miðvikudagur, október 31, 2012

Miðvikudagur 31. okt - Þrír harðir

Það voru þrír harðir sem mættu á æfingu á síðasta í stuttbuxum.  Þetta voru þeir Dagur, Guðni og Oddgeir.  Veður var frábært, garrinn frá því í gær farinn, og sól í heiði.

Rólegt hlaup í skógræktina og til baka via 1. arm Kolkrabbans.  Ýmislegt skrafað, þ.á.m. nýafstaðin ráðgefnadi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur þjóðlagaráðs að nýrri stjórnarskrá (þurfið þið að vita eitthvað meira?).  Þar skiptust menn í tvær ójafnar fylkingar (2 með tillögunum og 1 á móti).  Ekki verður farið nánar út smáatriði þessa skrafs að svo stöddu.

Alls hlaupnir ca. 7 km.

Jói hinn fyrri gekk svo í hlað þegar teygjum var að ljúka.

Frankfurt maraþon 2012


Það er ekki endilega markmið í maraþonhlaupi að klára á ákveðnum tíma, markmiðið getur verið t.d. að hafa gaman (það má).  Þannig fór ég a.m.k. í þetta maraþon, sem er mitt þriðja. Félagsskapurinn var alveg gulltryggður (gömlu hjónin-Huld og Sigrún og svo Rúna frá Köben að ógleymdri Sibbu, ofurhlaupara.  Við Huld og Rúna vorum á rosalega fínu Hilton hóteli, sem Rúna hafði verið svo elskuleg að græja fyrir okkur og Sibba var á öðru hóteli skammt frá með slatta af ofurhlaupurum og nokkrum venjulegum. Hvað er það samt að vera venjulegur hlaupari?  Er það ekki heilmikið afrek í sjálfu sér að klára heilt maraþon? Það er ekki eins og maður hlaupi 6 flugvallarhringi eða til KEF að gamni sínu. Eða er það? 
Undirbúningurinn fyrir þetta hlaup tók um 9 vikur, eða helmingi styttri tíma en í fyrra. Prógrammið var flott og skemmtilegt en ekki endilega létt.  Oft er meira ekki endilega betra.  Nema þegar um er að ræða vissa hluti, eins og bjór.

Að minnsta kosti einu sinni var ég hætt við að fara og síamssystirin næstum því.  Svo tók maður bara punginn á þetta. 3G.
Mikið svakalega ætlaði ég ekki að stressa mig á þessu.

Það tókst nokkurn veginn.

Á  keppnisdag var kalt, 4°C og gola en við höfðum nægan tíma til að nærast vel.  Við Huld karbólóduðum í einn og hálfan dag í stað þriggja.  Okkur leið ekki vel af þeirri drykkju svo við hættum bara.  Ég tók „anti-cramp“ töflur í tvo daga fyrir hlaup og í hlaupinu. Ég vissi ekkert hvað var í þeim.  Það stóð hvergi.  Ég fékk enga krampa og var stálslegin sem aldrei fyrr í hlaupinu.  6 gel runnu niður með nokkrum hálfum glösum af vatni eða isotonisch drykk.  Líðanin í hlaupinu var afbragðsgóð.  Ég vissi að þetta yrði minn dagur. Ég var búin að hvíla óvenju vel í nokkra daga.  Ég elti „pacer“ allt hlaupið og það var gott og gaman.  Brautin er flöt og skemmtileg.  Mér leið of vel. Þuldi í sífellu möntruna mína „áfram Hera“, en Hera er fótboltavinkona mín úr Val sem berst við mjög erfið veikindi. Ég hljóp eiginlega mest fyrir hana. Vil að henni batni.  Hún er keppnis.  Þegar ég frétti af alvarleika veikindanna hjá henni var ég um það bil að hætta við maraþonið.  Þetta var í byrjun sept.  Eftir að ég heyrði um stöðu mála ákvað ég að láta slag standa.  Mitt verkefni væri lítils virði á erfiðleikaskalanum miðað við hennar.  Það væri of auðvelt að hætta.  Það má ekki hætta.  Það er ekki í boði.

