sunnudagur, ágúst 16, 2009

Reykjavíkurmaraþon

Ágætu skokkarar!

Nú styttist í RM. Heilt maraþon og hálft maraþon verða ræst kl. 8,40 á laugardagsmorgni 22. ágúst en 10 K kl. 9.30.  

Minni áhugasama skokkara á að skráningargjald í RM hækkar 19. ágúst.
Þeir félagsemenn sem hyggjast nýta sér endurgreiðslu FI - SKOKK á skráningargjaldi eru beðnir um að skrá sig fyrir 19. ágúst.
Skrái félagsmaður sig eftir 19. ágúst endurgreiðist verð skráningar fyrir 19. ágúst og félagsmaður greiðir mismun.

Minni á að senda Sveinbirni gjaldkera póst með upplýsingum um nafn, kennitölu, bankareikning og vegalend (upphæð) á:  segilson@icelandair.is

Minni jafnframt á skráningu á:   http://www.marathon.is/

Gangi ykkur vel!
Anna Dís

föstudagur, ágúst 14, 2009

M.Í. Öldunga í frjálsum um helgina á Varmá

Ef einhver hefur áhuga á að keppa til Íslandsmeistaratitils. Skráning á staðnum:
Upplýsingar um keppnisgreinar
Kv. Sigrún

Hádegisæfing 14. ágúst

Mættir: Ársæll (14K), Dagur, Hössi, Kalli, Sveppi, Huld, Oddgeir, Bjöggi og Sigrún. Fórum rólegan miðbæjarrúnt enda HM í Berlín á morgun. Bjöggi ætlar þó ekki að keppa þar heldur á Autopause mótinu í Þýskalandi en þar keppir hann í flokki breyttra og sérútbúinna og verður á ráspól seinni daginn. Ef menn eru ekki ákveðnir í hvaða vegalengd skal keppt í RM er hægt að bjóða sig fram sem héra í gegnum Laugaskokk (alveg satt).
Alls um 8K
Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, ágúst 12, 2009

Hádegisæfing - 12. ágúst

Þessi ofurfríði flokkur safnaðist saman í hádeginu og hljóp afmælishlaup til heiðurs Kalla (2. frá v.). Á myndinni má þekkja, Nonna Cross-fit, Kalla, Huld, Jóa, Ársæl, Sigrúnu og Geirdal. Sá sem ekki sést er hinn ofurspengilegi og vel brókaði Dagur Egonsson, en hann var svo elskulegur að taka myndina að þessu sinni, enda hefur hann fengið yfirum nóg af eigin frægðarsól.
Alls 8,5-K nema Huld og Gnarr tóku blaðburð að auki.
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, ágúst 11, 2009

Hálfkarlinn-úrslit

Einn keppandi frá okkur, Dagur Egonsson, tók þátt í þessari þríþraut um síðustu helgi og stóð sig vel. Úrslit má finna hér.
Kveðja,
IAC

Hádegisæfing 11. ágúst



Mættir í afmælishlaup aðal: Aðal, Dagur, Ársæll, Anna Dís, Huld, Jói og Sveinbjörn. Fórum rólega Suðurgötu í sól og blíðu og allir sammála um að það sé allt í lagi að ganga til góðs í RM, eins og Aðal og e.t.v. fleiri stefna á að gera.

Alls 7,4-K

Kveðja,

Aðal.

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Hádegisæfing - 6. ágúst

Mættir : Dagur

Stórskemmtileg æfing í rigningunni. Mikið spjallað og hlegið.
Í lokin var tekin Quadricep æfing frá Kalla.

p.s.
17:19 Jói var sér

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Hádegisæfing - 5. ágúst

Mættir : Dagur og Kalli (Hofs), Sveinbjörn og Ársæll (Suð) og Jói (Sér)

Sól skein í heiði og hlýtt í veðri. Hugur í mönnum fyrir RM.

Annars er nauðsynlegt að yngja í hópnum, gömlu mennirnir í hópnum eru farnir að heyra illa og þurfa aðskoð við að lesa á skápalyklana í búningsklefanum. Kalli reddaði málum í þetta skiptið.

Hádegisæfing - 4. ágúst

Mættir : Dagur, Sveinbjörn og Jói

Hver og einn á eigin vegum en mikill samhljómur og góður andi á æfingunni.

Stóru spurningunni er enn ósvarað. Sýnir vigtin í karlaklefanum of mikið eða og lítið?

föstudagur, júlí 31, 2009

Reykjavíkurmaraþon

Ágætu hlauparar!

Eftir ýtarlegar tilraunir til að halda óbreyttu því ferli sem verið hefur á aðkomu FI - SKOKK að þátttöku starfsmanna Icelandair Group í RM undanfarin ár neyðumst við til að lúta breyttu landslagi.
Ástæðan er að Icelandair Group er ekki lengur stuðningsaðili RM heldur systurfélagið Víta. Þrátt fyrir þeirra góða vilja og áhuga eru sparnaðarraddir háværari og við hlauparar gjöldum þess. 
Við erum engu að síður bjartsýn og stórhuga að eðlisfari og vonumst til að geta endurnýjað haldgóðan samning að ári.

Sjóðsstaða FI - SKOKK er hins vegar það góð að FI - SKOKK bíður félagsmönnum fría þátttöku í RM 2009.

Vinsamlega skráið ykkur á blogginu :   http://fiskokk.blogspot.com/
Bloggskráning auðveldar myndun sveita ef áhugi er fyrir hendi, því er nauðsynlegat að skrá vegalengd sem hlaupin er.

FI - SKOKK klúbbmeðlimir skrá sig á vef Reykjavíkurmaraþons : http://www.marathon.is/
líkt og aðrir þátttakendur í RM en fá síðan þátttökugjald endurgreitt inn á bankareikning sinn frá Sveinbirni gjaldkera FI - SKOKK.
Vinsamlega sendið Sveinbirni póst á :  segilson@icelandair.is
Nauðsynlegt er að taka fram reikningnúmer, kennitölu og upphæð þátttökugjalds (vegalengd).

Óska ykkur velgengni í RM
F.h. FI - SKOKK, Anna Dís

fimmtudagur, júlí 30, 2009

miðvikudagur, júlí 29, 2009

Hádegisæfing 29. júlí

Mættir: Glamúr, Guðni, Bjútí og Oddgeir.
Það voru tvær vegalengdir í boði í dag og fór það eftir því hvar upphafsstafur viðkomandi var í stafrófinu. Þeir sem áttu staf A-K máttu fara rólega Hofsvallagötu aðrir áttu að fara Kapla-langt. Undirritaður hljóp sem Glamúr í dag og slapp því við Kapla-langt ;o)

Heyrst hefur að Aðal stundi grimmar æfingar hjá sjúkraþjálfa eftir að hafa slasað sig við verslunarstörf í Boston!

Kv. Sigurgeir AKA Glamúr

þriðjudagur, júlí 28, 2009

Hádegisæfing 28. júlí 09

Björgvin, Briem og Guðni fóru Hofs/Meistaravelli með blaðburðarútúrdúr. Allir á röskri ferð. Endaði í 8,6 og 9,8.

GI

föstudagur, júlí 24, 2009

Úrslit hlaupa

Einn félagsmaður keppti nýverið í Óshlíðarhlaupinu í hálfu maraþoni:
15 Huld Konráðsdóttir (2. í flokki ) 01:35:45

Einn félagsmaður keppti í Ármannshlaupinu:
26 Oddgeir Arnarson (14. í flokki) 00:41:47

Glæsilegt hjá þeim báðum en ekki eru margir að keppa um þessar mundir fyrir FI SKOKK.
Kveðja,
Sigrún

Hádegisæfing 24. júlí

Mættir: Oddgeir Ármaður, Guðni, Huld, Sigurgeir, Bjöggi og Sigrún. Fórum rólegan Fox í brakandi hita en þegar við nálguðumst Kópavog skullu á okkur kuldaskil og hiti fór niður í frostmark. Flýttum okkur þá aftur í blíðuna og hlupum framhjá nokkrum híbýlum útrásarvíkinga og fagfjárfesta, sem þó voru hvergi sjáanlegir, enda ýmist að koma úr eða að fara í kókaínmeðferð. Komið hafa að máli við mig félagsmenn og spurst fyrir um orðin valhopp og sporhopp, þ.e. merkingu þeirra. Síðar verður vikið að þessum fyrirspurnum, enda tilhlýtandi upplýsingar ekki aðgengilegar að svo stöddu.
Alls tæpir 8-K
Góða helgi,
Sigrún

fimmtudagur, júlí 23, 2009

Hádegisæfing 23. júlí



GI og SBN í kirkjugarðsbrekku 6*. GI@59-57sek, SBN@1:09-1:01.
Þar sem mánuður ljónsins er nú runnin upp bið ég hlutaðeigendur að sýna fyllstu varkárni og nærgætni í allri umgengni ellegar eiga á hættu að verða bitnir.
Alls um 7 -K
Kveðja, Leo

miðvikudagur, júlí 22, 2009

Hádegisæfing 22. júlí

Mætt á "recovery" æfingu: Sigurgeir, Guðni, Bjöggi og Sigrún. Óli fór séstvallaleið vestari um ormagöng. Fórum rólega Hofsvallagötu en skiptumst í 2 fylkingar. Fremri voru um 80kg á kjaft en aftari voru yfir 100, hvort um sig. Þeir tveir fyrstu í léttari flokknum fóru síðan og kældu sig í sjóðheitum sjónum á meðan hin þungu áðu við stein.
Alls 8-9K
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júlí 21, 2009

