föstudagur, október 17, 2008

Freaky Friday - around the world two times

Mættir í dag á æfingu voru: Sigurgeir (fór sér, ekki hjá sér), Höskuldur daydreamer, Dagur the restless, Guðni Phileas Fogg, Sigrún Erlends, -nafna og brekkubani og Sigrún Aðal. Þetta var meðvirkt samfélagshlaup sem saklausir hjástandendur (innocent bystanders) lentu í, fyrir einskæra tilviljun. Um var að ræða 9 Km hlaup til að Guðni næði hlaupamælingunni 20.000 Km (frá upphafi mælinga) og farið var nokkuð greiðlega. Hlupum vestur í bæ, Kaplaskjól, framhjá randafluguvöllum (KR), Grandaveg, JL hús niður í miðbæ og upp Skólavörðustíg (að beiðni) og upp að Leifi heppna og hoppuðum þar eins og fávitar (eitthvað Laugaskokks dæmi), áfram Barónsstíg og upp á Miklubraut þar sem um 1 Km var eftir að hóteli. Þá var gefið aðeins í eftir megni og tekið tempó heim að hóteli. Leiðin reyndist um 9,2 Km og var farin á rúmum 45 mínútum. Þar með fór síðasta von vikunnar um rólega félagsæfingu, enda ekki ástæða til afslöppunar á þessum viðsjárverðu tímum. Þá má hinsvegar telja Guðna til hróss að með þessu hlaupi hefur hann hlaupið tvisvar kringum hnöttinn og þá eru ótalin öll þau skipti þar sem hann hefur hlaupið á sig eða undan sér. Hann var þó reyndar aðeins meira en 80 daga að klára vegalengdina.

Kveðja,
Sigrún

Lokun sundlaugar Hótels Loftleiða í næstu viku

Sundlaugin á Hótel Loftleiðum verður lokuð frá mánudeginum 20. okt.-fimmtudagsins 23. okt. að báðum dögum meðtöldum. Hlauparar hafa ákveðið að efna til hópferða frá aðalinngangi, þ.e. sameinast í bíl/a og fara í Vesturbæjarlaug, annaðhvort í sund eða hlaup. Farið verður af stað kl. 12.00 og eru allir velkomnir, sérstaklega þeir sem eru aflögufærir með bíla.
Kveðja,
Stjórn IAC

fimmtudagur, október 16, 2008

No Torture Thursday

Mætt í dag í súld en fínu hlaupaveðri: Joe Boxer, speedwalking og Sveinbjörn kenndur við innri endurskoðun, sem fór út á dælustöð og til baka, og Guðni, Dagur, Hössi, Huld og Sigrún. Ótti félagsmanna um erfiða æfingu reyndist ástæðulaus að þessu sinni því blíðlega var tekið á meistaraflokknum að þessu sinni. Farin var leið um Hlíðar, Holt og Öskjuhlíð, en aðalritari treystir sér ekki til að skilgreina götuheiti því einn samferðamanna hennar talaði látlaust um uppröðunarsýki sína og hvernig hann notaði Dewey's flokkunarkerfið heima, við flokkun matvæla. Einnig var rætt um innri djöfla (inner demons) og hvernig þeir vondu, sem eru alltaf til staðar, virðast ná að murka andann úr annars alheilbrigðu fólki. Þá er mikilvægt að finna góða djöfulinn sinn (hjá sumum er þetta engill, ekki öllum) og fá hann til samstarfs og hvatningar. Aðal galdurinn er að virkja hann (sbr. grein um self talk) og fá hann til að taka yfir hugsanaferlið með einfaldri möntru sem virkar fyrir hvern og einn. Ef félagsmenn luma á góðum ráðum um möntrur, s.s. "vindurinn er vinur minn", eru þær ábendingar þegnar hér að neðan í comments.

Alls 8K á um 42:40 mín.
Kveðja,
Sigrún

Choice Words

Kannski vilja fleiri nýta sér þetta.

Self talk

Kveðja úr herbúðum aðalritara.

miðvikudagur, október 15, 2008

No Whining Wednesday 15. október

Í góða veðrinu í dag mættu: Björg Stefanía, Hekla Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björnsdóttir (stórglæsilegir nýliðar í hátískufatnaði), Jói á hraðgöngu og Ingunn skógardís, Guðni strigakjaftur, Dagur, Óli, Oddgeir, J.Gnarr, Huld, B.Bjútí, Kalli og Sigrún. Nýliðarnir með Sigríði Björnsdóttur í forsvari fóru heim að dælustöð og tilbaka, u.þ.b. 5 kílómetra en restin fór í hið týpíska tempóhlaup, með 2 vegalengdir í boði; Kaplaskjól og Hofsvallagötu að kafara (enginn fór Suðurgötuna). Fljótlega pöruðu menn sig saman; Gnarr og Huld, Bjútí og Sigrún, Kalli, (Hofs) en hinir (Kapla) voru eflaust saman fyrst en síðan dreifðir, sá það náttúrulega ekki, ekki fyrr en Doris Day & Night (í matching dressum eins og hjón) komu á hrokafullri hraðsiglingu síðustu 100m tempósins. Ekki bar á öðru en að viðstaddir hefðu tekið vel á því en hvorki heyrðist hósti né stuna alla leiðina, enda búið að þvertaka fyrir allt slíkt. Háar fjársektir verða innheimtar ef menn svo mikið sem "æja" einu sinni. Fatamál nokkurra félagsmanna eru enn í ólestri og verður harðar tekið á því þegar á líður vetur en ekki er hægt að bera fyrir sig vöruskorti í þjóðfélaginu eða neinu þ.h. Menn geta bara drullast til útlanda að kaupa þetta. Lágmarksbúnaður er: niðurmjóar hommabuxur, vindstakkur í stíl (ekki frá Seglagerðinni), vettlingar (ekki gamlir markmannshanskar), smart húfa úr lycra og nýjustu ASICS hlaupaskórnir hverju sinni. Geta þátttakendur átt von á því að verða fyrirvaralaust kallaðir fyrir tískunefnd og reknir heim ef þeir uppfylla ekki útlitsskilyrðin.

Kapla 9,1
Hofs 8,6
Dæla/ return 5 (allar einingar í km)

Ath. ef einhver hefur séð keppnisskapið mitt á flækingi eða hefur tekið það ófrjálsri hendi er sá hinn sami beðinn að hafa samband við vallarvörð.

Bestu kveðjur,
Sigrún

þriðjudagur, október 14, 2008

Tired Tuesday 14. october

Góð mæting í dag: Dagur, Hössi, Guðni, Fjölnir, Sigrún (nafna), Oddgeir, Sigrún, Sveinbjörn og Laufey sem voru tvö á eigin skógarflippi. Farið var frá hóteli í gegnum skóg og upp í Kópavog (Kársnesmegin) og farið út 4K og þá snúið við. Lengi var von til að æfingin yrði róleg en allt kom fyrir ekki, einn félagsmanna heimtaði að tekinn yrði lengsti armur kolkrabbans (um 1200m) í restina með rólegu skokki eftir það. Skipti þá engum togum að maður þurfti að druslast upp að Perlu frá kirkjugarði í smá hraðaaukningu. Fyrir brekkuna löngu var rætt um afrek félagsmanna í t.d. Powerade og Geðveika hlaupinu, en þar var vaskleg framganga félaganna til fyrirmyndar. Menn nota orðið ýmsa tækni við hlaupin, t.d. "virtual partners" sem toga menn áfram. Einn félagsmanna náði þó það góðum árangri í hlaupi á laugardag, þótt hann sé ekki geðveikur, að aðalritari freistast til að halda að um hafi verið að ræða "virtual reality".

Alls 8,6K með 1200m kafla upp brekku á hraða

P.S. Takk Hössi fyrir að huga að smælingjum í brekkunni!
Kv. Sigrún

mánudagur, október 13, 2008

Mountain Monday - 13. október

Góð mæting : Guðni, Kalli, Björgvin, Óli, Huld, Hössi, Oddgeir, Dagur, Ágúst og Sigurborg

Að ósk Guðna var blásið til brekkuæfingar. Farin var sami túr og farin var þann 30. sept. Stóðust allir þrautina þó erfið væri. Sérstaklega ber að nefna þá Oddgeir og Hössa sem sýndu ótrúlega takta og snýttu þjálfaranum á tveimur seinni sprettunum. Vonandi verða einhverjir með strengi á morgun.

Guðni óskaði eftir því að mánudagar yrðu gerðir að 'Mountain Mondays' þó ekki væri nema til að létta spennuna fyrir æfingar þannig að allir vissu hvað þeir ættu von. '...annars er maður með kvíðasting allan morguninn...'

Óli var seinn út en náði hópnum á þriðja sprett. Á leiðinni fældi hann hindurnar tindilfættu (Ágústu og Sigurborgu) sem skokkuðu léttfættar á eigin vegum.

Kveðja,
Dagur

föstudagur, október 10, 2008

Featherd-freaky friday - Hofsvallagatan "with a twist".

Sæl veriði öll til sjávar og sveita.
Í dag óskaði Guðni-"Gnarr"-bani eftir því að leiða freak-hlaup dagsins.
Mættir voru (hel-cuttaðir og tanaðir í drasl), Bjútíið, Gnarr-baninn, Dagur og Oddgeir.
Einnig var Sveinbjörn "á eiginvegum", og Fjölnir Cargó, og Óli Briem kom seint, en hafði þá orð Bjútísins að leiðarljósi "Það er ekki nóg að hlaupa langt - það þarf lika að hlaupa hratt". Enda tók hann bara 30 mínútna sprett upp og niður öskjuhlíðina, einskonar "two armed octopussy".
Hinir 4 fræknu lögðu af stað í átt að Valsheimilinu þegar Gnarr-bananum varð á orði, "það er bara eingin kvennmaður í dag...... ekki einu sinni Sigurgeir".
"Featherd-twist-ið" í dag var að hlaupa Ægissíðuna vitlausumegin, þ.e. á gangstéttinni, og beigja svo inn í einhverjar minnstu og þrengstu götur sem til eru í Reykjavík. Þeir heita allar eitthvað ránfugla-tengt, eins og Arnar-stræti og Smyrilstígur og svo að sjálfsögðu Fálkagata. Reyndar náði Steypireyðurinn ekki að leggja réttu götunöfnin á minnið vegna súrefnisskorts í heila, en þetta var allavega eitthvað svona fiðrað með beittan gogg.
Þessi hringur reyndist vera 9,2 Km og er ekkert gengisfall á því.
Gríðarskemmtileg föstudagsæfing um "óbyggðir" vesturbæjarins.
Bjútíið.

49. vetrarraðhlaupið

Í gær fór fram 49. vetrarraðhlaupið. Fljótt á litið er þetta 32. raðhlaupið sem ég hleyp. Þarna hitti ég Huld og svo 3 viðhengi klúbbsins, Hössa, Jón Gnarr og Sigrúnu (nafna/frænka). Hugmyndin hafði verið að hlaupa með afmælisbarninu (þó ekki Lennon) en sá lét ekki sjá sig.

Við Hössi stilltum okkur upp á start línunni. Hössi hvarf mér en ég fann mér aðra til að elta. Færi var gott en austan rok. Bitnaði helst á undirrituðum í rafstöðvabrekkunni, en hún var erfiðari en nokkru sinni. Við Gnarrinn vorum í einhverri keppni um tíma, ég leyfði honum að halda að hann myndi hafa mig en ég átti smá endasprett þannig að ég hafði hann á sjónarmun á ca. 43:40, ca. 100 sek á eftir Hössanum. Huld kom svo stuttu síðar og svo Sigrún.

Lærdómur dagsins: 1) Æfa brekkur 2) æfa meira 3) æfa lengra.

GI

miðvikudagur, október 08, 2008

Whimpy Wednesday - 8. október

Vegna keppnishlaups á morgun var tekin róleg æfing. Snorrabraut, miðbær, Austurvöllur (þar sem við tókum þátt í mótmælum gegn krónunni kæru), Tjörnin og heim á hótel, 6,8k.

