föstudagur, janúar 30, 2009

Hádegisæfing 30. jan.



Mættir: Jói (tók 6 kílómetrana létt), Guðni, Dagur, Huld, Kalli og Sigrún.

Æfing dagsins í dag var tileinkuð Guðna og sniðin að hans þörfum. Haldið var frá hóteli í gullfallegu sólskini og stillu vestur í bæ, Huld og kalli fóru Hofs, Guðni fór Kapla long + blaðburðar o.fl. á meðan Dagur dró aðalritarann á (asna)eyrunum í 2 tempókafla á Kaplaskjólsleið, sem gengu út á að láta Guðna ekki ná í skottið á asnanum. Færð var ágæt, þrátt fyrir snjó, enda rutt á brautum og hlýtt. Aðalritari reyndi eftir fremsta megni að gera sitt besta og gerðist hinn óvænti atburður að þjálfarinn sletti einu hrósyrði á flakið, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt ef ekki eindæmi. Telst þá aðalritaranum til að 2ja ára niðurbrotstímabili hans sé formlega lokið innan skokkklúbbsins, enda benti koss á kinn hans, reyndar frá öðrum félagsmanni, til að nú ætti uppbygging og jákvæð meðul að ráða ríkjum. Ekki er annað hægt en að fagna því, ég verð að segja það.

GI vel á 10. K, SB og Day 9,3 en HK and Svale 8,7

Kveðja og góða helgi,

Sigrún

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Hádegisæfing 28. janúar

Mæting: Þrjár stúlkur frá flugdeildinni, Fjölnir, Dagur, Kalli, Huld, Óli, Jói, Sveinbjörn, Ingunn og Sigurgeir. Guðnir og Sigurgeir fór Fossvogsdalinn eða total 8 km. Aðrir fór á séræfingar í mismunandi áttir.
Fjölnir, Dagur, Kalli, Huld og Óli skelltu sér í sjósund og skv. þeirra upplýsingum var sjórinn 1,8 gráða. Öll voru þau sammála um ágæti þess að skella sér í sjósund og verður þetta gert síðasta opnunardag hvers mánaðar.

Sigurgeir

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Hádegisæfing 27. janúar

Mæting: Þrjár stúlkur frá flugdeildinni og Fjölnir, Guðni, Sigurgeir, Dagur, Sveinbjörn, Baldur, Óli.
Það var ákv. að sýna Baldri hvernig við tökum sprettæfingar. Fórum í kirkjugarðinn og tókum 6 brekkuspretti. Við skiptumst á að reyna vinna Dag til að tryggja að hann tæki á því alla sprettina. Þegar við komum til baka að HLL fór Dagur að skoða úrið sitt og áttaði sig á því að skv. púlsmæli var þetta létt æfing hjá honum!

Samtals 7,4 km.

Kv. Sigurgeir

mánudagur, janúar 26, 2009

Mánudagsæfing 26. janúar

Mættir í kalsaveðri og rokrassgati: Jói á ráspól, hlaupandi, Ingunn á sérleið og kjarninn; Dagur, Guðni, Kalli, Huld og Sigrún ásamt Sigrúnu Erlends gestahlaupara, sem fóru Hofsvallagötuhring. Fínn vindur í bakið á útleið en heimleiðin vindasöm. Ákveðið að taka 2 tempókafla (annar var svo stuttur að aðalritari tók ekki eftir honum) en hinn var lengri og var frá dælu til kafara m. forgjöf. Þar gilti að éta eða verða étinn og var mikið lagt undir í þann sprett. Áttum svo von á 3ja spretti upp í Öskjuhlíð en tímamörk stóðust ekki svo haldið var heim á hótel.
Alls 8,7-k
Kveðja,
Sigrún
P.s. Hið fyrirhugaða sjósund er planað á nk. miðvikudag í hádeginu, en þá er opið í pottinn hjá sjósundfélaginu. Menn eru því beðnir um að klæða sig viðeigandi skýlur undir hlaupafötin og hafa meðferðis lítinn handklæðaræfil til þerringar eftirá.

laugardagur, janúar 24, 2009

Breyting á lokafresti á WARR skráningu

Skráningu fyrir WARR keppnina í Kína lýkur 31. mars. Ath. framlengdur frestur.
Bestu kveðjur,
IAC