Hádegisæfing 21. júlí

Mættir á Yassoíska æfingu með Huldarívafi: Kalli, Guðni, Sigurgeir, Bjöggi, Huld og Sigrún. Fórum 6*800m spretti með ca. 1mín. á milli og smá upphitun og niðurskokk. Mikill hiti og töluverður sviti og allir berir að ofan nema aðal sem er örlítið meira vönd að virðingu sinni en hitt hvíta ruslið.
Alls 8-K
Ath. Fjölnir og hinir aumingjar, á morgun rólegt þannig að ykkur er óhætt.
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júlí 20, 2009

Hádegisæfing 20. júlí

Mættir í brakandi sól: Fjölnir, Huld og Sigrún. Huld var ekkert þreytt enda leyfði hún Mörtu að vinna sig í hálfu um helgina (M var að gifta sig skiljú) en Fjölnir var líka óþreyttur en gamla var þung og þreytt enda ekkert búin að hlaupa í marga daga. Fórum rólega Hofsvallagötu en sammæltumst um að það yrði sprettæfing á morgun í boði Huldar. Það er þó á Huld-u hvernig æfingin útfærist. Þeir sem eru með pung mæti.
Alls 8,7
Kveðja,
Sigrún

Laugavegurinn 2009

Einn félagsmaður og tvö viðhengi hlupu Laugaveginn nú um helgina. Árangur mjög góður.

í 8. sæti á 5:13:58 Höskuldur Ólafsson (5. sæti í flokki)
í 25 sæti á 5:38:12 Baldur Úlfar Haraldsson (10. sæti í flokki)
í 174 sæti á 7:08:37 Úlfar Hinriksson (3. sæti í flokki)

Gaman væri að lesa ferðasögur frá ykkur.

GI

föstudagur, júlí 17, 2009

Hádegi 17. júlí

Bryndís og Guðni rólega 8,4 meðfram ströndinni.

GI

fimmtudagur, júlí 16, 2009

Hádegi 16. júlí 09

Menn sem elska konur (Geirdal, Guðni, Kalli, Oddgeir og Óli) hlupu Meistaravelli í flottu veðri kvennmannslausir en berir að mestu. Óli var á einhverri sérkennilegri sérleið sem hann verður að gera grein fyrir. Hinir hittu hann tvisvar. Þrír fyrstu enduðu í sjónum. 9,6k

GI

miðvikudagur, júlí 15, 2009

Hádegisæfing 15. júlí



Rólegt miðbæjarhlaup með Le Frog og Beauty. Kolbeinn á morgun.
Alls 8-K
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Hádegisæfing 14. júlí

Mættir í nokkru roki: Bjöggi, Fjölnir, Kalli, Sigurgeir, Oddgeir og aðal. Eftir nokkurt þref var ákveðið að fara í skóginn en þar villtist Glamúrinn þegar hann lét okkur fara "stóran" hring. Var þá komið að þeim tímapunkti að aðal tæki við stjórn hins villuráfandi hers og neyddi grátandi hjörðina inn í kirkjugarð til að taka 6*brekkuspretti þar. Aðal hélt sínu striki þrátt fyrir hótanir og líkamsmeiðingar á leiðinni og allir kláruðu með sóma. Sigurgeir hefur verið kærður fyrir tilraun til manndráps en hann réðst á aðal með garðslöngu í brekku kirkjugarðsins. Fjölmörg vitni urðu að árásinni og þau hafa þegið áfallahjálp.
Alls 7,5-K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júlí 13, 2009

Hádegisæfing 13. júlí

Mættir: Bjöggi (keppir fyrir neyðarlínuna 112), Sigurgeir (leikur í Lost), Geirdal (auglýsir nú Nivea self-tan for men, línuna), Kalli (keppir fyrir froskinn), Sigrún (tálbeitan) og Oddgeir (keppir í flokki sérútbúinna í endaspretti). Fórum saman áleiðis vestur í bæ og Bjöggi fór Suðurgötuna, Sigrún Hofs og restin Kapla og tókum tempóhlaup að kafara. Hiti var ólýsanlegur og hafði það nokkur áhrif á keppendur. Rætt hefur verið við aðal um að staðsetja sig á síðasta horni í næsta keppnishlaupi og spretta af stað þegar sést í Glamúr því hann getur ekki gefið í nema að aðal sé 2-300m fyrir framan hann, vegna vindkljúfandi áhrifanna. Þetta mál er í skoðun.
Alls lengri 9,2 en styttri 8,6 og 7,5-K
Kveðja,
Sigrún

laugardagur, júlí 11, 2009

Ræktun lýðs og lands

Í sönnum ungmennafélagsanda var risið árla úr rekkju á laugardagsmorguninn og haldið til Akureyrar til að keppa í 10 km götuhlaupi en hlaupið var hluti af dagskrá landsmóts UMFÍ.

Við Sigurður Óli flugum norður með fyrstu vél og var strax komið blíðskaparveður nyrðra fyrir kl. 9. Hlaupið var ræst kl. 11 á íþróttasvæði Þórs á Hamarsvelli. Hlaupið var til suðurs langleiðina að flugvellinum, þar var snúið við að hlaupin svipuð leið til baka. Þetta er svipuð leið og ég hljóp i 10 km hlaupi á Akureyri fyrir allnokkrum árum, nema hvað þá byrjaði og endaði hlaupið á gamla íþróttavellinum. Nýi Þórsvöllurinn liggur reyndar talsvert hærra og kallaði þetta á hlaup upp brekku síðasta kílómetrann sem reyndist sumum erfið.

Þegar hlaupið fór fram var komin nokkur hafgola að norðan. Þetta kom sér mjög vel fyrri hlutann en dró úr mönnum á bakaleiðinni inn í bæinn. Okkur Sigga gekk ágætlega, hann hljóp á 47:34 og bætti sig verulega. Ég hljóp á 45:54 sem er heldur lakara en í Miðnæturhlaupinu um daginn en vel ásættanlegt miðað við aðstæður.

Það var ágætis stemning eftir hlaupið, fólk að koma í mark í heilu og hálfu maraþoni á svipuðum tíma og við (ræst var á mismunandi tíma í þessum hlaupum) auk þess sem verið var að keppa í frjálsum á landsmótinu. Við sáum m.a. Kára Stein hlaupa 5 km á braut á innan við 14:56 sem mig grunar að sé besti tími í 5 k sem hlaupinn hefur verið hér á landi.

Þetta var skemmtilegt hlaup í frábæru veðri og gaman að upplifa sannan ungmennafélagsanda í leiðinni.

Íslandi allt !

Jens

föstudagur, júlí 10, 2009

Hádegisæfing 10. júlí

Fremur fámennt á æfingu í dag í miklu blíðviðri. Þeim fjórum sem þó mættu tókst engu að síður að farast á mis og var hlaupið í tveim tveggja manna hópum. Fjölnir og Huld fóru hefðbundna Hofsvallagötu en Bryndís og Harpa Suðurgötu. Farið var fremur rólega yfir og veðurblíðu notið.

Kv. Huld

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Hádegisæfing 9.júlí

Vorum þrjú heljarmenni sem sigruðumst á freistingunum og slepptum útigrillinu í hádeginu. Það voru Kalli "coolmaster", Sigurgeir "svaðalegi" og undirritaður. Í fjarveru allra helstu kanónanna var ákveðið að breyta út af vananum, taka sénsa í lífinu - þ.e. "living on the edge!" og hlaupa bæjarrúnt á fimmtudegi. Coolmasterinn og sá svaðalegi hlupu þetta létt en Steypireyðurinn blés eins og Moby Dick. Það er hinsvegar gott til þess að vita að það er hægt að vinna sig upp úr líkamlegu gjaldþroti á skömmum tíma ef viljinn er fyrir hendi. Það er hinsvegar erfiðara ef gjaldþrotið er efnahagslegt.
Góðar stundir.
Bjútíið.

mánudagur, júlí 06, 2009

Hádegisæfing 6. júlí

Mættir: Glamúr, JGGnarr, Bjútí og Fjölnir.
Það voru tvær rólegar leiðir í boði: Suðurgata og Hofsvallagata. Einn fór suður og aðrir hofs.
Umræðuefnið á leiðinni voru kaup og sölur í enska boltanum.

Kv. Sigurgeir

föstudagur, júlí 03, 2009

Hádegisæfing - 3. júlí

Lengi er von á einum.

