einhverju verulega erfiðu augnablikinu hugsað til ykkar og snjóhlaupsins okkar frá því á árshátíðardaginn. Þá mundi ég það ég yrði sá sem myndi setja viðmiðið þetta vorið og nú er það komið og hananú!



Bestu kveðjur héðan úr 25 stigum og sól,


Hjörvar

mánudagur, apríl 18, 2011

sunnudagur, apríl 17, 2011

London Marathon 2011

Mikil spenna var í London Maraþoninu í morgun enda enginn annar en Hjörvar félagi vor á ráspól. Mikið hefur verið rætt um væntanlega frammistöðu Hjörvars sem með hlaupi sínu setur standardinn fyrir Stokkhólm í næsta mánuði. Sjá tímana hans hér fyrir neðan. Gaman verður að fá frásögn hans af þolrauninni hér á síðuna.

Frábær árangur Hjörvar og til hamingju.

Kveðja, Dagur

föstudagur, apríl 15, 2011

Föstudagsæfing 15. apríl

Mættir í dag: Ívar, Jón Örn, Dagur, Sigurgeir, Sveinbjörn og Sigrún og fórum við léttan miðbæjarrúnt í skárra veðri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Er við hlupum yfir Austurvöll áreittu okkur ölvuð ungmenni í skrípabúningum og fór Dagur fremstur, að vanda, enda elskar hann hróp og köll ungmeyja sem eru að slíta barnsskónum í hinum ýmsu menntastofnunum landsins þessa dagana og eru að dimmitera vítt og breitt.
Alls um 7K
Kveðja,
Sigrún

fimmtudagur, apríl 14, 2011

Hádegisæfing 14. apríl

Mættir: Bjöggi í lyftingum (axlir), Sveinbjörn á sérleið um miðbæ, Dagur, Fjölnir, Gamle Ole og Jón Örn ásamt Huld í tempóhlaupi, mislöngu, en Þórdís og Sigrún fóru Suðurgötu í væast sagt hundaveðri og slyddu. En hver hugsar um veður þegar félagsskapurinn er góður?
7-9K
Kveðja,
Sigrún
Ath. Minni á Píslarhlaupið næsta miðvikudag en þá er hlaupið milli kirkna í borginni.

Icelandairhlaup 2011

Ágætu félagsmenn.

Vegna framkvæmda við hótel og lóð félagsins er komin upp sú staða að nauðsynlegt reynist að fresta fyrirhuguðu Icelandairhlaupi, sem vera átti 5. maí, til 15. september nk. Í stað þess að fella hlaupið niður í ár var þessi dagsetning valin af stjórn með það að leiðarljósi að ekki væru þá önnur hlaup á dagskrá. Við hlökkum því til að enda sumarið á þessu flotta hlaupi okkar í endurbættu umhverfi og vonumst að sjálfsögðu eftir starfskröftum félagsmanna við undirbúning og framkvæmd þess.

Með kveðju,
stjórn IAC

miðvikudagur, apríl 13, 2011

Hádegisæfing 13. apríl

Mættir: Fjölnir, Óli og Sigurgeir.

The Cargo Kings þurftu að mæta aðeins fyrr til að ná að hlaupa og vera mættir á fund kl. 13:00. Á sama augnabliki mætti Óli sem ætlaði að fara 17 km og mætti því fyrr. TCK fór rólega Hofs skv. plani. Þegar við komum aftur inn í klefa tókum við eftir því að það var engin á æfingu, þ.e. sem átti að byrja kl. 12:08...uuusssss!

Kv. The Cargo Kings + Óli

þriðjudagur, apríl 12, 2011

Þetta eiga hlauparar að borða!


Smellið hér:Ég vissi þetta nú...
Kveðja,
aðal

Hádegisæfing 12. apríl

Mættir: Sveinbjörn, Ívar, Jón Örn (sér), Dagur, Fjölnir, Sigurgeir, Oddgeir, Huld, Sigrún og einnig sást Joe boxer á hlaupum í skógi. Farið var skv. plani Stokkhólmsmanna í skemmtilega 800m spretti, sjö kvikindi við Hlíðarfót og flestum fannst þetta bara mjög skemmtilegt og hressandi.
Alls tæpir 8K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, apríl 11, 2011

Hádegisæfing 11. apríl

Sælir núna!
Mættir til æfinga: Ívar og Oddgeir að taka 10K@mp, Óli kom út um ormagöng, Sigrún, Huld og Sveinbjörn fóru Suðurgötu í hagléli á köflum en annars í fínu veðri. Nú er farið að síga á seinni hluta maraþonæfinga Stokkhólmsfara og því er ekki úr vegi að henda inn einni könnun.
Góðar stundir,
aðalritari

laugardagur, apríl 02, 2011

Morgunæfing 2. apríl




Stokkhólmfarar voru mættir á stífluna við Höfðabakkabrú kl. 7:58 og var planið að leggja af stað kl. 8:00. Farið var í gegnum Kópavoginn með smá stopp í myndatöku. Svo var haldið áfram að Vífilstaðavatni og þaðan í Heiðmörkina. Fórum í gegnum Heiðmörk meðfram Elliðavatni og aftur að stíflunni góðu.

Kv. Stokkhólmfarar