Smellið hér

föstudagur, janúar 23, 2009

Fríkaður föstudagur 23. janúar


Frábær mæting var í blíðviðri dagsins í dag. Flugfreyjukvartettinn með þeim Sirrý, Björgu Stefaníu, Heklu og Birnu mætti galvaskur á flugvallarhring, Jói var á sérleið en fjöldinn fór fríkaða föstudaginn með brottfalli. Sveinbjörn og Anna Dís fóru rómantísku leiðina en Dagur, Guðni, Kalli, Fjölnir, Bryndís, Jón Gunnar, Óli, Huld og Sigrún fóru krækjur í Hlíðum, og stefndu síðan niður í Tjarnargötu, þar sem efna skyldi til sprettkeppni, því Dagur vildi ólmur af stallinum. Sprett var af stað um 300m kafla, niður Tjarnargötuna, sannkallaður dauðasprettur og varð þjálfara að ósk sinni með að missa konungdóminn. Stuttbuxnadrengurinn kom sá og sigraði og hrifsaði til sín valdastólinn. Hvort þetta er merki um hvað koma skal skal ósagt látið en þarna hafa klárlega orðið vatnaskil. Spurning hvort draga eigi úr þjálfun við unglingana á meðan ástandið er að jafnast út. Veit það ekki.
Hlupum síðan einn Rocky að hætti Laugaskokkara og skokkuðum síðan rólega heim í faðm helgarinnar.
Alls 8,4-K
Kveðja,Sigrún

KALLI Á HÓLI
Hvern þekkirðu í Flóanum kaldari karl en hann Kalla-Kalla-Kalla-Kalla á Hóli
Og hver finnst þér æstari í kvenfólk og svall en hann Kalli-Kalli-Kalli Kalli á Hóli
Hann syngur og drekkur og dansar og hlær,og dreymandi' hann þráir hver einasta mær
Því enginn á landinu' er konum eins kær og hann Kalli, (hvaða Kalli), hann Kalli (hvaða Kalli) hann Kalli, Kalli, Kalli, Kalli á Hóli.

ASCA -keppnin 2009

Ágætu félagar.
Lufthansa hefur ákveðið að fresta ASCA-keppninni fram á haust og verður hún haldin annaðhvort í október eða nóvember. Nánari upplýsingar verða birtar um leið og þær berast.
IAC

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Hádegisæfing 22. janúar

Mættir í dag: Jói á sínum hring og kvartett Óla Briem með Degi, Guðna og Sigrúnu. Fórum nokkuð óhefðbundna leið frá hóteli, Snorrabraut, Grettisgötu, Alþingi að kíkja á mótmæli, Vesturgötu, Hofs og þaðan fóru ÓB og DB Kapla long en "morðinginn" og stripparinn fóru Hofs áfram og niður á Ægisíðu, þar sem þau vóru hirt upp af hraðlestinni og samferða hefðbundna leið tilbaka á hótel. Greiðfært var á götum en flughált á stíg þar sem frosið hafði yfir söndun. Mannskaðafæri semsagt. Þau válegu tíðindi bárust mér til eyrna að búið væri að hrinda sprettkónginum af stalli, það hefði gerst í gær í 6*300m sprettum í Tjarnargötu. Kemur þá upp í hugann að sjaldan launar kálfur ofeldið. Bregðast þarf við þessu með viðeigandi hætti.

Alls 9,5-K hjá styttri en 10-K hjá lengri.

Kveðja,
Sigrún

Reuters

Hvar endar þetta?

Mótmælin
Aðalritari brá sér af bæ í gærkvöldi og gekk yfir Austurvöll með viðkomu á Hverfisgötu og var verulega brugðið við þá sjón er við blasti. Eitthvað miklu meira en "helvítis fokking fokk" var í gangi þar.

mánudagur, janúar 19, 2009

Dulbúinn mánudagur 19. jan.