Mættir : Dagur, Ása, Sveinbjörn (á eigin vegum)

Ég hugsaði strax að nú væri tækifæri til að fara rólegan bæjarrúnt í fríðu föruneyti - en nei. Haldiði ekki að stúlkuskjátan hafi grátbeðið um kolkrabbann, hafði aldrei prófað og langaði þvílíkt.

Tókum kolkrabbann og stóðu hún sig með eindæmum vel, tók fantavel á, stynjandi og kveinandi eftir hvern sprett.

1375m á 6:09
428m á 2:08
475m á 2:15
721m á 3:25

Geriði betur!

Kveðja,
Dagur

fimmtudagur, júlí 02, 2009

Hádegisæfing 2. júlí

Mættir: Bogi, Dagur, Kalli og Sigrún. Fórum ofurrólegan miðbæjarrúnt í ódeildarskiptri æfingu. Bogi hljóp sitt fyrsta yfir 6 km hlaup og er greinilega kominn til að vera. Fámennt verður á næstunni á æfingum en félagsmenn eru eindregið hvattir til að stunda æfingar, heima eða að heiman og skrá þær samviskusamlega.
Alls 7,7 -K
Kveðja.
Sigrún

miðvikudagur, júlí 01, 2009

Á Norðurlandi

Ég er búinn að skrá mig í tvö hlaup fyrir norðan í júlí: Landsmótshlaup UMFÍ 11. júní (10k) og Jökulsárhlaup, frá Dettifossi niður í Ásbyrgi (33k), þann 25. júlí. Ég veit að Siggi Óli ætlar að hlaupa 10k á Akureyri, ef einhverjir fleiri verða þarna á ferðinni, endilega látið mig vita.
Kveðja, Jens

Hádegisæfing 1. júlí

Engin ástæða til að hanga í meðalmennsku alla vikuna: Kalli, Dagur, Bryndís, Guðni og Sigrún. Bryndís fór Hofsvallagötu á tempói en hinir fóru Kaplaskjól með 5 sprettvaríöntum sem ég treysti á að sérlegur tilsjónarmaður tölulegra upplýsinga komi fram með. Gengu þeir út á að GI og DE áttu að reyna að ná froskinum og prinsessunni, og fóru til þess arna alltaf aðeins lengri leið.
Dagur og Guðni fóru 10-K en hin tvö 8,9-K.
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júní 30, 2009

Bláskógaskokkið

Tveir félagsmenn okkar kepptu um sl. helgi í þessu 16 kílómetra hlaupi og má finna úrslit þess hér:
Þess ber einnig að geta að Baldur Haraldsson sigraði í hlaupinu á heildina og Huld Konráðsdóttir sigraði sinn aldursflokk. Glæsilegt hjá þeim og til hamingju!
1 1:06:19 Baldur Haraldsson 1965
9 1:13:27 Huld Konráðsdóttir 1963

Hádegisæfing 30. júní



Mættir í hita og blíðviðri: Kalli, Bryndís, Dagur, Huld og Sigrún. Sveinbjörn var á eigin prógrammi, alsæll eftir fjölskylduhátíðina. Fórum rólegan miðbæjarsýningarrúnt og sýndum okkur og sáum aðra. Fengum það upp úr Kalla að hann vill helst hafa konurnar massaðar, kraftalegar niður og með línur. "Nú, þá svona allt öðruvísi en við", "nei, alveg eins og þið" var svarað og þá var deginum algerlega bjargað. Hver hefði trúað þessu? Við sem héldum að það væri týpan á myndinni en svo er ekki!

Alls 8-K

Kveðja,

Sigrún

mánudagur, júní 29, 2009

Hádegisæfing 29. júní



Mættir í neðri deild: Bogi Nils Bogason (vá!), Ársæll og Sveinbjörn. Í efri deild: Kalli, Gnarr, Óli, Glamúr, Dagur, Guðni og Sigrún. Fórum rólega Hofsvallagötu/Kaplaskjól með tempókafla (sumir) í steikjandi hita en skýjuðu. Háleit markmið eru fyrir næsta hlaup, Ármannshlaupið, en þá ætlar Gnarr að keppa án öryggisteppisins og fara á 38 mínútum (eða: "þetta er náttúrulega 40 mínútna spretthlaup hjá sumum í 34 mínútur". ;)
Alls 8,7-9,2
Kveðja, Sigrún
Ath. Myndin sýnir Geirdalinn með teppið í síðasta hlaupi.

föstudagur, júní 26, 2009

Þema dagsins - fuglanöfn

Síðasta föstudag (mannanafnadaginn mikla) var gefið loforð um að dagurinn í dag yrði tileinkaður fuglanöfnum. Þannig fór hluti mættra í heimsókn á Grímstaðarholtið og hljóp Þrastargötu, Fálkagötu, Smyrilsveg og Arnargötu. Hinn möguleikinn hefði verið að fara upp í Hólahverfi. Bónusgata var Grímshagi sem þessi hópur hefur ekki hlaupið áður. Þátttakendur: Bryndís, Fjölnir, Geirdal, Guðni, Oddgeir og Óli. Fimm síðastnefndu hlupu að sjálfsögðu berir að ofan.

Annar hópur, skipaður Árna og Boga undir styrkri forystu Ársæls fór inn í Fossvog. Kannski að heimsækja Aðal, hver veit? Þá fór Sveinbjörn á móti fuglahópnum og sameinaðist honum að lokum.

Þá er rétt að nefna að hjólreiðanotkun íslenskra rithöfunda hefur vakið athygli hádegishlaupara í þessari viku. Í gær mættum við Braga Ólafssyni og í dag Pétri Gunnarssyni. Spennandi að sjá her verður á hjólinu á mánudaginn kemur.

GI

fimmtudagur, júní 25, 2009

Bláskógaskokk og Þorvaldsdalsskokk

Langaði til að kanna áhuga á Bláskógaskokki (5 og 16 km) næsta laugardag og/eða Þorvaldsdalskokki (25 km) laugardaginn 4. júlí. Fínasta veðri spáð fyrir austan fjall á laugardaginn. Tilvalið að sameina Bláskógaskokk og fjölskylduhátíðina á Flúðum fyrir þá sem þangað ætla. Skoðið endilega málið á hlaup.is og setjið í athugasemdir ef þið hafið áhuga.
Kveðja, Huld

Hádegisæfing 24. júní



Mættir: Óli, Huld, Guðni og Sigrún. Fórum þreytta Hofsvallagötu en Óli var ekkert þreyttur og tók því 100 armbeygjur og fór svo um ormagöng Kaplaskjólið.

Alls 8,7-K

Kveðja,

Sigrún


Ath. Þar sem ný fagstétt hefur myndast innan FI SKOKK birtist þessi mynd. Einungis 2 félagsmenn tilheyra stéttinni og kallast hún "Hérar Til Sigurs", eða HTS: þau Guðni og Huld. Þeir sem vilja láta héra sig er bent á að hafa samband við umboðsmann þeirra, hérastubb bakara.

miðvikudagur, júní 24, 2009

Hádegisæfing 24. júní

Mættir: Óli í kolkrabba, Dagur, Guðni, Huld, Sigrún og Oddgeir. Fórum vestur í bæ á rólegu tempói en Oddgeir fór reverse hring. Við Huld fórum síðan í erindi vestur í bæ en Doris Day and Night fóru Kaplaskjólið og hittu Oddinn bakvið stein á bakaleið.
Alls 9,3-K
Kv. Sigrún

Miðnæturhlaupið

Frábært veður og fullt af fólki. Fljótt á litið fundust þessir félagsmenn/starfsmenn/viðhengi. Eflaust vantar einhver nöfn:

10K

12 Jón Gunnar Geirdal Ægisson 20 00:39:07 00:39:11
22 Oddgeir Arnarson 43 00:41:24 00:41:37
17 Guðni Ingólfsson 49 00:41:42 00:41:46
25 Sigurgeir Már Halldórsson 50 00:41:43 00:41:46
5 Hólmfríður Ása Guðmundsdóttir 76 00:42:37 00:42:41
3 Huld Konráðsdóttir 88 00:43:12 00:43:38
34 Jens Bjarnason 121 00:45:08 00:45:16
43 Fjölnir Þór Árnason 155 00:46:52 00:47:03
7 Nanna Þóra Andrésdóttir 176 00:47:59 00:48:03
29 Rúna Rut Ragnarsdóttir 239 00:50:35 00:50:41
69 Björg Stefanía Sigurgeirsdóttir 346 00:54:35 00:54:56
40 Ársæll Harðarson 428 00:58:02 00:58:46

Þetta var dagur Geiranna því Geirdal, Oddgeir og Sigurgeir voru allir með PB auk Fjölnis. Huld vann til verðlauna.

5k

1 Bryndís Magnúsdóttir 37 00:23:05 00:23:05
108 Lena Magnúsdóttir 00:32:55 00:33:22

Bryndís fyrst í aldursflokki.