Mæting : Sveinbjörn, Huld, Guðni, Kalli, Dagur

Sjáumust á morgun í Powerade Vetrarhlaupinu.
Fyrir þá sem ekki hlaupa annað kvöld þá verð ég með 10k tímatöku í hádeginu á morgun.

Kveðja,
Dagur

þriðjudagur, október 07, 2008

Tempo Tuesday 7. okt.

Ekkert lát er á þrengingum í samfélaginu en þeirra gætir að sjálfsögðu ekki á æfingum FI SKOKKs. Þar mættu galvösk: Höskuldur Ljósvetningagoði, Dagur hinn miskunnarlausi Samverji, Oddgeir Endorfíni, Guðni ryðkláfur og Sigrún, sem vegna fjölda áskorana hljóp bæði of langt og of hratt í dag. Einnig voru Anna Dís og Ágústa með vinkonu sinni mættar og fóru í skógarhlaup. Ingunnar varð einnig vart og Jóa, en þau voru á eigin vegum. Boðið var upp á 2 leiðir tempóhlaups; Kaplaskjól eða Granaskjól að kafara. Fór þó svo að hjónin fóru Kapla en bensínspekúlantarnir 3 fóru Grana-long. Veður var ágætt á útleið en á lengsta kafla tempós gætti mikilla sviptivinda og engin leið var að tjóðra sig við brautina, enda margir þátttakenda í fluguvigt. (not) Dugði þá skammt hið fornkveðna"vindurinn er vinur minn", sem reynt hefur verið að þröngva inn í haus félagsmanna síðustu vikurnar. Ekki tókst samt þríeykinu að ná Kaplaskjólinu áður en kafara var náð. Heldur var farið að þykkna í aðalritara þegar þangað kom og ákvað hún að staldra ekki við, heldur halda heim á hótel, einsömul. Er nær dró hótelinu álpaðist aðalritari til að horfa reið um öxl og sér hún þá hvar morðóðu hundarnir eru komnir á þeysisprett á eftir henni. Ekki hugnaðist henni þessi sjónmengun og reyndi eftir megni að bæta í, þrátt fyrir andlegt gjaldþrot og harðsperrur. Hófst því við lok ASCA-brekkunnar hinn æðisgengnasti lokasprettur þar sem óþarfi er að nefna, hver hratt og örugglega, kom geltandi upp að viljalausu verkfærinu sem háði sinn lífróður heim að póstkassa. Mátti í engu muna hvort kom að kassanum fyrst og verða fjöldamörg vitni að dæma þar um.
Grani 10,1K
Kapla 9,3K
Kveðja,
Sigrún (eða allavega restin af henni)

mánudagur, október 06, 2008

Manic Monday 6. október

"Það sést hverjir drekka Egils Kristal" enda mættu bara Jói (hraðganga), Dagur, Oddgeir og Sigrún í hundaveðri dagsins. Hrakspár og hrun fá engu breytt um einbeitingu þessa hlaupahóps sem ótrauður stefnir að sínu marki. Fórum í skógarhlaup til að verjast ágangi fjölmiðla (ekki út af veðri) og hlupum bláa stíg 6*, með leiðsögn til skiptis, nánast í beit. Félagsmenn eru að bæta á sig vetrarflíkunum og þeir alhörðustu komnir með húfu og vettlinga, eins og skólastrákum sæmir.
Fín æfing og smá magi á eftir.
Kveðja,
Sigrún
N.B. hver hringur er um 876m

laugardagur, október 04, 2008

Esjan 4.október



Héldum af stað í rútu frá HL með viðkomu á bensínstöð, til að sækja þrjá. Nokkrir komu síðan á eigin vegum. Veður var ægifagurt, sól og logn og hiti mjög þægilegur til útiveru. Þeir sem lögðu af stað frá Esjurótum voru: Sigrún, Sveinbjörn, Jói Úlfars, Jens Bjarna, Kalli, Kristinn Hjörtur, Sissa og Jónas (eiginm.), Oddný, Dagur, Svana, Hilmar og Inga Lára. Uppi rákumst við svo á Ágústu með tvær stelpur með sér.
Leiðin upp var frekar greið, snjór á köflum en oftast fínt færi. Nokkrir voru með göngustafi og flestir í gönguskóm, sumir í hlaupaskóm, sem dugðu alveg. Fórum upp að Steini, mishratt og söfnuðumst þar saman. Nokkrir vildu þá fara alla leið og gerðu það en aðrir ýmist biðu eða héldu niður. Tveir hlupu niður, aðrir gengu.
Sjaldan hefur veður verið eins fagurt og stillt og vel til Esjugöngu fallið og í dag og næsta víst að þessi ferð þolir alveg endurtekningu í náinni framtíð. Um 3,3 kílómetrar eru upp að Steini og tæplega 600m hækkun en um 190m bætast við alveg upp á topp.
Bestu kveðjur,
Sigrún

föstudagur, október 03, 2008

Hádegisæfing - 3. október

Mæting : Sigurgeir, Kalli, Óli, Dagur og einnig sást til Ingunnar á eigin vegum

Allir sem hlupu í dag eru viðskiptafræðingar og þótti því við hæfi að fara í pílagrímsferð milli mustera miðborgarinnar (Seðlabanka, Stjórnarráð, Alþingi, Ráðhús). Færðar voru fórnir til að friða guði efnahagsreglar óreiðu og biðja fyrir því að ráðamenn þjóðarinnar hafi visku til að leiða þjóðina gegnum þessar þrengingar sem hún stendur frammi fyrir. Amen.

Annars, flott veður, fínt færi, góður félagsskapur og síðast en ekki síst Kalli sem fær stóra stjörnu í kladdann fyrir að mæta í stuttbuxum.

Kveðja,
Dagur

fimmtudagur, október 02, 2008

Hádegisæfing 2. október


Í dag í tilefni sláturtíðar, var tekin æfing til heiðurs hjartanu að beiðni Huldar. Um var að ræða 6x400m spretti. Hlaupnir voru ca. 2/3 úr "Jónasarhring" og svo mjög rólega 1/3 úr hringnum þar til sprett var úr spori á nýjann leik. Þar sem klúbbmeðlimir hafa látið í ljósi gríðarlega hæfileika í rími, innrími og stuðlun fékk æfing dagsins nafn. Öll þekkjum við frasa eins og "No Whining Wednesday", "Freaky Friday", "Manic Monday" og svo nýlega bættis við tilvísun í dýraríkið - "The Four Arm Octopussy". Haldið var áfram með dýraþemað að þessu sinni og var æfing dagsins kölluð "The Horrible House-fly". Af hverju? Jú húsflugur (reyndar eins og flestar aðrar flugur) eru með 6 lappir en ekkert svo langar. Snilld!
Undirritaður leggur samt hér með til eftir æfingu dagsins, að við förum að keppa í "hjartasprettum". En þeir fara þannig fram að mældur er hjartsláttur keppenda strax eftir svona spretti, og sá vinnur sem er með flest slög á mínútu. Undirritaður telur sigurmöguleika sína allnokkra og þónokkuð mikið betri heldur en í þessum hefðbundnu hlaupum klúbbsins. Annars, snilldar æfing í góðu veðri.
Mættir voru, Hössi Heljarmenni, Dagur Drullufljóti, Óli Ofurmenni, Huld Hjartgóða (ath. snilldina hér, tvöföld merking :-), Sveinbjörn Sjúkraliði, Sjávarútvegsfræðingurinn Sí-þreytti, og síðast en ekki síst, formaður vor Hafdís......ég meina Anna Dís, það er svo langt síðan síðast.... :-)
Ég biðst innilega sáð... ég meina forláts á undirskriftarleysinu og kvitta hér með fyrir.
"Bjútíð"

miðvikudagur, október 01, 2008

No Whining Wednesday 1.október

Mættir á vælulausa daginn: Kalli, Bjöggi, Oddgeir, Dagur, Huld og Sigrún. Einnig sást til Jóa á hraðsiglingu umhverfis flugvöllinn. Orð dagsins þurfa að koma hér fram. Spurt var: "Ertu vangefinn?". Svar:"Nei, ég elska að láta vindinn leika um loðna leggina". Þetta þarfnast ekki frekari skýringa enda búið að setja lögbann á allan fréttaflutning af æfingum.
Hituðum upp í sláandi roki og fórum svo í 2 hollum á Hofs og Grana/Kapla í tempóhlaup að kafara. Ekki heyrðist hósti né stuna á leiðinni, enda rokið slíkt að vælukjóarnir heyrðu ekki einu sinni í sjálfum sér. Allir hrákar fóru einnig beint í andlit þeirra sem hræktu. Á Ægisíðu var þó fallegt gluggaveður og nutu félagsmenn þess að feykjast í átt að kafaranum. Einn félagsmaður var þó sýnu þrekaðri þegar þangað kom en skal það ósagt hver þar á í hlut.
Það er sérstök ábending til félagsmanna að þeir reyni að verða sér út um viðeigandi klæðnað fyrir veturinn, segl og þvengbuxur eiga engan veginn við þegar um er að ræða metnaðarfullt uppbyggingarstarf keppnisíþróttamanna sem eiga að bera merki IAC á lofti í hlaupakeppnum. Hvað þá knattstuttbuxur og hálferma treyjur. Vonast er eftir breytingu til batnaðar í þessum efnum.

Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, september 30, 2008

Hádegisæfing - 30. september

Þrot Glitnis hafði áhrif á mætinguna í dag enda flestir meðlimir klúbbsins eflaust með miklar innistæður í bankanum og sömuleiðis mikið bundið í hlutabréfum.

Að minnsta kosti getur það ekki hafa verið loforð um brekkuæfingu sem fældi menn frá.

Mæting : Dagur og Ólafur, hótel Baldur á eigin vegum.

Loforð um brekkuæfingu stóðst. Tókum 'The Four Arm Octopussy'. Fjórar langar brekkur upp Öskjuhlíðina, frá suðurenda kirkjugarðs, stokkurinn, malbik að sunnanverðu og að lokum skógarstígurinn. Allir alla leið upp. Samtals 8,5k.

Kveðja, Dagur

mánudagur, september 29, 2008

Hádegisæfing 29. september

Í undurfögru veðri dagsins mættu: Sveinbjörn (á eigin vegum), Joe Boxer og Elísabet ásamt þeim Degi, Hössa, Óla, Bjögga, Kalla, Jóni Gnarr-i, Oddgeiri, Huld og Sigrúnu. Hefðbundinn mánudagur var í mannskapnum, þó sýnu meiri hjá hraðlestinni en öðrum. Þrjár leiðir voru í boði; Suður (Bjútí og Kalli), Hofs (Huld, Gnarr, Sigrún og Odd), Granaskjól-long (Óli, Hössi, Day). Meiningin var að taka tempókafla frá horninu á þessum þremur leiðum og gerðu menn það, samviskusamlega.
Suður ?
Hofs 8,6K
Grani 10,1K

Frábært æfingaveður og áform gerð um brekkur, spretti, no-whining á næstunni, og allt. Félagsmenn eru því hvattir til að mæta eins og samviska þeirra og líkamsburðir leyfa.
Kveðja,
Sigrún

föstudagur, september 26, 2008

Freaky Friday 26. september

Mættum í dag í fallegu veðri: Sigrún Erlends (alias dúkkulísan), Fjölnir (FH-ingur), Sveinbjörn (dælustöð og tilbaka) og Sigrún (járnfrúin). Þjálfari hópsins hjólaði framhjá í startinu og gaf handleiðslu.Fórum í sýningarferð um miðbæinn með viðkomu á nokkrum áherslupunktum sem og gegnumhlaupi um Ráðhúsið. Algert logn og uppstytta var á leiðinni og ferskleiki sveif yfir vötnum. Söknuðum félaga okkar og er það ámælisvert ef menn setja fyrir sig veðrabreytingar ef ná á árangri í íþróttum. M.ö.o. úrkoma í grennd, er ekki góð afsökun hjá FI SKOKKhópnum.
Alls 8K
Kv. Sigrún
Minni á Hjartadagshlaupið á sunnudag.