Mættir í fínu veðri, þó smá vindur í mót á bakaleið: Bjöggi (dnf), Kalli, Dagur, Guðni (hettuklæddi Breiðholtsmorðinginn), Huld, Sveinbjörn, Fjölnir og Sigrún. Jói var að hlaupa flugvallarhring með"pacer" á hjóli og Ingunn á sérleið. Það leit út fyrir að þjálfari léti undan aumingjaþrýstingi félagsmanna með léttan dag en sú von fjaraði út jafnskjótt og hópurinn kom að Háskólasvæðinu. Leggja átti upp 3 tempóhlaup inni í Suðurgötuleiðinni. 1. Blaðburðarhringur, rólegt. 2. Dælustöð að kafara, rólegt og 3. (einungis fyrir naglbíta) Brekka og í gegnum skóg, rólegt heim. Í gegnum þetta þræluðu félagsmenn sér, hver með sínum skrefstuttu eða -löngu fótum. Einungis 2 þreyttu síðustu raunina, enda hafði lífsþrótturinn verið illa murkaður úr lýðnum á tempókafla 2 er hettuklæddi Breiðholtsmorðinginn birtist óvænt og gerði aðsúg að þolendum. Mikil hræðsla greip um sig og hraðaaukning var merkjanleg.
Góður rómur var þó gerður að þessari æfingu og greinilegt að margir áttu inni fyrir meiru. Leiðinlegt er þó að geta þess að BB, sem loks er kominn í samlita skó,buxur og sokka, þurfti að hætta í upphafi æfingar v/meiðsla.
Alls tæpir 8-K og yfir.
Kveðja,
Sigrún

Limra dagsins:
Endalaus tempóhlaup
langar að leggja upp laup.
Í félagsskap frárra
er fjandanum skárra
að fá sér eitt Jäger-staup.

föstudagur, janúar 16, 2009

Ófríkaður frjádagur 16. janúar


Mæting í dag: Jói krafthlaupsgöngumaður, Fúsi, sem fór Erfðagreiningarhring, Kalli ("ég er ekkert að nenna að pína mig"), Hössi (ekki -Drekinn), Sigurgeir (sem er að manna sig upp í stóra bombu (b-o-b-u) á aðal, Huld hérastubbur og Sigrún í matarhorninu. Frábært veður og Hofsvallagata farin á þægilegu tempói. Fyrst ekki varð úr að gera final-test armbeygjanna í miðbæ eru menn eindregið hvattir til að framkvæma þær í friðhelgi heimilisins og skila inn tölum þar að lútandi. Nokkra athygli vakti aðkoma þjálfara að æfingu dagsins, en hann birtist á punktinum og bandaði höndum, jakkafataklæddur, og minnti helst á þjálfara úr enska boltanum. Menn eiga ekki að láta vinnu eyðileggja fyrir sér og slíta sundur daginn!
Alls 8,6-K
Góða helgi,
Sigrún

Final Test

Set upp vettvang fyrir final test, sem eins og menn muna á að gera í þessari viku.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Hádegisæfing 15. janúar

Mæting: Dagur, Guðni, Sigurgeir, Fjölnir, Óli, Jói, Jón Gunnar, Huld.
Fín mæting í góðu veðri. Farið Hofsvallagötu nema Óli sem fór Frostaskjólið. Það var gaman að sjá helstu vonarstjörnu klúbbsins á ferðinni aftur ;o)

Því miður komst Aðal ekki en fréttir herma að hún sé í detox í Póllandi og komi sterk til baka á morgun!

Kv. Sigurgeir

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Kolkrabbinn 14. janúar


Það er bannað að koma brosandi í mark á kolkrabbanum, það er merki um að ekki hafi allt verið lagt undir. Undir þessum ströngu pyntingarformerkjum gengum við sjálfviljug inn í gin kolkrabbans; Dagur, Guðni, Kalli, Huld og Sigrún. Sveinbjörn tók "smokkfiskinn", en Ingunn og Jói voru á eigin vegum. Snjór var yfir öllu en frábært hlaupaveður. Fagaðili tók kolkrabbahópinn út og sagði að þar reyndist sýnishorn af fólki úr öllu litrófi þjóðfélagsins, þ.e. einn hommi, einn alki, ein fegurðardrottning, einn terroristi og einn geðfatlaður og verður nú hver að finna samsvörun í sínum manni. (innsk. höf. -birt án leyfis og án ábyrgðar). 'A föstudag, fríkaða frjádaginn, gefst meðlimum hópsin aftur á móti kostur á að sýna hvað í þeim býr er teknar verða svokallaðar "open-air push-ups", en það er lokaáfangi áskorunarinnar, eða "final-test".