Seinni hluta hlaups var ég staðráðin í að hanga réttum megin, beið samt eftir „vonda kafla landsliðsins“.  Hann kom ekki.   Þá hugsaði ég – þetta er of auðvelt, ég er ekki að fara að missa þessa blöðru ( 3:44 pacer) frá mér.

Ég fór fram úr fullt af fólki síðustu 7km.  Ég var fersk.  Endamarkið var inni í sportshalle.  Rauður dregill, gógó stelpur, tónlist og læti.  Ég sá ekkert og heyrði ekkert, ánægjan var of mikil.  PB og skítlétt. Mig langaði ekkert að gráta eða leggjast niður eins og oft áður.  Mig langaði bara að finna bjórtjaldið og hlægja.  Finna stelpurnar.  Ég vissi að Sibba myndi massa sitt hlaup og vissi líka að fyrirrennari minn (Forerunner) myndi standa sig prýðisvel og gera betur en í fyrra.  Enda hafði hún æft með Sibbu, að hluta til. Ég vonaði að Rúna myndi koma í mark skammt á hæla mér.  Ég vissi ekki hvað hafði gerst með hana fyrr en ég hitti þær þrjár hjá pokageymslunni.  Hlutirnir ganga ekki alltaf eins og maður heldur að þeir gangi.  Stundum ganga þeir verr og stundum betur.  Í  þetta sinn gengu þeir betur hjá mér.
Þakka þeim sem lásu.
SBN
Ég dansa það af mér!
Smellið á "finish cam close-up left" og fylgist með stúlku í skærgrænum langerma bol og bleikum yfir. 



Fjórar fyrir hlaup



Skrýtin heimreið!



Októberfest
 


 

þriðjudagur, október 30, 2012

Þriðjudagur 30. nóv - Norðan garri

Norðan garri mætti þeim er hlupu af stað frá höfuðstöðvunum í dag.

Alls mættu átta stykki: Dagur, Jón formaður, Jói hinn síðari, Oddgeir, Sigrún von Frankfurt, Bjöggi kenndur við fegurð, Heilla Dís og Fjölnismaðurinn.

Í dag var tempódagur í boði Jóns formanns, sem reyndar stytti sér leið og beygði af við Suðurgötu, ásamt Sigrúnu sem nýkomin er heim frá Frankfurt.  Annars var dagsskipun Jóns eitthvað á þessa leið: 5 km á tempóhraða.  Það þýddi fyrir þá sem hófu sprettinn á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu að því takmarki yrði náð við ca. Kafara (menn hlupu síðan ýmist um Hofsvallagötu, Kaplaskjól eða Meistaravelli).  Var vel tekið á því, sérstaklega þegar stutt var í Kafarann og sumir sáu að aðrir voru u.þ.b. að ná þeim.

Rólegt niðurskokk í gegnum Öskjuhlíðarskóg að lokum.

Vegalengdir í dag frá 7 km til rúmlega 9 km.


Jákvæð kona leggur í‘ann



Það er ekki alltaf sem áform um uppskeru eða viðhald á sér stað þótt manni þykir það eiginlega það eðlilegasta í heimi eða fyrir það minnsta lágmark þegar búið er að eyða tíma og púðri í æfingar og hvað þá að berja smá járni inni í skrokkinn á undirbúningstímabilinu.

En nei það er sko ekki sjálfsagt að allt dæmið gangi upp og nú tala ég af reynslu, reynslu sem ég hélt að ég myndi nú aldrei þurfa að lenda í.