fimmtudagur, september 25, 2008

Hádegisæfing 25. september

Það var fríður sýningarflokkur sem bar merki IAC á lofti og fór í útsýnis og kynningarrúnt í bæinn í dag. Þetta voru, að sjálfsögðu, Huld, Kalli, Dagur, Bjöggi (the beautiful one) og Sigrún. Wolfman Joe var á eigin vegum. Veður var hið fegursta, og vinir vindsins brostu mót sólu, systur sinni, með gleði í hjarta. Gott áhorf var á leiðinni og var samdóma álit vegfarenda að þarna færi þéttur (ekki í merkingunni feitur) flokkur, sem léti ekki kappið bera fegurðina ofurliði. (sbr. orð sr. Friðriks)
Alls 8K
Kveðja,
Sigrún

Munið þið eftir þessu?

miðvikudagur, september 24, 2008

Hádegisæfing 24. september No Whining Wednesday

A Thought To Inspire
We go from whining infant to waddling toddler to gold-medal sprinter partly by nature, but mostly by will and determination and intelligence. - Alan Steinberg

Mættir í dag: Cargo bros. Fjölnir og Sigurgeir, Bryndís, Jón Gunnar, Oddgeir, Dagur og Sigrún. Jói sást á eigin vegum í restina. Fórum vestur í bæ, rólegt til að byrja með og síðan voru 3 leiðir í boði: Suður, Hofs og Kapla. Bryndís fór Suður (þurfti að mæta á fund), Fjölnir, Sigurgeir, Jón Gunnar og Sigrún fóru Hofs og Dagur og Oddgeir fóru Kaplaskjólið. Meiningin var að taka tempó frá því er leiðir skildu og út að kafara. Skemmst er frá því að segja að á þeim kafla bættist í hópinn einn liðsmaður, Kári Illugason, og skemmdi hann aðeins fyrir bæði hraða og stíl nokkurra hlaupara. Ýmist henti hann okkur afturábak, út á hlið eða lét okkur ekki eftir fría braut. Þó var sem hann næði ekki að fipa þjálfarann, sem kom og át uppi smælingjana jafnt og þétt. Síðan er að kafara kom hélt Kári sína leið en við hin héldum heim á hótel í hellidembu.

Alls 8,6/9,5K
Veit ekki lengd Suðurgötu

Bestu kv.
Sigrún

þriðjudagur, september 23, 2008

Esjuganga 4. október

Gönguferð á Esjuna - Skráning í flýtileiðum "Esjuganga" - Hiking trip - mountain Esja
Boðið er upp á fríar rútuferðir, en lagt verður af stað frá aðalskrifstofum Icelandair Group á Reykjavíkurflugvelli kl. 10:30. Áhugasamir skrái þátttöku sína í gegnum flýtileiðir (quiklinks) Esjuganga á mywork vef Icelandair. Allir velkomnir.
Munið að hafa með ykkur nesti og að klæða sig eftir veðri.
Stjórn IAC

Hádegisæfing 23. september

Það var enginn svikinn af æfingu dagsins í dag. Á eigin vegum voru Laufey og Ingunn, fulltrúar Cargo-bros en mættir í útrýmingarbúðirnar voru: Dagur, Oddgeir, Kalli, Bjöggi, Bryndís og Sigrún. Skokkuðum inn í skóginn og hituðum aðeins upp. Skipun dagsins var að hlaupa bláa stíg (nú skreyttur bleikum slaufum) "på skiftevis", eins og baunastöppurnar segja. Skiptumst á að leiða stíginn (ca. 800m) og röðin var; Sigrún, Bryndís, Bjöggi, Oddgeir, Kalli og Dagur sem öll settu sitt persónulega mark á hringina. Í síðasta hring komu þær Cargo-systur og hlupu með okkur síðasta hringinn, sem síðan endaði á æfingasvæðinu inni í skógi, þar sem lok gereyðingarinnar fóru fram með 2x10 armbeygjum og 2x20 fótlyftum. Þeir sem eftir stóðu þá (allir) fóru fetið heim á hótel, ýmist með mold, hor eða köngla hangandi á sér. Semsé "operation normal".
Æfingin var einhver sú mest hressandi sem aðalritari hefur tekið þátt í og gefur fögur fyrirheit um gott framhald.
Alls um 6K (Garmurinn datt samt út lengst inni í regnskóginum)
Kveðja,
Sigrún

Hlaupaskór

Newton Running
Fyrir skófíkla og aðra áhugasama.
Kv. Sigrún

mánudagur, september 22, 2008

Hádegisæfing 22. september

"Það er ekki nóg að hlaupa langt, þú þarft líka að geta hlaupið hratt" voru orð Dagsins í dag, í bókstaflegri merkingu. Á mánudögum sýna FI SKOKK meðlimir og áhangendur fína mætingu og í dag mættu: Jói, Sveinbjörn, Sigurborg og Ágústa á eigin vegum. Á annarra vegum: Bjöggi, Guðni, Dagur, Óli, Kalli, Jón Gunnar, Huld, Hössi, Fjölnir, Sigrún. Tveir mættu of seint, annar hljóp okkur uppi, hinn kom úr óvæntri átt. Boðið var upp á 3 leiðir: Suður, Hofs eða Kapla. Athygli vakti að enginn valdi fyrsta kost, enda naglar á ferð. Slumma fór Hofs en "hardcorið"fór Kapla. Það þarf ekki að taka fram hverjir það voru, og þó. Það var náttúrulega hjólatríóið; Óli, Dagur og Hössi sem spændi alla leið. Restin fór Hofs.
Í restina var tekinn einn sprettur í gegnum skóginn og voru menn mistilbúnir í hann.
Hryssing veður var á leiðinni og greinilegt að margir í hópnum eru ekki tilbúnir að gefa yl sumars alveg strax upp á bátinn og klæddu sig efnislitlum pjötlum, skjóllitlum. Aðrir, skynsamari, klæddu sig eftir veðri eins og kennt var í barnaskóla. Þótt mæting væri til fyrirmyndar í dag er ekki nóg að byrja hverja viku á fögrum fyrirheitum, nauðsynlegt er mæta vel alltaf, til að lenda ekki í kjölsoginu. Þeir taka til sín sem eiga.
Hofs 8,6K
Kapla 9,6K

Kveðja,
Sigrún

föstudagur, september 19, 2008

Hádegisæfing 19. sept

Mættir: Dagur, Óli (í síðbrók og ullarhúfu), Kalli, Huld, Fjölnir, Sigurborg og Ágústa. Einnig sást til Jóa hér og þar.
Skelltum okkur í bæjarferð og þjálfarinn lagði þunga áherslu á að við héldum hópinn. Byrjað var á að hlaupa Hringbraut og niður að ráðherrabústað við Tjörnina. Þegar þangað var komið spretti þjálfarinn út um allar trissur að smala saman eftirleguhlaupurum og öðrum sem komnir voru með heimþrá. Eins og honum einum er lagið náði hann að stappa stálinu í mannskapinn og hópurinn hljóp nú allur saman hnarrreistur kringum Tjörnina. Þegar hér var komið við sögu blés hressilega á móti úr suðri og því leitaði hjörðin skjóls á heimleiðinni. Farið var eftir Fjólugötu/Sóleyjargötu og Smáragötu í skjóli hárra trjáa. Þarna fengum við líka sögulegt inngrip frá Óla en hann sleit barnsskónum (fyrstu hlaupaskónum) á þessum slóðum. Hjá kapellu séra Friðriks fór svo mönnum að hlaupa kapp í kinn, tempóið aukið og svo fór að meirihluti hópsins tók brekkuna, sem nú er kennd við Jón Gunnar "Hnakka", upp að Perlu, niður í skóginn og bláa stíginn heim á HLL. Höfðu menn á orði að Kalli væri endanlega kominn í úrvalsdeildina og hlaup út að rafmagnskassa og dæluhlaup heyrðu nú sögunni til.
Samtals 8,0 km
Góða helgi, Fjölnir

fimmtudagur, september 18, 2008

Hádegisæfing 18. september

Í rokinu í dag mættu: Óli (fór sér vegna kvefs), Guðni, Sigrún og Jói, sem var á eigin hring. Jói furðaði sig á því hvort enginn nennti lengur að mæta og leitaði okkar ákaft. Við erum hinsvegar svo séð að við fórum í kirkjugarðsbúgí, vegna roks. Þar hlupum við Guðni, nánast í makindum, og ræddum íþróttir, bókmenntir og fleira merkilegt. Þræddum stíga, brekkur og flatlendi og fórum yfir málefnin. Komumst að því að margar bækur eru góðar, aðrar verri. Þó er ein bók sem aðalritara láðist að nefna en það er bók franska rithöfundarins/flugmannsins Antoine de Saint Exupéry Le Petit Prince (Litli prinsinn), en hún er sú bók sem hefur mannbætandi áhrif. Það hafði einnig æfingin í dag sem endaði í 8K

Kveðja,
Sigrún

Ath. Ef einhver vill meiri mannbætingu smellið þá hér og lesið um litlu leyndarmálin

Meistaramót Íslands í 5000m kv. og 10000m ka.

Meistaramót Íslands í 5000 m hlaupi kvenna og 10.000 m hlaupi karla fer fram mánudaginn 22. september. Mótið fer fram á Laugardalsvelli og tímaseðillinn er sá sami. Þátttökugjald er 1.250 kr. Fyrirspurnir er hægt að senda á frjalsar@armenningar.is .
Smellið hér fyrir tímaseðil (á tenglinum MÍ 5000/10000)
Kveðja,Frjálsíþróttadeild Ármanns.

Íslandsmeistaramót USÚ á Höfn um helgina (20/9)

Smellið hér
IAC

miðvikudagur, september 17, 2008

WARR 2008 - Myndir

Komin í mark. Á myndinni eru frá vinstri: Úlfar Hinriksson eiginmaður Bryndísar, Jens Bjarnason ITS, Jón Mímir Einvarðsson Jet-X (áður starfsmaður flugrekstrarsviðs Icelandair) og Bryndís Magnúsdóttir þjónustudeild. Sérstök athygli er vakin á nýtískulegum bol sem Mímir klæðist. Bolurinn mun hafa verið hannaður hjá Tískuhúsi Jóa Úlfars.

Bryndís tekur við fyrstu verðlaunum í sínum flokki eftir frábæran árangur í 10k hlaupinu. Við hin klöppuðum ákaft full af stolti. Bryndís, eins og reyndar við öll, átti mjög gott hlaup.

Sátum til borðs í gala dinnernum með hlaupurum frá South African Airways. Við héldum lengi vel að unga stúlkan við hliðina á Mími væri dóttir eins úr liðinu. Síðla kvölds kom í ljós að hún var búin að vinna hjá flugfélaginu í meira en áratug.

þriðjudagur, september 16, 2008

Árshátíð/aðalfundur 15. nóvember

Ágætu félagar.
Árshátíð/aðalfundur skokkklúbbsins verður þann 15. nóvember nk. Takið daginn frá. Nánar auglýst síðar.
Stjórn IAC

mánudagur, september 15, 2008

Hádegisæfing 15. september

Haustæfingar FI SKOKK fara af stað með miklum krafti og frábærri mætingu. Í fallegu (úrkoma í grennd) veðri í dag mættu: Dagur (man in tights, yeah!), Hössi (prúði), Guðni (notorious), Jón Gunnar (hnakki), Sigurgeir (the secret target man), Bjöggi (Thinner (sbr. Stephen King)), Fjölnir (The awakening), Óli (batman), Baldur (newcomer), Huld (ennþá drottning), Sigrún (dress like Huld but that does not cover it), og á eigin vegum Ágústa, Sigurborg, Elísabet, Hrafnhildur, Ingunn og Jói (boxer). Farinn var hinn hefðbundni Hofsvallagötuhringur utan bjútís og aðalritara, þau þurftu að "de-briefa" eftir RM, enda hafa þau ekki getað borið saman bækur sínar síðan. Restin fór Hofs og einnig tók sokkabuxnamaðurinn sig til og fór í enda æfingar með hnakkann í smá yfirhalningu í skógi. Verður ekki farið nánar í um hvað sú athöfn snerist en furðu vakti að hnakkinn kom í sokkabuxunum til byggða, en þjálfarinn í stuttbuxum.
Fín æfing og eru menn og konur hvattir til áframhaldandi ástundunar, enda líður að gleðskap, þegar nóvember er hálfnaður er árshátíð klúbbsins ráðgerð.