Until then-keep smiling! :)

Alls 8K

Kveðja,

Sigrún

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Hádegisæfing 13. janúar

Góð mæting var í dag: Jói í krafthlaupsgöngu, Sveinbjörn á eigin vegum, Fúsi á sérleið, Björg Stefanía og Hekla á eigin hring en restin; Hössi, Dagur, Óli, Fjölnir og Sigrún fóru Kópavogshlaup með viðkomu í Fox-skógrækt-Öskjuhlíðarkolkrabbaarmur með "escape path" inn í skóg og heim á hótel. Kalt og alveg stillt veður og snjóföl. Athygli vakti að BB, sem slasaðist við módelstörf í undangenginni viku, sá sér ekki fært að mæta.

A "special request" for Óli as a part of the ASCA song contest program.
Alls, 7,8K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, janúar 12, 2009

Næsta áskorun á eftir armbeygjum, upphífingar og magi

Vil benda gildum limum í FISKOKK á eftirfarandi myndband.
Þar tekur amerískur og vel "tanaður" dvelli vel á því og kynnir nokkrar skemmtilegar æfingar sem verða teknar upp hjá klúbbnum á næstu misserum.

http://www.youtube.com/watch?v=pfsTKfUT-RQ

P.s. Sigrún, þú verður að hætta að hlaupa með "diktafón" og taka upp óhljóðin í félögum þínum.

Kv. Bjútíið

Hádegisæfing 12. janúar

Fantagóð mæting í sólinni í dag: Jói í kraftgöngu, Sveinbjörn, Anna Dís og Fúsi fóru Suðurgötuna, Bjöggi fór Hofsvallagötu, Sigrún og Kalli voru pínd til að fara Kapla short og Huld strandleiðis en Dagur og Guðni fóru Kapla long with a twist. Tókum tempóhlaup frá okkar startstöð út að kafara þar sem aðalritari mátti þola háðuglega útreið á leiðinni. Söfnuðumst síðan saman fyrir niðurskokk heim á hótel. Nokkuð bjart var yfir mannskapnum eins og veður gaf til kynna og verður nú loks æfingafriður fyrir undangengnum keppnum sem hafa reynt nokkuð á geðslag og andlegt jafnvægi meðlima hópsins. Búið er að gefa út æfingaáætlun vikunnar og ætlunin er að taka Kolkrabbann á miðvikudag.
Alls frá 7-9,6 km.
Kveðja.
Sigrún
Svona var hljóðið úr BB þegar hann sá að Doris Day & Night nálguðust!

sunnudagur, janúar 11, 2009

Lokatölur úr ambeygjuáskorun viku 6



Ágætu armbeygjutröll.

Nú þarf að skila inn síðustu tölum. Maxtala x 3, vika, dálkur

Hvernig final-test fer fram verður leiðbeinandi hópsins að ákveða.

föstudagur, janúar 09, 2009

Hádegisæfing - 9. janúar

Mættir í dag í post Powerade recovery run og aðdáendur: Björgvin, sem á mynd sýnir nýju línuna í 2009 hlaupafatnaði. Línan samanstendur af dry-fit treyju úr teygjanlegu efni (fyrir ummálsbreytingar), tights (sem er skyldueign hlauparans) með bómullarskrefbót og punghlíf, endurskin á gluteus maximus, renndar skálmar á kálfum. Við þetta ber Björgvin þokkafulla gula markmannshanska (good grip) frá finnska vetrarstríðstímanum. Þetta telst vera tískulína hlaupahópsins í ár og öll frávik í klæðnaði meðlima verða skoðuð af glöggskyggni, annað hvort til samþykktar eða synjunar.
Aðrir á æfingunni voru: Sveinbjörn, Fjölnir, Óli, Guðni, Kalli (tanaður í drasl), Dagur vestisberi, Huld, Hössi, Jói á sérleið Bryndís og Sigrún.
Fórum hefðbundinn sýningarrúnt um Sæbrautog miðbæ, ráðhús og heim á hótel. Skiptust menn á sögum af afrekum Powerade í gærkvöld, þar sem keppt var við fínustu aðstæður og verða sumir að sætta sig við að hafa ekki hönd á Hnakka.
Alls um 8K í fínasta veðri.
Minni á að armbeygjuáskorun lýkur á sunnudag en þá þarf að skila inn síðustu tölum úr suðurlandskjördæmi vestra.
Góða helgi,
Sigrún