GI

mánudagur, júní 22, 2009

Miðnæturhlaup á morgun

Kæru hlaupavinir og félagar. Eigum við ekki að fjölmenna annað kvöld. Það á að vera ágætasta hlaupaveður skv. spánni.
Kveðja, Jens

Hádegisæfing 22. júní

Mættir: Sigurgeir, Gnarrinn, Dagur, Óli, Oddgeir og Huld.
Í boði var Hofsvallagata fyrir þá sem vildu rólegt og stefna á að keppa annað kvöld, Meistaravellir og Meistaravellir + bónus. Það er mikill hugur í mönnum og konum fyrir hlaupinu annað kvöld. Sumir eru að ákv. sig á hvaða tempó þeir/þær ætla á meðan aðrir eru staðráðnir í að gera PB. Það vekur athygli að Aðal hefur verið ráðin sem brautarvörður á morgun og mun hún vera þar sem flestir eiga það til að svindla og stytta sér leið ;o)

Total 8,7-10 km

Kv. Sigurgeir

laugardagur, júní 20, 2009

Freaky Friday 19. júní

Mættir í dag í þemahlaup mannanafna: Kalli, Dagur, Guðni, Huld, Sigrún, Gnarr, Oddgeir og Bryndís. Fórum eins margar mannanafnagötur og hægt var að koma við á endurreisnartempói. Sól og gaman. Aðalritari eyddi 10 klst. í að fletta upp götuheitum og para saman við google maps til að stauta sig framúr prógramminu. Strax farin að kvíða næsta þemahlaupi. :)
Alls 8,6-K
Kveðja,
Sigrún

BollagataGunnarsbrautGuðrúnargataKjartansgataHrefnugataFlókagataMánagataSkeggjagataSkarphéðinsgataVífilsgataNjálsgataGrettisgataBergþórugataKárastígurBaldursgataLokastígurTýsgataÞórsgataFreyjugataÓðinsgataVálastígurNönnustígurBragagataIngólfsstrætiMímisvegurFjölnisvegur

föstudagur, júní 19, 2009

Fréttaskot : Formaður á hlaupum

Snemma í morgun sást til formanns skokkklúbbsins á hlaupum í Elliðárdalnum. Formaðurinn var fullklædd svo ekki sást í bert hold þrátt fyrir tilskipun stjórnar um annað.
Einbeitt stikaði hún áfram með hljóðbauk tengdan við hlustirnar (skyldi hún hafa verið að hluta á þennan...) og hvikaði hvergi þótt óbreyttur félagsmaðurinn reyndi árangurlaust að vekja eftirtekt hennar og sér.
Ljóst er að comeback er á næsta leiti.

fimmtudagur, júní 18, 2009

Hádegisæfing 18. júní

Mættir í sól og blíðu: Sveinbjörn, Dagur, Guðni, Kalli, Fjölnir, Ása, Huld og Sigrún. Fórum í Hljómskálagarð til að taka 6*hálffullan Jónas (hann var svo fullur í gær að hann gat ekki meir) sem eru um 400m sprettir með léttu skokki á milli. Sérstaka athygli vakti að Ása, fulltrúi Glamúrs, stóð sig ótrúlega vel og von er til að tímar falli á þeim bæ á næstu dögum. Einnig kom að máli við aðalritara útlendingur, sem ekki hefur af eðlilegum orsökum náð fullkomnu valdi á blæbrigðum íslensks máls, og spurðist fyrir um orðið "vanfær". Er hér tilvitnun því til frekari skýringar. Sjá nánar Er ekki nema sjálfsagt að leiðbeina og hjálpa nýbúum og öðrum innflytjendum um svoleiðis útskýringar í framtíðinni. Það er þó hinsvegar ljóst að ef einhver var vanfær á Jónasi í dag, telst það vera aðalritari, en það stafar af getuleysi en ekki þungun.
Alls 8,6-K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júní 15, 2009

Hádegisæfing 15. júní

Mættir: Gnarr, Dagur, Guðni, Oddgeir, Kalli, Sigrún. Óli og Sveinbjörn á eigin vegum. Farin var Kaplaskjólsleið og Hofsvallagata, Kapla á tempói en hitt rólegt. Vert er að geta þess að meðlimir FI SKOKK eru beðnir um að halda sig við eina keppninsgrein, þ.e. hlaup en vera ekki að reyna við aðrar íþróttagreinar, sérstaklega ekki gamlir. Menn geta bara dottið og meitt sig, eyðilagt keppnisgögn (hjól eða þ.h.) og eða fipað andstæðinga sína.
Alls 9,3-K og 8,6-K
Kveðja,
Sigrún

föstudagur, júní 12, 2009

Sahara eyðimerkurmaraþonið

Hér er linkur í áhugaverða lýsingu Ágústar Kvaran á þessu maraþoni. Ágúst hljóp þetta fyrr á þessu ári.

Hádegisæfing 12. júní

Ef ekki er ástæða til hvíldar er nauðsynlegt að hraða sinni för...
Mættir: Kalli, Guðni, Sigurgeir, Fjölnir, Dagur, og Sigrún. Jói, Bryndís og Óli í sérprógrammi, Suðurgötu og fleiru. Hinir fóru Valhúsahæð með tempóhring sem ég veit ekki lengdina á. Þegar svona langt er hlaupið þarf að hraða sér bæði út, heim og á milli. Kemur á óvart! Fantafín tempóæfing í sól og blíðu þótt gert væri smá grín að aðal af og til.
Alls sléttir 10-K
Kveðja,
Sigrún
Ath. Jói skorar á okkur að hlaupa upp á Akranes í næsta hádegi.

fimmtudagur, júní 11, 2009

Hádegi 11. júní 2009

Guðni, Huld og Kalli fóru hringinn í kringum Reykjavík millistríðsáranna, Snorrabraut, Sæbraut, Geirsgata, Framnesvegur, Hringbraut. Jói og Óli voru sér.

GI

miðvikudagur, júní 10, 2009

Hádegisæfing 10. júní

Mættir í kolkrabbann: Kalli, Fjölnir (1st timer), Dagur, Guðni, Huld (í tennisdragt), Oddgeir og Sigrún. Tókum hina ógurlegu 4 arma krabbans og menn skilja nú betur hví enginn óskar eftir þessum æfingum reglulega. Sveinbjörn, Ingunn og Jói voru í sérverkefnum. Sól skein í heiði (og í sinni, stundum) og 8 km kláraðir í viðbjóðinn. Það eru bara hinir alhuguðustu sem munu óska eftir þessu í framtíðinni.
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, júní 09, 2009

Hádegisæfing 9. júní

Mættir: Dagur, Guðni, Huld og Sigrún. Ingunn og Jói voru á sérleið en Sá síðarnefndi hljóp flugvallarhring. Við hin fórum í boði "andans" um nýjar slóðir í góðu veðri. Ég get ekki skýrt frá hvaða leið var farin því andinn yfirtók æfinguna. Á morgun verður hinsvegar leitað í smiðju kolkrabbans, enda sjómannadagurinn rétt nýbúinn.
Alls 7,5-K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, júní 08, 2009

Hádegisæfing 8. júní

Mættir nokkrir vitleysingar og nokkrir eðlilegir: (e) Jói og Sveinbjörn sem og 2 dömur frá hótelum. (v) Dagur (loser, lætur HB vinna sig í þríþraut), Gnarr (kom fram sem rotþró), Sigurgeir (svaf), Ása, Huld, Kalli (með froskinn í hælnum), Óli (venjuleg leið), Oddgeir og Sigrún. Aðal fór bakara-kafara tempó en hinir fóru Kapla eða blaðburð á tempói. Veður var með eindæmum gott og ýmsir sprækir. Það vakti sérstaka athygli að Glamúr og Gnarr hafa verið iðnir við ljósabekkina undanfarið og ættu þeir aðeins að róa sig í þeim efnum. Eftir æfingu fór Glamúrinn síðan í allsherjar innkaupaferð fyrir FI SKOKK til N.Y. í boði Senu.
Alls 8,7-9,5-K
Kveðja,
Sigrún

föstudagur, júní 05, 2009

Hádegisæfing með sjósundi 5. júní

Hittumst við Huld við kirkjugarðsenda og tókum upphitun út í Nauthólsvík. Skiluðum þar sjósundsgræjunum og héldum áfram vestureftir, hvar við tókum 3*2000 metra (sprett/tempókafla), með 1,5 mín. á milli. Aðalritari fékk smá afslátt af síðasta og skipti honum upp í 2*1000, v. örmögnunar. Huld tók svo einn 1000m til en aðal skokkaði til móts við væntanlega hlaupara frá HL. Þar reyndist enginn svo við flýttum okkur bara í sjóinn, sem mældist heilar 9,6°C. Þar hittum við Guðmundu og Önnu Dís, sem einnig höfðu hlaupið um Elliðaárdal. Syntum við út að bauju sem er í fyrsta sinn sem okkur Huld tekst það. Anna Dís fór lengra, enda harðgerðari en við. Síðan fréttist af Oddinum en hann tók flugvöllinn á tempói.
Góða helgi,
Sigrún

fimmtudagur, júní 04, 2009

Hádgisæfing 4. júní

Mætt í dag í frábæru veðri: Sigurgeir (believe it or not), Ása, Huld, Jens og Sigrún að ógleymdri Tátu. Fórum rétta Hofsvallagötu á hvíldartempói sem enginn þurfti á að halda nema aðalritarinn og kannski Táta. Minnstu munaði að aðal væri hjóluð niður af hjólreiðamanni en stórslysi var þó forðað þótt tæpt væri. Á morgun er fyrirhugað sjósund og eru lysthafendur eindregið hvattir til að mæta á HL kl. 12.08 með viðeigandi búnað.
Alls 8,7-K
Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, júní 03, 2009

Hádegisæfing 3. júní

Mættir: Ársæll (Suðurgata), Jói á eigin vegum en við hin á Dags vegum. Dagur þurfti að flýta sér inn á fund og því var ákveðið að taka Hofsvallagötuna (alla leið) á tempói og fara hana á undir 40 mín. þ.e. alla 8, 7 kílómetrana. Lagt var af stað og hljóp hver sem hann gat alla leið. Gaman væri að fá í "comments" tímana hjá viðkomandi, til gamans (eða ekki).
Fínasta tempóæfing í sól og blíðu.
Alls 8,7-K
Kveðja,
Sigrún

Born to Run

Myndband á jútúb með vísun í bók sem sviptir hulunni af því hvers vegna við erum alltaf meidd.