Kveðja,
Sigrún
Hofs 8,6K
Suður 7,5K

sunnudagur, september 14, 2008

Þríþraut Árbæjarþreks

Einn vaskur félagi, Dagur Egonsson, keppti í ágústlok í þríþraut og eru síðbúin úrslit hér:
IAC

föstudagur, september 12, 2008

Warr 2008 Unofficial Results 10K

Smellið hér:
IAC

Freaky Friday 12. september

Góð mæting í dag: Á eigin vegum vóru: Ársæll (já fínt, já sæll), Óli (drjóli, alltaf á hjóli), Jói (spói, gamli Nói) og e.t.v. fleiri, sá það ekki nógu vel. Á sýningu vóru: Dagur (vonar ennþá), Guðni (untouchable), Sigurgeir (virtual reality), Fjölnir (traildog), Jón Gunnar (hérinn úr "Sigurgeir í Undralandi") og Sigrún (fulltrúi minnihlutans). Farin var sýningarferð um hlíðar, Nóatún, "Wall Street", Sæbraut, downtown, Fischersund, yfir Miklatún og sem leið lá heim á hótel. Súld var á leiðinni og þótti mönnum það vel. Sumir stefna á Powerade, aðrir á haustmaraþon FM en þó nokkrir eru stefnulaus reköld. Sérstaka athygli vakti að þjálfarinn vildi ekki hlaupa samsíða drengjunum í hópnum inn Austurstræti, heldur hægði á sér til samlætis aðalritara, í von um frægð. Þetta bendir til ótta um hnignandi áhorf en aðalritarinn getur staðfest að viðkomandi nýtur enn aðdáunar, bæði samferðamanna sem og þeirra sem verða á vegi hópsins. Hinsvegar er það ljóst að með nýjum félaga sem ekkert þarf að æfa, hafa aðrir ónefndir félagar hópsins eignast í það minnsta verðugan keppinaut, ef ekki ofjarl.

Alls 7,9K@41.30

Helgarstuðkveðja,
Sigrún

miðvikudagur, september 10, 2008

No whining Wednesday 10. september

Mæting: Sigurgeir, Jónsi, Guðni, Dagur, Óli, Bjöggi, Huld, Bryndís, Jói, Elísabet og Hössi.
Elísabet og Jói fóru sínar leiðir. Restin fór í eltingaleik þar sem mátti velja Suðurgötuna, Hofsvallagötu eða Kaplaskjólið. Farið var allar leiðir og til að gera langa sögu stutta þá náði engin neinum, allir stóðust álagi nema kannski einn en hann verður ekki nefndur á nafn hér. Æfingin í dag var mikið tempó en samt ekkert til að væla yfir enda bannað á miðvikudögum ;o)

Kv. Sigurgeir

þriðjudagur, september 09, 2008

Hádegisæfing 9. september

Mæting: Guðni, Dagur, Sigurgeir, Ágúst, Kalli, Ingunn, Jói og Hössi.
Kalli fór að dælustöð og til baka. Ekki er vitað nákvæmlega hvert Jói og Ingunn fóru.
Restin fór öfugan Hofsvallahring. Dagur mætti of seint og fór hópurinn á undan honum og hann ætlaði að ná okkur, nema að það gleymdist að taka fram við hann að við færum "öfugan" hring. Við mættum þjálfaranum nánast á miðjunni þar sem hann snéri við og kláraði með okkur. Fín æfing á sæmilegu tempó, 42:20 min.

Kv. Sigurgeir

mánudagur, september 08, 2008

Hádegisæfing 8. september (val-æfing)

Mæting: Sigurgeir, Dagur, Guðni, Fjölnir, Óli, Bjöggi, Sveinbjörn og Elísabet.
Sveinbjörn fór sínar eigin leiðir og Elísabet líka, veit samt ekki hvort þau fóru saman. Restin helt af stað í gegnum skóginn í átt að kirkjugarðinum. Þegar komið var í kirkjugarðinn var upphitun lokið skv. þjálfaranum. Við tók val, þ.e. hver og einn réði hraðanum í ákv. tíma eða vegalengd. Teknir voru mislangir og hraðir sprettir í garðinum. Þegar allir voru búnir, bæði að velja sprett og búnir á því, þá kom umferð 2! Þá færðum við okkur í skóginn og heldum áfram með spretti ásamt því að menn bættu við "twist" í sprettina eins og t.d. hnélyftur, armbeygjur, magaæfingar o.fl.

Moment dagsins: Bjöggi spretti af stað upp brekkur eftir 20 armbeygjur og þegar hann áttaði sig á því að það átti ekki að spretta þá varð hann bara fúll. Ath. að þetta var 11. sprettur dagsins, átti greinilega nóg eftir ;o)

Total 8 km í dag.

Kv. Sigurgeir

laugardagur, september 06, 2008

WARR 2008

Sl. miðvikudag héldum við fjögur áleiðis til Ottawa í Kanada til að hlaupa í World Airline Road Race götuhlaupinu en þetta mun vera í fyrsta skipti sem okkar fulltrúar mæta þar til leiks. Í hópnum voru: Bryndís Magnúsdóttir og Úlfar Hinriksson eiginmaður hennar, Jens Bjarnason og Jón Mímir Einvarðsson sem nú starfar hjá Primera Air (Jet-X) og keppti undir þeirra nafni. Ekki gekk ferðalagið áfallalaust. Einn úr hópnum þáði fullmikið af veitingum í fljótandi formi á leiðinni út og varð viðskila við hópinn í flugstöðinni í Toronto. Viðkomandi missti af framhaldsflugi til Ottawa en mun hafa skemmst sér prýðilega um kvöldið með hópi íslenskra leikara sem voru í vélinni til Toronto á leið á kvikmyndahátíð í borginni.

Á fimmtudaginn og föstudaginn var ýmislegt í gangi fyrir hlaupara, m.a. heimsókn til borgarstjóra Ottawa (reyndar var ekki öllum boðið) og merkilegt fyrirbæri sem kallast "T-shirt Swapping Party" þar sem við kunnum reyndar ekki leikreglurnar og urðum svolítið utan gátta, maður bætir það bara upp næst.

Í morgun var svo hlaupið sjálft. Boðið var upp á bæði 5k og 10k og hlupum við öll 10k. Brautin var marflöt fram-og-til-baka braut eftir bökkum Rideau árinnar. Veðurskilyrði voru líka mjög góð, hægur vindur, hlýtt (15C) og regnúði. Allir úr hópnum voru mjög sáttir við sína tíma og bættu Bryndís, Jens og Mímir öll sína tíma frá því í RM. Ekki er búið að birta tímana en okkur telst til að Jens hafi hlaupið á 46+, Bryndís á 47+, Úlfar á 48+ og Mímir á 54+. Nákvæmir tímar verða settir hér inn á síðuna þegar þeir verða birtir, ásamt myndum úr ferðinni. Í kvöld verður svo gala dinner og skv. venju við aðstæður sem þessar munum við ferðafélagarnir hittast og skála á undan. Heimferð verður seinni partinn á morgun og er hópurinn væntanlegur til Keflavíkur frá Toronto á mánudagsmorguninn (ef þið skilduð vilja vakna og taka á móti okkur). Vonandi náum við að halda betur hópinn á heimleiðinni.


Þetta er búin að vera frábær ferðin, borgin falleg og skemmtileg og við erum búin að hitta mikið af gömlum kunningjum úr ASCA. Þetta er margfalt fjölmennari atburður en ASCA Cross Country og er yfirbragðið líka allt annað. Skipuleg dagskrá nær yfir fimm daga og má því segja að WARR sé nærri því að vera vikuferð ef vel á að vera, en ekki helgarferð eins og við erum vön úr ASCA.

Bestu kveðjur frá Ottawa,

Bryndís, Jens, Mímir og Úlfar.

föstudagur, september 05, 2008

WARR 6.sept. í Ottawa-okkar fólk

Þann 6. september munu keppa fyrir okkar hönd þau Bryndís Magnúsdóttir og Jens Bjarnason ásamt Úlfari og Jóni Mími í WARR í Ottawa í Kanada. Óskum þeim góðs gengis og birtum tíma og úrslit um leið og hægt er.
Kv. IAC

fimmtudagur, september 04, 2008

Hádegisæfing 4. september

Það var ansi hár "babe"-stuðull á æfingu dagsins en þar voru samankomnar: Huld, Sigrún (nafnan) og Sigrún. Æfingin átti að vera auðveld og var því farinn flugvallarhringur á ágætum hraða í yndislegu veðri. Söknuðum strákanna ekki neitt, enda nóg umræðuefni í boði sem hefði vel geta dugað í heilt maraþon. Vorum þó alveg á því að strákarnir hefðu misst af góðum bita á þessari æfingu, kannski ekki mjög feitum en góðum.
Alls 7,1K@4.59

Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, september 03, 2008

Hlaup á döfinni

Nokkur hlaup fara fram 6. september, m.a.:

Brúarhlaup Selfossi

Kötluhlaup-Vík Mýrdal

Reykjanesmaraþon

Nú er bara að hamra járnið á meðan það er heitt!
Kv.
IAC

þriðjudagur, september 02, 2008

Sigur í þríþraut

Það fer nú ekki hátt, en Dagur vann Árbæjarþríþrautina sem fór fram um síðustu helgi. Einn bikar í hús þar. Meðal keppanda voru verðandi járnkarlar.

mánudagur, september 01, 2008

Öldungamót USÚ 20. september

Kem hér eftirfarandi upplýsingum á framfæri samkvæmt beiðni:

Öldungamót í frjálsum íþróttum fer fram 20. september nk. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar og skráning á síðunni www.iformi.is
Keppt verður í tveimur aldurflokkum í frjálsum 30 – 44 ára 45 +. Þær greinar sem keppt eru í eru hlaup 100m, 800m, 3000m, langstökk, kúluvarp, spjótkast og kringlukast í kvenna og 100m, 1500m, 5000m, langstökk, kúluvarp, spjótkast og kringlukast í karla.

Bestu kveðjur,
IAC

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Hádegi 28. ágúst 2008

Eftir að hafa tekið 4k tempó í gær var farið í brúarhlaup í dag. 3 brýr og ein undirgöng, nánar tiltekið. Sumum fanst hratt farið, en þeir hinir sömu eru líklega enn þreyttir eftir helgina. Þjálfarinn sagði amk að þetta væri hægt. Samtals 9,7

Mættir voru harðkjarnahálfmaraþonhlaupararinir Huld, Hössi, Óli og Guðni og svo Dagur.

GI

mánudagur, ágúst 25, 2008

Hádegisæfing 25. ágúst

Í dag voru mættir: Guðni, Dagur, 'Oli, Jens, Oddgeir, Bryndís og Sigrún. Einnig sást til Ingunnar í baðklefa og hafði hún verið á æfingu.
Fórum öfuga Hofsvallagötu og þótti aðalritara nokkuð rösklega farið miðað við allt. Þjálfarinn var á öðru máli og sagði að nú tækju við ný markmið og tempóið keyrt upp á ný. Allright! Menn eru náttúrulega ekkert þreyttir eftir að hafa sett sér hjárænuleg markmið sem enginn vandi var að ná. Það er augljóst. Annars var veður heldur hryssingslegt þótt hlýtt væri. Gerð var hávísindaleg könnun á æfingunni varðandi orkugel og má lesa nánar um hana hér.