miðvikudagur, janúar 07, 2009

WARR - Skráningu á netinu lýkur í lok janúar

Þeir kínversku vilja greinilega hafa tímann fyrir sér. Frestur til að skrá sig rennur út í lok janúar, næstum átta mánuðum áður en keppnin á sér stað. Þeir þurfa sennilega þennan tíma til að gaumgæfa bakgrunn þátttakenda áður en þeim verður hleypt inn í helgidóminn. Ég er búinn að skrá mig á netinu og gekk það mjög vel fyrir sig. Slóðin er http://worldairlineroadrace.org/warr2009_race_registration.html

Hótelpöntun er reyndar ekki hluti þessarar skráningar en nánari upplýsingar eru um þau mál inni á heimasíðunni.

The largest airline industry sporting event dedicated to the fostering of friendship between airline personnel will take place in Hangzhou. At the event, you will have the chance to compete with participants from around the world in the 5.000m and/or 10.000m run and/or added this year the Sedan Chair Race.
The registration deadline is end of this month!

Kveðja, Jens

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Hádegisæfing 6. janúar

Frábært veður var í dag og fín mæting. Mættir voru Dagur, Guðni, Bryndís, Huld og Sigrún. Jói var í kraftgöngu og Ingunn á skógarleið. Fórum Hofsvallagötuna á rólegu stráka tempói (hratt f. suma) og rifjaði Guðni upp sokkabandsár aðalritara sem markmanns í Val. Sjaldan hefur aðalritara hlýnað jafn mikið um hjartarætur og á þeirri stundu er heyrinkunnugt varð að hans hefði verið getið í Valsblaðinu 1988. Frægðarsólin er reyndar ekki með öllu hnigin til viðar og má sjá neðangreinda frétt í Valsblaðinu 2008, einungis 20 árum síðar.
Alls 8,72K en Dagur tók blaðburðarhringinn aukreitis.
Kveðja,
Sigrún
Lengi lifir í gömlum... smellið á mynd til að stækka.

mánudagur, janúar 05, 2009

Hádegisæfing 5. janúar

Nokkrir strákar og ein stelpa mættu á æfinguna í dag. Þetta voru þau Sveinbjörn á sérleið, Bjöggi sem kom út úr skápnum (Suðurgata), sko í karlaklefanum, Fjölnir á frívaktinni, Guðni, Dagur, Hössi, Óli blaðburðardrengur og Sigrún. Farin var Hofsvallagata á rösku tempói og á Ægisíðu voru menn krafðir svara um hver væru þeirra markmið fyrir 2009. Hössi ætlar að bæta sig í öllum vegalengdum, Guðni og Dagur ætla að hlaupa 2009 Km á árinu (duh...), Fjölnir ætlar 10 km á 45 mín. á árinu en Óli var ekki til frásagnar og Sigrún ekki með neitt í hendi fyrir árið en er að vinna í því. Eftir Hofs var tekinn einn "simulator" í Öskjuhlíð af þeim sem eftir voru. Næsta fimmtudag er svo Powerade vetrarhlaupið sem síðast var háð við voveiflegar aðstæður. Síðast var það svona

Alls 9,44K
Kveðja,
Sigrún

sunnudagur, janúar 04, 2009

Armbeygjuáskorun vika 5



Gleðilegt ár!

Nýárstölur í viku 5 þurfa að berast í dag, þ.e. 3x maxtala og vika+dálkur.

föstudagur, janúar 02, 2009

Freaky Friday 2. janúar

Mættum í "Kallaveðri" (þ.e. stuttbuxna) og tókum góða æfingu , ég og Óli Briem. Sigurgeir tók Suðurgötuna, enda með fótboltameiðsl. Undirrituð og Óli voru staðráðin í að taka kolkrabbann, enda engin ástæða til að vera að hanga eitthvað inn í nýja árið. Brautir auðar og ekki mikill vindur og Óli ca. 15-20 sek. á undan í öllum sprettum. Sammæltumst um að halda áfram í armbeygjuprógrammi eftir að því lýkur formlega. Góð samviska inn í helgina.
Hvar voru hinir þegar þetta fór fram, mér er spurn?
Alls 7,74K
Kveðja,
Sigrún