Áhugavert.

Kveðja, Dagur

þriðjudagur, júní 02, 2009

Hádegi 2. júní 2009

Guðni og Huld fóru Hofsvallagötuna. 3km á tempó 4:03, 4:12, 4:01. Góð æfing. Aðrir sem sást til: Ingunn á hlaupum, Jói á göngu, Sveinbjörn í gufu og Ársæll í mat. Aðrir komnir í sumarfrí, eða hvað?

GI

föstudagur, maí 29, 2009

Er alvöru lið á þínum vinnustað?

Ég auglýsi eftir útsjónarsömum konum og körlum í fanta formi með óþreytandi sigurvilja til að taka þátt í 24 stunda keppni á Laugarvatni í ágúst.

Sjá www.lidsheild.is

Áhugasamir láti vita hér að neðan í comment.

Kveðja,
Dagur

p.s.
Aumingjar geta sleppt því að sýna áhuga

Hádegisæfing 29. maí

Mæting: Sigurgeir, Dagur, Fjölnir, Huld, Guðni, Anna Dís og Kalli. Vegna veðurs, ca. 15-18 m/sek, var ákv. að fara í skjólið í kirkjugarðinum. Það endaði að sjálfsögðu með 3 sprettum + bónus sprettur. Eftir sprettina fengu allir að stjórna æfingunni í 2 min og úr varð þokkaleg BootCamp æfing með sprettum, armbeygjum, magaæfingum og furðulegri skrefa-æfingu ala Guðni!

Total 8,5 km.

Sigurgeir

miðvikudagur, maí 27, 2009

Hádegisæfing 27. maí



Mættir í blíðskaparveðri: Dagur, Kalli, Sigurgeir, Fjölnir, 'Oli (um ormagöng), Bryndís og Sigrún og Jói (sér). Fórum Kaplaskjólið með lengingu og mættum Fjölni á bakaleið en Óli kom hinsvegar á brjáluðu tempói og náði okkur hjá flugbrautarenda. Dagur er að undirbúa sig fyrir innlimum í Búddisma og hlustar á pistla þess efnis á leið til vinnu. Sigurgeir er enn að reyna að ná Sigrúnu í kílómetrum. Fjölnir er hinsvegar að jafna sig eftir veikindi og er hér ein limra að því tilefni:


Lesið lítinn Fjölnispistil
lasinn hann varð, fékk ristil.
Marinn á baki
gagnslaus á laki
linur, með herðakistil.
Alls 9,3-K

Kveðja,

Sigrún

þriðjudagur, maí 26, 2009

Hádegisæfing 26. maí

Mættir: Jói (sér), Dagur, Guðni (special appearance), Bryndís og Sigrún. Farin var öfug hálf Hofsvallagata og til baka. Brakandi blíða. Skrýtið að sumir innan hópsins reyna ekki að klóra í bakkann hvað vegalengdir áhrærir og ætla að tapa sinni keppni á kongunglegan hátt.
Alls 8,9-K
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, maí 25, 2009

Hádegisæfing 25. maí

Mættir: Dagur, Guðni, Sigurgeir, Jón Gunnar, Már, Hössi, Kalli og Jói. Gnarrinn þurfti að taka út refsingu fyrir að hlaupa ekki neitt um helgina! Aðal fær dæmda á sig 20 km í refsingu fyrir að mæta ekki og þarf að taka það af heildar km. í maí ;o)

Kv. Sigurgeir

Rútuhlaupið 23. maí






Nokkrir félagar hlaupaklúbbsins tóku á laugardag þátt í "Rútuhlaupinu" þar sem hlaupið var frá Nesjavallaleið og til byggða (endað í Laugum). Hófum hlaupið á því að leggja stein í vörðu, sem orðin er nokkuð myndarleg. Á að giska 70 manns hófu hlaupið, margir valinkunnir hlauparar þar á meðal. Nokkuð þungbúið var í fyrstu, rigningarsuddi en hægviðri. Síðar létti til og að endingu var komin sól og blíða (síðustu 10). Rútan stoppaði á 5 km fresti og reiddi fram drykki. Það var því hægðarleikur að plata sig aftur og aftur til að hlaupa milli drykkjarstöðva og hugsa sér að maður væri alltaf bara að hlaupa 5 km. Skemmtileg stemning var í hópnum, vísur og brandarar flugu og léttu lund. Það var ekki fyrr en síðustu 7 sem aðalritari kenndi þreytu en þá var svo stutt eftir að að tók því engan veginn. Að vísu reyndist leiðin 31 km sem gerði það að verkum að síðasti km var frekar þreyttur. Á myndunum má sjá FI SKOKKARANA Huld, Bryndísi, Jens, Sigrúnu og svo þau Sigrúnu (nöfnu) og Úlfar. Mjög fínn dagur sem endaði í grilli í Laugum! Skildi reyndar ekki hvernig allir gátu hámað í sig pylsu og kók, en það er önnur saga. :)
Kveðja,
aðalritari

föstudagur, maí 22, 2009

Hádegisæfing 22. maí



Mættir í frábæru hlaupaveðri: Hössi (new king), Dagur (dethroned), Kalli, Már, Óli, Anna Dís, Ása og Sigrún. Jói var á eigin vegum og í armbeygjum. Hinir fóru hefðbundinn miðbæjarsýningarrúnt með einum Hössatempó km (3:50) og hálfum Jónasi.

Alls. 8,3-K

Kveðja,

Sigrún

miðvikudagur, maí 20, 2009

Hádegisæfing 20. maí 09

Guðni og Kalli Hofs og Jói annað.

Meðalblóðflögumagn hefur líklega aldrei verið meira á æfingu en í dag. Þá erum við heldur ekki of léttir til að gefa blóð, þó að menn gætu haldið annað.

GI

þriðjudagur, maí 19, 2009

Notað Garmin hlaupaúr

Vitið þið um einhvern sem vill selja?
Kíkið á þennan hlekk
Kv. SBN

Hádegisæfing 19. maí

Mættum 5 frækin í dag: Bryndís, Huld, Oddgeir, Dagur og Sigrún. Fórum rólegt (hm..) recovery hlaup um miðbæ í bongóblíðu. Ákveðið hefur verið, vegna fjölda áskorana, að stofna stuðningshóp hafnaðra blóðgjafa (SHB), sökum tíðra hafnana meðal félagsmanna okkar af hendi Blóðbankans. Tveir hópar eru í boði: þeirra sem hafnað er sökum vanþyngdar og þeirra sem hafnað er sökum ónothæfra blóðflagna. Vinsamlega skráið ykkur í "comments" fyrir neðan og tilgreinið hvorum hópnum þið tilheyrið.
Alls 8-K
Kveðja,
Sigrún

A.S. Minni hérmeð á Rútuhlaupið á laugardag.

mánudagur, maí 18, 2009

Hádegisæfing 18. maí -Animal Farm

Frábær mæting í dag: Ársæll á eigin hring og Jói líka. Restin: Kalli, Hössi, Már, Erlendur, Sigurgeir, Oddgeir, Gnarr, Dagur, Óli, Huld og Sigrún fóru tempóhlaup, ýmist frá Hofsvallagötu eða Kaplaskjól langt/stutt. Rosalega sól var í boði og skörtuðu þær stöllur Huld og Sigrún sérstökum búnaði að því tilefni, með dýramynstri. Var gerður nokkuð góður rómur að þessum herlegheitum nema einum aðila mislíkaði þetta og sagði þær "gærulegar" með búnaðinn. Allir söfnuðust síðan saman við kafara og skokkað heim á hótel. Tvær glennur urðu á vegi hópsins á heimleið, en það voru þær sjósundsdrottningar Anna Dís og Guðmunda, sem lágu hálfnaktar í vegarkantinum og biðu þess að verða uppgötvaðar. Þær náðu þó á engan hátt að skyggja á fegurð zebrasystranna, það er ljóst.
Allt 8,7-9,3-K
Kveðja,
Sigrún

Fullkomnun hjá Nike

Ágætu klúbbmeð-limir.