Alls 8,6K

Kv. Sigrún

Reykjavíkurmaraþon - Góð þátttaka




Í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina var góð þátttaka og lágu skokkklúbbsmeðlimir ekki á liði sínu í þeim efnum. Nokkrir voru að taka þátt í fyrsta sinn en aðrir hafa keppt ár eftir ár. Veður var milt og gott með smá golu á köflum sem skóp nánast kjöraðstæður fyrir hlauparana. Hér getur að líta nokkra af tímum þátttakenda:

(Fyrri tími er byssutími en seinni er flögutími)
Maraþon 42,2 km

46 3:21:40 ( / /3:21:20) Klemens Sæmundsson

170 3:55:47 ( / /3:55:27) Árni Már Sturluson

171 3:55:50 ( / /3:54:04) Arnar Benjamín Ingólfsson


Hálft maraþon 21,1 km
43 1:31:09 (1:31:03) Baldur Úlfar Haraldsson
45 1:31:24 (1:31:13) Guðni Ingólfsson
92 1:36:16 (1:36:05) Huld Konráðsdóttir
134 1:38:51 (1:38:07) Ólafur Briem
246 1:48:05 (1:46:29) Tómas Ingason
326 1:49:22 (1:48:47) Sigrún Birna Norðfjörð
372 1:51:07 (1:50:38) Björgvin Harri Bjarnason

10 km
26 39:42 ( 39:36) Dagur Björn Egonsson
73 43:28 ( 43:13) Oddgeir Arnarson
100 44:50 ( 44:28) Sigurgeir Már Halldórsson
281 49:06 ( 48:47) Jens Bjarnason
379 50:31 ( 49:34) Bryndís Magnúsdóttir
108 56:29 ( 55:20) Björg Stefanía Sigurgeirsdóttir
825 57:26 ( 56:33) Ársæll Harðarson
1242 58:48 ( 57:21) Ágústa Valdís Sverrisdóttir
467 1:01:23 ( 58:51) Sigríður Björnsdóttir
487 1:01:38 ( 59:07) Hekla Aðalsteinsdóttir
1950 1:05:39 (1:04:08) Sigurborg Ýr Óladóttir



Margir fleiri hlupu og má endilega koma þeim nöfnum á framfæri við undirritaða.
Sjáumst á æfingu.


Kveðja,
Sigrún
Úrslit í RM

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Hádegisæfing 20. ágúst

Já fínt, já sæll... 3 dagar í þonið og í dag mættu: Ágústa (er að læra nöfnin ennþá), nýr strákur (?), gamall strákur (þýzki djöfullinn sem er danskur), Odd-man, B. Bjútí, Sigurgeir sjaldséði og Sigrún taugabúnt. Farið var á rólegu tempói ca. 5-6K, eftir smekk og bækur bornar saman um hvað væri best að eta og drekka fyrir hlaup. Mismunandi var eftir árgerðum hvað hentar hverjum en meðal tilmæla var:
Borða hollt
Drekka nóg (þó ekki klst. fyrir keppni)
Hvíla sig

Þetta eru klassísku ráðin. Hinsvegar er það ljóst að þó svo að menn séu bræður á æfingu er enginn annars bróðir í leik og viðbúið að eftir laugardaginn líti dagsins ljós a.m.k. einn nýr yfirstrumpur en spyrjum þó að leikslokum með það.

Yfir og út.
Sigrún

P.S. Bjöggi-hættu að hvíla þína tösku.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Hádegisæfing 19. ágúst

Mæting: Guðni, Oddgeir, Sigurgeir, Óli, Anna Dís, Bryndís, Björgvin, Kalli og Sveinbjörn. Vona að ég sé ekki að gleyma neinum. Kalli og Sveinbjörn fór á "séræfingu" á meðan aðrir fóru Suðurgötuna rólega. Mikið var rætt um hvaða markmið allir eru með fyrir Rvk. maraþon og voru allir sammála um að gera sitt allra besta og aðeins betur en það ;o)

Kv. Sigurgeir

Upplýsingar vegna Reykjavíkurmaraþons


Vinsamlegast nálgist keppnisgögn vegna þátttöku í Reykjavíkurmaraþoni í Laugadalshöllinni föstudaginn 22. ágúst milli níu árdegis og níu um kvöldið. Þátttökugögn innihalda meðal annars þátttökunúmer, flögu í skóginn og bol, ásamt boði í pastaveislu á vegum Barilla. Pastapartýið stendur frá 16.00-21.00 og til að fá aðgang þarf að framvísa keppnisnúmeri. Á keppnisdag bíður ÍTR öllum þátttakendum í sund í sundlaugum Reykjavíkur sem og daginn eftir. Aðgöngumiði í sund fylgir keppnisgögnum.
Þökk fyrir þátttökuna og gangi ykkur vel !

mánudagur, ágúst 18, 2008

Hádegisæfing


Mættir í dag á síðustu gæðaæfingu fyrir RM (þeir sem þorðu): Höskuldur, Guðni, Dagur, Bjútíið, Oddgeir, Óli og Sigrún. Óljóst var í upphafi hvað ætti að gera og ólíkt þjálfara hópsins að leita álits félagsmanna en það stafar eflaust af því að Sigurgeir nokkur Már hafði Ólympíuhlaup í hyggju en var svo hvergi nærri þegar hlaupa átti. Var því ákveðið að hita upp eftir ströndinni í vestur og taka 4*400m spretti þar sem síðasti yrði á "all-out" tempói. Gekk þetta eftir og voru sumir frekar hraðir. Síðan var tekið þétt tempó heim að hóteli og gerðar málamyndateygjur. Eftir þessa æfingu er það ljóst að nauðsynlegt er að koma upp sjúkratjaldi við Ægisíðu þar sem er að finna "First Aid Kit" með lágmarksbúnaði, s.s. astmatæki, Ibufen, hulsu, bjór, magabelti og startköplum. Ef slíkur búnaður væri fyrirliggjandi ættu sumir félagsmenn greiðara aðgengi að seinni hluta æfingarinnar og myndu klára "bjútífúllí".


Alls 9,3K

Kv. Sigrún

föstudagur, ágúst 15, 2008

Reykjavíkurmaraþon 23. ágúst-skráning

Ágætu hlauparar.
Senn rennur út skráningarfresturinn fyrir hlaupið. Skráið ykkur tímanlega.
Með kveðju,
stjórn FI-SKOKK

Smelltu hér til að skrá þig:

Freaky Friday

Góð mæting í dag: Dagur, Oddgeir, Bjöggi, Ársæll, Hannes (special appearance), Sigurborg, Sveinbjörn og Sigrún. Stalla Sigurborgar, Ásdís, ætlaði að hlaupa en gerð var krafa um að hún færi buxnalaus sem henni hugnaðist ekki (skil ekkert í því), og féll því hennar þátttaka niður að sinni.
Oddgeir og Dagur fóru Hofsvallagötu á skriði, Sigrún og Bjöggi fóru Suðurgötuna á jöfnu "hjónatempói", Sveinbjörn var í 500m sprettum en restin fór flugvallarhringinn, með smá tvisti. Sérstaka athygli vakti búnaður Sveinbjörns, en hann bar sérstaka"hulsu" á fæti og velta menn því fyrir sér hvort hún sé notuð í vafasömum tilgangi. Einnig er ábending frá þjálfara um að félagar taki sig nú taki og "hristi" vitleysuna úr hausnum á sér fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Hvernig menn gera það er þó þeirra einkamál, aðalatriðið er að losna við innri röddina sem heldur aftur af árangri.
Capice? (Italian for "do you understand"?)

Helgarstuðkveðja,
Sigrún

Málfarshornið


Komið hefur að máli við mig ungur maður, danskættaður dreifbýlingur með fyrirspurn um titil miðvikudagsæfinganna. Ákveðið hefur verið að þær æfingar verði framvegis nefndar "No whining Wednesday" sökum mikils kvarts og kveins í félagsmönnum, en á þeim æfingum er gersamlega tekið fyrir allt slíkt. Aðeins er leyfilegt að mæta, hlýða og framkvæma. Jafnvel brosa, ef svo ber undir. Til að fyrirbyggja misskilning er notuð -ing ending sagnarinnar "to whine" í stað "No whine Wednesday" því í framburði þess síðarnefnda gæti fólk haldið að um væri að ræða "No wine Wednesday", en svo er ekki.

Þakka þeim sem hlýddu, góðar stundir.
Málfarsráðunautur FI-SKOKK



fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Hádegisæfing 14. ágúst

Mæting : Ólafur, Dagur, Sveinbjörn, Laufey og Huld

Lagt af stað í rólegu tempói niður að tjörn. Þar skiptist hópurinn, Sveinbjörn og Laufey tóku nokkra hringi kringum tjörnina á meðan restin fór öfugan bæjarrúnt. Lentum í úrhellisrigningu.
Gaman að fá kvennfólk í hópinn eftir hrútaæfinguna í gær.

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Hádegisæfing 13. ágúst

Mæting: Guðnir, Óli, Dagur, Sigurgeir, Ársæll, Hössi. Einnig sást Andrés á hlaupum, vitu ekki hvert hann fór. Ársæll fór flugvallahringinn með stæl, ætluðum að ná honum en sáum hann aldrei. Restin af hópnum fór Kaplaskjólið, hálf naktir að sjálfsögðu. Í dag tók formlega gildi æfingaform sem verður framvegis á miðvikudögum og það er kallað "No whining Wednesday". Þá ákveður þjálfarinn hvernig æfing verður og það eina sem má spurja er hversu langt og hversu hratt eigum við að hlaupa! Það má ekki heyrast orð eins og erfitt, úff eða í þá áttina. Í dag var boðið upp á tempó-hlaup frá Suðurgötunni í gegnum Kaplaskjólið að kafarahúsinu. Þegar komið var að dælustöðinni áttu allir að gefa allt sem þeir áttu eftir að kafaranum. Niðurstaðan var frábær æfing ;o)

Ég vil benda kvenfólki FISKOKK á að það er að verða síðasti séns að sjá okkur folana hálf nakta á hlaupum áður en sumarblíðan verður á enda, lofa því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum enda allir tanaðir í drasl.

Sigurgeir

Hádegisæfing - 12. ágúst

Mæting : Guðni, Sveinbjörn, Ársæll, Ágústa Valdís, Sigurborg og Dagur

Á dagskránni voru sprettir kringum tjörnina. 3-5 x 1/2 Jónas sem allir kláruðu með glæsibrag og hlutu aðdáunarandvörp gangandi vegfarendi að launum.
Brakandi blíða og léttur andvari. Á morgun miðvikudag "No Whine Wednesday".

Dagur

mánudagur, ágúst 11, 2008

Hádegisæfing 11. ágúst

Mæting: Sigurgeir, Guðni, Björgvin, Sveinbjörn, Kalli, Ársæll, Óli og Dagur. Þegar við vorum að mæta sáum við Bryndísi sem var búin með æfingu dagsins.
Hópurinn skiptist í þrennt: Sveinbjörn, Kalli og Ársæll fóru flugvallahringinn - Sigurgeir, Guðni og Björgvin fóru Hofsvallagötu - Dagur og Óli fóru Kaplaskjólið. Það var brakandi blíða og mátti sjá marga úr hópnum í dag hálf nakta á hlaupum...sex appeal-ið lak af okkur ;o) Á leiðinni varð hópurinn sem fór Hofsvallagötu var við furðulegt par sem faldi sig bakvið vegg á Ægisíðunni, þegar betur var að gáð reyndist þetta vera ritari FISKOKK og eiginmaður hennar! Þau hafa sjálfsagt verið að halda upp á daginn.

Kæri ritari FISKOKK...TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ;o)

Sigurgeir

föstudagur, ágúst 08, 2008

Hádegisæfing 8. ágúst

Mæting: Sigurgeir, Dagur, Björgvin, Sveinbjörn, Óli og Bryndís.
Það er föstudagur og fínt veður = miðbæjarúntur. Sveinbjörn hélt sig við sitt prógram.
Þeir sem hafa mætt á föstudögum í góðu veðri þekkja leiðina og því óþarfi að telja hana upp. Að sjálfsögðu voru Ólympíuleikarnir ræddir og erum við núna formlega hætt að æfa fyrir Ólympíuleikana. Það komu upp hugmyndir um að við myndum reyna við tímana í 10 km daginn eftir að þeir fara fram á Ólympíuleikunum eða hlaupum jafn lengi og besti tíminn verður og sjáum hvað við náum langt, útfærum þetta betur í næstu viku. 10 km kvenna fer fram fös. 15. ágúst og karla sun. 17. ágúst, þannig að það er við hæfi að við tökum okkar hlaup mánudaginn 18. ágúst ;o)
Annars bara nokkuð gott hlaup í dag, ca. 8 km.