Vaknaði á föstudagsmorgni með beinverki og höfuðverk en eins og jákvætt fólk gerir þá hristir maður svoleiðis fljótt af sér og skellir þessu bara á stressið. Mikil spenna var nú í ungu konunni enda að fara að hitta hina yndisfögru Síams systur. Eftir flug fór ógleðinn að hellast yfir en þar sem ég er nú bjartsýn og jákvæð að eðlisfari þá var þessu líka bara skellt á spenning og stress, enda fátt skemmtilegra en að þreyta maraþon. Laugardagurinn var í sama fasi en unga konan bar sig massa vel og reyndi eins og herforingi að láta lítið við þessu bera og hafði sig allan við að borða matinn sinn en kláraði nú ekki alltaf eins og hún er vön, eitthvað var það nú skrýtið en svona er bara stressið, það fer alveg með mann svona dagana fyrir mót!!! Sunnudagsmorguninn leit bara nokkuð vel út. Þá fann ég hið raunverulega fiðrildi sem kemur og það var svona mun vægara en ógleðistilfinningin sem var búin að láta vart við sig sl. daga. Spennan magnaðist bara og tilhlökkunin mikil. Pælingar fóru af stað hvort ég gæti nú kannski PBað eða haldið mig kringum 4 tímana, sem væri nú bara allt hið besta mál. Mestu máli skipti var nú bara að hafa gaman og gera sitt besta. Við Sigrún fundum okkur stæði og þutum af stað. Hún fór nú fljótt úr augsýn en minns var bara góður á sínu róli. Eftir 3Km fór eitthvað undarlegt af stað, maginn útþendist og ógleðinn færðist yfir mig. Hvað skyldi nú vera í gangi? jæja ég fer nú ekki að láta þetta trufla mig og hélt því áfram en alltaf versnaði og versnaði ógleðin og þurfti ég alveg að hafa mig alla við að fara ekki út í kant og gera jú know!. Hélt áfram á sama róli og hélt þetta myndi líða hjá en á km 14 gat ég ekki meira og líkaminn bara mótmælti. Djöfull er hér í gangi, er þetta aumingjaskapur eða hvað? Hringdi í hinn helminginn minn og enginn svaraði. Brotnaði hér bara alveg niður og var í rusli, byrjaði að labba og hlaupa til skiptis. Barði inn í hausinn á mér að þetta væri nú bara aumingjaskapur og ég gæti ekki verið neitt veik, hvernig gæti það staðist, ég sem verð aldrei veik!. Náði svo loksins í hinn helminginn sem er nú vanur að berja mann áfram en fann að ekki var allt með felldu, enda ekki vön að væla yfir því að hlaupa, meira í hina áttina. Vildi hætta en hvatti mig til að halda aðeins áfram en þarna voru magakrampar byrjaðir á fullu og sama hvað ég gerði hættu þeir ekki – líkaminn var hér algjörlega að mótmæla. Þrjóskan tók hér við en ákvað að láta Huldina vita að hér væri nú ekki allt með felldu og sendi henni sms. Hér kom sér vel að vera með símann á sér, en það hef ég bara aldrei á ævinni gert áður, mun líklega aldrei gera aftur til að forðast minningar hlaupsins…..

Ekki liðu margir km og líkaminn gargaði á að hætta þessu bullu og ég snéri því við. Hringdi í Tómasinn og sagði honum að þetta væri búið, væri farin til baka (var þó ekki viss hvernig)…..hér var ég komin ca 17km. Hann hvatti mig til að finna medical tjald og fá mat á ástandið. Auðvitað hlýðir maður bara og því snéri ég við og labbaði og skokkaði til skiptis, ætla ekkert að fara út í smáatriði hvernig mér leið. Kringum km 21 var medical aðstoð og þar var ég mæld bak og fyrir. Eftir nokkrar mælingar var mér sagt að sykur, blóðþrýsingur og púls var allt í góðu, þú er greinilega í góður formi en bara veik!! (sem ég var nú búin að finna út úr sjálf!). Tjáð að hlaupa ekki en gæti gengið! Mér var einnig tjáð að það væri rúta handan við hornið en ekki vitað hvað var langt í næstu rútu. Ákvörðun var því tekinn – heim skal halda, sé nú ekki tilganginn í því að labba hálft maraþon með magakrampa og uppköst í bland, enda þarf ég ekki að sanna fyrir neinum að ég get hlaupið maraþon. Hálft maraþon var skammturinn þann daginn á Bruttó tíma 2:42:03



Kveðja frá magakveisaranum

RRR

mánudagur, október 29, 2012

Mánudagur 29. okt - Fleyg orð örmagna hlaupara

Mestmegnis hrútar mættu í dag: Jón formaður, Íbbi, Úle og Tag Heuer.  Að auki hlupu Fjölnismaðurinn og Oddgeir með hrútspungunum.  Hefðbundinn hringur via Hofsvallagötu hlaupinn og ýmislegt skrafað, þ.á.m. afrek okkar kvenna í Frankfurt í gær, sunnudag.