"You can make love standing up in a puddle of massage oil and you won't fall down."

Fullkomnun hefur verið náð, athugið meðfylgjandi vefsíðu:
http://www.theonion.com/content/news/nike_introduces_new_intercourse?utm_source=a-section

Með kveðju,
Bjútíið

fimmtudagur, maí 14, 2009

Hádegisæfing 14. maí



Mætt í dag: Jói á sérleið, Ársæll á rangri Suðurgötu og Huld, Jón Gnarr og Sigrún á réttri Hofsvallagötu í hr (hífandi roki). Gnarrinn var bara sprækur þrátt fyrir mikið heilsuleysi undanfarið og hresstist við að hitta flugfreyjurnar. Eftir æfingu kom Jói að máli við okkur og bað okkur um að skella okkur inn í Blóðbankabílinn, sem var á bílaplaninu. Skipti þá engum togum að eftir grandvarlega rannsókn á okkur stöllum í lokuðu viðtalsherbergi var annarri okkar alfarið hafnað sem blóðgjafa. Ástæðan: Jú, sú hin sama var of létt! Hinni var hinsvegar tekið opnum örmum, enda fer þar annálaður offitusjúklingur og bjórsvelgur, sem öllum mun vera ljóst, og þykir aflögufær um 1 blóðpott eða svo.

Alls 8,7-K

Kveðja,

Sigrún

miðvikudagur, maí 13, 2009

Hádegisæfing 13. maí

Hvern langar ekki að njóta skjóls í kirkjugarði og gera spretti í leiðinni? Þetta gerðu þau Dagur, Huld og Sigrún í dag í rokinu, en nánast logn í garðinum. Gerðum 6* brekkuspretti, nokkuð góða. Eftirá voru gerðar armbeygjur (sællar minningar) og Pilates magaæfingar m.m. Jói var á séræfingu, utan garðs og kvartaði undan dræmum nafnbirtingum hans á síðunni. Á þessum leiðu mistökum er hérmeð beðist velvirðingar.
Alls 7-K
Kveðja,
Sigrún

Mainz-Marathon í Þýskalandi





Sunnudaginn 10. maí tóku tveir meðlimir skokkklúbbsins þátt í Mainz-Marathoni í Þýskalandi; Bryndís Magnúsdóttir keppti í hálfmaraþoni og Jens Bjarnason í maraþoni. Með í för voru einnig Úlfar félagi okkar, eiginmaður Bryndísar, og Baldur Oddsson, fyrrum klúbbmeðlimur og þátttakandi í víðavanghlaupi ASCA fyrir okkar hönd. Úlfar hljóp heilt maraþon en Baldur hljóp ekki en var engu að síður ómissandi hluti af liðinu.
Hugmyndin að þátttöku í þessu hlaupi varð til einhvern sunnudagsmorguninn í vetur þegar við vorum að hlaupa í myrkri og kulda hér heima. Skráning í stórt hlaup erlendis hjálpaði okkur við að setja æfingamarkmið og halda okkur við æfingar í svartasta skammdeginu. Ástæður þess að Mainz varð fyrir valinu voru m.a heppileg tímasetning, gott orðspor hlaupsins og falleg staðsetning við bakka Rínar, auk þess sem hægt var að velja milli heils og hálfs maraþons.

Þegar kom að skráningu í janúar kom í ljós að löngu var uppselt í hlaupið. Eftir bréfaskriftir við skipuleggjendur var okkur boðið að taka þátt, okkur að kostnaðarlausu, og vorum við því í raun einhvers konar VIP þátttakendur. Þetta var mjög höfðinglegt af skipulegjendum sem eru borgaryfirvöld í Mainz.
Hópurinn hittist á Frankfurt flugvelli föstudaginn fyrir hlaup. Bryndís, Úlfar og Baldur komu fljúgandi frá Íslandi en Jens kom til Frankfurt á svipuðum tíma frá Yakutiu í Austur-Síberíu, nokkuð þreyttur en bar sig vel.
Við borðuðum á mjög góðum pastastað á föstudagskvöldinu. Kolvetnin runnu ljúft niður, ekki síst hjá Jens sem (að eigin sögn) hafði lítið borðað annað en hrossakjöt alla vikuna. Laugardeginum var eytt í bíltúr um Rínardalinn. Ef undan er skilin vínsmökkun í Rudesheim am Rhein var hegðun liðsins almennt góð.

Sunnudagurinn rann upp með fallegu veðri. Spáð hafði verið rigningu en reyndin varð önnur. Það var reyndar skýjað í startinu en fljótlega birti til og skein sólin á okkur mestan tímann. Hitinn fór upp í 20 gráður en við vorum sammála um að það hefði ekki truflað okkur svo mjög, okkur leið öllum vel í hlaupinu. Bryndís stóð sig best og var í raun hársbreidd að vinna sinn aldursflokk, lenti í þriðja sæti á 1:54:34, Jens kláraði heilt á 3:45:37 og Úlfar kom í mark á 3:55:47.

Baldur var á leið til Spánar og kvaddi okkur fljótlega að hlaupi loknu. Við hin skáluðum í kampavíni og héldum upp á daginn með veislumáltíð um kvöldið, fullkominn endir á frábærri hlaupaferð.

Jens Bjarnason

þriðjudagur, maí 12, 2009

Næstu hlaup

Langar að vekja athygli ykkar á nokkrum hlaupum á næstunni:

06.06.2009 - Úlfljótsvatnshlaupið
30.05.2009 - Mývatnsmaraþon
23.05.2009 - Rútuhlaupið
21.05.2009 - Olíshlaup Fjölnis
21.05.2009 - Smárahlaup Breiðabliks
16.05.2009 - Eyvindarstaðahlaupið
17.05.2009 - Kópavogsþríþraut
16.05.2009 - Neshlaupið

Kv.
SBN

Hádegisæfing 12. maí


Mættir í hávaðaroki: Oddgeir, Dagur, Huld og Sigrún. Fórum öfuga Hofsvallagötu þar sem Dagur lýsti heimspeki "Trekkara", en hann er mikill og einlægur aðdáandi Star Trek. Aðeins of framúrstefnulegt fyrir okkur, þessi jarðbundnu. Ath. Þess má geta að gæti verið að Dagur hafi orðið fyrir alvarlegum sykurskorti á laugardag. Þá hjólaði hann við 3ja mann um 100 km (sem hann kallar blítt álag/blödt pålæg (dansk)), og við þann gerning festist hann í útópískri heimsmyndarskynvillu, sem gjarnan einkennir Star Trek myndirnar. Vert er að fara blíðum höndum um Stóra Dana á næstu dögum.
Alls 8,7-K
Kveðja,
Sigrún

föstudagur, maí 08, 2009

"Daginn eftir Icelandair hlaupið"

Neðangreindir aðilar mættu galvaskir í strekkingsvindi á köflum til að þreyta þetta skemmtilega hlaup. Ath. að ekki sést á þessum tölum en kvenkeppendur voru hafðir með Icelandair ennisbönd, til aðgreiningar frá karlkeppendunum, enda enginn annar sjáanlegur munur þar á.
27:35 Dagur
29:48 Guðni
30:10 Oddgeir
30:58 Karl
31:04 Huld
32:57 Sigrún
34:34 Anna Dís
Góða helgi,
Sigrún (í umboði Dags, tímavarðar)

Tímar fyrri ára.

15. Icelandairhlaupið 7. maí



Hlaupið í gær tókst með ágætum, 544 luku keppni með glæsibrag. Heldur hvasst var í veðri en það hafði ekki áhrif á þátttökumet gærdagsins. Þótt engar þátttökumedalíur væru í þetta sinn var gerður góður rómur að ennisböndum, súpu og brauði, sælgætispokum og orkudrykkjum. Sigurvegarar komu ekki á óvart en það voru þau Þorbergur Ingi (23:30) og Arndís Ýr (25:58)sem sigruðu. Nánar má sjá úrslit hér:

Stjórn IAC þakkar öllum sem lögðu hönd á plóginn í gær kærlega fyrir vinnu við undirbúning og framkvæmd hlaupsins.