Sigurgeir

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Hádegisæfing 6. ágúst

Mæting: Dagur, Bjöggi, Óli, Sigurgeir, Sveinbjörn, Kalli (nýr) og tvær stúlkur sem ég veit ekki hvað heita.
Sveinbjörn fór á séræfingu og stúlkurnar ónefndu fóru að ég held skógræktarhringinn.
Restinn hitaði upp í ca. 2 km í átt að Fossvogsdalnum. Þá tóku við 4 x 800 m sprettir þar sem þjálfarinn fór fram á að allir væru undir 3:45. Það tókst flestum ef ekki öllum að vera undir þessum tíma og gott betur. Sumir voru undir 3:00 og aðrir rétt fyrir ofan. Á heimleið var smá óvæntur glaðningur og var þá ASCA brekkan tekin frá upphafi til enda en ekki hraðar en síðast maður sem var nú samt nokkuð hratt. Að lokum var haldið heim á leið á rólegu tempó.
Atvik dagsins er án efa þegar nýliðinn Kalli fór beint í sturtuna sem er merkt þjálfaranum og engin hefur þorað að nota ekki einu sinni þó þjálfarinn er ekki á æfingu!

Sigurgeir

föstudagur, ágúst 01, 2008

Hádegi 31. júlí 2008

Fimm hlauparar mættir. Ákveðið að skipta frekar eftir aldri heldur en hárlit, þannig að Sveinbjörn og Ársæll (eldri hópurinn) fór sína leið en Björgvin, Óli og Guðni (yngri hópurinn) fór í bæjarferð. Björgvin var útnefndur foringi dagsins (til reynslu).

Glöggir lesendur hafa tekið eftir því að hádegishlaupahópurinn síðustu vikur er meira og minna kvenmannslaus, þrátt fyrir (eða vegna þess að) karlarnir séu alltaf að verða léttklæddari.

Guðni

fimmtudagur, júlí 31, 2008

Fréttir úr hlaupaheiminum eða þannig!


Þetta gat ekki endað öðruvísi. Lance og Kate Hudson eru auðvitað hætt... vissi það, vissi það...
XXX- Aðalritarinn

miðvikudagur, júlí 30, 2008

Hádegi 30. júlí 08

Mætti Ársæll, Björgin, Guðni og Oddgeir.

Ársæll fór hringinn í kringum völlinn en hinir fóru fram og til baka sunnan við flugbrautina þar sem útsýnið þótti betra þar enda 20 stiga hiti og fullt af fólki bæði á stígunum og í Nauthólsvík.

Guðni

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Hádegisæfing 29. júlí 2008

Mikil lifandis haminga er að vera til. Guðni brást mjög snögglega við vælinu í mér síðan í gær og mætti á æfingu í dag. Einnig var mættur nýr fýr frá Hótelunum sem hlýðir nafninu Birgir Daníel.
Hann fór reyndar ekki með okkur Guðna Hofsvallagötuna (rétta í þetta skiptið), en tjáði okkur að mikill hugur væri í sér og hann fór stuttan flugvallarhring (Icelandair hlaupið).
Guðni var svo tjúnnaður eftir skróp gærdagsins að hann stakk upp á löngum spretti.......þ.e. að segja að hlaupa Hofsvalla-helvítið í spretti, eða svo gott sem. Hitastig dagsins minnti um margt á fræga Parísaferð undirritaðs þar sem aldraðar konur "snýttu" Bjútíinu í stigahlaupum. Þegar á ca. miðja Hofsvallagötuna var komið tjáði ég Guðna að ef hann ætlaði hraðar þá skyldi hann bara gera það því Bjútíið var gjörsamlega á innsoginu....(not so bjútí). Guðni hvarf við þau orð bara í reyk og hljóp uppi 3 hunda sem voru að reyna með sér á Ægissíðunni. Þegar undirritaður kom í lognmolluna og hitann á Ægissíðunni var ekki hjá því komist að rífa sig úr að ofan ef forðast ætti yfirlið. Fregnir herma hinsvegar að húsmæður í vesturbænum hafi fallið í yfirlið við uppátækið.
Tími undirritaðs var ekki upp á marga fiska enda farið all svaðalega geyst af stað með Guðna svoleiðis tjúnnaðann að sérútbúinn torfærubíll hefði dauðskammast sín.
Tími frá Loftleiðum að Þjóðminjasafni var svo lár að ákveðið hefur verið að birta það ekki af virðingu við aðra skokkklúbbsfélaga.

Í guðs friði.
Bjútíið

mánudagur, júlí 28, 2008

Hádegisæfing 28. júlí

HVAR ERU ALLIR?
Þetta var 5 æfingin af síðustu 8 sem ég er EINN!
Annað hvort er ég svona leiðinlegur að æfingatíma hefur verið breytt og gleymst að láta mig vita, eða þá að allir eru í fríi. Ég kýs að trúa hinu seinna þar til annað kemur í ljós.
Anyway, þar sem "Bjútí" nafni hefur verið klínt á mig þá hljóp ég náttúrulega "öfuga" Hofsvallagötu (fyrst út í Nauthól og heim framhjá Valsheimilinu). Þetta skeiðaði ég í helv....rokinu á 41:28, eða 4:49 í tempó. Var bara ánægður með það eftir ólifnað helgarinnar.
Ég hafði nógann tíma til að hugsa á leiðinni því að ég hafði engann til að TALA VIÐ.
Þá kom þetta.

Einn ég skeiðaði einmana og sár,
með örsmáa áverk' á hjarta.
Í mótvindi einstaka myndaðis tár,
ég magnvana verð bar' að kvarta.

Sign.
"Bjútíið"

föstudagur, júlí 25, 2008

Hádegi 24. júlí 08

Mættir: Ársæll, Bryndís, Guðni og Thelma.

Skiptist í 3 áttir. Ársæll skoðaði skemmtiferðaskipið við höfnina og lífið í miðbænum, Thelma Nauthólsvíkina og nágrenni og Bryndís og Guðni fóru aðeins stærri miðbæjarhring með viðkomu á Lindargötu, Veghúsastíg, Arnarhóli og Fjólugötu, m.m.

GI

miðvikudagur, júlí 23, 2008

Hádegi 23. júlí 08

Björgvin, Oddgeir og Guðni fóru í mjög vísindalega stígaskoðun í vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Reynt var að fara sem flesta stíga, bæði þá sem hafa verið hlaupnir áður sem og nýja. Menn þurftu að passa sig á rótum trjáa og steinum sem stóðu upp úr og tókst það áfallalaust. Ca. 8K

Guðni

þriðjudagur, júlí 22, 2008

Hádegisæfing 22. júlí

Mætt í dag eftir fjarveru ásamt Guðna og Bjögga. Fórum frá hóteli og tókum Hofsvallagötuna í sudda rigningu. Hirtum Huld upp á leiðinni en hún hafði gefið upp alla von um að einhverjir stundi æfingar enn í höfuðstöðvunum. Ræddum aðeins að þeir tveir meðlimir skokkklúbbsins sem væru að keppa stæðu sig vel og það er auðvitað rétt. Við hin eru óttalegir aumingjar í samanburðinum! Rætist vonandi úr því. Alls 8,7K
Kv. Sigrún

P.S. Guðni er ekkert rosalega úr sér genginn eftir Ameríkudvölina, mesta furða bara!

mánudagur, júlí 14, 2008

Reykjavíkurmaraþon

Hlauptu fyrir Vildarbörn - Run for Special Children

Icelandair er samstarfsaðili og einn af megin styrktaraðilum Reykjavíkur Maraþonsins sem í ár er haldið í 25 skipti laugardaginn 23. ágúst.

Við viljum hvetja alla starfsmenn til þess að taka þátt í hlaupinu og styrkja í leiðinni gott málefni. Icelandair Group hefur ákveðið að heita á alla þá starfsmenn sem taka þátt í hlaupinu með því að leggja fé til Vildarbarna. Vildarbörn er sjóður sem hefur það að markmiði að gefa langveikum börnum og börnum sem búa við sérstakar aðstæður hér á Íslandi og í nágrannalöndum tækifæri til ferðalaga. Allar frekari upplýsingar um Vildarbörn eru á vef Vildarbarna.

Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt og langar að láta gott af þér leiða með skemmtilegri hreyfingu í góðum félagsskap þá skráir þú þig í hlaupið hér á Work. Icelandair Group mun svo gefa 1.000 punkta á hvern kílómetra sem þú hleypur, svo framarlega sem þér tekst að ná settu markmiði.

Hægt er að velja um fjórar mislangar vegalengdir í Reykjavíkurmaraþoni: 3 km skemmtiskokk, 10 km, 21 km hálft maraþon og 42 km maraþon. Icelandair býður starfsmönnum í hlaupið og þarft þú ekki annað en að skrá þig hér.

Allar frekari upplýsingar um hlaupið er að finna á vefsíðu hlaupsins.

Smelltu hér til að skrá þig í hlaupið.

Smelltu hér til að sjá hverjir hafa skráð sig.

Hádegisæfing 14. júlí

Mættum í dag: Björgvin, Oddgeir og Sigrún. Tókum Hofsvallagötuna ég og Björgvin á móti Oddgeiri í rigningarúða og smá vindi. Við BB fórum yfir íþróttaárin að vanda og nostalgíu gætti þar í upprifun á góðum tíma. Bendi þó á að margur hefur sannað getu sína innan vallar og utan þótt árum fjölgi og lengi er von á einum í þeim efnum. Lítið bara á Guðna, þar fer fjörgamall maður sem toppar í hárri elli. Vorum líka ótrúlega fegin að aðalkvalarinn er loks farinn í frí og er þá einu djöfuls kvikindinu færra í hópnum. Loksins er hægt að fara að æfa af viti! (not)

Alls 8,6K
Kv. Sigrún

Ath. Oddgeir var langt á undan okkur (hann fór líka styttri leiðina)

sunnudagur, júlí 13, 2008

Laugavegurinn

Einn félagi í skokkklúbbi Flugleiða þreytti hið 55 km ofurmaraþon "Laugaveginn" á laugardag. Það var hún Huld Konráðsdóttir sem stóð sig með prýði og hafði gaman af. Sérstaka athygli vakti að Huld var samferða Gunnlaugi Júlíussyni, ofurhlaupara, í mark en var þó sjónarmun á undan honum. Einnig tóku þátt tvö viðhengi: Höskuldur Ólafsson og Úlfar Hinriksson. Til hamingju með þetta öll!


67 6:28:52 Huld Konráðsdóttir 1963 IS105 HISTH

20 5:37:36 Höskuldur Ólafsson 1965 IS110
159 7:22:05 Úlfar Hinriksson 1949 IS111

Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, júlí 09, 2008

Hádegisæfing 9. júlí


Mættir: Dagur, Björgvin, Oddgeir og Sigurgeir.
Í dag var boðið upp á leikinn "kötturinn og músin". Dagur og Oddgeir fór Hofsvallagötu og Björgvin fór Suðurgötuna og eins allir vita þá er þetta keppni að kafaraskúrnum. Undirritaður mætti of seint og ákv. því að fara á móti þeim og snéri við þegar ég mætti Oddgeiri. Þeir sem hraðast fóru náðu niður á 3:38 tempó og total var þetta ca. 4 km á tempó. Þegar búið var að elta uppi bráðina var ákv. að láta nú loks verða að því að fara í sjósund eins og er búið að vera tala um hérna á síðunni. Þannig að fjórir gullfallegir karlmenn klæddu sig úr (hér er í lagi að láta hugann reika og velta fyrir sér...voru þeir naktir???) og skelltu sér til sunds í sjónum sem var +12,6 gráður. Í dag var árlega grillið fyrir starfsfólk á planinu við HLL og þurftu því sumir að labba í gegnum freistingarnar og passa sig að falla ekki. Dagur var að sjálfsögðu tilbúinn með svar ef hann yrði spurður af hverju hann ætlar að fara hlaupa í staðin fyrir að koma í grillið:
"Líkami minn er musteri og það vil ég ekki saurga með holdi dauðra dýra ... nýlagaðri sveppasósu, ljúffengu salati og brakandi bakaðri kartöflu með bræddu kryddsmjöri."