Í framhaldi af umræðu um maraþonhlaupið í Frankfurt bar á góma tvö skemmtileg tilsvör Dags og Fjölnis (ýmist sönn eða færð í stílinn) við komu þeirra í mark í maraþonhlaupum þar sem menn voru algerlega búnir á því.  Þegar Dagur kom í mark um árið í Boston, blautur og hrakinn, kom starfsmaður hlaupsins að honum og spurði á sína amerísku vísu: "Ær jú ókei?".  Flestir sem þekkja eitthvað til Dags myndu ætla að Dagur hefði nú bara harkað af sér og sagt "Æ em fæn!".  En því var nú ekki að heilsa og á Dagur að hafa svarað eitthvað á þessa leið "Nó æ em not".  Og var ekki að sökum að spyrja; maðurinn var dreginn rakleitt inn í sjúkratjald þar sem hlúð var að honum með nuddi og öðrum fínheitum.  Saga Fjölnis var eitthvað á þá leið að þegar hann kom örmagna í mark í Edinborg nú í vor var ástand hans slíkt að vallarvörðum þótti vissast að skella honum strax í hjólastól.  Á Fjölnir að hafa sagt hátt og snjallt rétt áður en hann settist örmagna í hjólastólinn: "Æ em a kargóking!".

Alls 8.5 km í frábæru stuttbuxnaveðri.  Eins og svo oft áður mættu menn Jóa hinum fyrri þegar verið var að teygja.  Jói hafði gengið af göflunum í hádeginu, eins og svo oft áður.

sunnudagur, október 28, 2012

Frankfurt Marathon, wie gehts? - Úrslit

Sunnudaginn 28. okt:

Tvær yngismeyjar á vegum skokkklúbbsins luku keppni í Frankfurt nú rétt áðan.  Stóðu þær sig með mikilli prýði og fara flögutímar þeirra hér á eftir:

  -  Huld: 03:19:59

  -  Sigrún Birna: 03:43:05 (PB)


Til hamingju yngismeyjar.

föstudagur, október 26, 2012

Föstudagur 26. okt - Bæjarrúntur við frostmark

Flestir þeir sem mættu í dag hlýddu skipun formanns og mættu í stuttbuxum (þið munið kannski að hann tók sér alræðisvald um daginn og lengdi stuttbuxnatímabilið einhliða um einn mánuð, þ.e. til loka október).  Einhverjir þóttust hins vegar ekkert kannast við þessa tilskipun og mættu í síðum.  Hitastig á hitamæli við Valsheimili (0° C) og vottur af snjókomu/slyddu minnti menn á að veturinn er ekki langt undan.

Hersingin, sem samanstóð að Guð-na (leiddi för), Sæla, stuttbuxna Jóni, síðbuxna Ívari, Oddgeiri, Úle og Bjögga fór Hringbraut á enda, þaðann inn á Ánanaust, um Vesturgötu, Austurstræti, Bankastræti, Skólavörðustíg, Skólavörðuholt og þaðan stystu leið að höfuðstöðvum.  Jói hinn fyrri birtist svo þegar verið var að teygja.  Hann hafði gengið (ansi nærri sér) í hádeginu, en var að öðru leyti hinn hressasti.

Ritarinn, óver end ád.

fimmtudagur, október 25, 2012

Fimmtudagur 25. okt - Háleit markmið

Átta frískar lappir mættu en þær tilheyra þeim Jóni fráfarandi, hinum Jóa, Fjölni og Oddgeiri.

Lagt af stað í hefðbundinn hring via Hofsvallagata. Jón Örn var hins vegar með plan, geysigott plan, ef út í það er farið. Málið er nefnilega það að maðurinn er með stór og háleit markmið fyrir komandi misseri, markmið sem ekki verður farið nánar út hér að sinni.