Kveðja,

IAC

miðvikudagur, maí 06, 2009

Hádegisæfing 6.maí


Sól og blíða á æfingu dagsins þar sem tekin var test-yfirferð í Icelandairbrautinni fyrir morgundaginn. Búið er að mæla og ótrúlegt en satt þá reyndist brautin enn 7km. Sáum þó ekki merkingu á 4km, en erum þess nokkuð viss að hún er mitt á milli 3. og 5. km. Einnig var nokkur léttir að uppgötva, eftir samtal við borgarstarfsmann, að verið er að leggja lokahönd á að steypa kantstein hægra megin í brautinni við startið. Mættir voru: Kalli, Sveinbjörn, Dagur, Anna Dís og Sigrún.
Alls 7K
Kveðja,
Sigrún


Veðurhorfur til kl. 18 á morgun
Vaxandi norðaustanátt, 8-13 m/s síðdegis. Dálítil rigning eða súld, en slydda til fjalla. Þykknar upp S- og SV-lands eftir hádegi, en úrkomulítið. Norðan 10-18 og rigning eða slydda með köflum á morgun, einkum norðaustantil, en bjartviðri á S- og SV-landi. Hiti 0 til 12 stig, hlýjast S-lands.
Spá gerð 06.05.2009 kl. 12:33

þriðjudagur, maí 05, 2009

Hádegisæfing 5. maí



Mættir í góðu veðri: Dagur, Oddgeir, Sigurgeir og Sigrún. Fórum frekar rólega Hofsvallagötu með smá lengingu um Sörlaskjól. Þau gleðitíðindi bárust aðalritara rétt áðan að Björgvini og frú hefðu fæðst tvíburar í nótt, 12 og 13 merkur. Drengur og stúlka (vinnuheiti Snúður og Snælda) og heilsast öllum vel en eru þreyttir. Óskum við FI skokkarar þeim hérmeð innilega til hamingju!

Alls 9,4-K

Kveðja,

Sigrún

mánudagur, maí 04, 2009

Hádegi 4. maí 09

Guðni, Huld, Kalli, Óli fóru ýmsar vegalengdir í roki og rigningu.

sunnudagur, maí 03, 2009

Hagtölur mánaðarins

Eftirfarandi hagtölur fyrir aprílmánuð hafa loks verið reiknaðar og yfirfarnar. Niðurstaðan er sú að hér er engin kreppa í gangi!

Hljóp alls 200,5 km í mánuðinum sem reyndar er heldur minna en síðast og minna en áætlað var. Hér ber þó að hafa í huga að ég tók tvö stutt hlaupahlé, hið fyrra í fjóra daga, hitt í þrjá. Ég virðist einfaldlega þurfa að taka mér meiri hvíld en flestir aðrir eftir erfiðar æfingar. Spurning um að fara að fylgjast betur með hvíldarpúlsinum svo maður sé örugglega að fá næga hvíld. Sem sagt:

Alls 200,5 km á 17 hlaupadögum.
Lengsta hlaup var 32km.
Eitt langt hlaup í hverri viku og a.m.k. ein gæðaæfing þess utan.

Planið er að fara heilt maraþon í Mainz á sunnudaginn eftir viku. Tel mig nokkuð kláran í það ef ekkert óvænt kemur upp á. Ég óttast mest að það verði óþægilega heitt. Kemur í ljós.

Kveðja, Jens

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Hádegisæfing 30. apríl

Mætt: Guðni (keppir fyrir Skeggjastaði), Sigurgeir, Huld og Sigrún. Fórum rólega Hofsvallagötu í fullkomnu hlaupaveðri, súld og hægviðri (heitir örugglega eitthvað annað hjá GI) og spjölluðum um markmið maímánaðar. Guðni: (ætlar að eiga afmæli, 50 ára), Sigurgeir (ætlar ekki að keppa aftur í sama hlaupi og Dagur, vill ekki niðurlægja þjálfarann-aftur!), Huld (ætlar að reyna við 300 km í mánuðinum) og Sigrún (ætlar ekki að láta Sigurgeir ná sér í hlaupamagni). Að öðru leyti var allt rólegt og í góðum vinskap.
Alls 8,7 (nema GI sem hljóp líka í morgun 10,8K)
Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, apríl 29, 2009

Sjósund 29. apríl

Mættum 3 píur; tveir Valsarar og einn Þróttari til að skokka í Nauthólsvík og fara í sjóinn. Vindur nokkuð mikill og slagveður. Reyndum að taka mynd en of mikið rok reyndist vera til að það heppnaðist. Skelltum okkur þá jafnhendis út í sjóinn, sem var vægast sagt mjög ÚFINN. Sjóhiti var þó hagstæður (7° en á móti komu 22 m/s í vindi). Allmargir karlkynsáhorfendur voru á svæðinu og vöktum við loks verðskuldaða athygli, enda árennilegar með afbrigðum. Fyrr höfðum við hitt þá félaga Guðna, Dag, Óla og Kalla en þeir kusu allir að fara "Kolkrabbann" í stað þess að striplast með okkur. Órtúlega klaufalegt!
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, apríl 28, 2009

Hádegisálíming 28. apríl

Í dag fór fram árleg hádegisálíming skokkklúbbsins. Einn félagsmaður (Hippo) var löglega afsakaður til verksins þar sem hann stundar samanburðarrannsóknir á mæligetu og burðarþoli tveggja baðvoga. Niðurstaðan sýnir 400g halla, félagsviktinni í óhag. Þess verður því krafist í framtíðinni, að karlkyns skokkfélagar beri sig (ekki saman) fyrir viktun og þannig næst að rúnna af 400g, sem ellegar mældust í þvengbrók eða viðlíka umbúnaði, þegar gengið er til viktunar.

Þökkum féagsmönnum kærlega veitta aðstoð í hádeginu, margar hendur ... o.s. frv.
Kveðja,
Aðalritari

mánudagur, apríl 27, 2009

Hádegisæfing 27. apríl

Mættir í afbragðsfínu veðri: Jón Gunnar Geirdal, Sigurgeir, Dagur, Kalli, Bryndís, Huld, Bjöggi, Ása og Sigrún. Fórum Hofsvallagötuhringinn með lengingu á sæmilegu recovery fyrir þá sem voru í hálfu um helgina. Heyrst hefur að Fjölnir (sem æfði 7,5 km á viku fyrir hlaupið), sé enn að gleðjast yfir árangri sínum á einu af öldurhúsum Hafnarfjarðar. Síðast fréttist til hans dansandi stríðsdans í Vikingaþorpinu. (Heitir það það ekki annars?) Setning dagsins er þó tvímælalaust: "Hvern andskotann ertu að horfa á?" Svar: "Nú, rassinn á þér". Þarf ekki að taka fram hvaða rass er átt við í þessu samhengi.

Alls 9,6-K
Kveðja,
Sigrún

Aðalritari vill minna á að nk. miðvikudagshádegi fer fram mánaðarlegt sjósund félagsmanna og velunnara þeirra. Ekki gleyma skóm, handklæði og skýlu.

Úrslit í vormaraþoni



Á laugardag hlupu nokkrir félasmenn hálft- og heilt maraþon í vormaraþoni FM, sem fram fór í kjöraðstæðum. Úrslit urðu þessi:

Hálft

01:25:33 Höskuldur Ólafsson

01:36:52 Huld Konráðsdóttir

01:41:36 Sigurgeir Már Halldórsson (Hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon)

01:42:15 Dagur Egonsson

01:43:42 Fjölnir Þór Árnason (Hljóp sitt fyrsta hálfmaraþon)


Heilt

03:01:43 Baldur Haraldsson (2. í heildarúrslitum)


Frábær árangur, Hössi í bætingu og Cargo-bræður stóðu sig firnavel að ógleymdum Baldri, sem náði öðru sæti í maraþoninu. Glæsilegt öll, til hamingju!


Stjórn IAC



föstudagur, apríl 24, 2009

Hádegisæfing 24. apríl

Mættir í dag: Anna Dís, Bjöggi, Kalli, Guðni, Óli, Oddgeir, Sigurgeir, Gyrðir (Dagur, keppir undir merkjum Skallagrímsættarinnar) og Sigrún. Fórum rólegan miðbæjarrúnt þar sem nokkrir úr hópnum ætla í vormaraþon (brr..) FM á morgun. Ræsing í hálfu er kl. 10.30.
Góða helgi og ekki gleyma að kjósa á morgun.
Kveðja,
Sigrún
Þessir hafa skráð sig:

Víðavangshlaup Í.R.



Í gær, sumardaginn fyrsta, þreyttu nokkrir af félagsmönnum og áhangendur, víðavangshlaup Í.R. sem fram fór í miðbæ Reykjavíkur. Góðar aðstæður voru til hlaups, þurrt og lítilsháttar gola.