Niðurstaðan: skemmtileg æfing sem verður endurtekin fljótlega.

Kv. Sigurgeir


þriðjudagur, júlí 08, 2008

Hádegisæfing 8. júlí

Mættir í refsingar dagsins:
Dagur, Bjöggi, Oddgeir og Sigrún.

Frábært veður og viðraði vel til loftárása. Fórum frá hóteli á þéttu tempói út á Eiðistorg og þar var skipt upp í diskó og metal. Diskógengið fór erfiðari leiðina (brekkuhringinn) en metallinn fór upp hinum megin, með 30 sek í forgjöf. Þessi hringur er ca. 1,8K og áttum við að sameinast aftur á upphafspunktinn, þið þekkið þetta. Mætti Degi og Oddgeiri í brekkunni, þeir á uppleið en ég niður. Bjöggi kom skömmu síðar. Spændi síðan flata kaflann eins og pumpan leyfði og horfði á þá diskógæja bíða eftir mér þar. Bjöggi kom svo skömmu síðar en hann er enn að vinna upp tímamismun frá París. Þær frönsku gengu líka alveg frá honum bæði í mat og drykk og murkuðu síðan lífið úr honum í einum af fjölmörgu tröppum Parísarborgar.
Æfingin í dag tók vel á en var í boði Hjartaverndar.
Alls 10,4K (pungsveittir)
Kv. Sigrún

mánudagur, júlí 07, 2008

Hádegisæfing 7. júlí

Mætt: Björgvin, Óli, Sigurgeir, Ágústa og Brynja.
Karlpeningurinn á þessari æfingu þarf að bæta sig þegar kemur að mannasiðum! Við fórum af stað án þess að velta fyrir okkur hvort stúlkurnar vildu koma með okkur eða ekki. Fórum Suðurgötuna á fínu tempói. Við ræddum það hvort það truflar Dag að eiga ekki besta tíma ársins í 10 km hlaupi í FISKOKK.
Ágústa og Brynja fórum 5 km. Við lofum að skilja þær ekki eftir aftur.

Kv. Sigurgeir

föstudagur, júlí 04, 2008

Hádegisæfing - 4. júlí

Mættur : einn einstaklingur (ónefndur)

Í örvinglan og svekkelsi yfir mætingarleysi svalaði hann sýningarþörfinni með rólegu hlaupi Sæbraut-Miðbær. Með þaninn brjóstkassann og bíspertur eins og graðhestur á hestamannamóti sást glitta í tár á hvarmi bak við sólgleraugun þar sem hann læddist aleinn á hægu tölti yfir Austurvöll í átt að Ráðhúsinu. Einmannleikinn heltist yfir hann þrátt fyrir mannmergðina og fjarlægar minningar um horfna tíma í glaðværum og hraðskreiðum hópi gerðust áleitnar.

Vonandi mæta fleiri næst.

Góðgerðarhlaup GI í Potomac

Okkar fjallmyndarlegi ofurspretthlaupari tók þátt í hlaupi í morgun í Potomac til styrktar einhverfum. Með mikilli eftirfylgni hefur mér tekist að hafa upp á óstaðfestum tíma Guðna í hlaupinu.

Hann er: 19:45 fyrir 5k

official:
58 7/92 468 Gudni Ingolfsson M 41 19:45 19:41 6:20

Flott hjá drengnum!
Kv. Sigrún

Hádegisæfing - 3. júlí

Mætt : Dagur, Óli og Ágústa

Fórum Skógræktina-Perlan (6,8k) á rólegheita tempói þar til við komum að göngubrúnni þá fór bráðin að ókyrrast og stytti ferðina upp Suðurhlíðina vitandi af rándýrunum fast á hæla sér. Þrátt fyrir slefan úr skoltunum tókst rándýrunum ekki að hremma bráðina og náði hún að griðlandinu vel á undan sprettfetunum enda hér tindilfætt hind á ferðinni.

Á morgun föstudag verður boðið uppá sjósund í góða veðrinu.

miðvikudagur, júlí 02, 2008

Hádegisæfing - 2. júlí

Mættir : Dagur og Óli

Tókum Keilugrandann, 10k á 43:58. Óli setur hér persónulegt met í 10k, bæting um heila mínútu frá því fyrr í vetur. Drengurinn er á öskrandi siglingu undir 40mín.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Guðni gerir góðverk

Á föstudaginn 4. júlí, þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna mun Guðni Ingólfsson keppa í hlaupi í Potomac MD, USA. Þetta er góðgerðarhlaup til styrktar einhverfum og Guðni þótti kjörinn í verkefnið. (I wonder why?) Við vonumst til að geta flutt fréttir af hlaupinu á föstudaginn.

5K góðgerðarhlaup GI

Kveðja,
Aðalritarinn

Ath. hægt er að heita á hlaupara á síðunni

Hádegisæfing 1. júlí

Mættir í dag í fallegu veðri í recovery hlaup: Dagur, Guðni, Bryndís, Sigurgeir, Óli, Ársæll og Sigrún. Fórum saman gegnum skóginn og út í skógræktina í Fossvogi og þaðan tilbaka upp í gegnum suðurhlíðar og Öskjuhlíð og heim. Nokkrir eru að skipuleggja WARR, panta sér hótel og þ.h. Gaman ef fleiri sýna áhuga. Einnig er yfirstrumpur á leið til USA að keppa í götuhlaupi þar en meira verður fjallað um það síðar. Það er viðbúið að hann snýti nokkrum heimamönnum þar ef að líkum lætur.

Í dag alls 7,7 og fín æfing.
Kv. Sigrún


Astazan fyrir venjulega, eitthvað sterkara fyrir Guðna.

mánudagur, júní 30, 2008

Hádegisæfing 30. júní

Mættir í blíðskaparveðri: Oddgeir, Dagur, Guðni og Sigrún. Þjálfarinn vildi hafa tempóhlaup og að beiðni félagsmanns átti að hlaupa langt og hratt. Fórum við því í eltingarleik eftir að hafa hitað upp hratt og örugglega. Sigrún fór Hofsvallagötu en strákarnir fóru Kaplaskjólið og áttu að hlaupa uppi bráðina. Meira hvað þeir nenna að eltast við mann þessir strákar! Bráðin var síðan hlaupin uppi eftir ca. 3km hlaup og höfðu þeir félagar farið býsna greiðlega. Hlupum síðan greitt saman framhjá dælustöð, kafara og heim á hótel. Lokað var í baðklefum og létu þeir félagar sér nægja að spreyja vellyktandi yfir verstu svæðin að þessu sinni, svokölluðu stenkvatni. Það er mikil blessun að þurfa ekki að umgangast þá kumpána meira í dag.

Strákar alls rúmir 9km
Stelpa alls 8,6

Kveðja,
Sigrún

Bláskógaskokk - úrslit

Okkar fremsta hlaupadrottning tók þátt í Bláskógaskokki á laugardag í hífandi mótvindi að sögn kunnugra. Ekki var að spyrja að árangri frekar en fyrri daginn en drottningin sigraði kvennaflokkinn glæsilega. Þess má geta að leiðin er 16,09 km löng. (10 mílur)

1 1.17,38 Huld Konráðsdóttir 1963

Kveðja,
Sigrún

Úrslit

föstudagur, júní 27, 2008

Jazzað í hádeginu

Mættir voru Bryndís, Huld, Óli, Guðni og gamalreyndur hlaupari en nýliði í hádegishópnum, Ársæll Harðarson.

Dagur hjólaði fram hjá og gaf góð ráð sem voru höfð að engu.

Tekinn hefðbundinn föstudagshádegisgóðveðurshringur, Sæbraut, miðbær, Tjörn. Ein jazzhljómsveit á Lækjartorgi og önnur á Austurvelli.

Samtals 8k. Sund verðu tekið þegar foringinn kemst með.

GI

fimmtudagur, júní 26, 2008

Hádgisæfing 26. júní

Ef veðrið hefði verið betra í dag til æfinga hefði verið lokað vegna veðurs. Svo var ekki og því mættu galvösk: Dagur, Óli, Oddgeir, Guðni og Sigrún. Fórum greiðlega frá hóteli og Nauthólsvíkurstíg, upp suðurhlíðar og framhjá Kringlu niður á Sæbraut og þaðan upp Snorrabraut og heim. Eldsneytisverð var rætt og aðgerðir til sparnaðar á því. Sameina í bíla og þessháttar. Hafa fasta punkta og safna í bíla og spara. Sniðugt, en ég skil ekki alveg hvert framlag fyrrv. formanns og fyrrverandi yfirstrumps verður. Hann notar ekki bíl. Ætlar hann að reiða liðið úr Árbæ á hjólinu? Fær hann far hjá ríkjandi yfirstrumpi á mánudögum og reiðir Guðna á þriðjudögum? Er ekki að ná þessu.
Hlaup alls 8,6K á ca.42 mín.

Langar samt að benda áhugasömum á að á morgun verður boðið upp á sjósund á æfingu. Semsé stutt hlaup og sjór. Það ku styrkja ónæmiskerfið og efla heilastarfsemi þ.e.a.s. ef menn fá ekki hjartaáfall við verknaðinn. Þá er það talið frekar óhollt.

Kveðja,
Sigrún

miðvikudagur, júní 25, 2008

Hádegisæfing 25. júní

Mættir: Dagur, Guðni, Óli og Sigurgeir.
Þjálfarinn ákv. að við færum total 8 km og færum í vesturátt framhjá ylströndinni. Eftir mikla útreikninga var niðurstaðan sú að 4 x 2 km væru 8 km þó að flestir voru ekki að skilja hvert Dagur var að fara með þetta. Hann var auðvita að reikna út tempó-hlaup! Það var sem sagt hitað upp í 2 km og svo voru næstu tveir teknir á tempó-inu hans Guðna, þ.e. úr síðast hlaupi sem var rétt undir 4 min. Svo voru teknir 2 km rólegt og svo aftur 2 km tempó sem endaði að ég held bara í 1 km og svo 1 km rólegt. Til að gera langa sögu stutta þá tóku Dagur, Guðni og Óli vel á því og eiga hrós skilið. Undirritaður tók það bara rólega en skilaði sér alla leið. Sigrún...nei ég var ekki á séræfingu! Þessi æfing var deildarskipt og ég var bara í neðri deild í þetta skiptið ;o)

Kv. Sigurgeir

þriðjudagur, júní 24, 2008

Hádgisæfing 24. júní

Mættir í dag í frábæru veðri: Dagur, Oddgeir, Óli, Guðni (ríkjandi yfirstrumpur), Huld og Sigrún.
Fórum yfir hlaupið í gær og talað var um að "hlaupa á gleðinni", það skilaði bestum árangri. Hefðum geta sagt okkur það sjálf svosem. Oddgeir og Dagur fóru Hofsvallagötuna (þurfa að ráða ráðum sínum) en restin fór Suðurgötuna á þéttu recovery tempói. Ef menn hyggjast bæta sig svona mikið á næstunni er nauðsynlegt að sækja um formlegt leyfi til stjórnar með a.m.k. 3ja daga fyrirvara. Annars telst bætingin ógild eða tvísýn, hið minnsta.
Kveðja,
Sigrún

Úrslit í Miðnæturhlaupi

Nokkrir vaskir félagsmenn kepptu í gær í blíðskaparveðri. Árangur var með eindæmum góður og að öðrum ólöstuðum var Guðni maður dagsins í gær.

7 39:52 Guðni Ingólfsson 1967
1 42:23 Huld Konráðsdóttir 1963 (sigraði sinn flokk)
19 44:20 Jakob Schweitz Þorsteinsson 1961

Frábær árangur, til hamingju!

Ath. Guðni-þú ert beðinn að mæta í lyfjapróf eftir æfingu í dag. Komdu bara með sama box og síðast.