Að skipan Jóns Arnar hófust 400m sprettir er komið var út á Ægisíðu.  Alls urðu sprettirnir sex að tölu og stóðu menn sig almennt vel nema hvað Fjölnir gerði sér upp meiðsli, enda nýlega búinn að taka hálft FM hnakka maraþon og það á fínum tíma.

Alls tæpir 9 km.

miðvikudagur, október 24, 2012

Styttist í aðalfund

Nú styttist óð-fluga í aðalfund félagsins og nokkrir félagsmenn voru á brainwash fundi í hádeginu í dag að finna til nýjar tillögur að lagabreytingum fyrir félagið.

Finnst Formanni ástæða til að minna félagsmenn á að skila inn tillögum að lagabreytingum fyrir kl. 08:00 þann 2. nóvember n.k. til einhvers stjórnarmanns.  Að öðrum kosti er óvíst að náist að fjalla um þær lagabreytingatillögur á aðalfundinum.

Annars mættu í Dag, Guðni, Óli, Björgvin, Þórdís, Ársæll og að sjálfsögu Formaðurinn.  Hljóp þetta lið rétt rúmlega 8 km á mismunandi tíma en allir lögðu þó af stað á sama tíma og komu í mark á sama tíma.

Formannskv.
Formaðurinn

þriðjudagur, október 23, 2012

Hrútapóstur

Þrír karlmenn(Ársæll, Guðni og Jón Örn) réðust til atlögu við Hofsvarlagötuhringinn fræga á réttum tíma í dag, enda frábært véður. Fréttist líka af þremur stúlkukindum á hlaupum og uppveðraðist karlpeningurinn allur við það.  Var töluvert rætt um gæði Íslendinga, bæði hvað varðar stærð og eins íslensk smíði á hjálpartækjum fyrir aðrar þjóðir til að ná sömu stærð.  Varð hrútastóðið þó aldrei vart við kindurnar enda ekki fengitími núna.  Nema þær hafi bara hlaupið mun hraðar en hrútarnir, sem er jafnvel ennþá líklegra.

Alls tæpir 9 km.
kv.
Formaður

mánudagur, október 22, 2012

Stæltir félagar

Helgin hefur greinilega tekið sinn toll af mönnum.  Aðeins tveir félagar, Sæll Formaður voru mættir á pinna í hádeginu í dag og sjaldan hefur fegurðarstuðullin verið svona hár.  Voru menn í fantagóðu formi og hlupu meðal annars fram úr Forseta gönguklúbbsins og félaga vorum.

Fyrir þá fjölmögru sem ekki meikuðu pinna, er hér svolítið til að hjálpa mönnum af stað aftur....
http://www.youtube.com/watch?v=9vmWiuKz4e8

kv.
Formi

föstudagur, október 19, 2012

Ný hlaupadagbók

Gleðilega afmælisveislu comradar

Langaði bara til að benda félagsmönnum á að á hlaup.is síðunni er nú komin hlaupadagbók.  ATH að það þarf að skrá sig inn á síðuna til að geta séð dagbókina.  Hún er síðan undir hlaup flipanum sem Hlaupadagbók.

Formaðurinn er búinn að stofna hóp utan um okkur á síðunni, svo endilega verið dugleg að bæta ykkur í hópinn.

Annars óska ég þátttakendum í haustmaraþoninu góðs gengis og okkur öllum gleðilegrar afmælisveislu á morgunn.  Munum bara að geyma smá orku í æfingar næstu viku.