Úrslit má sjá hér:


24 18:51 Höskuldur Ólafsson 1965

52 20:14 Oddgeir Arnarson 1970

79 21:09 Huld Konráðsdóttir 1963 1. í flokki

126 22:24 Baldur Úlfar Haraldsson 1965

131 22:29 Hólmfríður Ása Guðmundsdóttir 1976

189 23:48 Bryndís Magnúsdóttir 1950 3. í flokki


Sumarkveðja,

Stjórn IAC

þriðjudagur, apríl 21, 2009

Bostonmaraþon 20. apríl



Það var með nokkurri eftirvæntingu að tveir meðlimir skokkklúbbsins héldu til Boston til að gera faglega úttekt á 113. Bostonmaraþoninu. Eftir góða 12K morgunæfingu (12.08) að ísl. tíma héldum við stöllur á slóðir brautarinnar og hlupum hluta leiðarinnar í fínu veðri, nokkuð köldu og vindasömu þó. (45° Fahrenheit). Áður höfðum við barið stjörnurnar augum í sjónvarpinu, kvenna elítustart og karlana. Veðjað var á Goucher og Hall sem sigurvegara og miklar líkur bentu til að svo yrði. Á tilsettum tíma stilltum við okkur svo upp á Boylston miðri, passlega langt frá markinu. Með lagni þrengdum við okkur í framlínu, að íslenskum sið. Spennan jókst. Mannfjöldinn var þónokkur að horfa á. Fyrstir komu hjólastólakeppendur í mark. Fögnuður! Ekki löngu síðar komu fyrstu konur. Gæsahúð...hjartsláttur og tár. Þrjár voru í endaspretti. Goucher hafði rykkt og freistast til að taka forystu en hélt ekki og Tune og Kosgei byrja æðisgenginn endasprett. Tune (sigurvegarinn í fyrra) frá Eþíópíu var aðeins á undan þar til eitt skref var eftir í markið. Þá stal Kosgei (Kenýa) sigrinum og vann á einni sekúndu: 2:32:16. Tune örmagnaðist og var flutt á spítala og Goucher grét, átti aldrei séns (munaði 9 sek.). Karlarnir koma stuttu seinna. Þar var sigurinn öruggur. Mergat (Eþíópía) nærri mínútu á undan næsta á 2:08:42, síðan Rono og þá Hall. Ekki leiðinlegt að standa 3 metrum frá keppendum og fylgjast með þessu "live". Blindir komu í mark, fótalausir, Boston Billy og allir hinir en enginn Íslendingur að því er best verður séð. Kannski verður breyting á því að ári.
Þökkum þeim sem hlýddu,

kveðja-aðal og pacer-inn (SBN/HUK)

mánudagur, apríl 20, 2009

Baðvog










Mikil gleði braust út hjá karlpening skokkklúbbsins fyrir æfingu í dag þegar langþráð baðbog var formlega afhent yfir-þjálfara og síðan sundlaugarverði og velunnara FI-SKOKK. Baðvogin er einföld í notkun og verður staðsett í karlaklefa þar sem hennar er orðin brýn þörf. Í tilefni dagsins voru teknar myndir og boðið upp á bland í poka að æfingu lokinni.
Formaðurinn

laugardagur, apríl 18, 2009

Icelandairhlaup 15 ára 7. maí



Ágætu félagar.

Allir sem vettlingi geta valdið eru beðnir um að aðstoða við hlaupið á hlaupadag og skrá þátttöku sína fyrir neðan í "comments". Hlauparar klúbbsins og áhangendur velkomnir. Margar hendur vinna létt verk!

Bestu kveðjur,

stjórn IAC

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Hádegisæfing 16. apríl

Í dag voru gerðir hinir margfrægu 800m sprettir eftir ströndinni og veðrið var algjörlega fullkomið til þess arna. Mæting var góð; Hössi var á eigin vegum, Jói líka og Hippóinn var á Suðurgötuleið (að ég hygg) en aðrir tóku spretti. Þetta voru: Guðninn, Dagurinn, Ólinn, Oddurinn, Huldin, Bryndísin, Kallinn og Sigrúnin. Upphitun var 1,5k sem og niðurskokk en sprettir 6*800. Snilldin! Hvað eru mörg -in í þessari færslu kindin mín?
Kveðja,
Sigrún
(Sigurgeir-bíddu ert þú ekki að æfa fyrir stórt hlaup, og Fjölnir líka????)

miðvikudagur, apríl 15, 2009

Baðvikt

Eftir miklar þreifingar og harðvítugar deilur var ákveðið (þó eftir nokkuð málþóf við innri endurskoðun) að heimila fjárveitingu að ákveðinni upphæð til kaupa á baðvikt fyrir karlaklefa FI skokk. Er það viss léttir því eftir dularfullt hvarf gömlu viktarinnar stefndi í sögulegt hámark hjá nokkrum félagsmönnum, sem nú verður ráðin bót á.
Kveðja,
Sigrún

Hádegisæfing 15. apríl

Mættir í súperfínu veðri: Guðni (fagri blakkur), Sigurgeir (kunningi fræga fólksins), Huld (ofurskutla) , Sigrún (jakkaeyðir), Jói Wenger, Sveinbjörn (í kostnaðaraðhaldi) og Ársæll (í átaki).
Fórum frekar þægilega Hofsvallagötu til að spara kraftana fyrir 800's á morgun. Það kom að máli við mig iðkandi eftir hlaup og sagðist vera í átaki, ætlaði að missa 10% vikt á 16 vikum, byrjar á morgun. Á meðan þetta átak stendur yfir mun þessi ágæti maður verða kallaður Hippo en svarar einnig Ársælsnafninu. Það er því eins gott að Sigurgeir nái að knýja fram kaup á vikt fyrir baðklefa karla.
Alls 8,7k
Kveðja,
Sigrún

Heiðmerkurtvíþraut 19. apríl

Nánar hér

Kveðja,
IAC

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Hádegisæfing 8. apríl

Ég hef alltaf haft gott lag á fermingar- og kórdrengjum og þessvegna tók ég 3 slíka með mér í kirkjugarðinn í dag. Þetta voru þeir; Sigurgeir (sópran), Fjölnir (alt) og Oddgeir (tenór) og í sameiningu kláruðum við 5*graveyard hill í brakandi blíðu og sælu. Skemmst er frá því að segja að eftir æfinguna festist aðalritari í jakkanum sínum og þurfti að klippa hann utan af sér og henda. Sorgleg endalok Icelandair jakkans það.
Alls 6,7k hjá drengjum
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, apríl 07, 2009

Hádegisæfing 7. apríl



Mættir voru: Bjútí, Dagur, Sigrún og Huld kom á sprettinum. Ákváðum að taka 70*100 rólega án hvíldar og það kom bara vel út í frábæru veðri. Ástæðan: Dagur er stífur, Bjöggi er ekki búinn að ná honum upp(sko Bjögganum), Huld má ekki svitna í nýja bleika Barbí-dressið og Sigrún var eitthvað hölt og skökk, þannig að við geymdum erfiðu æfinguna. Jói var á eigin skokkæfingu og var í stuði. Eftir æfinguna var ljóst að Huld er tvímælalaust tískudrottning FI skokkara en hún klæddist Fuchsia-bleikum langermabol úr dry fit, utanyfir svart aðsniðið vesti með bryddingum. Að neðan kvartbuxur úr samsvarandi línu og á fótum glænýir ASICS Nimbus, hvítir með fuchsiaskreytingu á hliðum. Með þessu er vorlína hópsins lögð, héreftir eru það hnébuxur og skærlituð föt og markmannshanskar bannaðir.

Alls 7, 23k

Kveðja,

Sigrún

föstudagur, apríl 03, 2009

Hádegisæfing 3. apríl

Fríður flokkur var mættur í dag í fjarveru þjálfara: Sveinbjörn, Kalli, Guðni, Óli, Sigurgeir, Fjölnir, Huld, Bryndís og Sigrún og Jói fjallageit var á kraftgöngu. Fórum fínan sýningarrúnt um miðbæinn í góðu veðri.
Góða helgi! :=)
Alls 8k
Kveðja,
Sigrún

fimmtudagur, apríl 02, 2009

Hádegisæfing 2.apríl

Mættir í dag: Sveinbjörn (sem valdi kirkjugarðinn), Dagur, Oddurinn, Náttriðillinn (uss, hann sagði þetta sjálfur, ekki ég) og Sigrún. Jói var í kraftgöngu. Skokkuðum útí kirkjugarð og tókum fantagóða æfingu eða 6*brekkuna (ca 300m) og létt skokk niður á milli. Augljóst var að Gnarrinn hefur lítið sem ekkert æft, hann var bara smá fyrstur en ekki langfyrstur. Einnig vakti athygli að Sveinbjörn er með stillingu, sem gott er að grípa til þegar mikið liggur við, en það er "accelerated speed control" takki sem ræsir varahreyfil. Gott að hafa þennan fídus. Skemmst er frá því að segja að aðal kjúlli hópsins sá sér ekki fært að mæta í dag, þurfti að fara í fermingarfræðslu og þaðan beint í klippingu.
Frábær æfing í logni en rokið blés utan kirkjugarðs.
Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, apríl 01, 2009

Hádegisæfing 1. apríl

Mættir í dag í smá súld: Dagur, Guðni, Sigurgeir, Fjölnir, Hössi, Bryndís og Sigrún. Einnig sást til Ingunnar. Fórum Hofsvallagötu á þægilegu tempói en Sigurgeir vildi bæta fyrir æfingaleysi sitt með lengingu sem er gott, sérstakalega þegar 1. apríl er, þá nota kvikindin tækifærið og gefa í svo lengingin breytist í laaaangt tempóhlaup. Fórnarlambið hljóp því apríl, eins og það heitir, og kastaði sér niður við kafara, þar sem hann loks náði í hælana á strákunum. Þetta eru vinir í raun, það held ég. Á morgun er í boði að taka 24*200 (án hvíldar) eða að taka þátt í Háskólahlaupi kl. 15.00, þar sem FI skokkarar eru boðsgestir.
Alls 8,76k hjá öllum nema Geira smart
Kveðja,
Sigrún