Miðnæturhlaup

fimmtudagur, júní 19, 2008

Reykjavíkurmaraþon 23. ágúst 2008

Ágætu hlauparar.
Langar að benda þeim á sem ekki vita að skráningargjaldið í RM hækkar eftir því sem nær dregur hlaupi. Skráning klúbbmeðlima fer í gegnum skokkklúbbinn er nær dregur. Því er gott að fara að hugleiða hvaða vegalengd menn hyggjast hlaupa.
Nánar síðar.

RM

Bestu kveðjur,
Sigrún

Ath. Það er líka fín afsökun ef maður nennir ekki að segjast ekki hafa haft efni á því.

miðvikudagur, júní 18, 2008

Hádegisæfing 18. júní

Loksins loksins..
Mætt í dag: Sveinbjörn (fór FL-hringinn), Óli (fór Kaplaskjólið) en Björgvin og Sigrún fóru Suðurgötuna.
Veður var gott en strekkingsvindur út en ýkt þægilegt heim. Bjöggi er allur að koma til, er ca. 3ja hora núna (var 10) og Sigrún er að losna við bakverkinn, enda langt síðan hún var á bakvakt.
Hvar eru aðaltöffararnir?..... Næsta hlaup er Miðnæturhlaupið

Kveðja,
Sigrún Birna

Bjarnar og birnuminning

föstudagur, júní 13, 2008

Hádegisæfing - 13. júní

Mættir : Dagur, Sveinbjörn og Guðni

Freaky Friday með viðkomu á eftirtöldum stöðum:
Stórholti, Hverfisgötu,Vitastíg, Veghúsastíg, Fishersundi, Mjóstræti, Grjótagötu, m.m.

Miljandi veður og flottir strákar á hlaupunum. Hefði toppað túrinn ef einhverjar klúbbskvísur hefðu látið sjá sig.

Hádegisæfing - 12. júní

Mætt : Dagur, Sveinbjörn og Ágústa

Dagur fór ströndina inná Ægissíðu yfir Hagatorg og heim, hljóp uppi Veðurstofu menn sem sögðust kannsast við formanninn. Sveinbjörn byrjaði túrinn með Ágústu en leiðir skildu og fór hvort sína leið.

miðvikudagur, júní 11, 2008

Hádegisæfing - 11. júní

Mætt: Dagur, Sigurgeir, Laufey og Sveinbjörn.
Laufey og Sveinbjörn fóru í skóginn og í kirkjugarðinn. Dagur og Sigurgeir fóru "beina" leið að Eiðistorgi og tilbaka í gegnum eitthvað hverfi í vesturbænum. Verð bara að viðurkenna að ég nenni ekki að læra hvað hverfin heita sem tilheyra KR! Allavega þá voru þetta fínir 8,9 km á 4:48 tempó í góðu veðri.

Heyrst hefur að Fjölnir sé á "séræfingum" og stefni á endurkomu í úrvalsdeild n.k. föstudag. Hvar eru Bjöggi Bjútí og Sigrún???

Kv. Sigurgeir

þriðjudagur, júní 10, 2008

Hádegisæfing - 10. júní

Mættir : Dagur, Sveinbjörn, Sigurgeir, Oddgeir og Bryndís

Fórum öfugan Suðurgötuhring á rólegheita tempói. Frábært veður og góður félagsskapur.

WARR 2008

Kæru félagsmenn.
Langar að benda á þessa keppni í Ottawa í haust og kanna áhuga ykkar á henni. Væri sjálf til í að fara. Látið vita í "comments" ef áhugi er fyrir hendi. Veit að Óli Briem er heitur líka.
Kveðja,
Sigrún

Subject: WARR 2008

Update Hello All, Hope you are keeping well and looking forward to a superb WARR 2008 this coming September. Everything is well on track and with your continued support, dedication and hard work, I know we can expect a fabulous, well attended WARR extravaganza in Canada's capital this year. Ottawa is a beautiful city - it is a great area for touring and, of course, our yearly "family reunion" will have the same high standards that you have come to expect at WARR. I look forward to seeing everyone in Ottawa! As per the TC meeting in Sydney a reminder that there will not be a WARR mail out this year. All the relevant WARR information can be obtained from the WARR website, http://worldairlineroadrace.org/ WARR needs you, as the elected, designated contact and liaison between WARR and the airlines of the world, to get the information about WARR 2008 to your team, airline, airline publication, notice boards and any possible vantage point to spread the WARR word. Get extra posters and entry forms to your flying crew to handout at counters, airline offices, crew hotels, busses, etc. on their flights and lay overs. Ask staff at check in counters to help distribute entry forms and posters, the more people that know about WARR the better. Headquarters Hotel. The HQ hotel is just about sold out but, the official overflow hotel can accommodate the rest of the WARRiors. World Airline Road Race The Crowne Plaza, WARR's 2008 Headquarters' Hotel, has a hand full of rooms left, but not to worry. WARR 2008 participants can also find accommodation in WARR's official overflow hotel. The Marriot is located right across the street and is joined to the Crowne Plaza underground by a shopping tunnel. Located in this convenient underground complex are a couple of lunch counters, coffee shops, and a few other stores and shops making it convenient for guests in both the Crowne Plaza and the Marriot! http://marriott.com/yowmc?groupCode=warwara&app=resvlink Another reminder about your contact information. If your TC status have changed, or any changes to your contact information send it to me enabling WARR to keep in contact with you regarding happenings for WARR 2008. That's about it for now, Rgds Barry
var wv=new Bl(window.document, "FldA");
wv.TC(false);
DBe();
if(BPX)
wv.hide();
DWx(window);

mánudagur, júní 09, 2008

Hádegisæfing - 9. júní

Mættir : Dagur, Sveinbjörn, Laufey, Ágústa og Sigurborg

Laugin lokuð en náðum að ljúga okkur inn fyrir velvilja starfsmanna gestamótttökunnar.

Dagur rauk af stað á tilsettum tíma og kláraði Hofsvallagötu hringinn á 36:30, 8,67@4:14. Sveinbjörn byrjaði með Laufeyju en skildi síðan við og tók nokkra 500m spretti. Laufey hitti síðan Ágústu og Sigurborgu og kláraði með þeim í skóginum. Þar villtust þeir og gagnaðist lítið að standa upp þrátt fyrir að skógurinn væri íslenskur.

Guðni á sjúkralista með innvortis mar á líffærum eftir að hafa gefið sjálfum sér olnbogaspot.

föstudagur, júní 06, 2008

Hádegisæfing 5. júní

Af ótta við að vera "Reported missing" eða jafnvel "Wanted - dead or alive" hélt ég af stað á æfingu og hugðist freista þess að ná Ólympíulágmörkum hópsins og líta augum fáklæddan karlpeninginn. En nei, engin æfing - enginn hópur. Sveinbjörn lét reyndar sjá sig en vildi ekkert hafa saman við mig að sælda og hélt sína leið. Fer nú að efast um að allar þessar stórkostlegu æfingar sem tíundaðar eru hér á síðunni fari fram í raunveruleikanum. Tvíefldist engu að síður við þessa raun og hljóp Snorrabraut-Sæbraut-Laugar-Fossvogsdal, samtals 14km. 
Kveðja,
Huld

miðvikudagur, júní 04, 2008

Hádegisæfing 4. júní

Héðan í frá æfir skokkhópurinn "fyrir" Ólympíuleikana. Mættir til þess voru Guðni, Dagur, Sigurgeir og Sigrún. Sveinbjörn var á eigin vegum.
Hlupum frá hóteli í hávaðaroki sem leið lá niður á Miklatún og þar tókum við 4 spretti, 2 á ská í gegn og 2 þvert á að Miklubraut með smá hvíld á milli. Fínt að byrja á þessu strax svo maður eigi þetta ekki eftir í restina. Allir náðu Ólympíulágmörkum í þessum sprettum, nema Sigrún en hún hljóp fyrir Hjartavernd. Kemur næst! Héldum síðan áleiðis upp Miklubraut og reyndi ég að skýla mér bakvið drengina, sem veita minna og minna skjól sökum hors. Verðið að snýta ykkur strákar... Yfirnjörður hópsins sagði sögur á leiðinni og kenndi önnur sagan okkur mikilvæga lexíu. Hún er sú að ekki er alltaf heillavænlegt að kaupa ódýrt bensín. Næstódýrasta bensínið er oft miklu dýrara en það dýra, sérstaklega ef ekki er rétt að farið.
Allt tæplega 8K og fínt veður

Ath. Ekkert hefur spurst til Fjölnis eftir ASCA keppnina en okkur til mikillar ánægju stundar hann nú séræfingar af miklum móð og hyggst taka þátt í Kvennahlaupinu um helgina (ætlar 3K)

Góðar stundir,
Sigrún

Fjölskyldumót á Flúðum 28. júní

Haldið verður fjölskyldumót á Flúðum 28. júní nk. þar sem íþróttir og leikir verða í gangi fyrir börn og fullorðna. Skokkklúbburinn kemur að skipulagningu þessa móts og okkur vantar starfsmenn til að aðstoða á mótsdag. Áhugasamir hafi samband við Sveinbjörn Egilsson (8407120). Þetta er tilvalinn staður til að fara með alla fjölskylduna á og eiga skemmtilegan dag. Tjaldstæði, sundlaug, leiksvæði o.fl.
Stjórn IAC

þriðjudagur, júní 03, 2008

Hádegisæfing 3. júní

Rólegar stelpur, strákarnir fara úr aftur á næstu æfingu!


Það var með kvölum sem ég gekk inn í þennan skokkklúbb og kvalræðið eykst bara eftir því sem dvölin lengist. Mætti samt á æfingu dagsins ásamt: Guðna, Degi, Björgvini, Hössa, Bryndísi og Sveinbirni (sem var sóló). Hlupum gegnum Hlíðar niður að sjó og fórum Sæbraut (ótrúlegt að strákarnir voru akkúrat í strippfíling þá) og héldum gegnum miðbæinn, sem var fullur af letingjum að háma í sig ruslfæði. Dagur gerðist heldur feiminn þá og skellti sér aftur í brjóstahaldarann, enda var margt eldra fólk á hans aldri (stúdentar '74) sem hann vildi ekki bera sig fyrir. Guðni hélt þó sínu striki, enda köttaður í rusl að ofan (allavega að aftan, sá ekki húddið). Höskuldur er nú yfir svona vitleysu hafinn og hann Björgvin minn gerir ekki svona heldur. Þegar við komum framhjá Tjörninni veittist að okkur minniborgari með orðunum:"þið vinnið aldrei Ólympíuleikana". Ótrúlega neikvæður gaur! Sá hann ekki hvað við vorum geðveikt flott? Vó, mar...rólegur á sígarettunni bara.. Stefndum svo á Hljómskálagarðinn til að taka fullan Jónas sem við gerðum (sumir voru aðeins þreyttari en aðrir) og héldum svo heim á hótel í steikjandi hita. Spurning um að skella á allsberu hlaupi fljótlega ef þetta verður svona í sumar.
Mælirinn minn datt út en ég hygg að þetta hafi verið 8,6-7K
Kveðja,
Sigrún


Langar að benda strákunum á þetta



mánudagur, júní 02, 2008

Hádegisæfing 2. júní

Vá hvað tíminn líður hratt... kominn júní og allt. Mættum í dag á mánudagsæfingu: Bjöggi Bjútí, karate Óli, Dagur vonar, Guðni nýklippti, Sigurgeir Axl (sbr. Axl Rose) og Sigrún í síðbuxum. Sveinbjörn og Ingunn voru á eigin vegum (í sitthvoru lagi) í skógi. Hlupum smá upphitun í skóginn og fljótlega vildi Dagur vonar fara á sprett. Sendi okkur ýmist upp bláa stíg eða þvert í gegn í eltingarleik. Munaði minnstu að BB hnyti um stein sem Dagur hafði vonað að mynda fella jötuninn, en allt kom fyrir ekki, hann stökk sem hind yfir hindrunina. Gerðum þetta nokkrum sinnum 4-5 og skokkuðum síðan í ágæta stund eftir það. Fórum síðan á sýningarsvæði við hótelið og tókum Tító æfingar af fagmennsku. Kom þá í ljós að varadekk og hliðarbaggar félagsmanna eru á undanhaldi. About time!
Alls 6K hlaup plús Tító
Góðar stundir,
Sigrún