þriðjudagur, október 16, 2012

Powerade#1

Fyrsta vetrarhlaup Poweradeseríunnar var haldið síðastliðinn fimmtudag í blíðskaparveðri.  Úrslit okkar fólks fara hér á eftir:

Oddgeir 40:09
Ása 43:44
Huld 45:02
Sigrún Birna 47:38
Fjölnir 47:55
Jóhann Þ. 50:00 (fyrsta hlaup í seríu)
Rúna Rut 51:14
Jón Örn 52:51

Flottur hópur, til hamingju með þetta!
Ritarinn

Þriðjudagur 16. okt - Fimm þúsundkallar

Tókum fimmþúskjellinn (5*1000m tempósprettir)í dag, sem telst bara "létt æfing" ef allt er tekið með í reikninginn.  Mættir vóru: Gunnur, sem hörfaði inn Suðurgötu, Johnny, sem þóttist ætla að hörfa, Dagur, sem reiknaði eitthvað út ca. hálfa leiðina, Guðni, sem hleypur fyrir Össur (í flugdeildinni, af því hann hleypur ekki), Oddgeir, sem hækkaði í stigagjöf í Powerade, ekki af því hann stóð sig svo vel heldur af því hann er svo gamall, Jói og baunagrasið, af því að hann er í vexti, Bjöggi og byssurnar, af því að hann er skotveiðimaður og SBN því einhver þurfti að ráða æfingunni.  Það var a.m.k. mjög gott veður til þess að eyða fimmþúsund kallinum og allir stóðu sig með stakri prýði.
Over and out,
SBN

Vísindahornið- Kolkrabbar hafa sem kunnugt er 8 arma og mun 3. armurinn jafnframt vera limur hans.  "That´s the reason the third one is so hard", í kolkrabbanum, sko...

mánudagur, október 15, 2012

Mánudagur 15. okt - 10 litlir hlaupagikkir

Fín mæting í dag. 10 litlir hlaupagikkir hlupu hefðbundinn flugvallarhring um Hofsvallagötu í fínu veðri.  Helst bar til tíðinda, hvað mætinguna varðar, að lærleggur (lærlingur) Úle, hann Pétur, mætti og dröslaðist hina rúmu 8 km þó óvanur væri.  Úle fékk reyndar nokkrar ákúrur frá meðhlaupurum sínum um mitt hlaup fyrir óþarfa skrafhreyfni við kvenpeninginn í stað þess að fylgjast afdrifum lærlingsins.

Þá bar það einnig til tíðinda að týndi sonurinn, hann Sigurgeir, lét veikt k(h)né fylgja kviði og mætti eftir langa fjarveru.  Var honum allvel tekið.

Alls rúmir 8 km og allir kátir og sprækir að hlaupi loknu.

þriðjudagur, október 09, 2012

Þriðjudagur 9. okt - Að vera náður eða ekki vera náður

Sex galvaskir, kiðfættir piltar úr Tungunum mættu á þriðjudagsæfingu.  Dagur var með plan sem fólst í því að taka tempókafla inn í æfingunni þar sem hlaupið yrði frá horni Hofsvallagötu og Ægisíðu að "Kafara" (ca. 3.5 km) með mismunandi forgjöf/forskoti.

Eftir að menn höfðu gefið upp áætlað tempó fyrir tempókaflann var farið að reikna eftir kúnstarinnar reglum hvernær hver og einn skildi leggja af stað.  Ef útreikningar væru réttir, og menn héldu sér á uppgefnu tempói, ættu allir að skila sér við "Kafara" á sama tíma.  Það gekk ekki alveg eftir þar sem fremsti maður sprakk t.d. á limminu um miðja leið og hóf keppni í göngu.  Að öðru leyti voru menn ekki svo langt frá þessu og skiluðu fjórir af sex sér nokkurn veginn á sama tíma við "Kafara".

Síðasta spölinn var svo tekinn "deddari" (rúmir 500m) í gegnum Öskjuhlíðarskóg með forgjöf.

Sem sagt alvöru æfing fyrir alvöru karlmenn.

föstudagur, október 05, 2012

Föstudagur 5. okt - íslensk Túnga

Þrí amígos, Úle, Dagur og Oddgeir, mættir í frábæru haustveðri, sól og hægviðri.  Bæjarrúntur tekinn og margt skrafað þó einna helst um íslenska tungu.  Einn í hópnum (getið hver) hefur sterkar skoðanir á því hvað svokallaðir fræðingar séu að vilja upp á dekk með því að segja okkur hinum hvernig eigi að tala og rita íslensku.  Málfræðireglur og venjur eins og hvenær skuli rita stóran staf, einfalt i eða y, tíðir o.s.frv. eru að hans áliti einungis til trafala eðlilegri þróun íslenskrar tungu.

Spurður um það hvernig hann myndi t.d. skýra út á prenti hvort hann hefði séð fíl eða fýl svaraði hann eitthvað á þessa leið: "Ég sá fuglinn fíl".  Ef um hitt dýrið var að ræða yrði ritað: "Ég sá fílinn fíl".

þriðjudagur, október 02, 2012

Þriðjudagur 2. okt - 2 sinnum 3000 kall

Það hafði kvisast út að æfingin í dag yrði gæðaæfing með stóru G-i og var mæting með besta móti, alls 11 manns + Sveinbjörn sem ákvað að ganga í hægðum sínum.  Gestur æfingarinnar var hún Sibba, sem ætlar með Huld og Sigrúnu til Frankfurt í lok mánaðar að keppa í pylsuáti.

Lengdur flugvallarhringur (rangsælis), sem hófst á upphitun uns tempóhluti æfingarinnar tók við á Hringbraut (við gatnamót Hofsvallagötu).  Hlaupið um Framnesveg, Kaplaskjól og þaðan inn á Ægisíðu.  Tvö 3000 metra tempóhlaup með 3 mín hvíld á milli.  Lauk ósköpum þessum ekki fyrr en við Öskjuhlíð.  Eftir það var niðurskokk að höfuðstöðvum.  Alls 10k.

mánudagur, október 01, 2012

Mánudagur 1. okt - Íslandsmeistarinn mætti

Enn í sigurvímu (og smá þynnku), eftir samfögnuð með sínum mönnum um helgina, mætti Fjölnir galvaskur til leiks og hljóp sigurhring umhverfis flugvöllinn.  Sigrún, Þórdís og Oddgeir samglöddust honum og hlupu með honum.  Formaður skokkklúbbsins samfagnaði einnig en hljóp aðeins hluta sigurhringssins.

Við komu að höfuðstövðum, eftir sigurhringinn, mættum við Úle með lærling að nafni Pétur sér til trausts og halds.  Þeir tóku stuttu útgáfuna af hádegisæfingu.  Ekki er enn vitað hvað Úle hyggst fyrir með lærlinginn.

Drög að æfingaáætlun fyrir ASCA vorið 2013

Mánudagar : Þrekæfingar til að byrja með, sambland af hlaupum og styrktaræfingum. Verður síðan skipt út með meiri hraðaæfingum eftir því sem líður á tímabilið.

Þriðjudagar : 'No Whining Tuesdays', hefðbundinn eltingarleikur eftir getu og nennu hvers og eins, Hofsvallagatan+ eða forgjafarhlaup

Miðvikudagar : Rólegt-recovery. Styttra en venjulega og endað með góðum teygjum.

Fimmtudagar : Erfiðar æfingar á fimmtudögum. Byrjum í brekkum (Kolkrabbinn, Kirkjugarðurinn, Öskjuhlíðarbrekkan, Stokkurinn m.m.) til styrktar en færum okkur svo meira yfir í sprettina eftir því sem líður á undirbúninginn.

Föstudagar : 'Freaky Friday' að hætti hússins með nýjan gestaþjálfara í hverri viku sem ræður för.

Reikna skal með löngu hlaupi um helgar og bent á hina fjölmörgu skokkhópa sem skipuleggja svoleiðis. Annars erum við líka með sms-lista sem hægt er að vera með á. Þess á milli eru síðan lyftingar, sund, hjólreiðar, göngur eða hvaðeina sem fólki dettur í hug að taka sér fyrir hendur.

Æfingaráætlunin gerir ráð fyrir að ekki mæti allir alltaf en þó þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi og allir geti hlaupið með. Þannig geti þátttakendur, á eigin forsendum og markmiðum, tekið ákvörðun um það hvernig tekið er þátt í æfingunum hverju sinni. Einnig er alltaf hægt að 'fara sér'.

Stjórn skokkklúbbsins.